Þá er það loksins komið á hreint, eltingaleiknum og orðrómunum er lokið. Jadon Malik Sancho er orðinn nýjasti meðlimur United fjölskyldunnar. Eftir látlausan orðróm og fréttaflutning svo mánuðum skiptir í einni lengstu og leiðinlegustu sögu liðsins þegar kemur að leikmannakaupum og misheppaða tilraun til að ná samkomulagi við Dortmund á síðasta ári er englendingurinn knái loksins búinn að skrifa undir saming til ársins 2026.
𝗛𝗲𝗮𝗱𝘀 𝘂𝗽.
We have agreed a deal in principle for the transfer of Jadon Sancho to United! 🔴⚪⚫#MUFC
— Manchester United (@ManUtd) July 1, 2021
Ekki eru allir á einu máli um kaupverð né laun sem Sancho mun fá í vasann á samningstímanum en miðað við þær tölur sem eru á reiki má ætla að verðið sé um 73 millj. punda en þar fyrir utan eru einhverjir bónusar sem gætu fært heildarkaupverð í um 80 millj. punda en í fyrra vildi Dortmund fá 108 millj. punda.
Jadon Sancho to Manchester United… HERE WE GO! 🚨🏴 #MUFC #Sancho
Done deal confirmed. Agreement reached between Manchester United and Borussia Dortmund.
€90m with add ons. Agents fee and personal terms agreed, contract until 2026.
Medicals pending – then it’ll be official. pic.twitter.com/VBto2JqbtK
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) June 30, 2021
En hver er þessu Sancho og hvers vegna halda margir fótboltaáhugamenn vart vatni yfir þessum leikmanni þrátt fyrir að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, virðist ekki hafa nein not fyrir hann á EM?
Jadon Malik Sancho er fæddur þann 25. mars 2000 í suðurhluta Lundúna en fótboltaferill hans hófst hjá Watford. Þar var hann í átta ár án þess þó að spila leik fyrir aðalliðið en árið 2015 færði hann sig um set og gékk í raði Manchester City. Raunar höfðu njósnarar á vegum City fylgst með honum frá 11 ára aldri en í febrúar 2015 keypti City hann á 150 þúsund pund, þá aðeins fjórtán ára að aldri. Auk þeirrar greiðslu vildu Watford seinna meir fá hálfa milljón punda eftir að Sancho hefði spilað 10 leiki fyrir aðallið City sem þeir samþykktu sem sýnir svart á hvítu hversu heitt þeir vildu fá hann á Etihad.
Hjá City var hann álitinn ein af skærustu framtíðarstjörnum liðsins ásamt leikmönnum eins og Phil Foden en Sancho spilaði þá yfirleitt á vinstri vængnum. En eftir tveggja ára veru hjá erkifjendum okkar var Sancho ekki hafður með í hópnum fyrir undirbúningstímabilið á sama tíma og Foden og aðrir leikmenn City unglingaakademíunnar voru það hins vegar.
Sancho ákvað í kjölfarið að bíða ekki lengur eftir tækifærum og eitthvað virðist hann hafa saknað þess að spila í gulu og svörtu því að í ágúst 2017 gékk hann til liðs við Borussia Dortmund í Þýskalandi fyrir „litlar“ átta milljónir punda. Þar fékk hann sjöuna frægu og átti svo sannarlega eftir að standa undir væntingum í henni og meira til. Til að byrja með var Sancho settur á vinstri vænginn en það átti eftir að breytast.
Á sama tíma braust Sancho inn í yngri landslið Englands en þar hefur hann spilað fyrir U-16, U-17 og U-19. Í maí 2017 fór hann með landsliðinu til Króatíu á Evrópumót U-17 þar sem hann var valinn gulldrengur mótsins (Golden Boy) og gengur hann þar í fríðan flokk leikmanna sem á sínum yngri árum hlutu verðlaunin. Leikmenn eins og Wayne Rooney, Cesc Fabregas, Toni Kroos og Mario Götze.
Síðar það ár tók hann þátt í heimsmeistaramóti U-17 þar sem England bar sigur úr býtum gegn Spáni í úrslitum. Sancho skoraði þrjú mörk á mótinu og var valinn í lið mótsins. Í október 2018 fékk hann síðan fyrsta tækifærið með A-landsliðinu og hefur síðan spilað 20 A-landsliðsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Þessa stundina er hann einmitt staddur með Englandi á EM allsstaðar.
En hjá Dortmund átti hann eftir að þróast og þroskast sem leikmaður á hreint ótrúlegan máta samhliða glæstum ferli með yngri landsliðunum. Sancho spilaði sinn fyrsta leik fyrir Dortmund gegn Eintract Frankfurt í október 2017 en hann þurfti að bíða til vors eftir fyrsta markinu sínu fyrir liðið. Á fyrsta tímabilinu hans í Bundesligunni skoraði hann einungis eitt mark en átti fjórar stoðsendingar.
