Í hádegisleiknum áttust við Brighton and Hove Albion og Manchester United. Ole Gunnar Solskjær stillti upp sínu sterkasta liði og ætlaði ekki að lenda í sömu hremmingum og gegn Crystal Palace í síðustu umferð. Áfram sjáum við 4-2-3-1 kerfið:
Bekkurinn í dag: Dean Henderson, Donny van de Beek, Scott McTominay, Jesse Lingard, Fred, Timothy Fosu-Mensah og Eric Bailly.
Graham Potter stillti upp sínu liði í 3-4-3 eins og búast mátti við. Mávarnir unnu sterkan sigur á Newcastle á St. James Park í síðustu umferð.
Bekkur heimamanna: Bernardo, Stede, Gross,Molumby, Veltman, Alireza Jahanbakhsh og Burn.
Fyrri hálfleikur
United byrjaði af krafti en Brighton menn voru fljótir að vinna sig inn í leikinn og ná taktinum. Fyrsta hættulega tækifærið kom eftir að boltinn barst til Leandro Trossard sem var hálfan annan meter fyrir utan vítateiginn og þrátt fyrir að vera á nánast sama fermetranum og fjórir United menn, tókst honum að láta skot ríða af. David de Gea sá skotið seint og átti ekki möguleika að ná til knattarins en sem betur fer small boltinn í stönginni. Í kjölfarið fylgdu nokkrar álitlegar sóknir heimamanna en hinu megin á vellinum var lítið að frétta.
Fínasta fyrirgjöf frá Bruno af vinstri vængnum var hættulegasta færið okkar fyrstu 20 mínúturnar þrátt fyrir að United var meira með boltann í upphafi leiks en Brighton voru alltaf hættulegir í skyndisóknum sínum. Ein slík skilaði sér í öðru skoti frá Trossard en aftur bjargaði ramminn okkur, að þessu sinni hin stöngin.
Hvorugt liðið átti tilraun á rammann fyrsta stundarfjórðunginn en Brighton menn virtust líklegri en gestirnir. Þá fengu heimamenn aukaspyrnu á vinstri kantinum, en fyrirgjöfin fór yfir allan pakkann en Neil Maupay tókst engu að síður að ná boltanum á hægri vængnum og skilaði honum aftur fyrir. Þar kom Lewis nokkur Dunk og reis manna hæst í teignum og skallaði boltann en enn á ný endaði hann í rammanum, núna í þverslánni.
Það virtist því einungis tímaspursmál hvenær boltinn rataði inn en strax í kjölfarið fengu United skyndisókn þar sem Rashford fékk sendingu inn fyrir vörn Brighton manna og fann Greenwood að lokum í teignum sem kláraði vel fram hjá Matt Ryan í markinu en réttilega var Rashford flaggaður rangstæður.
Það var því bara eins og skrifað í skýin að á 39. mínútu var Tariq Lamptey kominn á sprettinum inn í vítateiginn okkar og Bruno Fernandes fer aftan í hann og vítaspyrna dæmd. VARsjáin sá ekkert athugavert við dóminn og á punktinn steig ískaldur Neil Maupay og vippaði boltanum undir þverslánna og tók síðan áhugavert fagn. 1-0 og Brighton menn virkilega búnir að eiga innistæðu fyrir þessu marki.
Það hefur því komið eins og reiðarslag fyrir þá þegar þeir fengu á sig aukaspyrnu beint á eftir markinu eftir að Trossard togaði Luke Shaw niður. Úr aukaspyrnunni kom ágætisbolti á fjærstöngina þar sem serbneski varnarmúrinn, Nemanja Matic, var mættur og hélt boltanum inn á með stuttri fyrirgjöf. Þar var Harry Maguire fyrstur manna til að átta sig á tækifærinu og stýrði boltanum í netið, hugsanlega með viðkomu af hælnum á Dunk en engu að síður telur markið jafnmikið og staðan orðin jöfn 1-1. Þannig stóðu leikar þegar liðin gengu til búningsklefanna í hálfleik.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur fór ekki vel af stað. Aaron Connolly fiskaði aðra vítaspyrnu Brighton eftir baráttu við Paul Pogba eftir að sá fyrrnefndi náði að einangra hann á vinstri hluta vallarins og komst framfyrir hann. Þriðja vítaspyrnan sem United fær á sig í tveimur leikjum og virtist sem svo að vinna ætti upp alla þá vítaspyrnudóma sem United fékk á síðustu leiktíð. En Chris Kavanagh ákvað að fara í skjáinn sjálfur og snéri við dómnum og spjaldaði þess í stað Connolly fyrir dýfu. Þar með sluppu United með skrekkinn.
