Það er óhætt að segja að byrjunarliðið hafi ekki verið að allra skapi
Liðið er komið
Varamenn: Henderson, Alex Telles, Bailly, Matic (90.), Pogba (70.), Van de Beek (76.), Ighalo
Lið Newcastle:
Það voru síðan ekki tvær mínútur liðnar þegar hrakspár virtust ætla allar að rætast. Newcastle sótti hratt upp vinstra megin, gefið á Shelvey á miðjnni sem lék þvert og gaf út á Krafth á auðum sjó á hægri kanti, hann gaf fyrir, Luke Shaw setti fótinn í boltann og stýrði honum örugglega í netið við stöngina, 1-0 fyrir Newcastle eftir 104 sekúndur.
Skelfileg byrjun!
United hristi þetta af sér og náði fljótlega tökum á leiknum, enda var Newcastle fljótt að draga sig til baka og verjast djúpt. Það gekk lítið að koma boltanum á Rashford þó inni í teig væri, alltaf maður á honum og erfitt fyrir United að spila menn lausa.
United kom boltanum í netið á 19. mínútu, það var auðvitað Bruno Fernandes sem skoraði en frábært samspil hans við Juan Mata kom eftir rangstöðu Mata þannig það VAR flautað af. Rétt á eftir komst Mata í gott færi utarlega í teig, sem Darlow varði í horn, og það var enginn annar er Harry Maguire sem skallaði í netið úr horninu!
Leikurinn jafnaðist fljótlega eftir markið og Saint-Maximin átti flott skot fyrir Newcastle, De Gea varði með góðri skutlu, fór með arminn í stöngina og teygði eitthvað á öxlinni en jafnaði sig eftir það.
En United tók síðan öll völd og sótti það sem eftir lifði hálfleiksins, en komst þó ekki í ákjósanleg færi, vörn Newcastle tókst að verjast vel. Spilið samt ágætt hjá United, en vantaði aðeins upp á að opna vörnina.
Unitedmenn komu grimmir úr klefanum og sóttu stanslaust fyrstu mínúturna en það var Newcastle sem sótti upp á 50. mínútu sem endaði á skoti Wilson af markteig, en einhvern veginn náði De Gea að skófla boltanum af marklínunni. Frábær varsla hjá honum. Vörnin var samt frekar opin þarna, fyrirgjöf Saint-Maximin fann Wilson óvaldaðan fyrir opnu marki.
Rétt á eftir kom United í sókn, Rashford fékk boltann, var aðeins of lengi að koma boltanum á samherja lék inn í teig og missti boltann en Jamal Lewis fór í hann og Pawson dómari leit á skjáinn eftir yfirferð VAR og dæmid mjög harkalega víti. Fernandes fór á punktinn og Darlow varði gríðarvel. Réttlæti fullnægt þar segja einhver.
En United hristi þetta af sér og hélt áfram stöðugri pressu. Þegar Newcastle sótti smá kom United á móti með skyndisókn sem endaði á stungu Mata á Rashford. Darlow kom út og varði vel en þeir lentu í samstuði og Darlow virtist eitthvað hnjaskaður.
Vörn United var veiki hlekkurinn í þessum leik og það var ljótt að sjá Jonjo Shelvey rétt utan teigs með engan fyrir framan sig og opið skot á mark, De Gea varði það þó vel.
Fyrsta skiptingin kom svo þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, Pogba fyrir Fred. United sótti áfram en náði ekki að koma Darlow í vandræði en hann var enn eftir sig eftir samstuðið við Rashford. Van de Beek kom inn fyrir Dan James sem hafði átt alveg þokkalegan leik, þó vantaði uppá hann kæmi mönnm í færi, eða jafnvel sjálfum sér.
Þetta hélt áfram, United hélt boltanum, spilið milli manna utan teigs prýðilegt en þegar kom að því að koma mönnum i færi og opna fyrir á hættusvæðum var ekkert að gerast.
En á 86. mínútu kom það loksins. Newcastle hafði aðeins gert sig líklegt en United fékk boltann, hann gekk frá Van de Beek á Rashford, aftur á Van de Beek, síðan Mata sem gaf langan bolta á Rashford vinstra megin sem lék upp í teig og stakk síðan út á Bruno Fernandes sem skoraði mjög snyrtilega af markteigshorninu.