Næsta tímabil var öllu betra þar sem Sancho tókst að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður og spilaði 34 deildarleiki og 7 meistaradeildarleiki, þar sem hann skoraði 13 mörk og lagði upp önnur 15 ásamt því að vera valinn leikmaður mánaðarins í október. Fyrir það tímabil hafði Sancho verið færður á hægri vænginn þar sem hann fann sig umsvifalaust en svo virðist sem þessi stöðubreyting hafi veitt honum fleiri tækifæri í byrjunarliðinu auk þess að gera hann mun fjölhæfari sem leikmann.
En hans besta leiktíð var án nokkurs vafa tímabilið 19/20 þar sem hann skoraði 20 mörk og lagði upp 19. Það virtist engu máli skipta hvar stjórinn hans á þeim tíma, Lucian Favre, stillti honum upp, hvort sem það var á vinstri eða hægri vænginn eða einfaldlega fyrir miðju sem sóknarsinnaður miðjumaður. Eftir COVID-pásuna afrekaði hann síðan það að skora fyrstu þrennuna sína í Bundesligunni, nokkuð sem fáir á hans aldri geta státað af.
Á síðasta ári bjóst alheimurinn við að Sancho myndi ganga í raðir United en ekkert varð af þeim kaupum. Þetta virtist hafa áhrif á leikmanninn unga en hann var eins og skugginn af sjálfum sér framan af leiktíðinni og það tók hann t.a.m. fjóra mánuði að komast á blað í deildinni. Svo virðist sem hugur hans hafi verið kominn til Manchesterborgar í huganum en honum tókst þó að rífa sig í gang og endaði leiktíðina þrátt fyrir allt með 16 mörk og 15 stoðsendingar.
41 – The players with the most assists in Europe's top five leagues since the 2018-19 season, with (age):
48 – Thomas Müller (31)
43 – Lionel Messi (34)
𝟒𝟏 – 𝐉𝐚𝐝𝐨𝐧 𝐒𝐚𝐧𝐜𝐡𝐨 (𝟐𝟏)
35 – Filip Kostic (28)
34 – Ángel Di María (33)
34 – Kevin De Bruyne (30)Genius. pic.twitter.com/0jrw5tUrXd
— OptaJoe (@OptaJoe) July 1, 2021
En hvernig kemur hann til með að henta United og hver á að víkja til að gera pláss fyrir hann í byrjunarliðinu? Í raun er því ekki auðsvarað en til að byrja með skulum við skoða hvaða stöðu(r) hann spilar. Ef miðað er við tímabilið 19/20 þá spilaði Sancho á hægri vængnum (22 leikir), vinstri vængnum (11) og sem sóknarsinnaður miðjumaður (12). Á tímabilinu 20/21 byrjaði hann 11 deildarleiki á hægri vængnum, 8 leiki á vinstri kanti/vængnum og þrjá leiki í holu eða sem sóknarmiðjumaður. Sancho er þeim hæfileikum gæddur að hann getur leyst allar þessar stöður með sóma.
Nú eru eflaust margir stuðningsmenn sem telja að Greenwood eigi að fá tækifæri í byrjunarliðinu miðað við frammistöðu hans á síðustu tveimur tímabilum en koma Sancho þarf ekki endilega að þýða að Greenwood færist aftar í lestina eða að það muni hefta þróun hans sem leikmanns. United spilaði hvorki meira né minna en 61 leik (38+6+9+4+4) en af þeim byrjaði Greenwood 26 á hægri kantinum.
Þar sem Sancho spilar hvað mest á hægri kantinum er vert að skoða hvernig sú staða hefur verið leyst hjá United á síðustu tímabilum. Tímabilið 19/20 spilaði Mason Greenwood 26 leiki sem hægri kantmaður hjá okkur, en aðrir leikmenn liðsins sem leystu sömu stöðu voru þeir Daniel James (21), Mata (10), Lingard(5), Pereira (5), Chong (4) og Rashford/Gomes/Dalot (1). Á síðasta tímabili byrjaði Greenwood 11 deildarleiki á hægri kantinum en James (7), Mata (4), Rashford (4) og Pogba (1) áttu samtals 16 deildarleiki af þeim leikjum sem liðið spilaði 4-2-3-1 í deildinni.
