Fyrir viku síðan settum við í Rauðu djöflunum inn könnun þar sem við vildum forvitnast um álit ykkar lesenda (og hlustenda) á starfinu okkar. Nú í framhaldinu langaði okkur að fara aðeins yfir helstu niðurstöður úr þeirri könnun og hvernig við höfum hugsað okkur að tækla þær í framhaldinu.
Frábær viðbrögð
Til að byrja með langar okkur að þakka kærlega fyrir frábær viðbrögð. Það tók ekki langan tíma að ná úrvalssvörun og margir gáfu sér tíma í að koma líka með ábendingar og hugmyndir fyrir okkur. Þetta er allt mjög vel þegið og setti ákveðna hluti í samhengi fyrir okkur sem við höfðum verið að ræða okkar á milli.
En þá að helstu niðurstöðum úr könnuninni.
Upphitunarpistlar og leikskýrslur
Eitt af því sem við höfðum verið að velta fyrir okkur var áhugi á upphitunarpistlunum. Það er ákveðin vinna sem fer í þá pistla og upp á síðkastið höfum við verið að velta fyrir okkur hvort sú vinna væri ef til vill óþarfi. Það er lítið um athugasemdir við upphitunarpistlana og ekki mikið um umræður sem skapast. Voru þá kannski fáir að lesa? Væri orkunni betur varið í öðruvísi pistla eða þyrftum við kannski að endurskoða upphitunarpistlana?
Það kom okkur því skemmtilega á óvart að sjá að það er gott hlutfall af lesendum sem skoðar upphitunarpistlana og margir sem myndu sakna þeirra ef við hættum með þá. Tæplega tveir þriðju lesenda sögðust lesa upphitanir fyrir u.þ.b. annan hvern leik eða oftar. Hjá þeim sem röðuðu efnistökum eftir áhuga enduðu upphitunarpistlarnir í öðru sæti yfir efni á síðunni.
Það er gott að vita og að sjálfsögðu munum við þá halda áfram með upphitanir.
Við fengum ábendingar frá þó nokkrum úr hópi svarenda. Meðal uppástunga fyrir upphitunarpistla voru:
- Saga
- Tölfræði og taktík
- Sjónarhorn mótherja
- Spennandi molar um borgina og umhverfi liðsins sem mætir okkar mönnum
Leikskýrslur eru vinsælar, það kom minna á óvart því við finnum oft fyrir góðum viðbrögðum við þeim. Reyndar eru oft meiri viðbrögð eftir tapleiki en það er skiljanlegt því þá liggur oftast meira á knattspyrnuáhugafólki og þörfin fyrir útrás meiri.
Meðal ábendinga fyrir leikskýrslurnar voru:
- Meiri pælingar frá skýrsluhöfundum
- Óþarfi að lýsa leiknum mikið
- Meiri gagnrýni og leikgreining
- Minni biturleiki eftir tapleiki
Við munum taka þetta allt til skoðunar. Hingað til hefur hver penni fyrir sig haft nokkuð frjálsar hendur með hvernig viðkomandi gerir sínar leikskýrslur og upphitanir. En við eigum alltaf í góðu samtali okkar á milli og viljum gera okkar besta í okkar umfjöllun.
Hvernig finnst ykkur þessar pælingar varðandi upphitanir og leikskýrslur? Endilega skiljið eftir ábendingar í kommentakerfinu hér fyrir neðan.
Djöflavarpið
Við höfum verið að taka hlaðvarpið okkar fastari tökum á þessu tímabili. Á þeim sjö árum sem Djöflavarpið hefur verið starfandi hafa komið tímar þar sem útgáfan hefur verið nokkuð regluleg en stundum hefur verið erfiðara að smala mönnum saman reglulega.
Í byrjun þessa tímabils fjölguðum við í ritsjórninni og settum okkur það markmið að gefa út þátt vikulega í vetur og sjá hvernig það gengi. Það hefur að mestu leyti gengið vel. Einnig fórum við yfir nokkur áherslumál sem við vildum vinna með í upptökunum. Við vitum að enn er hægt að bæta Djöflavarpið og stefnum á að vinna betur að því í framtíðinni. Eftir veturinn munum við líka skoða hvort við viljum gefa út vikulega þætti eða mögulega aðra hvora viku. Það yrði þó sennilega aldrei sjaldnar en það.
Þegar kom að hlustun á Djöflavarpið sögðust 42% svarenda hlusta á annan hvern þátt eða meira. Við þiggjum það en stefnum á að hækka þá tölu!
Okkur finnst mjög gaman að kjafta um fótbolta, sérstaklega þegar það tengist Manchester United. Það hefur oft sýnt sig í lengd á þáttunum. Ritstjórnarmeðlimir hafa rætt þau mál og það er okkar skoðun að best væri ef þátturinn væri í kringum 45-60 mínútur að lengd. Það rímaði ágætlega við svör þáttakenda.
Þegar kom að tíðni útgáfu voru 3% æstir í að fá þætti inn oftar en vikulega, við kunnum að meta það pepp. Langflestir vildu þó sjá vikulega þætti (48%) eða þátt aðra hvora viku (22%).
Við fengum slatta af ábendingum varðandi þættina, mikið af þeim varðaði hluti sem við höfum sjálfir rætt okkar í milli og viljum bæta. Helst var kvartað yfir hljóðgæðum og frammígripum. Við erum að skoða búnaðarmál (okkar góðu styrktaraðilar koma að gagni þar). Vegna þess hve dreifðir við erum getum við ekki hist og tekið upp allir í sama herbergi en við stefnum á að bæta hljóðnema og finna leiðir til að hljóma betur.
