Það gerist æ sjaldnar að Manchester United bjóði nýja gesti velkomna í Leikhús draumanna, en sú er þó raunin þegar liðið fær þýska liðið RasenBallsport Leipzig e.V., eða einfaldlega RB Leipzig í heimsókn. Ástæðan er margþætt, en helsta ástæðan kannski þó sú að gestaliðið er ekki nema 11 ára gamalt! Félagið var stofnað 2009 og hefur upprisa liðsins verið hröð síðan þá. Svo hröð að liðið komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð, en laut þar í lægra haldi fyrir uppáhalds fórnarlömbum okkar – Paris Saint Germain.
Það er orkudrykkjarisinn Red Bull GmbH sem á 99% hlut í félaginu og hefur eytt stórum fjárhæðum til að tryggja að félagið yrði sem fyrst í deild þeirra bestu í Þýskalandi og um leið samkeppnishæft. Átta tímabilum eftir stofnun félagsins lék liðið í Bundesligunni. Þar sýndi Leipzig samstundis að það ætti þar heima og endaði í 2. sæti á eftir Bayern München. Síðan þá hefur liðinu einu sinni mistekist að landa Meistaradeildarsæti.
Þjálfari liðsins er svo ungur að hann man ekki eftir leiðtogafundinum í Höfða 1986. Hinn 33 ára gamli Julian Nagelsmann stýrir skútunni og hefur nú þegar þjálfað við góðan orðstír hjá Hoffenheim (2016-19) og nú RB Leipzig. Það segir kannski margt um hversu magnaður Nagelsmann er að hann hafði samþykkt að taka við Leipzig ári áður en hann yfirgaf Hoffenheim, en samt vildu menn í Hoffenheim halda honum út samninginn. Eðlilega kannski, þar sem að Nagelsmann hafði komið liðinu í Meistaradeildarsæti þau tímabil sem hann hafði verið við stjórnvölinn. Hann náði þó ekki nema 9. sæti á síðasta tímabili sínu með Hoffenheim. Þar má helst kenna slökum varnarleik um, en liðið skoraði 70 mörk í deildinni.
Fyrir hið ævilanga 2019-20 tímabil var því talsverð bjartsýni. Hún var ekki byggð á sandi en lengi vel leit út fyrir að Leipzig myndi gera harða atlögu að skildinum sem FC Bayern hafa hreinlega eignað sér síðustu ár. Þeir vermdu toppsætið þegar deildin fór í jólafrí og höfðu spilað frábæran fótbolta, en eftir tap gegn Eintracht Frankfurt í 19. umferð Bundesligunnar, þá skutust Bæjarar upp fyrir Leipzig og litu ekki um öxl eftir það. Niðurstaðan í deildinni varð að lokum 3. sætið, þremur stigum á eftir Dortmund og 16 stigum á eftir FC Bayern-vélinni. Liðinu gekk ekki vel í þýsku bikarkeppninni og kvaddi þá keppni í 16-liða úrslitum.
Í Meistaradeildinni leit liðið frábærlega út. Þeir fengu tiltölulega opinn riðil – með Benfica, Lyon og Zenit frá Pétursborg. RB Leipzig endaði í efsta sæti riðilsins, með 11 stig. Höfðu unnið þrjá leiki, gert tvö jafntefli og tapað einum. Þeir gátu því farið fullir sjálfstrausts inn í útsláttarhluta Meistaradeildarinnar. Þar drógust þeir gegn liði í tilvistarkreppu, Tottenham Hotspur – sem höfðu nýjan stjóra í brúnni, José Mourinho. Tottenham reyndist ekki nokkur fyrirstaða fyrir liðið og Leipzig gjörsamlega yfirspilaði Spurs í fyrri leik liðanna á Tottenham Hotspur Stadium, en fór bara með 1-0 forystu til baka til Þýskalands. Sú forysta tók Leipzig ekki á taugum og þeir unnu þægilegan 3-0 sigur í seinni leik liðanna á Red Bull Arena.
Það leið talsverður tími áður en Leipzig gat svo spilað við Atlético Madrid, í eins leiks rimmu, í 8-liða úrslitunum. Helvítis COVID-19. Þar höfðu Leipzig 2-1 sigur með sigurmarki á 88. mínútu leiksins. Nagelsmann gat látið sig dreyma um alþýskan úrslitaleik í fyrsta sinn síðan 2013. En fyrst þurfti að komast í gegnum PSG, með allar sínar stórstjörnur. Það reyndist of stór biti að kyngja og þeir töpuðu sannfærandi 0-3. Þar með var sá draumur úr sögunni, en sannarlega grunnur til að byggja á.