Þetta virtist hafa verið ákveðið spark í rassinn á United og gestirnir virtust gefa í. Shaw komst í álitlega fyrirgjafarstöðu og fann Marcus Rashford sem komst inn á bakvið vörn heimamanna og skoraði en þegar betur var að gáð var Rashford fyrir innan Shaw og réttilega dæmd rangstaða.
Næst dróg til tíðinda þegar Brighton lágu í sókn en Matic vann boltann og kom honum á Bruno sem átti stórhættulega stungu upp vinstri kantinn. Þar kom Rashford með Ben White á hælunum en bar boltann engu að síður inn í vítateiginn og fíflaði vörnina hjá Brighton í tvígang og hamraði síðan boltann í markið. Staðan orðið 1-2 í leik sem hæglega hefði farið á annan veg ef VARsjáin hefði ekki komið við sögu í upphafi hálfleiksins.
Heimamenn voru samt ekki langt frá því að jafna stuttu síðar, Solly March átti hörkuskot í teignum en enn á ný hafnaði boltinn í stönginni og virtist sem svo að ramminn ætlaði að reynast Brightonmönnum erfiðasti andstæðingur dagsins. United virtist ætla að taka út alla sína heppni í þessum leik eða Mávarnir að taka út alla sína óheppni.
Fyrsta skiptingin kom á 65. mín þegar Fred kom inn á fyrir Pogba. Næsta stórhættulega færið kom þegar um stundarfjórðungur var eftir þegar Leandro Trossard fékk frábæra sendingu og var einn á auðum sjó og enginn varnarmaður nálægt honum í teignum. En heilladísirnar hans virðast ekki hafa vaknað í dag því hann þrumaði boltanum í slánna og var þá búinn að hitta báðar stangirnar og slánna. Ólýsanleg óheppni. En pressan frá heimamönnum orðin mun þyngri og greinilegt að þeir ætluðu sér einhver stig úr þessum leik.
Þá kom næsta skiptin United þegar Eric Bailly kom inn á í stað Mason Greenwood. Solskjær að bregðast við þessari pressu með því að fara í þriggja hafsenta kerfi. Það virtist skila sér í þéttari varnarleik en engu að síður lágu Brightonmenn í sókn. Á 90. mín gerði Ole Gunnar Solskjær síðustu breytinguna þegar Donny van de Beek kom inn á fyrir Anthony Martial sem átti frekar rólegan og tíðindalítinn dag.
Heimamenn fengu frábært tækifæri til að jafna í uppbótartíma þegar boltinn datt fyrir Trossard í teignum en de Gea varði vel frá honum af mjög stuttu færi og varnarmenn United hreinsuðu boltann úr teignum. Honum virtist fyrirmunað að koma boltanum yfir línuna. En leiknum var ekki lokið. Brighton fengu eina fyrirgjöf þegar nokkrar sekúndur voru eftir og rataði boltinn á ennið á Solly March sem þurfti ekki annað en að stýra boltanum í netið framhjá hjálparlausum de Gea í markinu.
Loksins fengu United menn horn þegar mínúta var komin framyfir uppgefinn uppbótartíma og úr henni kom skalli frá Harry Maguire en Solly March bjargaði á línunni. Chris Kavanagh flautaði leikinn af en United leikmenn hópuðust í kringum hann og vildu fá vítaspyrnu og töldu að boltinn hefði farið í höndina á Neil Maupay. Dómari leiksins fór aftur í skjáinn og tók ekki langan tíma til umhugsunar heldur benti á punktinn.
Bruno Fernandes stillti boltanum upp á meðan Matthew Ryan reyndi að taka hann á taugum en Bruno hefur ekki klikkað á vítaspyrnu í keppnisleik í mörg ár og ætlaði ekki gera það að þessu sinni heldur negldi boltanum í samskeytin og tryggði United sigur í leiknum, 2-3. Ekki beint sanngjörn úrslit en þau úrslit sem við vildum sjá. Þessi leikur þandi sannarlega taugarnar og ekki ólíklegt að nokkrir United stuðningsmenn hafi þurft dágóðan tíma til að ná sér eftir leikinn.
Pælingar að leik loknum
Þó að stigin þrjú hafi komið í hús verður seint sagt að leikmenn United geti stært sig af þessum sigri. Oft á tíðum virtist varnarleikur liðsins vera í molum, sem sást hvað best þegar dómarinn ætlaði að gefa þeim seinni vítaspyrnuna. Gríðarlega mikið pláss skapaðist á vinstri helming vallarins, Victor Lindelöf virtist hvergi sjáanlegur og Maguire langt frá sóknarmanninum. Pogba þurfti að elta Connolly og þetta var alls ekki einsdæmi í leiknum. Varnarleikur United hefur verið langt frá því að vera á pari og hreint ótrúlegt að ekki hafi enn verið keyptur varnarmaður en það hefur líklegast með það að gera hversu marga ónothæfa varnarmenn við höfum innan liðsins.
