Á morgun skella okkar menn sér í rútuferð yfir til Liverpool og spila við Everton á Goodison Park. Aðeins tveimur og hálfum sólarhring eftir afhroðið í Istanbul og langt ferðalag. Þar þurfa okkar menn að hysja upp um sig og sýna hvað í þeim býr og ná í sigur ef ekki á að sturta ný höfnu tímabili í úrvalsdeildinni algjörlega niður. Fimtánda sæti og sjö stig eftir sex spilaða leiki er langt frá því að vera ásættanlegt. Það verður hinsvegar við ramman reip að draga þar sem bláliðar í Guttagarði hafa staðið sig mjög vel í byrjun tímabilsins en fatast flugið þó í síðustu leikjum. Carlo Ancelotti fékk að rífa upp veskið í sumar og setja en meira sitt handbragð á liðið sem virðist hafa gengið upp með fínum árangri það sem af er. Ekki hefur gengið vel gegn Everton síðustu þrjú skipti sem við höfum mætt þeim, tvö 1-1 jafntefli og svo 4-0 rasskelling. Ole þarf að ná í þrjú stig og fá góða framviðstöðu frá leikmönnum sínum. Ef ekki, þá mun orðrómur um brottrekstur verða en hærri heldur en nú er.
Everton
Everton hóf tímabilið af hrikalegum krafti og eftir fyrstu fjórar umferðirnar með fullt hús stiga og markatöluna 12-5. Voru sumir sérfræðingar byrjaðir að ræða mögulegt Leicester ævintýri. En í síðustu þrem leikjum hefur einungis fengist eitt stig. Sitthvor útileikurinn gegn Newcastle og Southampton töpuðust og svo jafntefli á heimavelli í nágrannaslagnum við Liverpool sem hefði hæglega getað tapast. Sá leikur var smá vendipunktur hjá Everton fyrir leikina sem fylgdu á eftir. Í þeim leik var Richarlison rekinn út af og fékk þriggja leikja bann, fyrirliðinn Seamus Coleman meiddist ásamt nýju súper stjörnunni James Rodriguez og enski landsliðs markvörðurinn Jordan Pickford kom út úr þeim leik með möl brotið sjálfstraust. Það eru þó mörg góð teikn á lofti í Everton liði Ancelotti sem skal heldur betur varast í hádeginu á morgun.
Storm senterinn Dominic Calvert-Lewin hefur skorað 8 af 15 mörkum Everton í deildinni og er orðinn einn af bestu klárurum í deildinni. Hann er orðinn algjör refur í markteig andstæðingana eftir komu Ancelotti til Everton sem virðist hafa mætt með töfraseyði handa pilti, svo ótrúleg hefur fram þróunn hans verið. Everton hefur spilað 4-3-3 leikkerfið á tímabilinu með Richarlison og Rodríguez á köntunum og svo André Gomes eða Gylfa með brimbrjótunum tveimur sem komu í sumar, Allan og Abdoulaye Docouré á miðjuni. Búast má við að Gylfi verði í byrjunarliðinu ásamt brimbrjótunum tveimur þar sem Gomes fór meiddur af velli í síðasta leik eftir að hafa sparkað niður framherja Newcastle í eigin vítateig og fékk á sig víti fyrir vikið. Ekki eru það góðar fréttir fyrir United þar sem Gylfi hefur að öllu jafnan verið besti maður vallarins í leikjum hans gegn United undanfarinn ár. Þeir Yerry Mina og fyrrum United maðurinn Michael Keane munu sennilega standa vaktina í miðri vörn Everton. Samannlagt hafa þeir skorað 3 mörk á tímabilinu enda Everton skorað flest mörk á tímabilinu úr föstum leikatriðum í deildinni, þ.e.a.s. sjö mörk og aðeins eitt úr víti. Enda með mjög góða skalla- og spyrnu menn í sínu liði. Lucas Digne er ein af þeim spyrnu mönnum en hann mun að öllum líkindum spila eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik.
Það eru raunar þrjú spurningamerki yfir þær 11 leikstöður sem þarf að fylla hjá Everton fyrir leikinn. Mun Coleman vera heill heilsu og getað spilað? Hver tekur stöðu Richarlison á vinstri kanti Everton? Svo loks, mun Jordan “litli” Pickford standa á milli stangana? Robin Olsen lánsmaður frá AS Roma stóð á milli stangana í síðasta leik gegn Newcastle og stóð sig þokkalega þrátt fyrir að fá á sig tvö mörk sem hann hefði lítið getað gert í. Ancelotti bar það fyrir sig í viðtölum eftir þann leik að hann væri að hvíla Pickford, sem má telja undarlegt enda ungur markvörður og aðeins 7 leikir búnir í úrvalsdeildinni. Líklegast má telja að hann sé ansi óstabíll andlega eftir ýmsar hótanir og önnur illindi eftir fólskulega tæklingu sína á Virgil van Dijk gegn Liverpool. Fréttamiðlar hafa verið að segja frá nýráðnum lífvörðum sem vakta heimili hans og fylgja honum og spússu í hvert fótmál ef haldið er út fyrir hússins dyr. Hann mun þó sennilega byrja í marki heimamanna.
