Liðið kom ekki á óvart, Paul Pogba eitthvað lítilega meiddur og Mason Greenwood hafði fengið frí frá æfingum og var ekki tilbúinn
varamenn: Henderson, Tuanzebe, Williams, James, McTominay, Van de Beek, Cavani
Lið West Bromwich Albion
Það var frekar róleg byrjun á leiknum, United náði ekki tökum á leiknum og West Bromwich leyfði sér að spila og halda boltanum. En smátt og smátt varð United meira sannfærandi og á 16. mínútu kom fyrsta góða færið, flottur samleikur og Martial fékk skotfæri á auðum sjó beint fyrir framan markið en Sam Johnsone varði vel, en skotið var ekki nógu langt fráhonum, Martial hefði mátt gera betur. En United náði ekki að byggja á þessu og skapaði ekkert lengi vel, Martial fór niður í teignum þegar hann fann smá peysutog en það var ekki neitt og réttilega ekkert dæmt.
Þetta var alveg agalega andlaust og óspennandi eitthvað og hefði verið alveg eftir því ef skalli Bartley eftir horn hefði farið inn en ekki ofan á stöngina og ekki síst fyrir það að hann vissi mest lítið af því, sneri baki í mark í átökum við Maguire og fékk boltann í hnakkann.
Engar breytingar í hálfleik og það var ekki mínúta liðin þegar dæmt var víti á Bruno Fernandes fyrir að fara í Gallacher. En VARsjáin er til og dómarinn leit á þetta og sá að Bruno fór í boltann og varla í manninn og dró dóminn til baka, hárrétt.
Hinu megin kom svo Sam Johnstone aftur við sögu, þetta skiptið varði hann skot Rashford ágætt skot en líklega á leiðina í stöngina.
Svo kom besta færi leiksins fram að þessu, West Brom sótti og boltinn kom á fjær markteigshornið. Townsend lagði boltann fyrir sig og skaut en De Gea varði frábærlega
Og hasarinn hélt áfram því núna var dæmd vítaspyrna á West Bromwich, Juan Mata reyndi fyrirgjöf, Furlong snéri hliðinni að Mata en framhandleggurinn stóð út og stoppaði boltann og í þetta skiptið bjargaði VAR ekki.
Bruno Fernandes tók vítið sem var frekar slakt og Johnstone varði en var kominn langt fram af línunni og vítið var endurtekið, í það skiptið skoraði Fernandes örugglega (þó að Johnstone væri aftur kominn af línunni). 1-0 á 57. mínútu.
Viðburðaríkar mínútur þarna og United loksins komið yfir og leikurinn róaðist aðeins. Fyrsta skiptingin hjá United kom svo á 63. mínútu, Juan Mata fór útaf og Edinson Cavani kom inná.
En það var varamaður WBA, Hal Robson-Kanu átti þetta líka fína skot frá vítateigshorni sem small í þverslánni.
Núna var þetta loksins orðinn hasar, frábær sókn United fylgdi og endaði á að Rashford fékk skot af markteig en Sam Johnstone varði frábærlega. Hann sá greinilega upphitunina hjá mér í gær þar sem ég nefndi hann ekki á nafn þó hann væri fyrrum United maður og það hefur kveikt almennilega í honum.
Hann varði síðan enn frá Maguire, ekki erfiðasta varslan en góð. United voru nú orðnir betra liðið, voru nálægt því að skapa færi en tókst ekki. Donny van de Beek fékk loksins tækifæri þegar hann kom inná fyrir Marcus Rashford og United var farið að sækja meira. Síðasta skiptingin kom rétt þar á eftir, Fred fór útaf fyrir McTominay og United sótti meira síðasta kortérið en uppskar afskaplega lítið.
En sigurinn hafðist og það var afskaplega lítið annað til að gleðja okkur. Vissulega átti Sam Johnstone leik lífs síns, en spil United var afskaplega langt frá því að vera sannfærandi. Það er erfitt að nefna eitt frekar en annað en að byrja með tvo varnarsinnaða miðjumenn er ekki það upplegg sem stuðningsmenn hefðu viljað sjá.
Næsti leikur er á þriðjudaginn gegn İstanbul Başakşehir, leikur sem verður að vinnast, til þess þarf betri frammistöðu en í kvöld.
Hilmar V says
Er Van De beek ekki betri kostur en mata alveg hættur að skilja Solkjær
Bjarni Ellertsson says
Erum ekki tilbúnir andlega né líkamlega í þetta stríð. Menn eru þó að reyna en ekkert gengur. Lítur út fyrir steindautt jafntefli nema Cavani og Beek komi inn fyrir Mata og Matic strax í hálfleik. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og við erum ekki að vinna nóg fyrir kaupinu. Hreyfing og ógnandi hlaup án bolta væri líka vel þegin.
Turninn Pallister says
Finnst þetta nú ekki hafa verið alslæmt, Chelsea fékk 3 mörk á sig á móti WBA svo þeir geta alveg verið hættulegir. Ef Martial hefði nú bara nýtt þetta dauðafæri sem hann fékk (færi sem Cavani hefði alla daga klárað), þá væri nú sennilegast aðeins léttara yfir okkur. Tek undir það hjá mönnum að það sé skrítið að Beek hafi ekki fengið traustið til að byrja þennan leik. Hann virðist vera akkúrat gæjinn til að sprengja svona varnir með sniðugum sendingum og hlaupum.