Það verður þó eflaust erfitt fyrir Amad Diallo, sem kom í janúar, að fá leiktíma en koma Sancho (og Diallo) mun aftur á móti þýða það að Ole Gunnar þarf ekki að reiða sig jafn mikið á sömu leikmennina, sér í lagi Bruno (58 leikir) og Rashford (57 leikir), í gegnum allt tímabilið heldur getur hann hvílt til að koma í veg fyrir meiðsli og örmögnun sem virtist hrjá þessa leikmenn undir lok tímabilsins í vor.
Til að fá betri mynd af því hvað Sancho mun geta boðið okkur upp á er ágætt að gera smá samanburð á honum og nokkrum af leikmönnum United. Þó þarf að taka slíkum samanburði með fyrirvara enda er hér um að ræða mismunandi deildir og þá geta ýmsir hlutir eins og leikkerfi og hlutverk innan liðsins haft gífurleg áhrif á tölfræði sem þessa.
Hér er samanburða á tölfræði leikmanna (mest frá tímabilinu 19/20).
Samkvæmt Transfermarkt var Sancho með 19 mörk og 19 stoðsendingar í 43 leikjum (í deild og CL) eða 0,88 mark/stoðsending í leik. Á sama tíma var Greenwood með 16 mörk og 3 stoðsendingar í jafnmörgum leikjum eða 0,44 mark/stoðsending í leik og Daniel James er með 4 mörk og 6 stoðsendingar í 40 leikjum, 0,25 mark/stoðsending í leik. Hann er því talsvert áhrifameiri á vellinum þegar kemur að mörkum en þeir tveir sem spiluðu oftast hægri kantinn hjá okkur tímabilið 19/20 og 20/21. Þá skarar Sancho einnig fram úr þegar kemur að snertingum inn í teig andstæðinganna en hann snertir boltann inn í boxinu að meðaltali 4,73 sinnum í leik sem er mun meira en James (3,13), Greenwood (3,25) og Rashford (3,85).
Á þessari leiktíð var Sancho með 16 mörk og 20 stoðsendingar í 38 leikjum eða 0,95 mark/stoðsendingu í leik. Enginn United maður kemst nálægt honum, Bruno er til að mynda með 0,78 m+st. (úr 58 leikjum) og Rashford er með 0,63 m+st. í leik (í 57 leikjum).
Sancho er líka ekki bara duglegur að skapa sér færi heldur er hann einnig duglegur að skapa færi fyrir aðra og finna mótherja sína í vítateigum en hann á að meðaltali 4,11 sendingar í leik inn í teig andstæðinganna og tekst að finna samherja í 65,8% tilfella. Samanborið við Bruno Fernandes sem reynir 5,48 sendingar inn í vítateiginn og einungis 42,3% þeirra rata á samherja.
Samvinna Sancho og Erling Braut Håland hefur líka verið hreint út sagt mögnuð. Þeir félagar eru perluvinir og hafa myndað sterkt sóknarpar fyrir Dortmund en stuðningsmenn United munu vona að það sama verði upp á teningnum með Sancho og Rashford sem eru miklir mátar úr landsliðinu.
Önnur áhugaverð tölfræði er SCA (shot-creating-actions) eða aðgerðir leikmanns sem leiða til skots. Til þess geta talist sendingar, að krækja í auka-/vítaspyrnu eða einfaldlega með því að rekja boltann framhjá varnarmanni. Sancho átti flestar (124) slíkar aðgerðir af leikmönnum Dortmund í deildinni á síðasta ári á meðan Rashford (93) og Martial (92) eru þeir einu hjá United sem komast eitthvað nálægt Sancho, aðrir eiga langt í land. Á nýafstöðnu tímabili átti Sancho 125 slíkar en á einungis 2069 mínútum samanborið við 2292 spilaðar mínútur í fyrra.
Jadon Sancho in the 2020/2021 Bundesliga [competition rank]:
🔘 138 attempted dribbles [🥈]
🔘 125 shot-creating actions [🥉]
🔘 81 carries into the final third [🥇]
🔘 77 successful dribbles [🥉]
🔘 51 carries into the box [🥇]
🔘 22 goal-creating actions [🥉]Elite. 🔥 pic.twitter.com/brASN6EE54
— Statman Dave (@StatmanDave) May 24, 2021
En hæfileikar Sancho einskorðast ekki við hægri vænginn því hann getur spilað vinstra megin líka einsog áður sagði. Hann getur spilað sem sóknarsinnaður miðjumaður og sem annar af fremstu tveimur ef Ole Gunnar Solskjær dettur í hug að stilla aftur upp í 3-5-2/3-1-4-2. Hann fellur einnig í þann flokk leikmanna sem hrífur áhorfendur með sér með hæfileikum sínum og loksins fáum við að sjá kvikan, hreinræktaðan vængmann á hægri kantinum sem mun bæta heilum kafla við sóknarleik okkar.
