Manchester United vann 6-2 stórsigur á erkifjendunum í Leeds United. Ekki amalegt það!
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United:
Leeds United:
Leikurinn byrjaði frábærlega fyrir okkar menn þegar Bruno Fernandes lagði boltann fyrir töfrafætur Scott McTominay sem hamraði boltann í bláhornið framhjá Meslier. 1-0 og 2 mínútur liðnar!
Það leið heil mínúta áður en greyið Meslier þurfti að tína boltann úr netinu og aftur var það McTominay. Í þetta skiptið kom hann á ferðinni í gegnum miðjuna, tók listavel á móti sendingu Anthony Martial og renndi boltanum rólega í fjærhornið. 2-0 og við í draumalandi. Eftir seinna mark McTominay gafst Leeds tími til að ná örlítilli fótfestu í leiknum en það var ljóst að rauða liðið ætlaði að refsa fyrir hver einustu mistök þeirra hvítklæddu.
Leeds fékk þó tækifæri til að komast aftur inn í leikinn þegar að Patrick Bamford slapp í gegn en blessunarlega hentaði vinkillinn ekki sterkari fæti Bamford og hann setti boltann víðsfjarri markinu. Leikurinn var ákaflega hraður og Leeds hvergi af baki dottnir. Maður hafði þó alltaf á tilfinningunni að United myndi ekki staldra við tvö mörk. Það varð svo raunin þegar að Bruno Fernandes batt endahnútinn á stórkostlega skyndisókn Manchester United. 3-0 eftir 20 mínútur!
Eftir þriðja mark okkar manna náði Leeds meiri fótfestu á boltanum og náðu að festa United liðið dýpra á vellinum, án þess þó að skapa sér mikið. Það byrjuðu að hringja varúðarbjöllur þegar við fengum á okkur horn eftir horn. Það voru þó ekki gestirnir sem skoruðu eftir hornspyrnu, heldur Manchester United. Nánar tiltekið var það sænski miðvörðurinn Victor Lindelöf. Hann tók snjallt hlaup á fjærstöngina og rak boltann yfir línuna eftir að Anthony Martial hafði skallað boltann áleiðis. 4-0 – leik lokið á 37. mínútu?
Leeds höfðu aðrar hugmyndir og tæpum fimm mínútum seinna hafði Liam Cooper skallað hornspyrnu Raphinha í bláhornið og minnkað muninn í 4-1. Enn eitt markið sem við fáum á okkur eftir fast leikatriði! Stuttu síðar flautaði Anthony Taylor til loka fyrri hálfleiks og fjörinu langt því frá lokið.
Marcelo Bielsa gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik þegar hann skipti Kalvin Phillips og Mateusz Klich útaf fyrir Pascal Struijk og Jamie Shackleton. Það virtist litlu ætla að skila þar sem að Anthony Martial hafði komið sér í dauðafæri á 47. mínútu en markaskórnir hans eru enn sem komið er týndir. Það var svo þremur mínútum seinna sem að David de Gea varði stórkostlega frá Raphinha þegar Brasilíumaðurinn fékk gott færi á fjærstönginni.
Næsta korterið var sennilega daufasti kaflinn í þessum bráðfjöruga leik, en Leeds liðið var þó meira með boltann án þess þó að skapa sér nokkuð hættulegt. Solskjær skipti þá Alex Telles inn fyrir Luke Shaw á 60. mínútu. Raphinha átti ágætis tilraun fyrir utan teig United en de Gea sá boltann allan tímann og varði í horn.
Það var svo á 66. mínútu sem að Daniel James slökkti í öllum vonum Leeds um endurkomu þegar hann setti boltann glæsilega í gegnum klof Meslier eftir frábæran undirbúning markavélarinnar Scott McTominay. 5-1. Djöfull er gaman að vinna Leeds aftur! Fjórum mínútum síðar braut Pascal Struijk klaufalega á Martial innan vítateigs og Taylor gaf sér smá tíma til umhugsunar áður en hann benti á punktinn. Þar gerði hinn óviðjafnanlegi Bruno Fernandes engin mistök og setti sorgmæddan Meslier í rangt horn. 6-1. 6-1. SEX-EITT!
Edinson Cavani og Donny van de Beek komu inn á 71. mínútu fyrir Bruno Fernandes og Marcus Rashford, sem báðir spiluðu frábærlega. Rashford lék sér oft að varnarmönnum Leeds og var óheppinn að skora ekki í leiknum. Tveimur mínútum eftir innkomu Cavani og van de Beek skoraði Stuart Dallas glæsilegt mark og minnkaði muninn í 6-2.