Líklegt byrjunarlið:
Everton hefur næst bestu heimaleikja tölfræðina á tímabilinu og hafa ekki tapað leik á heimavelli. Einnig hafa þeir ekki tapað í 14 af síðustu 15 leikjum á heimavelli. Það verður því áhugavert að sjá hvort United geti skemmt þá tölfræði, sem að einhverju leyti má teljast ólíklegt miðað við gengi okkar manna.
Manchester United
Á mánudaginn í þættinum Monday Night Football var aðal gestur þáttarins Mauricio Pochettino. Þar gaf hann það til kynna að hann væri meira en klár að byrja að stýra liðum í boltanum aftur eftir eins árs fjarveru og þá helst í ensku úrvalsdeildinni. Þessar yfirlýsingar er eitthvað sem Ole Gunnar hefði helst viljað vera laus við þegar leið á vikuna. Andlaus og á köflum barnaleg framviðstaða gegn İstanbul Başakşehir í miðri viku er það sem hefur sett sætis hitann hjá Ole Gunnari nánast í botn. Ekki bætir ofan á það að Sky gefur út frétt um að Ole Gunnar nýtur fulls traust stjórnar United sem vonandi endar ekki í opinberri stuðningsyfirlýsingu fyrir Ole Gunnar. Þær yfirlýsingar eru yfirleitt banabit stjóra í grimmum heimi knattspyrnunar. Miðað við þetta allt hafa margir sett það fram að mögulega sé þetta úrslitaleikur fyrir Ole Gunnar um það hvort hann haldi starfinu og stýri liðinu áfram. Það hjálpar heldur ekki að önnur landsleikjapása hefst eftir þessa helgi sem hefur oft verið nýtt í breytingar hjá ýmsum knattspyrnuliðum.
Hinsvegar ef margir af leikmönnum United væru í eins óöruggu starfi og þjálfari liðsins þá væru margir hverjir horfnir á braut eftir lélegar framviðstöður á tímabilinu. Það er hinsvegar ekki jafn auðvelt að skipta um leikmenn og stjóra og því munu all flestir þurfa að rífa sig upp af rasshárunum og sýna hvað í þeim býr.
Victor Lindelöf var tæpur í baki í miðri viku en ætti að vera klár í leikinn og vera við hlið Maguire í vörnini. Shaw heldur sennilega sæti sínu þrátt fyrir mjög daprar framviðstöður í síðustu leikjum. Ákvarðast það eingöngu að Alex Telles er ekki búinn að geta verið með liðinu eftir að hafa greinst með Covid-19, en þeim veikindum ættu mögulega að vera lokið hjá honum um helgina. Þá er það stærsta spurningarmerki fyrir leikinn, hverjir verða á miðju United og hvernig verður henni stilt upp? Tígulmiðjan verður vonandi úr söguni þar sem liðið býr því miður ekki yfir nægilega öflugum bakvörðum sóknarlega sem myndu fylla upp í kant stöðurnar þegar liðið sækir. Það verða þá sennilega tveir djúpir með Bruno Fernandes fyrir framan sig. Líklegast þykir að Fred og McTominay byrji. Matic er ekki klár að spila tvo leiki á svo stuttum tíma, Donny van de Beek fær líklegast ekki traustið og svo hefur Pogba spilað sig úr liðinu að sinni. Martial kemur aftur úr banni og kemur inn í liðið. Ég ætla að spá því að Ole Gunnar brjóti upp fremstu þrjá með því að setja Cavani fremstan með Rashford og Martial í kring og Greenwood á bekkinn.
Líklegt byrjunarlið:
Leikurinn á morgun hefst kl. 12:30 og verður Paul Tierney með flautuna.
gummi says
Þetta fer 3 _ 0 fyrir Everton og vonandi síðasti leikur Solskjær og þetta þjálfara pakk sem er með honum í þessari skitu
Halldór Marteins says
Mér finnst nú að Mike Phelan, Michael Carrick og Kieran McKenna hafi gert nóg fyrir félagið til að þeir séu ekki kallaðir pakk. Alveg burtséð frá því hvort þeir séu í nógu góðu þjálfarateymi fyrir liðið núna eða ekki.
Helgi P says
Ef við förum ekki að fá inn alvöru stjóra og þjálfara með honum þá endum við bara sem stoke eða eitthvað annað miðlungslið
Jonas says
Sælir, er LFC maður.
MU er í besta falli miðlungslið. Félagið er rekið eins og peningamaskína fyrir eigendur. Allir þjálfarar að OGS meðtöldum hafa verið undir hæl manns sem vitað er að hefur takmarkaða þekkingu, þeir hafa ekki fengið þá leikmenn sem þeir sjá að passi að sínu spili, allir. Það kaupir engin núðlur þegar búa á til spahettirétt, og sérstaklega ekki instant núðlur. Svo hafa nú prímadonnurnar ykkar ekki alveg bætt andann innan liðsins. Hvernig á hvaða þálfari sem er að geta unnið vinnuna sína undir slíkum kringunstæðum, ok hann getur hirt sínar 15-20 miljónir punda á ári, og fyrir ekki neitt verði hann rekinn.