Manchester United mætir Everton á Old Trafford laugardaginn 6. febrúar – kl. 20:00. Um er að ræða mikilvægan leik í toppbaráttunni og myndi sigur gera mikið fyrir United þar sem að Liverpool og Manchester City mætast á Anfield í sömu umferð. Við krefjumst kannski ekki 9 marka veislu eins og í síðasta leik gegn Southampton, en vonandi fáum við að sjá skemmtilegan leik og helst ekki enn eitt aukaspyrnumarkið frá Gylfa Sigurðssyni.
Dagsetningin hefur auðvitað þunga merkingu fyrir okkur United menn en það var 6. febrúar 1958 sem að flugvél Manchester United fórst í flugtaki frá München. 23 týndu lífinu, þar af 8 leikmenn Manchester United og 19 slösuðust. Slyssins verður minnst annað kvöld á Old Trafford. Það má lesa minningargrein Rauðu Djöflanna hér frá árinu 2018.
Liðsfréttir
Edinson Cavani þurfti að fara af velli í hálfleik gegn Southampton, eftir harkalega tæklingu Kayne Ramsay og það má segja að El Matador sé í raun sá eini sem vafi leikur á um hvort að geti spilað leikinn… Ef frá er talinn Phil Jones. Aðrir eru leikfærir, sem er magnað. Við fáum staðfestingu á því í dag hvort að Amad Diallo spili með U-23 liði United, en þeir eiga leik gegn Blackburn í kvöld. Ef að vængmaðurinn ungi er ekki í leikmannahópi Neil Wood þá má gera ráð fyrir því að Solskjær vilji hafa hann í hóp gegn Everton. Þó þykir mér líklegt að hann verði látinn sprikla allavega einu sinni til viðbótar með varaliðinu áður en honum er hent í djúpu laugina. Fílbeinsstrendingurinn þykir þó hafa staðið sig afar vel á æfingum og hefur heillað þjálfarateymi United uppúr skónum. Þá tilkynnti Ole Gunnar Solskjær hópinn sem tekur þátt í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar en þar mætir liðið spænska liðinu Real Sociedad.
Svona lítur hópurinn út: David de Gea, Dean Henderson, Lee Grant, Nathan Bishop, Victor Lindelof, Eric Bailly, Phil Jones, Harry Maguire, Luke Shaw, Alex Telles, Aaron Wan-Bissaka, Axel Tuanzebe, Paul Pogba, Fred, Bruno Fernandes, Nemanja Matic, Scott McTominay, Donny van de Beek, Juan Mata, Daniel James, Amad Diallo, Edinson Cavani, Anthony Martial, Marcus Rashford. Mason Greenwood og Brandon Williams eru á B-lista þar sem að þeir eru fæddir eftir 1. janúar 1999 og eru uppaldir hjá félaginu.
United hefur mætt Everton tvisvar á tímabilinu og í báðir leikir hafa unnist gegn þeim bláklæddu. Í fyrri leik liðanna í deildinni vann United 1-3 sigur á Goodison Park þar sem að Edinson Cavani skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og Bruno Fernandes skoraði tvívegis, þar á meðal glæsilegt skallamark. Í Deildarbikarnum stefndi allt í markalaust jafntefli og vítaspyrnukeppni þangað til að títtnefndur Cavani þrumaði boltanum með vinstri í fjærhornið framhjá Robin Olsen og Anthony Martial tryggði svo 0-2 sigur, eftir að United hafði klúðrað nokkrum ákjósanlegum tækifærum til að gera út um leikinn. Tveir flottir útisigrar og nú er bara að gera eins á heimavelli gegn Carlo Ancelotti og hans mönnum.
Það gladdi flesta stuðningsmenn United að sjá Jesse Lingard finna netmöskvana í tvígang fyrir West Ham gegn Aston Villa og vonandi nær hann að fylgja því eftir og stríða sem flestum liðum sem eiga í kapphlaupi við United.
Frakkinn geðþekki Paul Pogba var hvíldur gegn Southampton og verður því fullhlaðinn fyrir leik morgundagsins. Pogba var nýlega valinn leikmaður mánaðarins hjá Manchester United og átti það sannarlega skilið. Hann kom inná í fyrri leik liðanna í deildinni en er líklegur kandídat í byrjunarliðið, þrátt fyrir flottar frammistöður frá bæði Fred og Scott McTominay. Ég hef enga trú á því að Solskjær róti í varnarlínunni þar sem bakverðirnir Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka hafa gefið honum ærna ástæðu til að velja þá í liðið en báðir áttu afbragðsleik gegn Southampton, þó að Shaw hafi einungis spilað fyrri hálfleikinn. Anthony Martial náði sér í örlítinn skammt af sjálfstrausti eftir flotta innkomu í 9-0 burstinu og það vonandi skilar sér inn í þennan leik.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Mótherjinn
Everton eiga tvo leiki til góða á flest lið í deildinni og nái þeir leikir að vinnast eru þeir á hælum okkar. Liðið fór afar vel af stað í deildinni, en eftir að hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjunum fylgdi afar erfið törn þar sem að einungis þrjú stig fengust af 15 mögulegum. Fyrsti leikurinn í þeirri hrinu var tapleikurinn gegn okkar mönnum. Það er fullt af frambærilegum leikmönnum í liðinu og það getur verið hundleiðinlegt að eiga við þá. Það eru ekki nema um tvö ár síðan að við steinlágum 4-0 á Goodison Park og stuðningsmenn suá verkefnið sem að Solskjær átti fyrir höndum.
Ef við spáum í leikmönnum sem ber að varast er óhætt að nefna Dominic Calvert-Lewin. Englendingurinn hefur heldur betur fundið sig undir Ancelotti og er búinn að skora 16 mörk í öllum keppnum, þar af 12 í Úrvalsdeildinni. Hann er illviðráðanlegur í loftinu og býr yfir lúmskum hraða. Við þekkjum Gylfa Sigurðsson af góðu og slæmu. Hann hefur gefið okkur ótal ómetanlegar minningar í íslensku landsliðstreyjunni, en hann hefur líka grætt okkur United menn oftar en einu sinni – þá aðallega á Old Trafford. Gylfi er stuðningsmaður Manchester United og elskar ekkert meira en að finna netmöskvana á vellinum sem að hann dreymdi um að spila á. Aðrir leikmenn sem gætu reynst hættulegir eru bakvörðurinn Lucas Digne, sem er með frábæran vinstri fót og Brasilíumaðurinn Richarlison sem er bæði góður í knattspyrnu og að hleypa andstæðingnum upp.
Fáir eru á meiðslalistanum hjá Everton. Miðjumaðurinn Allan er tæpur en Ancelotti vonast þó til þess að brimbrjóturinn smái verði klár í slaginn. Þá glímir markmaðurinn Jordan Pickford við einhver eymsli í rifbeinum svo að það mun að öllum líkindum verða Robin Olsen sem stendur á milli stanganna. Varnartengiliðurinn Jean-Philippe Gbamin er svo frá um óákveðinn tíma. Því mætast lið í tiltölulega litlum meiðslavandræðum og því engar afsakanir fyrir því að geta ekki fengið flottan fótboltaleik.
Líklegt byrjunarlið Everton:
Spá
Það væri frekja að fara fram á annan 9-0 leik, þannig að ég læt mér nægja 3-1 sigur. Bruno Fernandes, Marcus Rashford og hinn markheppni Luke Shaw skora fyrir United, en Gylfi Þór skorar eitt af 35 metra færi í uppbótartíma til að laga stöðuna fyrir Everton.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar