Manchester United vann stórkostlegan 5-0 sigur á RB Leipzig í öðrum leik H-riðils, í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Marcus Rashford kom inná um miðbik seinni hálfleiks og skoraði þrennu í fyrsta sinn á ferli sínum hjá United. Magnað!
Bekkur: Henderson, Fosu-Mensah, Mengi, Tuanzebe 81′, Williams, Fernandes 68′, James, Mata, McTominay 63′, Cavani 81′, Ighalo, Rashford 63′
Gestirnir stilltu svona upp
Bekkur: Tschauner, Martinez, Orban, Sabitzer 63′, Hwang, Adams, Sorloth 66′, Samardzic, Kluivert, Borkowski, Martel, Wosz
Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað, svona fyrir hlutlausa. En hann spilaðist þokkalega vel fyrir United. Þeir hefðu getað haldið betur í boltann, en vörnin var þétt og gaf lítið færi á sér. Snemma í leiknum fékk Fred ágætis skotfæri og lét vaða, en Peter Gulácsi var vel á verði í marki RB Leipzig. Stuttu síðar fengu United kjörið tækifæri til þess að komast yfir í leiknum þegar Fred setti Anthony Martial í gegn á hægri kantinum. Martial þurfti í raun lítið annað að gera en að renna boltanum þvert fyrir á Mason Greenwood, en sending Frakkans var afleit og alltof aftarlega.
Á miðjunni var það Paul Pogba sem lét hlutina gerast og það reyndist svo vera að hann opnaði miðja vörn Leipzig eftir góðan sprett og kom boltanum á Mason Greenwood. Sá hefur verið á milli tannanna hjá fólki undanfarið en þessi strákur er með breitt bak og kláraði færið listavel. 1-0 eftir 21. mínútu. VAR skoðaði markið í bak og fyrir og undirritaður var svartsýnn á að markið fengi að standa. Svo reyndist ekki, sem betur fer!
Eftir mark okkar manna féll liðið aftar á völlinn og leyfði Leipzig að halda boltanum, en spilaði fína vörn og áttu ekki í teljandi vandræðum með að verjast sóknum gestanna. Gæti trúað því að Solskjær hafi helst verið ósáttur við að leikmenn voru ekki nógu svali á tuðrunni þegar liðið vann boltann, þar sem að United náði ekki að sækja hratt á þá þegar leikmenn Leipzig voru hátt á vellinum.
Matej Jug, dómari leiksins, var með mikinn flautukonsert. Sérstaklega síðari hluta fyrri hálfleiks og því komst aldrei neitt sérstaklega gott flæði í leikinn. En leikurinn var ekki þægilegur að dæma, spilaður á nokkuð háu tempói og mikið um lítil brot sem sumir dómarar hefðu kannski litið framhjá. Það hentaði United liðinu ágætlega, enda yfir og auðvelt að endurskipuleggja vörnina þegar boltinn er úr leik á 30 sekúndna fresti.
Seinni hálfleikur byrjaði með svipuðu sniði og sá fyrri endaði á. Gestirnir voru meira með boltann en áttu sem fyrr í gríðarlegum vandræðum með að finna glufur á sterkri United vörn. Maguire og Lindelöf stressuðu sig lítið á Yussuf Poulsen og úti á köntunum áttu voru Shaw og Wan-Bissaka afar öruggir gegn Nkunku og Angelino.
Eftir því sem leið á hálfleikinn færði United liðið sig framar og fór að pressa stífar á gestina. Þá lentu Leipzig í vandræðum og vörnin varð óstyrkari með hverri mínútunni sem leið. Anthony Martial kom sér í tvígang í mjög vænlega stöðu eftir góðan sprett en brást bogalistin þegar hann ætlaði að leggja hann fyrir samherja. Eina alvöru færi RB Leipzig kom eftir hornspyrnu, þar sem að boltinn endaði hjá Ibrahima Konaté, sem átti ágætis skalla en David de Gea varði boltann yfir.
Það var svo á 74. mínútu sem að varamaðurinn og góðmennið Marcus Rashford tvöfaldaði forystu okkar manna. Þá féll boltinn ljúflega fyrir annan varamann, Bruno Fernandes, á miðjum vallarhelmingi United. Hann hugsaði hratt, eins og er hans von og vísa og setti Rashford í gegn. Framherjinn gerði engin mistök gegn Gulácsi og kláraði færið. Aftur var um afar tæpan dóm að ræða, hvað rangstöðu varðar. Aftur var VAR okkur hliðhollt, staðan orðin 2-0 og við í toppmálum.
Fjórum mínútum síðar bætti Rashford við öðru marki sínu. Þá lagði Fred hann á Rashford sem sneri snöggt og lék Konaté upp úr skónum, áður en hann negldi boltanum framhjá Peter Gulácsi. 3-0! Eftir þriðja markið virtust Leipzig menn gjörsamlega brotna og United liðið var líklegt til þess að skora í hverri sókn. Gestirnir misstu boltann ódýrt í gríð og erg og United sótti á mörgum mönnum, með Rashford, Martial og Bruno í fantaformi.
Það var svo loks komið að Anthony Martial á 87. mínútu. Hann var þá felldur innan teigs af Marcel Sabitzer og Jug var ekki í nokkrum vafa þegar hann benti á punktinn. Martial var ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í bláhornið og United komnir 4-0 yfir. Dásamlegt. Bruno Fernandes setti svo Edinson Cavani í gegn tveimur mínútum síðar og Úrúgvæinn kom boltann í netið en var réttilega dæmdur rangstæður. VAR getur ekki alltaf verið með okkur í liði, því miður!
Það var svo við hæfi að Marcus Rashford skyldi reka síðasta naglann í kistu Þjóðverjanna. Á 92. mínútu átti Anthony Martial flottan sprett inn í teig Leipzig áður en að hann renndi boltanum í miðjan teiginn á Rashford. Hann fullkomnaði glæsilega þrennu með því að setja fast skot undir Peter Gulácsi. 5-0. Erum við í draumaheimi? Meira að segja eftir fimmta markið virtist United liðið líklegt til þess að bæta við á þessum örskamma tíma sem eftir lifði.
Það verður að hrósa Ole Gunnar og hans þjálfarateymi. Annan leikinn í röð eru þeir með allt uppá 10,5 í liðsvali og uppstillingu í Meistaradeildinni. Liðið hefur verið ákaflega öruggt varnarlega og þeir hafa refsað svo þegar færin hafa gefist í sókninni. Ef liðinu tekst að heimfæra þessar frammistöður í deildina, þá má bara vera fullur tilhlökkunar. Það er erfitt að horfa framhjá Marcus Rashford þegar kemur að vali á manni leiksins, en Anthony Martial verður að fá hrós sömuleiðis. Auðvitað væri hægt að hrósa öllu liðinu, en það er hreinn unaður að horfa á þessa tvo þegar þeir eru í gírnum.
Við United fólk förum hoppandi kát í háttinn. Góða nótt!
Halldór Marteins says
Áhugaverð pæling með byrjunarliðið gegn áhugaverðum andstæðingum (svona fyrir utan hvað félagið og allt í kringum það er glötuð pæling). Gaman að sjá Donny og Mason byrja og gott að sjá að Pogba er loks tilbúinn í byrjunarliðssæti.
Komaso, fara að gera Old Trafford að alvöru heimavelli aftur!
Karl Garðars says
Þetta er spennandi uppstilling og verður forvitnilegt að sjá hvort þetta muni ekki henta Pogba og Van de beek mjög vel þ.e. ef PP fær að fara fram og Fred bakkar frekar með Matic
Karl Garðars says
Jæja óli. Martial á tréverkið og Cavani inn. Takk og bless.
Rúnar P says
Rashfótur…..
Rúnar P says
Stærsta tap RB Leipzig í rúm síðan þeir komust upp í Bundeslige
Sindri says
Þvílík unun á að horfa. Rashford fyrsti varamaðurinn til að hlaða í þrennu síðan Chicarito?
GGMU
Turninn Pallister says
Slátrun, Rashford rosalegur í dag.
Vörnin flott og lítið hægt að kvarta yfir svona frammistöðu. Áfram veginn glory, glory!
Bjarni Ellertsson says
Loksins samkeppni um allar stöður, gerir menn betri og allir á tánum ekki spurning um það. Vil sjá áframhald í næsta deildarleik því mér fannst skiptingar hjá Leipzig veikja liðið á þveröfugt hjá okkur.