Turninn Pallister says
Úbbs… sokkur og sápa takk
Bjarni Ellertsson says
Heppnir heppnir heppnir. Ef menn vakna ekki núna mega þeir hoppa upp í ………. á sér. Auðvitað verða menn að nýta færin í svona leik geta ekki fengið endalausa sénsa.
Bjarni Ellertsson says
Þetta lið getur gert mann gráhærðan ef ég væri ekki nú þegar með skalla.
Scaltastic says
Þakka David Coote og aðstoðarfólki hans fyrir hjálpardekkin í kvöld. Hef ekki verið jafn pirraður eftir leik á þessu tímabili (já Spurs þ.m.t.). Legg til að Rashford, Martial og Matic verði utan hóps á þriðjudaginn, frammistaða þeirra mætti í besta falli flokka undir lýsingarorð sem sæma ekki þessari síðu.
Ole getur vel sýnt þeim virðingu en þeir þurfa að líta í eigin barm og gera sér grein fyrir því að frammistaða þeirra var ekki boðleg.
Sérstaklega hefur attidude-ið hjá Martial ollið mér vonbrigðum. Það lenda allir framherjar í markaþurrð en hann verður latari með hverjum leik. Kominn tími á að hann rífi sig upp, við þurfum á honum að halda.
Bjarni Ellertsson says
Sammála, margir þurfa núna strax að rífa sig í gang. Það er eins og það sé kvöð að spila fótbolta. Sigurinn var samt kærkominn, reyni samt að gleyma þessum leik sem fyrst. Held í vonina að ég fái góða afmælisgjöf frá liðinu á þriðjudaginn.
GGMU
MSD says
Tveir varnarsinnaðir miðjumenn á heimavelli gegn WBA? Erum við enn bara í þeim pakkanum? Ég myndi skilja þetta ef við værum að mæta stóru liðunum en come on! Við eigum ekki að þurfa að starta tveimur sópurum gegn WBA til að vernda varnarlínuna.
Menn verða líka að vera meira clinical fyrir framan markið. Bæði Rashford og Martial klúðruðu algjörum dauðafærum á ansi kæruleysislegan hátt.
En jákvæður punktur, erum komnir fyrir ofan Man City í töflunni eftir jafn marga leiki spilaða. Hvenær gerðist það síðast?
Karl+Garðars says
Þetta var alls ekki fallegt og hefði allt eins getað dottið í jafntefli eða tap með smá óheppni en við tökum fagnandi við 3 prikum og loksins sigri á heimavelli í deild.
Ég skil að þeir hafi stillt upp passívt og ekki viljað fá mark í smettið en það tjóar ekki að hafa sterka miðju og gaura sem geta spilað upp ef það er enginn til að klára sóknirnar hvort sem það er síðasta sendingin eða slúttið.
Þetta lið er samansuða af bulli, sem svo skýrist af stefnu-, reynslu- og botnlausu þekkingarleysi þeirra sem stýra skútunni og eiga útgerðina.
Enn vantar alla grimmd og ákefð í flesta leikmenn og það skín í gegn á allri líkamstjáningu og atferli þeirra að fæstir eru að berjast fyrir merkið. Mögulega skrifast það á leti og metnaðarleysi leikmanna en ég hallast alltaf meira og meira að skorti á þjálfun og mótiveringu frá þjálfurum ofan á fótboltaheimsku eigenda ef þá ekki öllu ofantöldu. Liðið er í grunninn of mörg stór nöfn á of háum launum sem hafa komist upp með metnaðaleysi of lengi til að einhverjir, ef svo má að orði komast, “reynslulitlir” þjálfarar geti nokkuð breytt því.
Sér í lagi þegar það er einsýnt að hvorki stjórn né eigendur bakki þá upp þegar illa árar og gera svo illt verra með að vera aðal ákvörðunaraðilar í sérhæfðum fótboltamálum bæði illa lesnir og vitlausir.
Vill einhver tala um Mourinho og Tottenham núna?
Ég var ánægður með innkomu Telles og Cavani. Fred er alltaf að reyna og DDG átti sjúklega vörslu í dauðafæri WBA. Lindelof og Mcflurry komust skammlaust frá þessu núna en það mátti samt aldrei miklu muna. Ég hugsaði með mér: þegar það fer um mann þá Hal Robson Kanu kemur inn á þá er ekki allt í lagi varnarlega séð.
Aðrir leikmenn fannst mér kærulausir þ.á.m Bruno á köflum og ég ætla að vona að einhver sé búinn að giffa Matic þegar hann missti boltann, sótti boltann aftur og varð svo rafmagnslaus á leiðinni upp völlinn. Ég alla vega grenjaði úr hlátri þar til ég áttaði mig á því að þetta súmmerar ágætlega upp ástandið á Matic, Mata og klúbbnum heilt yfir.
Tómas says
Er að gefast upp á Martial. Vill sjá Cavani spila frammi. Komin tími til bekkja fúla frakkann.
Það jákvæða úr leiknum var líklega Telles, fannst hann leika vel og Cavani var að taka hlaup þegar hann kom inn á.