Og á 90. mínútu kláraði United þeetta og af öllum mönnum var það Aaron Wan-Bissaka sem kom skeiðandi upp völlinn, gaf á Rashford, fékk stunguna til baka inn á teiginn og kláraði frábærlega.
Áður en uppbótartíma var lokið hafði Bruno Fernandes tíma til að eiga gott langskot í varnarmann og í horn og á allra síðustu sekúndum kom 50 metra sending frá Fernandes fram á Rashford sem átti bara eftir að spila inn í teiginn og klára fallega framhjá Darlow.
Sanngjarn sigur United í höfn. Vörnin var ekki sannfærandi, og sóknin bitlaust lengi vel en United átti leikinn og vörn Newcastle var ekki nógu sannfærandi þegar á leið. Boltinn fimm sinnum í netinu og víti í súginn segir eitthvað. Það munaði líka alveg um Pogba og Van de Beeki.
Framundan er útileikur gegn Paris Saint-Germain á þriðjudaginn og það verður eitthvað breytt byrjunarlið sem kemur þá inn á völlinn.
Bjarni Ellertsson says
Best að hafa sem fæst orð um uppstillinguna.
gummi says
Á hvaða piluflippi var Solskjær á þegar hann valdi þetta lið
Helgi P says
Hvernig kemst van de beek ekki í þetta lið
Björn Friðgeir says
PSG á miðvikudaginn. Það hefur örugglega áhrif á þetta val.
Hjörleifur says
Solskjer búinn að henda inn handklæðinu, hann vill láta reka sig!
Björn Friðgeir says
Hjerleifur: Eða hann gæti verið að hugsa líka um leikinn á þriðjudaginn (ekki miðvikudaginn)
Bjarni Ellertsson says
Fyrstu mínútur átakanlegar á að horfa, holling leikmanna segir allt um stöðuna.
Björn Friðgeir says
Alex Telles þarf ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki í lið
Bjarni Ellertsson says
Jæja skánaði þegar á leið hálfleikinn en meira þarf til. Eigum að vinna þennan leik en eins og svo oft áður etum við sjálfir okkur verstir á köflum.
Zorro says
Man.utd vanta gòðann stjòra sem hefur unnið tittla…að spila alltaf með 1 uppá topp er òþolandi…..Man.Utd er best i 442
Zorro says
Man.utd vanta gòðann stjòra sem hefur unnið tittla…að spila alltaf með 1 uppá topp er òþolandi…..Man.Utd er best i 442..það eru ekki einu sinni menn i teignum þegar gefið er fyrir😞
Bjarni Ellertsson says
Glæsilegt, vegir fótboltans eru órannsakanlegir. Bissaka gat ekki blautan lungan úr leiknum en skorar svo loksins gull af marki. Pogba gaf okkur yfirvegun og ró á miðjunni og þá komu mörkin. New voru slakir en mað þarf að klára svona leiki.
Karl Garðars says
Jæja þetta mátti alveg gerast.
Flott að klára þetta með gjöfina í botni.
Björn Friðgeir says
Aldrei í hættu!
Theodór says
Flottur leikur. Skoruðum 5 mörk (reyndar eitt dæmt af en rangstæðan breytti engu um markið sjálft) og hefðum getað sett það sjötta úr víti, og newcastle skoruðu eitt “óbeint” grísamark. Auðvitað var byrjunarliðið skrýtið þar sem það er leikur við PSfokkingG eftir smástund, og ég held að allir veðji frekar á sigur á newcastle með 85% liði en frökkunum.
Cantona no 7 says
Flott
Atli Þór says
Mikið rosalega var gaman að fá þessi 3 mörk í lokin. Og þvílíkur léttir. Ég ætla svo sannarlega að vona að 2Ole (gend) haldi starfinu. Hann gerir það þó ekki nema sækja úrslit úr næstu leikjum. Þetta var flottur þolinmæðis sigur og mjög sanngjarn þegar upp var staðið. Ég er kannski einn af fáum sem hafa ennþá trú á Ole sem stjóra. Við erum búin að sjá reynda, fræga og farsæla stjóra ná litlu út úr liðinu og spila í þokkabót leiðinlegan bolta sem er ekki Manchester United sæmandi. Solskjær hefur haft hugrekki til þess að breyta leikstílnum og ég segi fyrir mig að mér finnst liðið vera að leika skemmtilegasta fótboltann sem liðið hefur spilað síðustu 7 ár. Ekki er heldur hægt að segja að hann hafi fengið marga af þeim leikmönnum sem hann er sagður hafa óskað eftir. Ég er til í að sýna þolinmæði gagnvart stjóranum og gefa honum 3-4 ár til þess að búa til alvörulið.
