Eftir tíðindalítinn glugga brast á með innstreymi í gær. Fjórir nýir leikmenn voru kynntir til sögunnar og í landsleikjahléinu munum við kynna þá til leiks einn af öðrum.
Að Alex Telles ólöstuðum er stærsta nafnið af þessum fjórum auðvitað Edinson Cavani. Það þarf lítt að kynna nafnið fyrir ykkur, Cavani er búinn að vera einn af helstu framherjum í Evrópu síðustu tíu árin og ósjaldan verið orðaður við United. Það er samt ekki fyrr en nú þegar hann er á þrítugasta og fjórða aldursári að hann gengur loks til liðs við okkur.
Edinson Cavani er fæddur í Salto í Úrúgvæ 14. febrúar 1987 og hóf ferilinn með Danubio í Montevideo en var keyptur tvítugur að aldri til Palermo eftir góða frammistöðu á suðurameríkumóti U-21. Þegar hann var hjá Palermo komst hann fyrst í úrúgvæska landsliðið og hefur verið fastamaður þar síðan, leikið 116 landsleiki og skorað 50 mörk.
Ferillinn hjá Palermo var þrjú ár, og nokkuð góður án þess að mörkin væru úr hófi fram mörg. En nægilega til að Napoli fékk hann lánaðan með kauprétti og -skyldu. Fyrsta ár sitt hjá Napoli sló hann í gegn, skoraði 26 mörk í deild og hefur síðan verið einn heitasti framherjinn í Evrópu. Næstu tvö árin skoraði hann 23 og 29 mörk í deild og þá dró Paris Saint-Germain upp veskið og borgaði 64 milljónir evra fyrir hann sem var þá eitthvað um fimmtíu milljónir punda. Síðan þá hefur hann verið einn af aðalleikmönnum liðsins svona fyrir utan Neymar og bestu árin hans voru 2016-2018 þegar hann skoraði 35 og 29 mörk í deild. Utan þeirra náði hann reyndar aldrei 20 mörkum.
Síðasti vetur var erfiður fyrir Cavani, hann lék alls fjórtán leiki í deild og byrjaði aðeins í helmingi þeirra. Hann var meiddur lengi vel og síðan lauk tímabilinu í lok febrúar. Síðan þá hefur hann ekki leikið fyrir liðið, hann var ekki í hópnum fyrir Meistaradeildarsumarið og var síðan leyft að fara á frjálsri sölu sem United nýtti sér loks í gær. Cavani er ekki alveg ókeypis, umboðsmenn munu fá hátt í 10 milljónir og hann verður launahár.
Hins vegar anda sum léttar við þær fregnir að samningurinn er til eins árs en með framlengingarmöguleika af United hálfu.
Allt slúðrið síðustu ár um áhuga United hefur lengst af verið frekar óljóst en það hefur sjaldnast verið þannig að stuðningsmenn hafi ólm viljað fá hann. Oftast reyndar út af verði, en það hefur loðað við Cavani að hann sé ekki alltaf sá öruggasti fyrir framan markið og hafi oftast verið annar bestur í sínum liðum. Á hinn bóginn er hann grimmur og sterkur og fínn markaskorari og er ekki að fara að láta hörkuna í enska boltanum á sig fá
Það er ekki hægt að líta framhjá því að hann hefur varla spilað fótbolta í rúma sjö mánuði og íhugaði jafnvel að hætta í kófinu en er þó nú í Úrúgvæ með landsliðinu sem leikur gegn Síle á fimmtudag og í Ekvador á þriðjudag. Síðan kemur hann til Manchester og líklega beint í byrjunarliðið enda fær Anthony Martial þriggja leikja bann fyrir að strjúka létt um kinn Eric Lamela á sunnudaginn.
Ofanritaður fær ekki séð að það þurfi að binda miklar vonir við frammistöðu Cavani í vetur. Hann á eflaust eftir að skora nokkur mörk en það eru bara þau bjartsýnustu sem munu halda að hann snúi við þeirri þróun sem verið hefur undanfarinn áratug rúman að það að fá úthlutað hinni fornfrægu treyju númer sjö hjá United sé áskrift að meðalmennsku.
Ég skora á Edinson að reka þessar staðhæfingar ofan í mig!
Laddi says
Tek undir með Bjössa því ég hef enga trú á að Cavani geri mikið fyrir liðið. Hef raunar aldrei verið mikill aðdáandi Cavani og finnst hann, fyrir utan Verratti, vera einn ofmetnasti leikmaður heims. Hann er líka pínu Gary Martin týpa sem Tómas Þór lýsti svo skemmtilega á dögunum svona: „Honum þarf að líða vel, ganga vel, liðinu þarf að ganga vel og það þarf að nudda hann, kyssa hann og knúsa hann. En þegar allt þetta gengur upp, þá skorar hann mörk og þú getur unnið titla.“ Þetta lýsir Cavani eiginlega óþægilega vel.
En hey, kannski treður Cavani sokk upp í mig og Bjössa, myndi vera fyrstur til að fagna því og viðurkenna að hafa haft rangt fyrir mér…
Rúnar P. says
Ég er alveg ótrúlega spenntur fyrir því að sjá öll fimm kaup sumarsins (Donny van de Beek, Edinson Cavani, Alex Telles, Facundo Pellistri og Amad Diallo)
Held að Cavani muni græða mikið á sendingum frá Telles, Pellistri er skráður í Meistardeildarhópin og Diallo er framtíðin