xG eða vænt mörk er tískuhugtakið sem allir eru að tala um. En hvað eru vænt mörk, er eitthvað að marka þau og hvað þýða þau fyrir Manchester United?
Hvað eru vænt mörk?
Vænt mörk eru líkindareikningur á hversu líklegt er að lið eða leikmenn skori úr færum sínum. Knattspyrnan hefur lengi verið íhaldssöm og sparkspekingar trúðu því að skilningur á íþróttinni byggði allur á tilfinningu og auga. Aðrar íþróttir, eins og hafnabolti eða körfubolti, hafa tölfræði yfir nánast hvert leikatriði. Þessi tölfræði er nú að koma inn í fótboltann og xG er kannski skýrasta dæmið um það.
Við höfum reyndar séð ýmsa tölfræði í fótboltanum en nú er verið að stíga næsta skref í að túlka hana og nota. Þannig hefur fjöldi skota liðs lengi verið talinn. En hvað segir það okkur? Það er hægt að skjóta og skjóta frá miðju en við vitum öll að það er ekki líklegt til árangurs. Annað mál er ef leikmaður fær opið færi frá markteig.
Þetta er væntu mörkunum ætlað að túlka. Tölfræðin byggir á þýði af fjölda skota þar sem búið er að reikna út hvaðan af vellinum er líklegast að skora. Fleira blandast síðan inn í, fjöldi varnarmanna milli skotmanns og marks, hvort boltinn sé á jörðinni eða á lofti og fleira. (Sjá meira hér: https://dataglossary.wyscout.com/xg/)
Vítaspyrnur hafa xG gildið 0,76 sem þýðir að 76% líkur er að skorað sé úr þeim. Gildið 1 ætti að þýða öruggt mark. Gildin safnast síðan upp í gegnum leikinn úr þeim skotfærum sem lið skapar sér og úr því fæst heildargildið. Lið sem fengi bara vítaspyrnu en ætti ekkert annað skot myndi enga leik með 0,76 í xG. Manchester United endaði með 1,7 xG gegn 0,46 hjá West Ham í þarsíðasta deildarleik.
Út frá því gildi má segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður og vel hægt að rökstyðja að United hefði frekar átt að vinna 2-0 en 1-0.
Sama tölfræði er að baki í væntum fengnum mörkum, xGA. Út frá þessu öllu saman er hægt að reikna úrlit leiks og fá vænt stig eða xP.
Er eitthvað að marka þetta?
Já og nei.
Nei, því fótbolti er leikur þar sem lítið er skorað í og algengt að úrslit ráðist á einu marki eða atriði. Þess vegna er forspárgildi væntu markanna langt í frá fullkomið. Þetta er líka fegurðin við fótboltann, botnlið sem nær að verjast vel og vera örlítið heppið, bæði í vörn og sókn getur unnið miklu betra lið.
Suma daga gengur allt upp, xG United í 9-0 sigrinum gegn Southampton í byrjun þessa árs var 5,03, vissulega óvenjuhátt en ekki jafn slæmt og úrslitin urðu. Aðra daga ekki. United hafði 1,51 í xG gegn Arsenal í síðasta mánuði og hefði því vissulega átt að geta laumað inn í 1-2 marki til að klára leikinn.
Svo eru það leikmennirnir sjálfir. Bruno Fernandes er betri skotmaður en Fred. Vítanýting Bruno í vetur er 91%, vel yfir 76% meðaltalinu. Að sama skapi höfum við ekki tekið áhættuna á vítaskotum Fred. Í flestum xG módelum fær liðið 0,76 í gildi, hvor þeirra sem tekur vítið. En nákvæmlega þessi hæfileiki, til að skora úr alls konar færum, gerir leikmenn verðmæta. Þannig hefur Robert Lewandowski skoraði 35 mörk fyrir Bayern München í Bundesligunni í vetur meðan xG gildið hans er 26,27. Mismunurinn er tæp níu mörk, mun meiri en næstu markaskorara enda virðist hann skora hvar sem er. Á sama hátt er markvörður sem ver og ver þannig að liðið fær færri mörk á sig en það ætti að fá verðmætur.
Það er líka vert að geta að nokkrar mismunandi formúlur eru að baki líkindareikningnum. Þess vegna geta mismunandi gildi verið milli vefsíðna eða annarra sem birta xG-útreikninga. Í þessari samantekt er notast við tölur frá Understat.com.
Já, því ástæðan fyrir að væntu mörkin njóta vinsælda er að þau hafa sýnt sig hafa forspárgildi. Er þar einkum um að ræða yfir lengra tímabil. Lið geta skora meira eða minna leik og leik en xG gildið segir til um, verið heppin eða óheppin en það jafnast út yfir lengra tímabil. Að lið sé langt yfir eða undir gildi sínu eftir hálft tímabil gefur til kynna að framundan sé betri tíð eða vandræði. Vissulega eru liðin sjaldnast aldrei alveg á xG eða xP gildi sínu en gjarnan innan skekkjumarka sem segja má að séu 5 mörk eða stig í hvora áttina sem er. Dæmi mun vera um að enskt úrvalsdeildarlið í fallsæti hafi ákveðið að standa með stjóra sínum þar sem xG gildið gaf til kynna að liðið ætti talsvert inni og sloppið að lokum.
Vænt mörk eru ekki bara vísindi fyrir nörda. Mörg lið nýta sér þetta, þannig var stærðfræðideild Liverpool ákaft hampað þegar liðið varð Evrópumeistari 2019. Mo Salah er nefnilega einn þeirra leikmanna sem stöðugt hafa skorað meira en vænst var. Liðin hafa hins vegar aðgengi að mun meiri og flóknari tölfræði, væntu mörkin sem við sjáum eru aðeins toppur ísjakans.
Hvað þýðir þetta fyrir Manchester United?
Áhugavert er að skoða nokkur dæmi um vænt mörk hjá Manchester United síðustu ár og velta fyrir sér hvað hægt var að lesa út frá þeim.
Voru endalok Mourinho fyrirsjáanleg?
Tímabilið 2017/18 endaði liðið í öðru sæti með alls 81 stig. Vænt stig voru hins vegar ekki nema 62,33 sem þýðir mismun upp á 18,67 stig. Ekkert annað lið var með viðlíka mun, eitt var yfir tíu, hið gríðarlega óheppna Huddersfield sem fékk 13,81 stigi minna en það hefði átt að fá. Hjá meisturum City var munurinn 7,36 stig enda fátt óeðlilegt við að efstu liðin séu heldur betri eða heppnari en þau í neðri hlutanum. Hjá Chelsea, sem varð í þriðja sæti, var munurinn 0,55 stig.
United var heppið í bæði vörn og sókn þetta ár, en þó reyndar sérlega lánsamt í vörninni. Liðið fékk 15,5 mörkum færri á sig en vænta mátti. Það má þakka einum manni, David de Gea sem átti einstakt tímabil sem samkvæmt tölfræðinni bjargaði 13,7 mörkum. Rifja má upp leikinn gegn Arsenal 2. desember 2017 þar sem de Gea setti met með að verja 14 skot. Væntu mörkin í þeim leik voru 4,24-2,07 Arsenal í hag en United vann 1-3.
Síðan hefur de Gea verið nokkurn vegin á pari, fengið á sig jafn mörk mörg og vænta má, sem er hluti ástæðunnar fyrir að spurningunni er velt upp hvort tími sé kominn á hann.
Þegar töflunni þetta tímabil er endurraðað eftir væntum stigum fellur United niður í það sjötta. Það má því færa rök fyrir því að sjá hafi mátt fall liðsins undir José Mourinho árið eftir að einhverju leyti fyrir. Þegar hann var loks rekinn var liðið einmitt í sjötta sæti, en hefði reyndar miðað við vænt stig átt að vera í því níunda. Munurinn var þá orðinn minni, liðið var með tveimur stigum meira en vænta mátti en liðin í kring höfðu verið óheppin.
Að sama skapi er viðsnúningurinn undir stjórn Ole Gunnar Solskjær vel merkjanlegur því í lokatöflunni nær United fjórða sætinu á væntum stigum. Það er þó naumt, rétt eins og tæpt var á að liðið endaði aðeins í fimmta sæti í raun.
Óheppnin 2019-20
Að loknum hinum alræmda Burnley leik í lok janúar 2020 var United í fimmta sæti deildarinnar. Miðað við væntu stigin átti það þó að vera ofar enda var munurinn milli þeirra og raunverulegu stigana 10,14 í mínus. Aðeins eitt annað lið í deildinni var á þeim tímapunkti var með mismun upp á tveggja stafa tölu, Newcastle sem hafði fengið 13 stigum meira en það átti að fá. Út frá þessu kemur vandræðagangurinn þar nú ekki á óvart.
Reyndar var það svo nær allt síðasta tímabil að United var með færri stig en vænta mátti. Munaði þar mestu um að liðinu gekk illa að nýta færi sín en sama varð ekki sagt um mótherjana.
