Annað kvöld tekur Manchester United á móti Paris Saint-Germain í næstsíðustu umferð H-riðils í Meistaradeildinni. Leikurinn fer fram á Old Trafford en riðillinn er bæði opinn og áhugaverður fyrir hlutlausa þar sem Man United, PSG og RB Leipzig geta öll unnið riðilinn eða setið eftir og lent í Evrópudeildinni. Það yrði eflaust saga til næsta bæjar ef Thomas Tuchel endaði með Kylian Mbappé og Neymar í Evrópudeildinni en til þess þarf þó ýmislegt að gerast.
Fyrir leikinn stendur United vel að vígi, í raun best allra þessara liða en liðið hefur unnið þrjá leiki og tapað einum og situr því á toppnum með 9 stig og +8 í markatölu fyrir leikinn og dugar í raun 1 stig úr síðustu tveimur leikjunum. Hins vegar er það viðureign við RB Leipzig annars vegar, en þýska liðið endaði á toppi síns riðils í fyrra og sló út Tottenham og Atlético Madrid í útsláttarkeppninni og virkuðu gríðarlega vel skipulagðir. Hins vegar er það leikur við PSG, eins og áður sagði, en frönsku meistararnir fóru alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og slógu meðal annars út RB Leipzig í undanúrslitunum og hafa einnig verið í fastri áskrift að franska titlinum undanfarið. Það verður þó ekki hlaupið að því að taka stig af þessum liðum.
.
Paris Saint-Germain
Parísarliðið hefur verið nær ósigrandi heima fyrir og hefur unnið 7 af síðustu 8 deildartitlum og virðist vera nær einvaldur í Frakklandi, ekki ósvipað Bayern Munich í Þýskalandi, þegar kemur að titlum. Liðinu hefur þó gengið brösuglega í Meistaradeildinni og voru t.a.m. slegnir út af United fyrir tveimur árum síðan á heimavelli. Eflaust er sá leikur og síðasta viðureign liðanna í París núna fyrr á leiktíðinni, enn í fersku minni þeirra svo búast má við vel hungruðu PSG liði á morgun.
Þeir hafa þó verið að misstíga sig undanfarið, þeir misstu til að mynda niður tveggja marka forystu gegn Mónakó og töpuðu á endanum 3-2 og í næsta deildarleik á eftir gerðu þeir jafntefli á heimavelli við Bordeaux sem er á neðri hluta töflunnar. Parísarliðið er þó enn á toppnum og þótt þeir hafi hökt á undanförnum vikum er ekki lengra síðan en svo að 23. ágúst voru þeir að spila við Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Þangað kemst ekkert lið á einskærri heppni enda hefur Tuchel yfir litlu að kvarta þegar kemur að úrvali leikmanna og fjárhagslegum stuðning. Reyndar skal hafa það hugfast að Covid-19 kom mjög illa niður á liðum í frönsku deildinni og fóru PSG sér hægt á leikmannamarkaðinum en í sumar komu þeir Florenzi, Moise Kean og Danilo Pereira allir á láni auk þess sem liðið fjárfesti í Mauro Icardi sem hafði verið á láni hjá félaginu.
Tuchel tók við liðinu árið 2018 en hann tók við liðinu eftir að Unai Emery fór til Arsenal eins og frægt er orðið. Tuchel hefur mikið notast við 4-3-3, leikkerfi sem hann taldi ná því besta út úr sóknarþríeykinu sínu, Kylian Mbappé, Neymar og Edinson Cavani. Nú er hins vegar Cavani að spila gegn honum og í hans stað er kominn Angel Di María sem reyndar spilað fyrir okkur á tímum Louis van Gaal. En nú er öldin önnur og framlína PSG leidd af Mbappé með þann brasilíska og þann argentínska sér við hlið, hreint út sagt ógnvænlegt tríó fyrir flestar varnarlínur. Það kom hins vegar ekki að sök í fyrri viðureigninni þar sem Aaron Wan-Bissaka og Axel Tuanzebe spörsluðu upp í allar sprungur á varnarleik United og sókn franska liðsins virkaði bitlaus og skelkuð.