Aðrar ábendingar voru meðal annars:
- Fá gesti
- Minni faglegheit, meiri einhliða umfjöllun
- Betri kynning á þáttastjórnendum svo maður viti hver er hver
- Beittari umræður
- Meira skipulag
- Gagnrýni og taktík
- Sletta minna
- Betra flæði
Við þökkum fyrir ábendingarnar. Ef þið hafið einhverjar fleiri pælingar um Djöflavarpið, hendið þeim endilega í komment hér fyrir neðan.
Aðrir pistlar
Þegar kom að öðrum pistlum en upphitunum og leikskýrslum virtust skoðanapistlar hafa mjög sterkt fylgi. Flestir sögðust lesa skoðanapistla alltaf eða nokkuð reglulega og það var mikill vilji fyrir því að sjá fleiri skoðunarpistla, sérstaklega frá gestapennum utan ritstjórnar.
Skiptari skoðanir voru hins vegar um pistla tengda kvennaliðinu eða yngri liðum Manchester United. Það var nokkuð svipuð tölfræði hvað lestur varðaði, 12-13% lestur á alla pistla og 54-55% sem óskuðu eftir meiri umfjöllun um kvennalið/yngri liðin.
Töluvert meiri áhugi var á pistlum um leikmenn sem eru að koma til Manchester United eða kveðja félagið. 84% lesenda sögðust lesa þá pistla stundum eða alltaf. Lítið var um ábendingar til að bæta þá pistla, flestir svarendur sögðust sáttir við þá pistla eins og þeir eru. Þó var einn sem benti á að sniðugt væri að setja myndband með leikmannakynningu. Það er fín hugmynd.
Við óskuðum eftir hugmyndum um pistlaskrif og meðal hugmynda voru:
- Fjármálaúttektir Björns
- Leikgreiningar og pælingar um leikkerfi
- Tíðari pistla um Manchester United og hvert við stefnum sem félag
- Heyra frá fyrrverandi leikmönnum
Takk fyrir góðar hugmyndir og sem fyrr bendum við á kommentakerfið hér að neðan ef þið hafið fleiri hugmyndir. Við skoðum þetta allt saman.
Viðburðir
Okkur langaði að lokum að kanna mögulegan áhuga á viðburðum á vegum Rauðu djöflanna. Það er ekki eitthvað sem við höfum lagt upp með að bjóða upp á hingað til en það hefur þó komið til tals meðal ritstjórnarmeðlima.
Það sem virtist vekja mesta lukku var hugmyndin um pöbbkviss Rauðu djöflanna. 40% svarenda sagðist vera líklegur eða pottþéttur í að mæta á slíkan viðburð. Ágætis áhugi var fyrir mögulegum streymisviðburði en minni áhugi á live upptöku af Djöflavarpinu.
Að vanda fengum við fínar hugmyndir, meðal þeirra voru:
- Getraunir, spá fyrir um úrslit og markaskorara
- Horfa saman á leik á auglýstum stað
- Fá fræga leikmenn til landsins
Við getum ekki lofað því að við munum halda einhvern viðburð, sérstaklega ekki á næstunni í þessu Covid-ástandi, en það er sannarlega eitthvað sem við erum að athuga vel. Látið okkur endilega vita ef það er eitthvað fleira sem ykkur dettur í hug í þessum efnum eða öðrum.
Framundan
Framundan er 100. þáttur Djöflavarpsins og síðan hefst boltinn aftur hjá okkar mönnum. Við munum halda áfram að hita upp fyrir leiki, setja inn leikskýrslur og hlaðvarpsþætti og stefnum á að bæta við fleiri pistlum í flóruna.
Takk fyrir að fylgjast með.
Karl Garðars says
Minni biturleiki eftir tapleiki…??
Já það vantar einmitt alveg vita metnaðarlaust pollýönnujarm.
Menn myndu borga sig inn á podcast full af svoleiðis.
Þetta er svona epískt púðlucomment.
Þetta er mjög flott síða hjá ykkur og gott djöflavarp. Takk fyrir að nenna þessu öllu fyrir okkur hin!
Smá punktur: ég myndi alltaf velja gæði fram yfir magn (fjölda) af podcasti.
Svo bíð ég spenntur eftir að fjármálahakkavélin Björn taki reksturinn og nýjan augl. samning fyrir í grein. Engin pressa samt.
Scaltastic says
Vill hrósa ritstjórn og pistlahöfundum fyrir tímafreka vinnu þar sem þeir fá ekki alltaf þá jákvæðu endurgjöf sem þeir eiga skilið, sérstaklega í kringum leikskýrslunar. Held að ég tali fyrir hönd margra hérna þegar að sá vettvangur er oftast notaður til að tjá sig og tilfinningarnar/gremjan brjótast upp á yfirborðið.
Ég er nokkuð ánægður með Djöflavarpið, sérstaklega gaman að heyra fleiri raddir þar á þessu tímabili. Annars legg ég til að það verði búinn til opinn þráður í sumar sem ber heitið Mino vaktin. Kallinn býr leigufrítt í hausnum á 75% aðdáendahópsins og sumarið mun snúast um Pogba + Haaland drama. Afhverju ekki að poppa og fylgjast með Woodward og Co vera berháttaða per usual? :)