Leik West Bromwich Albion og Manchester United var að ljúka rétt í þessu. Úrslitin eru ósköp sanngjarnt 1:1 jafntefli. Sorglega lélegt á löngum köflum hjá Manchester United.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United:
West Bromwich Albion:
Fyrri hálfleikur
Varnarleikur Manchester United heldur áfram að vera til vandræða og það tók West Brom eina og hálfa mínútu að nýta sér það. Conor Gallagher átti þá ágætis fyrirgjöf inn í vítateig United og Victor Lindelöf leyfði Mbaye Diagne að éta sig í loftinu. Við nánari skoðun sást þó að Diagne tók ansi hressilega á Svíanum og hélt meðal annars fyrir augun á honum og eiginlega allt andlitið. Ekkert var dæmt og því 1-0 fyrir heimamenn og leikurinn varla byrjaður. Það þurfti því enn einu sinni að treysta á endurkomumátt liðsins með besta útivallaárangurinn í deildinni. Eðlilega féllu leikmenn West Brom aftar á völlinn eftir þessa frábæru byrjun og leyfðu United að vera með boltann.
Næstu mínútur komu og fóru án þess að nokkuð markvert ætti sér stað. Leikmenn United voru staðir og hægir – raunar svo hægir að ætla mætti að Sam Allardyce hefði fyllt takkaskó gestanna af blýi. Liðið virtist slegið yfir áfallinu í upphafi leiks og spilamennskan eftir því. Það var lítill broddur í sóknaraðgerðum liðsins og West Brom átti ekki í neinum vandræðum með að halda skipulagi og halda miðjunni þéttri. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður hafði United ekki skapað sér svo mikið sem hálffæri, eins dásamlegt og það hljómar. Bruno Fernandes, Marcus Rashford, Anthony Martial og Edinson Cavani algjörir áhorfendur í leik sem að sárlega þurfti að ná í stig úr.
En við miðbik fyrri hálfleiks voru fyrstu merki um lífsmark hjá okkar mönnum. Þá tengdu fremstu menn vel saman og Marcus Rashford átti flotta fyrirgjöf á fjærstöngina en varnarmaður West Brom kom boltanum aftur fyrir endamörk rétt áður en Martial náði til boltans. Eðlilega dæmdi dómari leiksins, Craig Pawson, markspyrnu. Stuttu síðar þurfti David de Gea að taka á honum stóra sínum og verja ágætis skalla Robert Snodgrass. Lítið mæddi þó á vörn United eftir það þar sem að West Brom snerti varla boltann.
Það var mikið af því sama út fyrri hálfleikinn – Manchester United reyndi að bora sér leið í gegnum þéttan múr heimamanna. Harry Maguire var að mörgu leyti besti sóknarmaður liðsins, bar boltann vel upp og fékk nokkuð auða flugbraut upp að vítateig West Brom. Það var á 45. mínútu sem að hann átti einn slíkan sprett og renndi svo boltanum upp vinstri kantinn á Luke Shaw. Shaw gerði frábærlega í að koma boltanum inní teig West Brom og í honum miðjum var Bruno Fernandes – hann tók boltann á lofti með vinstri og negldi honum í nærhornið. Algjörlega óverjandi fyrir Sam Johnstone. Það hafði ekki verið útlit fyrir að Unied færi með 1-1 stöðu inn í búningsklefa en Ole tók því væntanlega fagnandi.
Seinni hálfleikur
Það kom ákveðið Manchester United lið til leiks í seinni hálfleik. Þeir reyndu að keyra upp hraðann og pressuðu heimamenn stíft. United teygðu mun betur á West Brom liðinu og komu boltanum hraðar út á kantana. Marcus Rashford átti nokkra fína spretti á upphafsmínútunum og náði að koma flottum fyrirgjöfum inná teiginn. Scott McTominay fékk greinilega skilaboð um að koma sér framar á völlinn og taka hlaup í gegnum miðjuna. Þetta leit óneitanlega betur út en í upphafi fyrri hálfleiks. Nú var bara að keyra yfir heimamenn…
Það voru svo West Brom sem að sköpuðu næsta færi. Ainsley Maitland-Niles kom þá boltanum inn á Matheus Pereira sem komst í ágætis skotfæri inní vítateig United en skot hans var langt framhjá markinu. David de Gea gargaði þá nokkur vel valin orð á línuna fyrir framan sig. Þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hafði United verið 84% með boltann en það telur ofboðslega lítið ef að þú skapar ekki færi. Eftir kröftuga byrjun okkar manna í seinni hálfleik náði West Brom að draga aftur úr hraða leiksins með því að fiska nokkrar aukaspyrnur á eigin vallarhelmingi og taka sér drjúgan tíma í að taka þær. Sam Allardyce á sterum hreinlega.