Ólíkt hlutskipti United og Newcastle kristallaðist í leik þeirra 6. október 2019. Vænt úrslit voru 0,67-0,97 sem þýðir að þótt United hafi ekki spilað vel hefði það í það minnsta átt að kreista út stig, ef ekki þrjú með smá heppni. En hún var hinu megin. Newcastle vann 1-0. Sgurmark Matty Longstaff kom úr langskoti sem 3% líkur voru á marki úr en líkurnar á marki úr skallafæri Harry Maguire á 37. mínútu voru 48%!
Staðan lagaðist þegar á leið. Í lokin var stigamunur United kominn niður í 4,99 og liðið náði þriðja sæti. Það hefði reyndar getað raðast neðar ef ekki hefði verið fyrir að Chelsea var enn óheppnara með tæplega 8 stiga mismun.
En heppnasta lið síðasta árs – eða öllu heldur síðustu tveggja ára? Liverpool. Liðið fékk 25 stigum meira en það gat vænst í fyrra og hefði því alls ekki átt að verða meistari. Árið áður fékk liðið 13,55 stigum meira. Nú er það lið loks að fá það sem það á skilið!!
Tímabilið í ár
Í vetur hefur United verið í hópi lánsamari liða deildarinnar, hefur fengið 8,91 stigi meira en vænta mátti. Lánsamasta liðið er Leicester með 9,44 stigum meira en vænta mátti en Crystal Palace hefur fengið 7,92 stigum meira og Everton 7,63.
Þegar raðað er eftir væntum stigum fellur Mancehster United niður í fjórða sætið en Chelsea skýst upp í annað sætið því það hefur fengið 8,42 stigum minna en vænta mátti. Þannig hefur staðan verið hjá Lundúnaliðinu nær allt tímabil. Rifja má upp að leikmenn þess hafa verið afar klaufalegir fyrir framan mark andstæðinganna. Því miður fyrir Frank Lampard virðast stjórnendur Chelsea ekki horfa mikið á vænt mörk eða stig en ef gengið snýst við hjá Thomas Tuchel er hægt að segja að það sé vart meira en vænta mátti.
Óheppni Chelsea er þó ekkert á við það sem Brighton hefur mátt þola, það hefur fengið 17,96 stigum minna en vænta mátti. Samkvæmt tölfræðinni hefði liðið átt að vera í fimmta sæti. Vandræði þess eru upp við markið, liðið hefur skorað 11,99 mörkum minna en vænta mátti.
Þegar leikir United í vetur eru skoðaðir virðast úrslitin yfirleitt hafa verið í takt við væntu mörkin. Tveir leikir skera sig þó úr. Annar þeirra var gegn West Ham í nóvember, United vann þann leik 1-3 en væntu mörkin voru 2,53-1,79 West Ham í hag. Hinn leikurinn var gegn hinu lánlausa Brighton í september. United vann 2-3 á vítaspyrnu Bruno Fernandes eftir að leikurinn var í raun flautaður af. Þrátt fyrir vítaspyrnu, sem gaf 0,76 í xG var United aðeins með 1,58 vænt mörk í leiknum gegn 2,98 hjá Brighton. Rifja má upp að bláa liðið skaut fimm sinnum í stöngina í leiknum og setti þar með úrvalsdeildarmet. Á móti kemur að sjálfsmörk eru með xG gildið 0 en Brighton skoraði eitt slíkt.
Þegar raðað er í deildinni nú eftir væntum mörkum er United sem fyrr segir í fjórða sæti. Liverpool færi líka upp fyrir okkar menn og Brighton er þar skammt frá í fimmta sætinu. Ekki er heldur langt niður í Leicester og West Ham. Út frá þessu má draga þá ályktun að þótt staðan sé góð þá er Meistaradeildarsætið ekki enn gulltryggt.
Eins eru enn rúmlega 18 stig í Manchester City, út frá væntum tölum. Tölurnar segja að áfram þarf að styrkja Manchester United í sumar til að nálgast nágrannana og halda andstæðingum í skefjum.
Fyrir áhugasama um vænt mörk og aðra nýaldartölfræði í fótbolta má mæla með bókinni Football Hackers eftir þýska blaðamanninn Christopher Biermann. Hana er hægt að fá á láni hjá Bókasafni Hafnarfjarðar.
Narfi says
Frábær grein Gunnar, meira svona!
Jónas says
Eins og tölfræði getur verið skemmtileg, þá vona ég að hún verði ekki til vandræða hjá okkur mönnum, mjög góð grein gaf innsýn á þennan vinkil
Hallgrímur says
Það væri gamann að sjá xG Scholes.