Síðasta sunnudag var toppslagur í deildinni þegar Manchester United fór á Anfield. Liðin sættust á eitt stig hvort úr þeim stórslag, sem þýddi auðvitað að okkar menn héldu toppsætinu. Þessa helgina mætast liðin aftur, í þetta sinn í toppslag í enska bikarnum. Elstu og virtustu bikarkeppni heims. Það er töluvert styttra síðan Manchester United vann bikarinn síðast en Liverpool, bæði lið hljóta þó að sjá þessa keppni sem gott tækifæri til að gera þetta tímabil betra með sigri. Ekki síst þegar svona viðureign er í boði strax í fjórðu umferðinni.
Leikurinn fer fram á Old Trafford og hefst klukkan 17:00 á morgun, sunnudaginn 24. janúar. Dómari í þessum risaleik verður Craig Pawson. Sigurvegarinn úr þessum leik mætir svo West Ham eða Doncaster Rovers í 5. umferð 8.-11. febrúar (leikið í miðri viku).
Ég minni á að nýjasti þátturinn af Djöflavarpinu kom út á fimmtudagskvöld. Þið getið hlustað hérna:
Byrjunarliðspælingar
Þetta er bikarleikur, það er leikur í deildinni strax á miðvikudaginn þegar United tekur á móti Sheffield United. Deildin er miklu, miklu mikilvægari keppni. Ekki síst núna þegar Manchester United er í titilbaráttu í fyrsta skipti í alltof langan tíma. Það væri því auðvelt að óska þess að Solskjær myndi bara hvíla ALLA og spila á kjúklingum og rúllunarleikmönnum. En þetta er Liverpool að mæta á Old Trafford. Þetta er keppni sem er líka ágætis séns að vinna. Það að vinna Liverpool getur gefið liðinu heilmikið búst, sömuleiðis að vinna enska bikarinn, hvort sem deildartitill fylgir eða ekki.
Ég held því að Solskjær muni koma með þokkalega sterkt lið. Ég talaði um það í Djöflavarpinu að ég hefði trú á að þetta yrði kannski ekki alveg sterkasta liðið en næstum því. Svona A- lið, frekar en B til B+ lið.
Ég ætla að spá þessu byrjunarliði:
- Hvernig viljið þið sjá liðið? Látið okkur endilega vita í kommentum.
Liverpool hefur verið í basli síðustu leiki (hötum það ekkert) og átt sérstaklega erfitt með að skora fótboltamörk. Bæði Klopp og leikmennirnir hans munu eflaust líta á þennan leik sem tækifæri til að komast aftur á skrið og leggja áherslu á að vinna hann og skora mörk.
Ætla að segja að Liverpool mæti með þetta lið á Old Trafford:
Það kæmi mér ekki á óvart ef við sjáum Liverpool gera áhlaup á United strax í byrjun til að reyna að ná inn marki snemma og brjóta þetta markaleysi. United þarf þá að halda stillingu, halda þéttleika og reyna að halda boltanum þegar færi gefst á því.
Enski bikarinn
Manchester United hefur unnið enska bikarinn 12 sinnum í sinni sögu. Liverpool hefur aðeins náð að vinna þann elsta og virtasta sjö sinnum, síðast árið 2006.
Þessi lið hafa mæst 17 sinnum í keppninni. Fyrsta viðureignin var í febrúar 1898, þegar Manchester United hét ennþá Newton Heath. Fyrri leikurinn í 2. umferðinni fór fram á Bank Street, heimavelli Newton Heath, og endaði 0-0. Liverpool vann endurtekna leikinn fjórum dögum síðar en féll svo úr leik strax í umferðinni á eftir.
Fyrsti sigur Manchester United kom 1903, stuttu eftir að Newton Heath breyttist í Manchester United. Þá spilaði liðið enn á Bank Street og vann 2-1 sigur á nágrönnum sínum frá Liverpool í fyrstu umferð bikarsins. Engu skipti þótt bjargvætturinn Harry Stafford hefði verið rekinn af velli í síðari hálfleik. Manchester United náði þó ekki lengra en í 2. umferð, þá tapaði liðið gegn Everton.
Liverpool vann svo 1921, í endurteknum leik, en eftir það kom 85 ára tímabil þar sem United tapaði einfaldlega ekki fyrir Liverpool í enska bikarnum.
Árið 1948 átti Manchester United heimaleik gegn Liverpool í 4. umferð bikarsins. En Old Trafford var skemmdur eftir seinni heimsstyrjöldina og Manchester City átti einnig heimaleik í bikarnum í sömu umferð. United þurfti því að spila sinn heimaleik á Goodison Park. Það skipti leikmennina hans Busby þó litlu máli því þeir unnu 3-0 sigur á Liverpool. Jack Rowley, Johnny Morris og Charlie Mitten skoruðu mörk United á 6 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Manchester United fór svo alla leið í keppninni það árið og lyfti enska bikarnum í aðeins annað skiptið í sögu félagsins um vorið.