Á 62. mínútu féll Harry Maguire til jarðar inn í teig heimamanna og Craig Pawson benti á vítapunktinn eftir smá íhugun. Leikmenn West Brom brjáluðust og Maguire virtist í þokkabót vera fyrir innan. Pawson pældi ekkert í rangstöðunni en tók dóminn til baka eftir að hafa kíkt á VAR skjáinn og ákvað að dæma ekki vítaspyrnu. Áfram með leikinn drengir. Stuttu síðar var Anthony Martial tekinn af velli og Mason Greenwood kom inn í staðinn. Þá færði Rashford sig til vinstri og Greenwood tók sér stöðu hægra megin.
Þegar 20 mínútur voru til leiksloka héldu bæði Mason Greenwood og Scott McTominay að þeir hefðu komið United yfir. Sam Johnstone varði vel frá Greenwood af stuttu færi og McTominay tók síðan viðstöðulaust skot á vítateigsjaðrinum en Darnell Furlong hreinsaði það skot af marklínunni. United liðið var farið að banka fast á dyrnar og maður bað til æðri máttarvalda að þeir næðu að drulla boltanum yfir línuna. West Brom komst stuttu seinna í skyndisókn og Maitland-Niles og Diagne voru í raun tveir á einn gegn Harry Maguire en sending Maitland-Niles var blessunarlega hörmuleg.
Á 78. mínútu fékk Diagne algjört dauðafæri til að stela sigrinum fyrir West Brom. Hann hirti þá boltann af Maguire og aftur leit hann út fyrir að brjóta af sér en Pawson flautaði ekki. David de Gea varði fyrra skot hans og gerði frábærlega í að slæma boltanum burt þegar að Diagne ætlaði að fylgja eftir. Varrúðarbjöllur hringdu hátt og lítill tími til stefnu fyrir United. Andartökum síðar kom Donny van de Beek inná fyrir Fred. Næstu mínútur gerðist fátt markvert. West Brom varðist. United sótti – eða þannig. Liðinu tókst ekkert að láta reyna á Johnstone í markinu og uppbótartími nálgaðist óðfluga.
Enn á ný var það svo Diagne sem komst í færi. Hann fékk þá frábæra fyrirgjöf og fékk boltann í ákjósanlegu færi en setti hann yfir markið. United heppnir aftur. Stuttu síðar átti Greenwood öflugan sprett upp hægri kantinn og kom sér inní teig, setti þá stórhættulega sendingu þvert fyrir markið en eins og svo oft áður vantaði hlaup. Áfram hélt það að vera hugmyndasnautt og hægt hjá United liðinu eftir fríska byrjun í seinni hálfleik. Í blálokin átti svo Harry Maguire skalla í stöngina en allt kom fyrir ekki og Manchester United halda áfram að vera vandræðalega lélegir gegn fallbyssufóðrinu.
Hugleiðingar eftir leik
Paul Pogba er sárt saknað á miðju United. Án Pogba er miðjan ofboðslega flöt og lítið skapandi, þrátt fyrir fínasta markaskrið Scott McTominay. Hvorki hann né Fred eru líklegir til þess að finna glufur á þéttum varnarpakka andstæðingsins og það er auðveldara að einangra Bruno Fernandes í kjölfarið. Þá var ákvarðanataka fremstu manna athyglisverð á köflum. Rashford er vorkunn að þurfa að spila hægra megin þegar að hann er náttúrulegur vinstri vængmaður. Martial var aldrei líklegur og miðverðir West Brom héldu Cavani í skefjum allan leikinn.
