Manchester United að mæta AC Milan. Rauðu djöflarnir gegn þeim rauðsvörtu. Það eru titlar í þessu kombói, samtals 38 deildartitlar og 17 bikarsigrar í sínum löndum auk þess sem liðin hafa unnið samanlagt 14 titla í Evrópu (þá er ofurbikarinn ekki talinn með). Tvö gamalgróin lið með sögu sem nær aftur til 19. aldar, tvö lið með goðsagnakennda leikvanga og langan leikmannalista af goðsögnum. Tvö lið sem hafa oft staðið betur en núna en þó líka bæði upplifað töluvert erfiðari tíma en þetta.
Evrópudeildin er kannski ekki eins alvöru keppni og Meistaradeildin en þetta einvígi er alvöru einvígi!
Fyrri leikurinn í einvíginu fer fram á Old Trafford á morgun og hefst klukkan 17:55 að íslenskum tíma. Dómarinn í leiknum verður Slavko Vinčić frá Slóveníu.
Byrjunarliðspælingar
Paul Pogba og Phil Jones eru enn frá vegna meiðsla og David de Gea á Spáni að fagna föðurhlutverkinu. Marcus Rashford meiddist gegn Manchester City en þau meiðsli voru sem betur fer ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu. Það er þó tæpt að hann nái þessum leik, vonandi verður hann þó tilbúinn sem fyrst.
Donny van de Beek er tæpur, Luke Shaw sömuleiðis og Cavani. Svo það er spurning hvernig Solskjær leggur upp þennan leik. Þetta er mikilvægur leikur í keppni þar sem United á séns á titli. En það er líka mikilvægur leikur gegn West Ham á sunnudaginn í deildinni og þótt United eigi þar takmarkaðan séns á titli þá er um að gera að gera baráttuna um Meistaradeildarsætið ekki of spennandi.
Victor Lindelöf hefur verið að spila í gegnum leiðinleg bakmeiðsli og er greinilega ekki tilbúinn í 2 leiki á viku. Solskjær hefur verið að treysta á Svíann í deildarleikjum sem er skiljanlegt því United er taplaust í síðustu 16 deildarleikjum sem Svíinn hefur spilað. Hann verður þá væntanlega hvíldur í þessum leik en fyrirliðinn Maguire ætti að vera á sínum stað.
Ég spái þessu byrjunarliði:
Mynduð þið vilja sjá það öðruvísi?
AC Milan verður án Zlatan Ibrahimovic sem er meiddur. Að auki er hinn eiturspræki Hakan Çalhanoğlu frá vegna meiðsla. Munar um ansi mikið fyrir ítalska liðið því Tyrkinn hefur verið ein mesta ógn liðsins í allan vetur, með 8 stoðsendingar og hefur verið að setja 3,3 lykilsendingar í leik að meðaltali í deildinni heima fyrir, sem er 0,5 fleiri en Bruno Fernandes. Að auki á liðið eflaust eftir að sakna spyrnugetu hans í föstum leikatriðum.
Aðrir sem eru meiddir hjá AC Milan eru Mario Mandzukic, Ismael Bennacer, Daniele Bonera og Brahim Diaz. Auk þess eru Ante Rebic og Theo Hernández tæpir.
Svona gæti liðið hjá gestunum litið út þegar Slavko flautar til leiks:
Vonum svo bara að enginn þeirra sem taki þátt í leiknum fyrir AC Milan eigi ættir að rekja til Suður-Ameríku. Sjá nánar í sögulega yfirlitinu hér að neðan.
Markvörður gestanna, Gianluigi Donnarumma, er einu gulu spjaldi frá leikbanni í keppninni. Sömuleiðis miðvörðurinn Alessio Romagnoli. Hjá okkur eru Harry Maguire, Victor Lindelöf og Brandon Williams einu spjaldi frá banni.
Evrópudeildin
Fyrri leikirnir í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar verða allir spilaðir á morgun. Í fyrra hollinu, leikir sem fara í gang klukkan 17:55, verða auk leiks okkar manna:
Ajax – Young Boys
Dynamo Kyiv – Villareal
Slavia Prag – Rangers
Seinna hollið hefur svo leik klukkan 20:00 að íslenskum tíma. Það verða eftirfarandi leikir:
Roma – Shakhtar Donetsk
Olympiacos – Arsenal
Tottenham – Dinamo Sagreb
Granada – Molde
Að viku liðinni, fimmtudaginn 18. mars, fara svo seinni leikirnir í 16-liða úrslitum fram. Þá víxlast hollin og heimavöllur, eins og vera ber. Í hádeginu daginn eftir, föstudaginn 19. mars, verður svo dregið í bæði fjórðungs- og undanúrslit keppninnar.
Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar verður spilaður á Miejski-vellinum í Gdánsk í Póllandi miðvikudagskvöldið 26. maí, klukkan 19:00 að íslenskum tíma.
Sagan gegn AC Milan
Þetta verður í 11. skiptið sem Manchester United mætir AC Milan. Þrátt fyrir að hvort lið um sig hafi unnið 5 leiki þá hefur Milan haft yfirhöndina heilt yfir því í 4 skipti af 5 hefur ítalski risinn unnið einvígin gegn Manchester United. Markatalan í þessum 10 leikjum til þessa er 13-16. Af þessum 13 mörkum sem United hefur skorað gegn AC Milan þá skoraði Wayne Rooney 6 þeirra.
Fyrsta einvígi liðanna var undir erfiðum og undarlegum aðstæðum. Liðin mættust í undanúrslitum Evrópukeppni félagsliða í maí 1958. Flugslysið í Munchen átti sér stað þremur mánuðum áður, þegar Manchester United var að koma heim eftir að hafa slegið Rauðu stjörnuna frá Belgrad út í fjórðungsúrslitum mótsins. Þrátt fyrir laskað lið náði Manchester United að sigra fyrri leikinn, á Old Trafford 8. maí, með tveimur mörkum gegn einu.
Juan Alberto Schiaffino, sem hafði orðið heimsmeistari með Úrúgvæ en var þarna búinn að ná sér í ítalskan ríkisborgararétt og farinn að leika fyrir ítalska landsliðið, kom AC Milan yfir á 24. mínútu. En Dennis Viollet jafnaði metin fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik fékk United svo víti og þar náði Ernie Taylor, einn þeirra leikmanna sem komu sérstaklega til United til að hjálpa félaginu eftir flugslysið, að skora sigurmark Manchester United. Buffon í marki Milan kom þar engum vörnum við. Ekki þó Gianluigi heldur Lorenzo Buffon, frændi hans.
Seinni leikurinn var spilaður á San Siro 14. maí 1958. Þar reyndust heimamenn mun sterkari og unnu sannfærandi 4-0 sigur. Áðurnefndur Schiaffino skoraði fyrsta og síðasta mark leiksins en í millitíðinni náði hinn sænski Nils Il Barone Liedholm og Giancarlo Danova að skora fyrir þá röndóttu. AC Milan fór svo í úrslitaleikinn gegn Real Madrid, náði þar tvisvar að komast yfir en Madrid jafnaði í bæði skiptin og vann svo leikinn í framlengingu.
Liðin mættust aftur í undanúrslitum sömu keppni vorið 1969. Manchester United voru þá ríkjandi Evrópumeistarar en AC Milan verðandi meistarar. Fyrri leikurinn fór fram á San Siro 23. apríl 1969. Enn voru það suðuramerísk og sænsk áhrif sem fóru illa með Manchester United. Fyrst var það Brasilíu-Ítalinn Angelo Sormani sem skoraði á 33. mínútu. Síðan var komið að Svíanum Kurt Hamrin sem skoraði í byrjun síðari hálfleiks. Hagur United vænkaði ekki þegar John Fitzpatrik, helst þekktur fyrir að vera fyrsti varamaðurinn sem kom inn á í deildarleik í sögu Manchester United, fékk rautt spjald á 75. mínútu. AC Milan náði þó ekki að bæta við fleiri mörkum og leikurinn endaði 2-0.
