Þá heldur boltinn áfram að rúlla eftir að ryðguð og rykfallin úrvalsdeildarliðin tóku að leiða hesta sína saman á ný. Fyrsti leikur United eftir hlé var gegn Tottenham Hotspur en bæði lið virtust ansi langt frá sínu besta.
Þrátt fyrir það virtust yfirburðir United ansi miklir og mikil vonbrigði fyrir Ole Gunnar Solskjær að ná ekki öllum stigunum í baráttunni um hið margrómaða fjórða sæti.
Hins vegar í ljósi úrslita úr öðrum leikjum er jafnteflið ekki slæmt, sérstaklega í ljósi þeirra viðureigna sem United á eftir. Átta umferðir eru eftir og þegar þetta er skrifað hafa öll liðin leikið 30 leiki og það vekur eflaust gleði einhverra stuðningsmanna að Sheffield misstigu sig í tvígang, Tottenham náði ekki að draga á okkur og Arsenal hefur fjarlægst okkur og misst lykilleikmenn í meiðsli eða í bann.
Úlfarnir komust upp að hlið United með sigri á West Ham en þótt ótrúlegt megi hljóma þá gæti það verið gott fyrir Rauðu djöflana þar sem Wolves á eftir leiki við Arsenal, Sheffield og Chelsea í síðustu umferðinni. Þeir eru því í bullandi baráttu um Meistaradeildarsæti, sérstaklega ef bannið yfir Manchester City mun standa.
Á morgun mætum við Sheffield United sem hefðu geta klifrað yfir United á töflunni. Sú varð þó ekki raunin þar sem fallbaráttuliðið Aston Villa náði að krækja í markalaust jafntefli þökk sé Hawkeye tækninni sem klikkaði í fyrsta skiptið og síðan lét hjarta Sheffield varnarinnar, John Egan, lét reka sig af velli og kostaði liðið 3-0 tap gegn ryðguðu Newcastle liði.
Tímasetningin til að mæta liðinu gæti því varla verið betri, Sheffield liðið að missa dampinn og mikið undir fyrir þá svo þeir gætu neyðst til að sækja og United lið sem er ósigrað í 12 leikjum í röð og eflaust ákeðin gremja út í töpuð stig gegn Spurs sem gæti kveikt á neistanum í næsta leik.
Chris Wilder var mjög ósáttur við rauða spjaldið og gagnrýndi dómara leiksins David Coote en það fær því ekki breytt að Egan verður í banni í leiknum gegn okkur. Þá eru þær góðu fréttir að Dean Henderson, sem hefur staðið sig frábærlega á tímabilinu og lokað búrinu fyrir Sheffield í 11 leikjum, verður ekki á milli stanganna. Þá er óvíst hvort Jack O‘Connell verður leikfær enda hefur hann verið að glíma við hnémeiðsl en gæti verið orðinn leikfær en ólíklegt verður að teljast að hann byrji leikinn.
Annars má búast við að Wilder stilli uppí sitt hefðbundna 5-3-2 kerfi og liðið verði á þennan veg:
Manchester United
Fyrir Spurs leikinn var mikið rætt hvort Bruno og Pogba myndu byrja á miðjunni og þá sérstaklega hver myndi byrja með þeim sem djúpi miðjumaðurinn. En ólíkt í tilfelli Marcus Rashford þar sem ekki er eins mikil samkeppni um byrjunarliðssæti þá er United með fantagott úrval af miðjumönnum og því ekki gefið mál að Pogba myndi byrja enda varð raunin ekki sú.
Þess í stað mættu Fred, McTominay og Bruno út á völlinn en þegar um hálftími var eftir kom Paul Pogba inn á með miklum látum og gjörbreytti leiknum. Það kæmi því sjálfsagt ekki mörgum á óvart að sjá Pogba í byrjunarliðinu gegn Sheffield ásamt fleiri lykilleikmönnum því Solskjær gefst eflaust tækifæri til að hvíla einhverja leikmenn í bikarleiknum gegn Norwich um helgina.
Ég vænti þess að Solskjær byrji með sitt sterkasta lið og vil sjá hann spila 4-1-4-1 með Matic fyrir framan Maguire og Bailly en það verður að teljast líklegra að hann spili áfram 4-2-3-1.
Eric Bailly kemur inn í liðið í stað Lindelöf en mikið hefur verið rætt um skort á hraða og snerpu milli miðvarðanna okkar og Bailly því hugsanlega lausn við því. A.m.k. þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að Solskjær muni nota Phil Jones aftur gegn Sheffield því sá enski fékk falleinkunn eftir frammistöðu sína úr fyrri leiknum. Þá heldur Shaw sæti sínu þar sem Brandon Williams mun líklegast fá bikarleikinn.
Sömu sögu er að segja með Rashford og Martial en Daniel James missir sætið sitt en hann þótti einna ryðgaðastur á föstudagskvöldið. Þar að auki telst líklegt að með fimm manna varnarlínu verði ekki mikið pláss fyrir litla kantmanninn frá Wales til að nýta sér.
Á miðjuna þarf svo akkerið frá Serbíu, Nemanja Matic, en sá hefur verið frábær á þessu ári og verndað vörnina okkar en með hann í liðinu hefur liðið verið að fá einungis 2,9 skot á rammann per leik en án hans fær liðið 3,4 skot á rammann. Á síðasta ári nýttist Matic ekki þar sem með hann í liðinu var liðið ekki eins skapandi og hættuleg fram á við en með tilkomu Bruno hefur það breyst. Vonandi sér Solskjær serbneska ljósið en þessi leikur verður að vinnast því annars mun United síga neðar á töfluna.
Næsti leikur liðsins er svo bikarleikur gegn Norwich en eftir hann taka við leikir við Brighton, Bournemouth og Aston Villa en Solskjær þar 9 stig úr þeim leikjum til að halda pressunni á liðin í 3. og 4. sæti. Glory, glory!
Hallmar says
Jeg spá i því að við vinnum þetta 2-0 Rashford og Martial með mörkin fyrir okkur