Form liðsins og spilamennska er mikið áhyggjuefni, ef við tökum 9-0 sigurinn á Southampton frá. Tap á heimavelli gegn Sheffield United og 1-1 jafntefli gegn West Brom liði sem er 12 stigum frá öruggu sæti er bara ekki boðlegt fyrir lið sem vill láta taka sig alvarlega í toppbaráttunni. Manchester City hlaupa burt með titilinn en það væri talsvert notalegra að geta geirneglt topp 4 sem fyrst frekar en að lenda í hundaslag. Því miður virðast Ole og félagar ætla að gera sér erfitt fyrir með því að klúðra þessum leikjum sem falla í skyldusigraflokkinn.
Burtséð frá því hvort að það hafi verið brotið á Lindelöf eða ekki í marki West Brom að þá þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að byrja leiki rétt og gefa tóninn. Liðið gerir sér oft svo erfitt fyrir og andlega getur það tekið sinn toll. En þá má að sama skapi tala um að liðið er ekki nægilega gott í að drepa leiki þegar þeir taka forystuna, sbr. Everton jafnteflið um daginn. Einn sigur í síðustu fimm leikjum er í öllu falli ekki boðlegt.
Næstu leikir eru gegn Real Sociedad, Newcastle, Chelsea og svo nágrannaslagur gegn Manchester City. Ég er í það minnsta orðinn spenntur að sjá hvaða United lið mætir til leiks í þessa leiki. Algjört lottó um þessar mundir! Jæja, áfram gakk…
Áfram Manchester United.
Helgi P says
Hvenar ætlar Solskjær að hætta þessu Lindelof og Maguire kjaftæði þeir eru versta miðvarapar í sögu united
Karl Garðars says
Glæsileg fyrirgjöf og markið ekki síðra!
Shaw karlinn verður útkeyrður í kvöld eftir að hafa spilað bæði vinstri bak og kant og pínu miðvörð í leiknum.
Egill says
Ég vill ekki vera þessi týpa, en mikið rosalega er dómarinn að gera mig geðveikan. Klárt brot í marki WBA og þwir komast upp með að sparka menn niður út um allan völl, og toppar það svo með að flauta til hálfleiks þegar við komumst í skyndisókn.
En annars er þetta bara same old shit different day, De Gea fastur á línunni, varnarleikurinn lélegur, Martial og Rashford gagnslausir og við sköpum okkur lítið sem ekkert.
Áfram gakk, ég vill vinna þennan helv. leik og halda Liverpool í góðri fjarlægð frá okkur.
Turninn Pallister says
Hvað er að Maguire?
Hausinn alls ekki tengdur í kvöld, lætur sig detta eins og aumingi og getur þakkað DDG fyrir að við lentum ekki undir!
Helgi P says
Eina sem er að bjarga þessu tímabili er þessi skita hjá Liverpool en við verðum að fá topp stjóra inn fyrir næsta tímabil við getum ekki tryst endalaust á að önnur lið sýni svona óstöðulega til að við náum topp 4
Einar Ingi Einarsson says
Ekki góð frammistaða en má nota hendinna eins og gert var í markinu ef ekki ,til hvers er VAR?
Egill says
Jæja, við vitum allavega hversu langt Ole kemst með þetta lið, akkúrat hingað.
Sóknin er jafn léleg og vörnin og við treystum á einstaklingsframtök til að skora mörk.
De Gea er búinn, Martial og Rashford hafa ekki getað sparkað í bolta allt tímabilið og lausnin er alltaf henda VDB inná svona rétt svo hann geti sagt að hann hafi fengið að spila, ekki að hann hafi sýnt að hann eigi skilið svo mikið sem mínútu á vellinum en hann er svosem ekki einn um það. Ég nenni svo ekki að ræða þessa trúða sem eru í vörninni, það er skömm fyrir þetta félag hvað vörnin okkar er léleg.
Óafsakanleg spilamennska enn einu sinni gegn einu af lélegustu liðum deildarinnar og algjörlega karakterslaus frammistaða.