Anthony Martial og Mason Greenwood voru talsvert frá sínu besta og þá virtist sóknarleikur liðsins hökkta en hvorki Pogba né Bruno áttu sérlega góðan dag. Engu að síður skoruðum við þrjú mörk og unnum leikinn en ljótt var það. Brighton menn naga sig eflaust í handabökin fram að næstu helgi eftir að þeir áttu um 20 marktilraunir og sáu boltann hrökkva af rammanum í fimm skipti. En þeir fá annað tækifæri í miðri viku til að hefna fyrir hrakfarir dagsins.
Chris Kavanagh hafði í nóg að snúast í leiknum en hann stóð sína plikt vel. En leikurinn gegn Palace og þessi leikur í dag hljóta að setja einhvers konar pressu á stjórn félagsins til að styrkja klúbbinn og ekki geta þeir falið sig á bakvið heimsfaraldurinn, nóg eru hin liðin að eyða þrátt fyrir að hafa sett starfsfólk sitt á furlow. Fá ef einhver lið í ensku Úrvalsdeildinni hafa verið jafn óvirk á leikmannamarkaðnum og United. Donny van de Beek er frábær viðbót en betur má ef duga skal. Það þarf að styrkja varnarleikinn, veita mönnum eins og Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka aukna samkeppni um stöðurnar og síðan vantar fleiri leikmenn sem geta talist ‘game-changers’ í framlínu liðsins. Við höfum alltof slæma reynslu af því að reiða okkur um of á of fáa leikmenn.
En það eru líka góðir punktar, fyrir utan þrjá punktana á töfluna þá virtist Rashford vera að vakna til lífsins og varamennirnir Eric Bailly og van de Beek með flotta innkomu. Sem betur fer sprakk það ekki í andlitið á Solskjær að fara í þriggja hafsenta kerfi að þessu sinni en það er samt engu að síður ekki eitthvað sem við viljum sjá gegn Brighton. Næsti leikur er hins vegar á sama velli gegn sömu mótherjum nema þá eigast liðin við í 16-liða úrslitum deildarbikarsins. Búast má við að United stilli aftur upp hálfgerðu varaliði þar sem erfiður leikur gegn Tottenham bíður okkar um næstu helgi. Vonandi þarf ramminn ekki að vera okkar besti leikmaður í þeirri viðureign.
gummi says
Hvað er þessi djöfulsins Lindelof að gera í þessu liði búinn að missa allt álitt af Solskjær ef einga trú á að þetta lið munni vinna þennan leik
Alexander Hurra says
Virkilega lèlegt ađ Lindelöf sè í byrunarliđinu eftir seinustu framistöđu, er Ole ekki međ punginn til ađ bekkja menn..
Turninn Pallister says
Jahér, það virðist allt vera að hjá okkar mönnum í dag. Ekkert hungur og hugarfar sigurvegarans víðs fjarri. Menn ekki stemmdir og greinilega í engu formi á móti sprækum Brighton mönnum.
gummi says
Burt með þennan ömurlega stjóra áður en hann fer með okkur niður um deild
Þorsteinn says
Smá pirringur í mér, finnst liðið allt of passíft. Bruno Fernandes og Pogba eru hreinlega lélegir og það vantar allan kraft í Martial og Rashford. Ég hef engan húmor fyrir því að liðið sé enn í sumarfríi.
Hjöri says
Aha djöfull eru þið ömurlegir hér í commentinu, leikurinn er bara hálfnaður slappið af.
Þorsteinn says
Það er átakanlegt að sjá hvað liðið er lélegt, þetta verður erfiður vetur gjörsamlega yfirspilaðir á móti fokking Brighton, skammarlegt.
Georg says
Tek stigin en áttum þau ekki skilið
Vantar enn upp á leikform það er nokkuð greinilegt
Bjarni Ellertsson says
Sammála Georg, menn hafa ekki endalausan tíma, mótið er byrjað. En þetta kemur vonandi í næstu leikjum.
GGMU
Laddi says
Brighton yfirspilaði United á löngum köflum í leiknum og hefðu átt að setja 2-3 mörk í viðbót. Eiginlega ótrúlegt að United hafi unnið þennan leik og áttu ekkert skilið úr honum.
Það var enginn að spila vel og vörnin galopin vinstra megin trekk í trekk. Lítill vilji og barátta í mönnum, helst að Luke Shaw og Bruno hafi verið að reyna, aðrir virkuðu þungir og þreyttir. Vonandi er þetta bara ryð í byrjun tímabils en þetta byrjunarlið á ekki að láta Brighton yfirspila sig.