Árið 1960 vann Manchester United á Anfield í 4. umferð en tapaði svo fyrir Sheffield Wednesday í 5. umferðinni.
Liðin mættust svo í fyrsta skipti í úrslitaleik enska bikarsins árið 1977. Tommy Docherty kom þá með strákana sína á Wembley og kom í veg fyrir að Liverpool næði þrennunni það ár. Manchester United vann leikinn 2-1.
Tveimur árum síðar mættust liðin í undanúrslitum. Fyrst á Maine Road, í leik sem endaði 2-2, og svo á Goodison þar sem Jimmy Greenhoff skoraði eina mark leiksins. United náði þó ekki að fylgja því eftir með sigri í keppninni þar sem liðið tapaði í úrslitum fyrir Arsenal með dramatískum hætti.
Aftur mættust þessi lið í undanúrslitum 1985. Fyrst mættust liðin á Goodison Park 13. apríl þar sem Manchester United komst yfir í venjulegum leiktíma og framlengingu en Liverpool jafnaði í lok leiktímans í bæði skiptin. Endurtekinn leikur fór því fram á Maine Road 17. apríl. Liverpool komst þá yfir á 39. mínútu en þeir félagar Robson og Hughes sneru leiknum við í seinni hálfleik. Manchester United fór svo alla leið á Wembley og vann Everton í frægum leik þar sem Moran fékk fyrsta rauða spjaldið í sögu úrslitaleiks bikarsins (eigum við ekki að segja að það hafi verið nokkuð verðskuldað, þrátt fyrir kröftug mótmæli á sínum tíma) og Norman Whiteside skoraði glæsilegt sigurmark í framlengingu. Manchester United var þarna að lyfta enska bikarnum í sjötta skiptið.
Vorið 1996 var komið að seinni úrslitaleiknum sem þessi lið hafa spilað í enska bikarnum. Spennan og uppbyggingin fyrir þennan leik var gríðarlega mikil, þarna mættu hvítklæddu súkkulaðistrákarnir frá Liverpool og spiluðu gegn öflugu liði Manchester United sem Ferguson hafði byggt upp og Cantona breytt í titlamaskínu. Leikurinn sjálfur olli nokkrum vonbrigðum fyrir hlutlausa en Eric Cantona poppaði upp í lokin og skoraði stórkostlegt sigurmark sem ekki var á allra færi.
Þrennutímabilið 1998-99 var helvíti gott. Í fjórðu umferð enska bikarsins mættust Manchester United og Liverpool á Old Trafford. Að hætti þess tímabils byrjaði Liverpool á að komast yfir í upphafi leiks þegar Michael litli Owen skoraði á 3. mínútu. Yorke jafnaði svo á 88. mínútu áður en Solskjær skoraði á 90. mínútu eftir að hafa komið inn sem varamaður á 81. mínútu fyrir Denis Irwin. Manchester United fór alla leið í úrslit, vann þar Newcastle og náði að klára þrennuna sem Liverpool tókst ekki 1977.
Liðin mættust næst í enska bikarnum árið 2006, í fimmtu umferðinni. 18. febrúar átti liðin leik á Anfield sem reyndist ansi afdrifaríkur. Peter Crouch skoraði eina mark leiksins en Alan Smith náði að mölva á sér ökklann í tæklingu, meiðsli sem hann jafnaði sig aldrei almennilega af. Liverpool endaði á að vinna enska bikarinn þetta tímabil en hefur ekki unnið bikarinn síðan.
Nýjasta viðureign liðanna í bikarnum var svo í byrjun janúar 2011 þegar liðin mættust í þriðju umferðinni. Ryan Giggs skoraði þá mark á 2. mínútu sem reyndist eina mark þess leiks. United fór alla leið í undanúrslit en tapaði þar gegn Manchester City.
Í þeim 17 leikjum sem liðin hafa spilað í enska bikarnum þá hefur Manchester United unnið 9 leiki. Liverpool vann 4 en 4 sinnum enduðu leikirnir með jafntefli. Jafntefli kemur þó ekki lengur til greina því það verða engir endurteknir leikir í bikarnum í vetur. Markatalan í leikjunum 17 er 25-17, United í vil.
Það er athyglisvert að tveir af þessum leikjum hafa hitt á sömu dagsetningu og bikarleikurinn í ár. Leikirnir 1948 og 1999 voru líka spilaðir 24. janúar. Það er vonandi að dagsetningin færi okkar mönnum sömu lukku núna og þá.
Stebbigeorgs says
Hvíla Bruno og gefa Hollendingum séns.
Halldór Marteins says
West Ham vann Doncaster, ekkert sjokkerandi við það. Svo það er ljóst hver mótherjinn verður fyrir liðið sem vinnur á morgun. Moyes og co.
Einhverjir vilja meina að Jordan Henderson verði frá á morgun svo það er spurnig hvernig miðjan hjá Liverpool verður mönnuð. En vonandi verður okkar miðja bara tilbúin í hvað sem er frá þeim.
Rúnar P. says
Skildu sigur og ekkert annað!