Gunnar says
Ömurleg frammistaða hjá þessum skíta klúbbi
Hjöri says
Gunnar í hvaða klúbbi ert þú?
birgir says
Egill
„og toppar það svo með að flauta til hálfleiks þegar við komumst í skyndisókn“
Þeir voru þó aðeins rétt fyrir utan eigin vítateig og 10 sek komnar fram yfir leiktímann þegar hann flautaði.
Ekki varstu að kvarta þegar flautað var til hálfleiks um leið og Mane slapp í gegn, áður en leiktíminn var liðinn.
Egill says
Ertu að meina þegar Mane slapp í gegn eftir að Lindelöf hafði hætt að hlaupa vegna þess að dómarinn flautaði af? Nei ég kvartaði ekki, enda hefpi Lindelöf allan daginn komist í boltann.
Það voru 2 min í uppbótartíma og boltinn hafði verið 33 sek í leik á þeim tíma. Þetta var einn af hlutunum sem pirraði mig í fari dómarans í leiknum, en pirraði mig alls ekki mest heldur. Ef dómarinn hefði verið sæmilegur fyrri hálfleik hefði ég ekki einu sinni nefnt þetta.
Scaltastic says
Blessunarlega þá er ekki enn búið að krota nýjan samning við stjórann. Ég á erfitt með að sjá á hvaða vegferð hann er með sérstaklega varnarleik liðsins, sem er á mörkum þess að vera brandari.
Jæja, líta fram á veginn… Phil Jones = X – factor
Cantona no 7 says
Ole
TonyD says
Skíta stig og léleg spilamennska en þetta er alveg skelfilegt. Þó við tölum um skyldusigur þá eru þeir í West Brom að berjast fyrir lífi sínu sem sást vel í dag og það þarf að eiga topp leik til að klára þá enda fékkst ekkert gefins frá þeim, frábær frammistaða þeirra. Ég veit ekki hversu mikið á að kenna stjóranum um að menn gera ekki það sem þeir eiga að gera inn á vellinum en hans hlutverk er vissulega að stemma liðið nógu vel af og koma þeim dýrvitlausum inn á völlinn sem gerðist ekki núna. Einnig á hann að stilla upp föstum leikatriðum og stöðum leikmanna í vörninni. Mér finnst hinsvegar vera aðal vandamálið að það er ekkert drápseðli í mönnum í öftustu línunni. Þeir eiga að líta í eigin barm og gera betur. Liðið átti einfaldlega að klára þennan leik og fékk nokkur færi og stöður sem átti að nýta betur.
Markið var samt geggjað og De Gea spýttist af línunni til að verja dauðafæri og bjargaði frákastinu líka, ekki amalegt frá honum eftir þetta klúður í síðasta leik. Hvílík snilld að hafa Fernandes í liðinu, stórkostlegur leikmaður og rosalegt að sjá hann á vellinum.
Ekki það að ég kenni dómaranum á nokkurn hátt um töpuð stig, það skrifast alfarið á okkar stráka, þá var ekkert að falla með okkar mönnum í dag. Skrítið hvernig vítaspyrnan var dæmd, ekkert sóknarbrot í markinu hjá þeim sem og seinna í leiknum þegar Diagne komst í gegn. Mörk hjá okkar mönnum hafa verið tekin af fyrir minna og þetta er dýrt spaug. Það er ekkert samræmi í þessu sem er að eyðileggja allan áhuga á sportinu. Stundum fellur þetta með og á móti en þetta ósammræmi er hlægilegt.
Liðið þarf að fara að sýna almennilega baráttu í vörninni og taka á þessum liðum í deildinni með smá hörku, ætla sér að negla boltanum burt, vinna skallaboltann sama hvað, hleypa mönnum ekki í ódýr færi og vera vakandi í vörninni.
Næsti leikur og áfram gakk.
birgir says
Egill
„Nei ég kvartaði ekki, enda hefpi Lindelöf allan daginn komist í boltann“
Væntanlega hárrétt ákvörðun hjá dómaranum að flauta af, þó 8 sek hafi verið eftir sf tímanum. Enda gat dómarinn gefið sér að Lindelöf hefði alltaf hlaupið einn fljótasta leikmann deildarinnar uppi og því óþarfi að klára sóknina.