Síðustu mínútur leiksins voru fáránlegar. Okkar menn hefðu hæglega getað bætt við 5-6 mörkum og Leeds sennilega skorað 1-2 til viðbótar sjálfir. Cavani, Fred, Daniel James og Alex Telles komust allir í góð færi – sumir oftar en einu sinni! Jack Harrison klúðraði á óskiljanlegan hátt hinu megin. Þetta er í raun saga leiksins… sókn, sókn og aftur sókn. Magnaður leikur áhorfs og dásamlegt að sjá liðið skora helling af mörkum og extra sætt að sjá það á Old Trafford! Hægt er að tilnefna marga sem mann leiksins í dag en mitt atkvæði hlýtur Scott McTominay. Hann var allsstaðar, skilaði boltanum vel frá sér, braut upp sóknir og valdi sjálfur rétt augnablik til að sækja.
Anthony Taylor flautaði svo til leiksloka og Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar hans gátu brosað breitt. Manchester United fer í heimsókn á Goodison Park og spilar gegn Everton í Deildarbikarnum, á miðvikudaginn næsta. Kjörið tækifæri fyrir Solskjær til að hvíla lykilmenn og gefa minni spámönnum sénsinn. Mögulega gætum við fengið að sjá Facundo Pellistri spila fyrir aðalliðið í fyrsta sinn. Áfram Manchester United!
Hilmar V says
Er Solskjær að reyna eyðilegja feril Van de Beek að trysta james í staðinn fyrir Van de Beek er brandari
Olafur Karl Olafsson says
Slappadu af, VDB fær sinn séns, mér finnst tetta gód uppstilling, tad eru mjøg margir leikir á mjøg stuttum tíma,
Hilmar V says
Ég efast um að þú segir að þetta hafi verið góð uppstilling eftir leik þetta gæti orðið stórt tap hjá okkur í dag
Olafir Karl says
Jep Hilmar, horfu nu å leikinn fyrst? Og svo geturdu vælt eins og tu villt, tad er ekki svo langt til liverpool
Turninn Pallister says
Úff þessi leikur er rosalegur, hef ekki oft horft á leiki þar sem mér finnst að 4 mörk í fyrri hálfleik dugi ekki til sigurs. Sótt endanna á milli og hreinlega ótrúlegt að enn sé 3 marka munur. Hvað sem gerist þá er þetta frábær leikur!
Golli Giss says
Já nú er gaman, la la la lalaala..
Turninn Pallister says
Frábær leikur, hefðum getað skorað 10 mörk í þessum leik. Það er nokkuð ljóst að okkur líður best ef við komumst á undan yfir og getum sótt hratt. Var alveg vitað miðað við það hvernig Leeds lestin sækir í sínum leikjum að við myndum ekki halda hreinu. Martial hefði leikandi getað gert þrennu, en mark og 3 stoðsendingar eru nú ekkert svo slæmt, þannig að ég horfi framhjá því í dag. McTominay geggjaður í dag og vonandi eru þessi meiðsli ekki alvarleg, þar sem við þurfum á breiddinni að halda yfir þessa jólatörn.
Hjöri says
Hilmar V er ekki miklu betra að tjá sig bara etir leik, og kvarta þá yfir hvort uppstillingin var góð eða slæm.
Rúnar+P. says
Geggjað að vinna svona leik, samt enn þá meira geggjað að horfa á leik með yfir 40 marktilraunum.
Turninn Pallister says
Leiðrétti að sjálfsögðu að auðvitað skoraði Martial ekki í þessum leik, ætlaði að skrifa „fiskuð vítaspyrna og 2 stoðsendingar“. Gleymdi mér aðeins í sigurgleðinni 😉
Þorsteinn says
Frábær leikur og vonandi erum við að komast fyrir alvöru í gang, frábært að sjá liðið sækja frá fyrstu og vonandi verður framhald á því. Maður vandist því að liðið byrjaði frekar illa með Alex og væri komið í gírinn þegar jólavertíðin byrjaði – þetta virkar heimilislega og ég vona að það verði rauninn.
Karl Garðars says
Þvílík skemmtun þessi leikur!
Allir að spila grimmt og vel.
Eftir svona fjör þá gæti maður alveg séð sig nýbólusettan og hrikalegan gargandi Heija Úle á Old Trafford áður en 2021 er úti.
En til þess þarf helvíti margt að ganga upp innan vallar sem utan.
Er á meðan er! 👏👏🙌
Cantona no 7 says
Ole
gummi says
Ætli maður verði ekki hrósa Óla kallinum fyrir þennan leik klárlega besti leikur skemmtilegasti leikur sem ég hef horft á United spila síðan Ferguson hætti