Undir stjórn Tuchel hefur Parísarliðið unnið þrjá af hverjum fjórum leikjum og virðist liðið vera tilbúið til að stíga næsta skref, sem er að klára Meistaradeildina. PSG verða þó án nokkurra leikmanna, t.d. verður Mauro Icardi ekki með og Pablo Sarabia verður einnig fjarri góðu gamni. Julian Draxler og Thilo Kehrer eru að ná sér eftir meiðsli en það sama verður ekki sagt um Juan Bernat sem er frá þangað til í vor. Aðrir leikmenn liðsins ættu að vera nokkurn veginn tilbúnir í slaginn. Það má því búast við hörkuliði sem mætir á völlinn annað kvöld, ég spái því að Tuchel hendi í klassíska 4-3-3 og liðið verði á þessa leið:
Manchester United
Hvar er hægt að byrja? Þessi leiktíð hefur sýnt það besta og á sama tíma það versta sem þessi hópur leikmanna hefur upp á að bjóða. Skelfilegt gengi á heimavell með niðurlægjandi tapleikjum í bland við stórkostleg Meistaradeildarkvöld og ótrúlegar endurkomur gegn t.d. Southampton og Brighton. Ef líkja á gengi liðsins við nokkuð þá væri það tilfinningalegur rússíbani með samsetningar- og framleiðslugöllum sem skilar þér þó heim í heilu lagi, líkamlega. Óásættanleg úrslit rífa upp andleg sár en síðan er lagður tímabundinn plástur á það sár með 5-0 sigri á (þá) efsta liðinu í þýsku Bundesligunni. Heilt yfir hefur þó árangur liðsins haft ákveðinn stíganda undanfarnar vikur og sem stendur situr liðið á toppi síns riðils í Meistaradeildinni og einungis þremur stigum frá 3. sæti deildarinnar og á inni leik á öll liðin fyrir ofan sig.
Þótt gengið á heimvelli í deildinni hafi verið afleitt það sem af er tímabilinu hafa United þó verið ansi sterkir í Evrópuleikjum sínum og eru með 24-2 í markatölu úr síðustu sjö viðureignum sínum á Old Trafford en vissulega voru nokkrir af þeim leikjum í Evrópudeildinni. Í síðustu viðureign liðanna á þessum velli tapaði United 0-2 þar sem Di María var allt í öllu fyrir gestina og fagnaði innilega eftir óblíðar móttökur áhorfenda. Það verða þó engir áhorfendur núna á morgun og líklegast ekki í bráð hjá Manchester en það gæti reynst liðinu dýrkeypt í leik sem þessum. PSG þarf nauðsynlega á öllum þremur stigunum að halda þar sem RB Leipzig á leik við Istanbul Basaksehir á sama tíma og ef Parísarliðinu mistekst að fara með sigur af hólmi þá er United komið áfram og getur því leyft sér að „slaka á“ í síðasta leiknum sem verður út í Þýskalandi gegn RasenBallsport Leipzig.
Því miður fyrir okkar menn þá verður enginn Axel Tuanzebe í leiknum þar sem hann tekur út leikbann. Alex Telles varð fyrir einhverjum minniháttar meiðslum og var tekinn útaf gegn Southampton en líklegast er bara um tognun að ræða, nokkuð sem hann ætti að hrista fljótt af sér. Það sama má segja um David de Gea sem meiddist í síðara marki Southampton og þurfti að fara útaf í hálfleik og eins með Donny van de Beek sem loksins fékk byrjunarliðsleik en ökklinn á honum er stökkbólginn. Anthony Martial missti af leiknum gegn Southampton vegna veikinda en hann veiktist kvöldið fyrir leik og verður líklega ekki með á morgun heldur. Aðrir á meiðslalistanum okkar eru þeir Paul Pogba, Scott McTominay og meiðslakóngurinn Phil Jones. Ole Gunnar Solskjær verður því eflaust að breyta liðinu sínu af illri nauðsyn fyrir komandi átök.
Ef allir væru heilir og enginn í leikbanni væri líklegast að hann stillti upp í 3-5-2 eða 3-4-1-2 sem hefur gefist vel gegn stóru liðunum og þá með Tuanzebe eða Luke Shaw í miðverðinum með Lindelöf og Maguire líklegast. Það er þó ekki að fara að gerast og neyðist því Solskjær til að spila 4-2-3-1 með tvo djúpa miðjumenn, líklegast þá Fred og Matic. Annars tel ég að liðið verði á þessa leið en Solskjær gæti þó bryddað upp á einhverju sem við höfum ekki séð áður frá honum:
Þessi leikur verður alltaf spurning um hugarfar leikmanna. Liðinu hefur verið stillt upp við vegg með þessari áskorun og takmörkunum í liðsuppstillingu auk þess að „þurfa bara eitt stig“ í síðustu 2 leikjunum en það væri alveg eftir bókinni ef United myndi glutra niður þessu frábæra tækifæri sem liðið hefur á því að komast í 16 liða úrslitin. Það mun mikið mæða á öftustu mönnum liðsins og þrátt fyrir að United fari með ágætis veganesti inn í leikinn eftir að hafa unnið síðustu 4 leiki sína. En takist liðinu ekki að ná jafntefli eða fara með sigur af hólmi þá getur farið svo að leikurinn gegn RB Leipzig verður úrslitaleikur um það hvort liðið fer upp nema svo ólíklega vill til að Istanbul Basaksehir taki stig frá Frakklandi.
Leikurinn hefst kl 20:00.
Snorkur says
Daginn.
Ekki frá því að maður sé svolítið spenntur. Drengirnir virðast oftar en ekki ná að peppa sig betur í gang í stóruleikjunum. Byrja þá leiki af krafti.