RB Leipzig hefur byrjað 2020-21 tímabilið alveg glimrandi vel. Þeir eru taplausir á toppnum eftir 5 leiki, stigi á undan Bayern. Liðið missti sinn helsta markaskorara, Timo Werner, til Chelsea fyrir tímabilið. Werner skoraði 34 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð svo að þar er stórt skarð höggvið. Það þýðir að mörkin þurfa að dreifast betur yfir fleiri í liðinu, sem ég tel að Nagelsmann muni finna lausn á.
Leikstíll RB Leipzig er beinskeyttur og hraður. Þeir sækja á mörgum mönnum, spila boltanum hratt fram á við og pressa mótherjann af harðfylgi þegar liðið er ekki með boltann. Nagelsmann vill spila með bakverðina hátt uppi á vellinum þegar liðið er að byggja upp sókn og vill nota tvo tengiliði á miðjunni. Kevin Kampl og Konrad Laimer myndu venjulega manna þær stöður, báðir hafa þeir góðan mótor og frábæran leikskilning. Laimer sprakk út undir stjórn Nagelsmann á síðustu leiktíð og hlaut verðskuldaða athygli. Laimer mun þó líklega missa af leiknum, ásamt Nordi Mukiele, Lukas Klostermann og Amadou Haidara. Christopher Nkunku gæti því komið inn við hlið Kampl.
Ef United getur spilað sig í gegnum pressu Leipzig, þá eru góðir möguleikar á því að ná í hagstæð úrslit. Þetta er leikur þar sem að mikilvægt er að standa af sér hríðina þegar hún skellur á, en nýta svo lognið vel – ef svo má að orði komast. Fram á við hafa þeir leikmenn á borð við Danann Yussuf Poulsen, Svíann Emil Forsberg og Norðmanninn Alexander Sorloth. Sannkallaður Skandinavíubræðingur! Fyrirliðinn Marcel Sabitzer er sömuleiðis frábær leikmaður. Hann er snöggur, góður á boltanum og með frábæran skotfót. Ef að fólk hefur rúmar 20 mínútur aflögu, þá má sjá United aðdáandann og tölfræðiperrann StatmanDave tala aðeins um komandi leik hérna.
Líklegt byrjunarlið RB Leipzig:
Ég ætla að skjóta á að þessi leikur verði ekki jafn leiðinlegur og Chelsea leikurinn. Það væri í raun aðdáunarvert ef að svo yrði! Ef einhverjar breytingar yrðu á liðinu sem spilaði gegn PSG, þá myndi ég veðja á að Solskjær haldi tryggð við Harry Maguire og setur hann í þriggja manna miðvarðalínu á kostnað Lindelöf eða Shaw. Axel Tuanzebe hreinlega hlýtur að byrja. Svo bíða United menn í ofvæni eftir því að sjá Donny van de Beek byrja alvöru fótboltaleik, sem er ekki í Deildarbikarnum. Það kæmi á óvart ef að Solskjær myndi bekkja Bruno Fernandes í þessum leik og að sama skapi þá líður honum best með Fred og McTominay á miðjunni í leikjum gegn sterkum sóknarmönnum.
Edinson Cavani gæti byrjað í fyrsta sinn fyrir Man Utd. Það verður þó að teljast líklegt að Martial og Rashford fái traustið. Martial er í leikbanni í deildinni og fær þá um leið hvíld, svo að hann er ferskur fyrir Meistaradeildina. Cavani á sama tíma er enn að reyna að komast í fullt form og er enn sennilega bara í hlaupabrettisformi. Hann leit þó vel út þegar hann komst í boltann í leiknum bráðskemmtilega gegn Chelsea. Það væri dásamlegt að sjá El Matador skora draumamark á Old Trafford í fyrsta Meistaradeildarleik sínum fyrir félagið.
Ég spái því að gríðarlega svipað lið og byrjaði í París verði byrjunarliðið gegn RB Leipzig:
Áfram United!
Halldór Marteins says
Maður er peppaður í þetta. Mig langar svo að sjá meira af Telles. Og Tuanzebe. Og Donny!
Vonandi að allavega 2 af þeim fái að byrja leikinn og sá þriðji mæta inn á í amk hálftíma.