Gleðileg jól kæru lesendur!
Hvað er jólalegra en að lesa upphitun fyrir leik á annan í jólum? Ekkert segi ég! Ekkert!
Á morgun fer United til Leicester og með sigri myndi liðið ekki einasta jafna úrvalsdeildar met og vinna ellefta útileikinn í röð heldur einnnig tylla sér í annað sætið, í það minnsta þangað til Everton rassskellir Sheffield United seinni part dags. Það segir samt ýmislegt um deildina að Leicester, liðið í öðru sæti, hefur tapað fimm leikjum af fjórtán í deildinni. Á móti kemur auðvitað að liðið hefur ekki gert eitt einasta jafntefli. Það verður ekki af því dregið að þetta keppnistímabil verður eitt það undarlegasta sem leikið verður. Þéttleiki leikja mun áfram halda að leika lið misgrátt og það er langt í vorið
Leicester var auðvitað ekki í Carabao bikarnum í vikunni og hefur því fengið örlitla hvíld frá hasarnum, en á móti kemur að af venjulegu byrjunarliði United léku bara Bruno Fernandes og Harry Maguire allan leikinn á miðvikudag.
Leicester ætlar að fylgja eftir fræknum sigri á Spurs í síðasta leik og búast má við sama byrjunarliði
Jamie Vardy var tekinn af velli móti Tottenham en verður til í slaginn á morgun. Brendan Rodgers er búinn að vinna mjög vel með þetta Leicester lið og endurnýjunin frá meistaraliðinu hefur gengið vel og auðvitað er Jamie Vardy enn að raða inn mörkum.
Kaspar Pétursson er svo auðvitað í markinu og Jonny Evans (asninn þinn, Louis van Gaal) stendur vaktina í vörninni. Ben Chilwell fór til Chelsea í haust, Timothy Castagne er kominn í staðinn og stendur sig vel, og James Justin er að koma sterkur upp þannig að Ricardo Pereira er ekki saknað of mikið. Miðjumennirnir fimm eru heldur ekkert slor, og það er ekkert gefið að United geti haldið boltanum vel á morgun. Og svo er auðvitað sem fyrr segir, Jamie Vardy.
Þetta verður því erfiður leikur á morgun og prófraun á gott gengi United undanfarið. Of oft á þessu tímabili hefur liðið tekið eitt skref afturábak eftir að hafa tekið tvö fram á við og stuðningsmenn eru frekar pirraðir á stundum. Sigur á morgun mundi gefa okkur verulega gleðileg jól og von um áframhaldandi gott gengi í erfiðum leikjum sem á döfinni eru.
Ég sagði áðan að Maguire og Fernandes hefðu verið einu byrjunarliðsmennirnir sem byrjuðu á miðvikudaginn en það hlýtur að vera augljóst að Edinson Cavani á að byrja á morgun. Tony Martial voru frekar mislagðir fætur í leiknum, ekki í fyrsta skipti. Cavani má reyndar búast við eins leiks banni fyrir ummælin slæmu um daginn, en ég hef ekki séð hvort hálstak hans á Yerri Mina verði tekið fyrir af aganefnd. Ef svo er þá eru það aðrir þrir leikir. Slæmt, þegar þar að kemur.
Ég spái því að þar sem miðja Leicester er í sterkari kantinum þá verði tvær ýtur á miðjunni. Að auki fór Scott McTominay eitthvað meiddur af velli og þó hann verði búinn að ná sér fer hann á bekkinn. Að öðru leyti verður þetta liðið sem hefur verið að standa sig vel á útivöllum. Eric Bailly var góður á miðvikudaginn og komst meiðslalaus frá leiknum sem alltaf telst fréttnæmt en Ole er ekki að fara að breyta aðalvörninni sinni.
Eina spurningarmerkið, og það frekar stórt er hvað á að gera við Paul Pogba. Undanfarið hefur hann verið að spila eins og hann nenni þessu og þá eru fáir betri. Hvað gerist ef hann verður settur á bekkinn á morgun? Spennandi.
Leikurinn á morgun hefst kl 12:30 og vonandi fellur hann vel saman við jólakúluboðin ykkar!
Sveinbjörn says
Skemmtileg lesning og pælingar. Að þvi gefnu að hinn ógnarhraði Vardy spili á morgun getum við tæplega spilað bæði Maguire og Lindelof saman. Þeir eru svo hægir að þeir þyrftu að vera inni í markteignum allan leikinn til að missa ekki Vardy innfyrir. Hef trú á liðinu þessa dagana og sigur vel raunhæfur á morgun. El Matador skorar