Koma Sancho mun gera liðið beittar fram á við, ekki bara vegna hæfileika hans heldur mun hann einnig setja meiri pressu á aðra leikmenn í kringum sig um að bæta sig eins og við sáum á þessari leiktíð með Luke Shaw þegar hann fór að sína sínar bestu hliðar eftir komu Alex Telles. Vonandi fáum við að sjá aukinn kraft í Aaron Wan-Bissaka þegar náttúrulegur hægri vængmaður er kominn fyrir framan hann.
Slúðurfréttir síðustu daga hafa því verið að spá því að Jadon Sancho fái að taka sjöuna af Cavani en hjá Dortmund hefur Sancho verið að spila í #7. Ákveðin grýla hefur fylgt #7 síðustu ár en hugsanlega hefur Cavani náð að rjúfa þá bölvun enda var úrúgvæinn gríðarlega flottur á síðustu leiktíð. Það verður líka eflaust aukin hvatning í því fyrir Sancho að sýna Pep Guardiola að hann hafi haft rangt fyrir sér þegar hann valdi hann ekki í hópinn og sanna það að hann er einn af bestu ungu leikmönnum heims um þessar mundir.
Það verður því gríðarlega spennandi að sjá hvernig næsta leiktíð fer af stað þegar framlínan sem Manchester United býður andstæðingum sínum upp á samanstendur af Marcus Rashford(23), Anthony Martial(25), Mason Greenwood(19) og Jason Malik Sancho(21) með sköpunargáfu og hæfileika Paul Pogba(28) og Bruno Fernandes(26) fyrir aftan sig og reynslubolta eins og Cavani og Mata til að læra af. Framtíðin er björt!
Robbi Mich says
Flott mál, eflaust góð kaup – en að mínu mati, sem er mjög líklega rangt því ég hef ekki hundsvit á fótbolta, þá eru forgangskaup alvöru varnartröll og tuddi á miðjuna. Mér fannst sóknin ekki vera vandamálið á síðustu leiktíð heldur vörnin og skortur á alvöru leiðtoga á miðjuna sbr Roy Keane.
GHO says
Nokkuð til í þessu liðið sárvantar frekjuhund á miðjuna og sterkan miðvőrð.
Friðrik Már Ævarsson says
Vissulega finnst manni e.t.v. stærri göt í liðinu hvað miðvörð og varnartengilið varðar en það hefur verið mjög augljóst á undanförnum tímabilum að United er að spila með leikmenn á hægri vængnum sem eru ekki vanir því, Lingard, Greenwood, Mata, James. Hins vegar hefur Greenwood leyst þessa stöðu ágætlega og síðan mætti færa rök fyrir því að Pellistri og Amad Diallo ættu að berjast fyrir þeirri stöðu í framtíðinni og því hefur þessi staða færst aftar í goggunarröðina en ég man vel eftir því fyrir síðustu 3 tímabil að við öskruðum hver í kapp við annan um að okkur vantaði nýjan hægri kant :)
Birkir says
geggjað
Scaltastic says
Það verður enginn rauður dregill sem bíður greyin Rashford og Sancho í útivallarleikjum á næsta tímabili.
Það er undir okkur stuðningsmönnum að bakka þá upp eftir þessa berháttun, eins og við Becks eftir HM 98. Annars er löngu kominn tími á að Rashford láti laga öxlina á sér og kannski ökklann líka.
Skil uppá vissu marki að stjórnin sé skeptísk að díla við Florentino Perez og co. Hins vegar er ég nokkuð viss um að Varane sé ekki að fara krota nýjan samning hjá Real. Alaba kominn á risa launapakka og bæði Nacho og Militao eru vel færir um að leysa hinn miðvörðinn. Auk þess er Real borderline á kúpunni. Þannig að það er engin afsökun að klára ekki þann díl imo.
Get ekki sagt að ég hafi misst hökuna yfir því að Pogba og Raiola séu með klúbbinn í borgaralegri handtöku. Frábær leikmaður, ferill hans hjá United hefur því miður ekki staðist mínar væntingar + hann hefur viljað fara burt í eitt og hálft ár. Það er mín skoðun að það eigi ekki að semja við hann aftur, auðvitað væri skárra að selja hann í sumar heldur en að missa hann frítt. Held að báðir aðilar hafi gott af nýju upphafi, svipað scenario og Lukaku fyrir tveimur árum síðan.
Verður vægast sagt fróðlegt hvernig og Ole og stjórnin tækla framtíð Dan James, Martial, Van De Beek og Lingard. Yrði mjög vonsvikinn ef það verða ekki tveir af þessum lista sem verða seldir/lánaðir.