Leikmönnum og stuðningsmönnum var loksins kippt harkalega niður á jörðina á miðvikudaginn þegar fyrsta tapið í fjórtán leiki kom og það á móti Sheffield United.
Það þurfti ekki mikið til og eftir leikinn voru sum komin beint í sömum svartsýnina sem löng velgengni hafði þaggað niður enda fátt sem stuðningsmenn elska meira en gott tap. Ekki þar fyrir að sum gagnrýni hafi verið vel verðskulduð en við vitum orðið kosti og galla þessa hóps án þess að fara allt of langt fram úr okkur.
Djöflavarpið fór yfir þetta í nýjasta þættinum
En það er eins og alltaf í vetur skjótt tækifæri til að bæta úr og á morgun, laugardag, fer United til London og tekur á Arsenal. Mikel Arteta þekkir vel gagnrýni í vetur en í undanförnum leikjum hefur liðið snúið við genginu og hefur ekki tapað leik frá því fyrir jól og aðeins gert eitt jafntefli. Af liðunum við toppinn var það reyndar bara Chelsea sem Arsenal hefur leikið við í þessari sigurhrinu og því er leikurinn á morgun ekki síður prófraun fyrir Arsenal
Arsenal bætti við hópinn í vikunni norska undrabarninu Martin Ødegaard, sem reyndar er orðinn 22 ára og ekkert barn lengur, og það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur það sem eftir er tímabils. Hann var flottur hjá Real Sociedad í fyrra og vildi vera áfram þar en Real Madrid kallaði hann til baka og hann hefur lítið spilaði í vetur og alls óvíst hvort Arteta tekur hann inn í liðið á morgun. Hann hlýtur þó að sjást á bekknum
Það eru ungu leikmennirnir í Arsenal sem hafa helst staðið sig í vetur, Bukayo Saka hefur verið þar bestur en Emile Smith Rowe hefur stigið upp í síðustu leikjum. Granit Xhaka hefur svo verið allt í einu verið lykilmaður eftir að hafa verið hársbreidd frá því að fara frá félaginu fyrir rúmu ári. Thomas Partey hefur líka komið sterkur inn eftir meiðsli mest allt tímabilið.
Liðið á við nokkur meiðsli að stríða og aðallega þannig að vafi er hvort td. Smith Rowe og Thomas Partey meiddust gegn Southampton en verða líklega með og Kieran Tierney sömuleiðis. Pablo Mari og Dani Ceballos missa af leiknum og Pierre-Emerick Aubameyang hefur verið frá vegna veikinda móður sinnar og óvist hvort hann komi í leikinn.
Éf allir þessir sem óvíst er um mæta til leiks verður þetta hörkulið. Eftir sigur Arsenal á United 1. nóvember tapaði United ekki deildarleik þangað til í vikunni en Arsenal vann ekki einn af næstu sjö deildarleikjum. Það er ólíklegt að leikurinn á morgun verði með jafn dramatískar afleiðingar en víst er að tap á morgun þýðir að leggja má fjarlæga drauma undanfarið um meistaratitil endanlega á hilluna.
Manchester United
Ef það er eitthvað tvennt sem leikurinn á miðvikudaginn segir okkur um liðið á morgun þá er það það að Eric Bailly byrjar ef hann er heill og Edinson Cavani kemur í stað Anthony Martial.
Liðið hlýtur að verða af sterkustu gerð, svo einfalt er það
Þessi leikur er einfaldlega ótrúlega mikilvægur fyrir bæði lið. Með sigri heldur United sér í snertifæri við City og stendur þá vel að vígi í að halda í topp fjögur sæti. Tap og liðið er komið niður í þéttan pakka liða sem öll eygja von á meistaradeildarsæti, ýmist því sem þau telja sig eiga hefðarrétt á eða ætla að nýta þetta furðutímabil til að tylla sér í sess sem þau hafa ekki sest í lengi ef þá nokkru sinni.
Því er mikil nauðsyn að liðið standi sig vel á morgun og komist aftur á þann skrið sem það hefur verið á. Leikurinn hefst kl 17:30
Skildu eftir svar