Verð að viðurkenna að eftir síðasta leik gegn Tottenham þá hjálpaði það sálinni gríðarlega að sjá að önnur stórlið geta líka fegnið skell. Mér þótti vænt um Aston Villa eftir leikinn þeirra gegn Liverpool :)
Bjarni Ellertsson says
Góð greining, held samt að vörnin verði sú sama á móti PSG en miðjan önnur sem mun styðja betur við vörnina, vonum það. Annars ekki á hverjum degi að varnarmenn skori, við fögnum því En það er stígandi í þessu hjá okkur sem hefði ef til vill mátt vera í upphafi en það þýðir ekki að gráta Björn bónda. Áfram gakk.
GGMU
Scaltastic says
Mata var yfirburðamaður á vellinum. Þvílíkur munur á því þegar að hann stjórnar tempó-inu í sóknaruppbygginguni heldur en Matic, með fullri virðingu fyrir þeim ágæta manni.
Óli Jón says
Ole hefur unnið nokkra titla með Molde svo að hann veit hvernig er að vinna titla og ekki að tala um þá titla sem hann vann sem leikmaður, hef ennþá trú á honum en þá þurfa eigendur og stjórn hlusta á og kaupa þá leikmenn sem hann vill. Sir Alex hefði aldrei látið þetta yfir sig ganga að fá ekki einn einasta leikmann sem hann vildi. En leikurinn í dag var flottur og stórt skref í rétta átt við skorum 5 (eitt rangstaða) 2 sinnum bjargað á línu og klúðrum víti. Ég er alveg til í að gefa Ole 1-2 ár í viðbót til að byggja upp liðið. Hann er óhræddur að gefa ungum leikmönnum tækifæri og við erum með helling af 16-18 ára mjög efnilegum leikmönnum og margir af þeim taldir vera efnilegustu leikmenn í heiminum í dag. Vil allavega ekki fá stjóra sem ekki gefur ungu mönnunum sjéns.
Óli Jón says
Síðan langar mér að spyrja hvað stjóri ætti að taka við ef Ole yrði rekin ? . Heitasta nafnið sem maður heyrir er fyrrverandi stjóri Totteham Porch hvað hefur hann unnið ? Kom Tottenham í einn úrslitaleik og tapaði var rekin nokkrum mánuðum seinna.
Turninn Pallister says
Góður sigur og vonandi verða þessi mörk til þess að sjálfstraustið hjá varnarmönnunum okkar batnar til muna. Fyrsta mark leiksins var algjör óheppni og hafði greinilega áhrif á leikplanið. Mjög sterkt að vinna sig til baka inn í leikinn og vinna að lokum öruggan sigur, þrátt fyrir mótlæti síðustu vikna. Fannst Mata góður í leiknum og greinilegt á öllu að karlinn hefur tekið á því á æfingum til að koma sér í betra stand. Reynsla hans og sköpunarmáttur getur reynst okkur mjög mikilvæg á komandi tímabili.
Audunn says
Það eina sem aftrar mér frá því að gefa Ole Gunnar einhver 2 ár til að byggja upp sitt lið er að mér finnst hann svo karakterslaus sem stjóri.
Reyndar er allt þetta þjálfarateymi hálf rænulaust og karakterslaust fyrir utan Mike Phelan.
Ég veit ekki hvort er hægt sem leikmaður (ef maður reynir að setja sig í spor þeirra) að taka þessa menn alvarlega? Ég veit ekki hvort leikmenn eru tilbúnir að gefa sig 110% fyrir mann eins og Ole Gunnar.
Æi ég veit það ekki, svo skil stundum ekki alveg útá hvað spilið inn á vellinum gengur en svo eiga þeir frábærar sóknir inn á milli eins og í þessum leik gegn Newcastle.