Á sunnudaginn bíður Ole Gunnar Solskjær enn einn stórleikurinn. Leicester City og Manchester United mætast á King Power vellinum kl. 17:00, í 8-liða úrslitum enska bikarsins, þremur dögum eftir sigurinn góða í Mílanó.
Liðin hafa mæst einu sinni á þessu tímabili og þá var einnig leikið á heimavelli Leicester. Leikurinn endaði með svekkjandi 2-2 jafntefli, þar sem að okkar menn höfðu tækifæri til að drepa leikinn áður en markahrókurinn og Red Bull fíkillinn Jamie Vardy skoraði jöfnunarmark Leicester. Marcus Rashford og Bruno Fernandes skoruðu mörk United, en Harvey Barnes hafði áður jafnað leikinn 1-1.
Liðsfréttir
Það er bjartara yfir stuðningsmönnum eftir að Paul Pogba kom til baka eftir u.þ.b. tveggja mánaða meiðsli. Hann sýndi mátt sinn og megin í seinni hálfleik gegn AC Milan þegar hann skoraði sigurmarkið, auk þess að vera með betri mönnum á vellinum þær 45 mínútur sem að hann fékk á San Siro. Ákaflega gott að fá franska skemmtikraftinn aftur til baka.
Meiðsli
Enn eru þónokkur nöfn sem prýða meiðslalistann. Framherjinn Edinson Cavani er í kapphlaupi við klukkuna um að ná þessum leik en Úrúgvæinn hefur ekki spilað síðan liðið gerði markalaust jafntefli við Crystal Palace. Solskjær er sömuleiðis ekki viss með þáttöku Anthony Martial, en stjórinn sagði fyrir leikinn á Ítalíu að hann væri bjartsýnn á þáttöku Martial á sunnudaginn. Nú er þó annað hljóð í strokknum og óvíst er því hvort að sóknarmaðurinn brosmildi komi við sögu.
Þá eru Marcus Rashford og Eric Bailly ögn tæpir, en líklegt þykir þó að Rashford verði klár. Það væri ekki alvitlaust að reyna að hvíla hann eins og mögulegt er, en hann hefur verið ólíkur sjálfum sér undanfarið og virðist hlífa sjálfum sér eftir fremsta megni – sökum eymsla. Fílbeinsstrendingurinn er að glíma við 800. meiðsli ferils síns, en þó má búast við því að hann verði í hóp að minnsta kosti. Svo má ekki gleyma Juan Mata og meistara Phil Jones, en hvorugur nær þessum leik. Líklega hefði þeir ekki spilað hann, þó að þeir væru fullfrískir.
Liðsval
Ég yrði steinhissa ef að Solskjær myndi rótera mikið. Landsleikjahlé er framundan og hann mun kappkosta að enda þennan hluta tímabilsins á sigri. Harry Maguire og Victor Lindelöf áttu afbragðsgott kvöld í Mílanó og ef að engin óvænt áföll koma upp, þá byrja þeir í hjarta varnarinnar. Bakvarðastöðurnar eru geirnegldar og ólíklegt að Solskjær hendi Alex Telles í þetta verkefni.
Spurning er með markmannsstöðuna þar sem að Dean Henderson hefur komið afar vel inn í hlutverkið í fjarveru David de Gea. Henderson hefði mátt gera betur í jöfnunarmarki Simon Kjær á Old Trafford, en þar fyrir utan hefur hann sýnt öryggi í teignum, verið hávær og stýrt vörninni – og átti meðal annars lykilvörslu gegn Zlatan Ibrahimovic á San Siro. Hann hefur haldið 11 sinnum hreinu í 18 leikjum fyrir liðið og virðist ekki láta pressuna sem fylgir því að vera númer eitt hjá Manchester United á sig fá.
Fred og Scott McTominay áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik gegn Milan, en báðum gekk bölvanlega að halda í boltann og réðu illa við pressu Milan. Með innkomu Pogba virtust hlutirnir verða einfaldari fyrir þá og þeir fengu meiri tíma á boltanum. Nemanja Matic gæti komið inn, en ég held að Solskjær haldi tryggð við hina tvo. Þeir eru hreyfanlegri og ráða betur við hraðann sem Leicester býr yfir. Það er svo gott sem 100% að Bruno Fernandes byrjar fyrir framan miðjumennina.