Seinni leikurinn í það skiptið fór fram á Old Trafford 15. maí. Bobby Charlton skoraði eina markið í þeim leik eftir laglegan sprett frá George Best, framhjá Cudicini í marki Milan. Ekki þó Carlo heldur Fabio föður hans. Markið kom á 70. mínútu en United náði ekki að skora fleiri og vann leikinn 1-0 en Milan fór áfram í úrslitaleikinn. Þar mættu þeir Ajax og unnu góðan 4-1 sigur á Johan Cruyff og félögum.
Nú liðu 36 ár áður en liðin mættust aftur. Í millitíðinni hafði United unnið þessa keppni einu sinni en Il Rossoneri þrisvar sinnum. Liðin mættust í 16-liða úrslitum tímabilið 2004-05. Fyrri leikurinn var spilaður á Old Trafford 23. febrúar 2005, seinni leikurinn á San Siro 8. mars. Báðir leikir enduðu með 1-0 sigri AC Milan og enn og aftur voru það suðuramerísku áhrifin sem felldu okkar menn því Argentínumaðurinn Hernán Crespo skoraði mörkin í báðum leikjunum. AC Milan fór svo alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar það ár en í þeim úrslitaleik gerðist ekkert sem getur kallast ýkja merkilegt svo við skautum hratt framhjá honum.
Við þurfum ekki að bíða lengi eftir næsta einvígi því tveimur árum síðar mættust þessi lið í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikurinn á Old Trafford 24. apríl 2007, seinni leikurinn á San Siro 2. maí 2007. Við höfðum Rooney, guttann sem tryggði United 3-2 sigur í fyrri leiknum með 2 mörkum eftir að Ronaldo hafði skorað það fyrsta.
En AC Milan átti besta leikmann heims árið 2007 og auðvitað, auðvitað var það gaur frá Suður-Ameríku. Ricardo Izecson dos Santos Leite, betur þekktur sem Kaká. Þvílíkur djöfulsins leikmaður sem hann var á þessum tíma. Stórkostlegur leikmaður sem átti frábæra leiki gegn Manchester United. Hann skoraði 2 mörk á Old Trafford og gaf tóninn á San Siro þegar hann skoraði fyrsta markið á 11. mínútu. Vélin Clarence Seedorf og Alberto Gilardino tryggðu AC Milan 3-0 sigur í seinni leiknum. Einvígið var eiginlega aldrei í mikilli hættu hjá þeim ítölsku og þeir unnu svo skemmtilegan 2-1 sigur á Liverpool í úrslitum sem var líka seint í hættu.
Síðasta einvígi þessara liða var svo hið besta fyrir Manchester United. Liðin mættust þá í 16-liða úrslitum tímabilið 2009-10. Fyrri leikurinn fór fram á San Siro og líklega hefur eitthvað United-fólk fengið hroll þegar enn einn Suður-Ameríkumaðurinn, Ronaldinho, kom AC Milan yfir strax á 3. mínútu í þeim leik. En Scholes jafnaði á 36. mínútu og Rooney skoraði tvö mörk í seinni hálfleik. Seedorf minnkaði muninn á 85. mínútu og öðlingurinn Carrick fékk svo rautt spjald í uppbótartíma (seinna gula fyrir að sparka boltanum í burtu) en United náði að hanga á sigrinum. Eini sigur liðsins á San Siro til þessa.
Seinni leikurinn var svo spilaður á Old Trafford 10. mars og var þægilegur. Rooney skoraði aftur 2 mörk og Park og Fletcher kláruðu 4-0 sigur United. United féll svo úr leik gegn Bayern Munchen í næstu umferð á hinni ævinlega skemmtilegu útivallamarkareglu. Bayern fór í úrslitin en tapaði þar fyrir Mourinho og Interliðinu hans.
Þetta verður í fyrsta skipti sem liðin mætast ekki í sterkustu Evrópukeppninni. Megi þau mætast fljótlega aftur og þá í keppni þeirra bestu!
Skildu eftir svar