Pogba var týndur allan leikinn, kannski enn að jafna sig eftir Covid og hefði átt að fara fyrr útaf. Rashford er óþarflega rangstæður í báðum mörkunum sem eru dæmd af, sem skrifast bara á aulahátt, auk þess að drepa stundum hraðar sóknir með óþarfa klappi. Gerði þó vissulega vel í marki 2. Greenwood var skárri, þó ekki mikið. Heilt yfir langt undir pari og ljónheppnir að stela þremur stigum.
Áfram gakk, þetta getur ekki versnað mikið…
Egill says
Maguire og Bissaka urðu sjálfum sér til skammar í dag. Bissaka opnaði bara kanntinn fyrir Brighton allan seinni hálfleikinn og Maguire er svo hægur að hárið hreyfist ekki þegar hann hleypur. Hann vinnur skallabolta en aðeins einn skalli frá honum endaði á samherja, hinir fóru til andstæðingains.
Bruno hefur ekkert getað síðustu 10 leiki nema skorað úr vítum. Martial var horfinn, Pogba mjög slakur, Shaw 15kg of þungur og Lindelöf tifandi tímasprengja.
Rashford var líka slakur fyrir utan þetta geggjaða þark, Greenwood líka dapur. Matic og De Gea voru þeir einu sem geta gengið sáttir af velli eftir þennan leik.
Er í alvörunni einhver sem hefur trú á þessum stjóra?
Laddi says
Spurning til þín, Egill: Á hvaða hátt er spilamennskan Olé að kenna? Hvað ætti annar stjóri að gera með þennan hóp?
Ég sagði einmitt við félaga minn í dag að Olé væri fínn kostur miðað við stöðu mála í klúbbnum. Við höfum reynt að fá stór nöfn með risa egó og það hefur, ef eitthvað er, verið olía á eldinn frekar en leið uppur holunni. Þannig að ég spyr aftur, í fullri einlægni: Hvernig myndi annar stjóri ná meiru útúr þessum hópi?
Helgi P says
Solskjær nær engu útur þessum hóp sem betri stjóri myndi örugglega gera Solskjær á bara drífa sig aftur heim til noregs
Egill says
Ég bind miklar vonir til þess að annar stjóri myndi ekki spila mönnum eins og Pereira, Lingard, James og Mata svona oft. Stjóra sem eyðir ekki 80mp í mann eins og Maguire þegar hann er þegar með jafngóðan mann î Smalling.
Þjálfara sem selur ekki eina framherjann í liðinu (Lukaku) án þess að fá annan mann inn.
Horfðu á spilamennsku liðsins í dag og gegn Crystal Palace og þá sérðu að bæði Potter og Hodgson eru með skemmtilegri lið í höndunum.
Allir aðrir stjórar hefðu brugðist við því sem Bissaka bauð uppá í dag, Ole gerði það ekki. Hann pakkaði í vörn en sama svæði var samt opið eins og hentaði fyrir Brighton.
Liðið er lélegr, menn geta kvartað undan Glazer og Woodward eins og þeir vilja, en Ole er eins og laminn hundur og segir ekkert þegar við fáum enga menn inn. Sem er kannski skiljanlegt því kaupin hans Ome hafa ekki verið góð heilt yfir.
Tómas says
Arfaslakur er Pogba búinn að vera í þessum leikjum.
Matic eini sem gerði eitthvað á miðjunni í þessum leik… fyrir utan kannski bruno með assistið sem var helvíti góð sending.
Greenwood átti ágætis spretti.
Liðið þarf að komast í gang fljótt annars fer að hitna undir Ole.
Vonandi sjáum við Bailly spila meira og svo styrkingu á liðinu áður en glugginn lokar.
Cantona no 7 says
Sá ekki leikinn vegna anna.
Flott að vinna svona leiki.
Ole verður að fá a.m.k. 3 menn í viðbót ef að
menn ætla að vinna einhverja titla.
G G M U
Scaltastic says
Mesta rasskelling sem ég hef orðið vitni að hjá okkar mönnum síðan að nágrannarnir niðurlægðu okkur 2012. Að því sögðu þá þigg ég stigin þrjú.
Ég hef lengi staðið í þeirri trú að Ole væri ekki stærsta vandamálið, en að því sögðu… Hvaða fokking lestarslys er þessi kokteill sem hann og teymið hans hafi boðið upp á síðustu tvær vikur? Það er óskiljanlegt hvernig liðið getur verið svona passívt og um leið jafn opið. Ég skil að menn séu enn að komast í leikform, en það afsakar ekki 15 metra bil milli varnar og miðju.
Wan Bissaka…
Bjarni Ellertsson says
Ég leikinn í kvöld ei sýti
Ég nasirnar mínar snýti
því enginn er von
að vinna Brighton
nema skorað sé úr víti.
Í kvöld mætast stálin stinn
ég sigurtilfinningu finn.
því alltaf er von
að vinna Brighton
með seiglu og ákefð, stöngin inn.