Velski vængmaðurinn Daniel James náði smá skriði í markaskorun um daginn en virðist hafa stíflast aftur. Hann er öskufljótur en er ekki alltaf viss um hvernig hann á að nýta hraðann eða hvað hann á að gera við boltann. Það skal þó aldrei tekið af honum að hann er harðduglegur og leggur sig fram af líf og sál fyrir liðið. Ef að Rashford er ekki leikfær, þá mun James byrja á öðrum hvorum kantinum og Mason Greenwood verður uppi á topp. Svo er spurningin hvort að Amad Diallo fær tækifærið. Hann nýtti það ágætlega gegn Milan í fyrri leiknum og skoraði mark United, en hefur ekki spilað síðan.
Hugsanlegt byrjunarlið Man Utd:
Mótherjinn
Brendan Rodgers hefur byggt upp ansi sterkt lið í Leicester. Eins og hjá öllum liðum sem Rodgers stýrir snýst leikurinn um að halda boltanum vel og vinna hann hratt aftur ef að hann tapast. Þeir hafa skorað þremur mörkum færra en okkar menn í deildinni og fengið á sig jafn mörg mörk. Liðin eru því nokkuð áþekk og ekki hægt að búast við öðru en hörkuleik. Okkar menn verða að vera vel vakandi, því að liðið er vel drillað og spilar á háu tempói.
Rodgers verður þó án bæði Harvey Barnes og James Maddison. Báðir hafa verið lykilmenn í sóknarleik Leicester og er stórt skarð höggvið í hópinn með fjarveru þeirra. Aðrir hafa þó tekið við keflinu og leikur liðsins hefur sannarlega ekki hrunið. Kelechi Iheanacho skoraði þrennu í 5-0 bursti á Sheffield United og hann hefur verið að pota inn mörkum undanfarið. Þá má ekki gleyma Jamie Vardy sem að poppar gjarnan upp í leikjum gegn United.
Aftar á vellinum stýrir belgíski miðjumaðurinn Youri Tielemans ferðinni. Hann les leikinn vel, er frábær skotmaður og stýrir spili Leicester með silkihanska. Fyrir aftan hann er það Wilfred Ndidi sem hreinsar upp sóknir andstæðinganna. Nígeríumaðurinn er frábær í varnartengiliðsstöðunni og hefur verið orðaður við mörg stórlið í Evrópu.
Í miðvarðarstöðunum eru svo Caglar Soyuncu og Wesley Fofana. Soyuncu sló í gegn á síðasta tímabili með góðum staðsetningum og öflugum tæklingum. Það var stórt skarð að fylla fyrir Leicester þegar að Soyuncu fór í bann á lokasprettinum á síðasta tímabili. Í ár duttu svo Leicester aftur í lukkupottinn því að Frakkinn hefur vaxið með hverjum leiknum. Hann er snöggur, sterkur og lætur finna vel fyrir sér. Það verður að þykja líklegt að Fofana komist í stærra lið en Leicester á næstu árum, með fullri virðingu fyrir Refunum.
Hugsanlegt byrjunarlið Leicester City:
Spá
Þetta verður drulluerfiður leikur, en við höldum fast í þá trú að velgengni í bikarnum er rétt handan við hornið. Þessi leikur er fullkomið dæmi um viðureign þar sem að það þarf að vinna fyrir réttinum til þess að spila. United þarf að vinna seinni boltana, vera sterkir í föstum leikatriðum, varnarlega og sóknarlega og ekki koðna niður þegar Leicester pressar framarlega. Ég spái 1-3 sigri þar sem að Mason Greenwood skorar tvívegis en Harry Maguire stangar inn eitt eftir hornspyrnu Bruno Fernandes. Jonny Evans klórar í bakkann fyrir heimamenn.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar