Keppnistímabilið að þessu sinni hófst á magaskelli á heimavelli gegn spræku Crystal Palace liði í deildinni. Eftir það fylgdi torsóttur, en heilt yfir öruggur, sigur á Luton Town í deildarbikarnum. Sá leikur var fínn fyrir það að þá gátu leikmenn fengið fleiri mínútur undir beltið, bæði lykilmenn sem og menn sem standa rétt utan helsta byrjunarliðs. Nú halda okkar menn aftur suður á bóginn, í þetta skiptið alla leið niður á suðurströndina og mæta Brighton & Hove Albion Football Club. Svo sannarlega skyldusigur hjá okkar mönnum, en það ætti Crystal Palace á heimavelli líka alltaf að vera.
Leikurinn fer fram á morgun, laugardaginn 26. september 2020, og hefst á slaginu klukkan 11:30 að íslenskum tíma. Flautuleikarinn að þessu sinni verður Chris Kavanagh. Kavanagh fæddist í Manchester árið 1985 og hefur dæmt fótboltaleiki frá því hann var 13 ára gamall.
Vonum að það gangi betur hjá okkar mönnum í leikjum með Kavanagh í ár en fyrra. Á síðasta tímabili dæmdi Kavanagh fjóra leiki hjá Manchester United og uppskeran í þeim leikjum voru 2 stig. Síðasti leikur sem hann dæmdi var 2-2 jafnteflið gegn Southampton í júlí þar sem Kavanagh klikkaði illa með að sleppa því að grýta Romeo þráðbeint útaf með rautt eftir fólskulega árás á Mason okkar Greenwood. Vonandi verður hann meira á nótunum í þessum leik.
Brighton & Hove Albion
Brighton endaði í 15. sæti síðasta tímabilið. Þótt liðið hafi verið í fallbaráttunni seinni part tímabils þá náði það að halda sér utan fallsæta allan tímann og tryggði svo sæti sitt endanlega með 5 stigum í síðustu 3 umferðunum. Liðinu er spáð áframhaldandi fallbaráttu á þessu tímabili en ýmsir hafa þó trú á að það séu allavega 3 verri lið í deildinni en Brighton.
Það hefur verið þokkalegasta rennerí af leikmönnum inn og út úr Brighton í sumar. Brighton hefur samið við 13 nýja leikmenn og látið 16 fara. Það er bara frekar vel gert! Þeirra helstu sölur voru Anthony Knockaert til Fulham fyrir 15 milljón pund og Aaron Mooy fór til Shanghai SIPG fyrir 4 millur.
Þrátt fyrir þetta fjárstreymi inn er Brighton skynsamur klúbbur og var ekki að eyða miklu í leikmenn inn þó margir hefðu komið. Flestir þeirra komu á free transfer, þar á meðal Adam Lallana frá Liverpool sem búist er við að verði í byrjunarliðinu á morgun. Stærstu kaup Brighton í sumar var hægri bakvörðurinn Joël Veltman sem kom frá Ajax á 900.000 pund.
Veltman valdi sér treyjunúmerið 34 hjá Brighton af sömu ástæðu og Donny van de Beek valdi 34 hjá Manchester United, til að heiðra fyrrum samherja sinn Abdelhak Nouri.
Brighton hóf þetta tímabil á sama hátt og Manchester United, með 1-3 tapi á heimavelli. Þeir hafa þó þá afsökun að vera Brighton, ekki Manchester United, og að andstæðingur þeirra í fyrstu umferð var Chelsea. Belginn Leandro Trossard skoraði mark Brighton í þeim leik eftir stoðsendingu frá Tariq Lamptey.
Eftir þetta tap hafa þó fylgt þrír sigurleikir í röð. Fyrst 4-0 sigur á Portsmouth í deildarbikarnum, svo 0-3 útisigur á Newcastle United í deildinni og svo 0-2 útisigur á Preston í deildarbikarnum.
Í sigrinum gegn Newcastle var franski sóknarmaðurinn Neal Maupay allt í öllu. Hann skoraði fyrstu tvö mörkin og lagði svo það þriðja upp fyrir Aaron Connolly.
Graham Potter, stjóri Brighton, hefur verið að láta liðið spila 3-4-3 og það er búist við að hann stilli upp þessu byrjunarliði á morgun:
Manchester United
Það eru flestir þokkalega sprækir hjá Manchester United þessa dagana, fyrir utan það að Axel Tuanzebe og Phil Jones eru frá vegna meiðsla. Því miður fátt óvænt þar.
Árið 2018 var ekkert sérstaklega gott ár fyrir Manchester United þegar kom að því að mæta Brighton & Hove Albion á fótboltavellinum. Þá náði United að tapa tvisvar fyrir mávunum af suðurströndinni, hvort tveggja á heimavelli Brighton. Eini tapleikur United gegn Brighton fyrir utan þessa tvo kom í nóvember 1982. Síðustu þrír leikir þessara liða hafa allir endað með sigri Manchester United og við viljum sjá það mynstur halda áfram.
Dean Henderson byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í deildarbikarnum gegn Luton í vikunni. Hann komst prýðilega frá sínu, það var lítið að gera fyrir hann en þegar á þurfti að halda henti hann í rúmlega solid markvörslu. Það verður áhugavert að sjá hvort hann geti velgt David de Gea undir uggum á tímabilinu en þó býst maður fastlega við því að Spánverjinn haldi sínu sæti allavega eitthvað áfram.
Annar leikmaður sem spilaði 90 mínútur í miðri viku var miðvörðurinn Eric Bailly. Eftir síðasta deildarleik var eitt sinn sem oftar mikið talað um Victor Lindelöf. Svíinn er að mörgu leyti klár knattspyrnumaður og hefur sína kosti en gallarnir verða stundum mjög áberandi eins og sýndi sig gegn Crystal Palace.
Að einhverju leyti getur maður skilið að Solskjær vilji stöðugleika í varnarlínunni og velji því miðverði sem geta spilað marga leiki saman. Lindelöf splaði 35 deildarleiki af 38 á síðasta tímabili á meðan Harry Maguire spilaði hverja einustu mínútu. Enda batnaði vörnin til muna eftir því sem á leið.
Eric Bailly hefur vissulega kosti sem maður myndi halda að pössuðu betur við hlið Harry Maguire en það sem Lindelöf getur boðið upp á. Helsti galli Bailly er hins vegar að hann á erfitt með að haldast heill. Á síðustu þremur árum hefur Bailly verið meiddur í 275 daga og misst út 54 leiki. Það er vægast sagt áhyggjuefni.
En hann er heill núna, á hann þá að stökkva inn í byrjunarliðið?
Spáum þessu byrjunarliði:
Mynduð þið vilja sjá byrjunarliðið eitthvað öðruvísi?
Skildu eftir svar