GGMU
Robbi Mich says
@Sindri: Síðan Ole frá 1999 held ég…
Óli Jón says
Ole Gunnar á síðustu þrennu á móti Nottingham Forrest 1999 sem varamaður
sigurvald says
Algjörlega frábær leikur!
Ole spilaði djarft en ákaflega vel úr spilunum… Fred var rosalegur allan leikinn.
GGMU.
Georg says
Frábær leikur. Gaman að sjá taktík ganga svona vel upp. Fred að mínu mati maður leiksins. Hann tæklaði miðjuna þeirra sem startaði mörkum 2 og 3 til að drepa leikinn. Hefði verið fínt að spara mörk 4 og 5 fyrir Arsenal leikinn !! Riðillinn ætti að vera öruggur úr þessu
Halldór Marteins says
Hefur einhver séð gumma? Væri til í að vita hvað honum fannst um þennan leik.
Og hvort hann sé loksins búinn að hlusta á Berbatov-viðtalið. Hann átti alltaf eftir að svara mér með það.
Scaltastic says
Ég hafði verulegar efasemdir um að við gætum komist upp úr þessum riðli þegar hann var tilkynntur. Maður lifandi hvað ég er feginn að þær áhyggjur eru svo gott sem horfnar. Nú er bara formsatriði að klára okkar ástkæra Rafael og Co og þá er þetta done deal.
Það voru þrír hlutir sem stóðu uppúr í kvöld. Loksins, loksins effing heimasigur, mr. MBE og síðast en ekki síst… frammistaða Daniel James. Megi hann klæðast appelsínugula vestinu sem lengst. Fínn atvinnumaður, á samt ekki heima á þessu caliberi að mínu mati.
Tómas says
Tígulmiðja meikar svo mikinn sens fyrri þennan hóp. Þarna er Pogba mögulega í sinni bestu stöðu. Leikum með tvo framherja en ekki target mann sem hentar mjög vel, þar sem við erum meira og minna með framhera en ekki targetmenn. Svona styður miðjan vel við vörnina.
Veit að þetta er bara einn leikur, en hljótum að sjá meira af tígulmiðju og ég er bjartsýnn á að hún muni eiga þátt í að ná því besta úr þessum hópi.
Karl Garðars says
Fred var alveg hreint geggjaður í þessum leik og vörnin hélt.
Ég sárvorkenndi vörninni hjá RBL undir lokin þegar Cavani var kominn inn og Tony + Marcus gengu af göflunum.
Planið og skiptingarnar virkuðu vel hjá Ole og co en fyrst og fremst myndi ég vilja sjá þessa grimmd hjá öllum alla daga, þá eru okkur allir vegir færir.
Annað mál: fannst VAR ekki beint í takti við það sem við höfum séð í vetur en að mínu mati var þetta allt rétt dæmt.
Greenwood ekki rangstæður. Ekki hendi/víti á manngreyið hjá RBL og Rashford á eigin vallarhelmingi.
Audunn says
Frábær leikur hjá okkar mönnum og eins og komið hefur fram þá var Fred virkilega góður.
Meira svona ALLIR þá getur United gert flotta hluti á þessu tímabili.
Maður spyr sig oft afhverju þetta lið getur ekki spilað svona oftar, hvað það er sem þarf til þess?
Náum við ekki að peppa okkar menn nægilega í þessa „minni“ leiki eða hvað veldur?
Ef United myndi spila svona reglulega þá væri þetta lið á betri stað en það er í dag.
Ég vona líka að Ole Gunnar nái nú að rótera mannskappnum rétt og gleymi mönnum eins og James sem þarf ekkert að vara í þessu liði.
Það bara herslumuninn, 2-3 gæðakaup í viðbót á miðverði, vængmanni og DMC manni og þetta lið gæti oðrið svaðalegt.
Ég held að við séum á réttri braut, en það er nú bara því miður þannig með Ole Gunnar að hann er svona haltu mér slepptu mér dæmi, stundum er maður mjög pirraður á honum og svo koma dagar og úrslit eins og þessi og allir happy.
Það væri óskandi að okkar menn myndu nú ná alvöru stöðuleika og kæmust á alvöru run aftur sem allra fyrst.
Cantona no 7 says
Snilld.
G G M U