Betra seint en aldrei sagði einhver. Ritstjórn Rauðu djöflanna lagðist yfir nokkrar spurningar til að líta um öxl og leggja sína gagnrýni á tímabilið. Leikmannakaup og pælingar varðandi næsta tímabil fá að bíða um sinn.
Hver er þín skoðun á tímabilinu í heild? Hverjar voru helstu framfarirnar og mestu vonbrigði tímabilsins?
Frikki
Í fljótu bragði er auðvelt að benda á að öruggt 2. sæti frá janúarglugganum er betra en að ná 3. sæti í lokaumferðinni. En heilt yfir er tímabilið búið að vera bæting frá því síðasta og vissulega ákveðnar framfarir hjá liðinu. Taplausir á útivelli og að vera með 31 stig úr leikjum þar sem við lendum undir verður að teljast merki þess að þrautseigja einkenni þetta United lið. Þá voru framfarir í sóknarleik liðsins enda raðaði liðið inn 121 marki í öllum keppnum á tímabilinu. Vonbrigði tímabilsins geta talist nokkur, t.d. að falla út úr Meistaradeildinni eftir afdrifarík mistök í Tyrklandi eða úrslitaleikurinn gegn Villareal.
Gunnar
Að fara úr tæpu Meistaradeildarsæti í nokkuð öruggt annað sæti eru framfarir. Vonbrigði að ná ekki að komast í gegnum riðilinn í Meistaradeildinni eftir góða byrjun eða klára úrslitaleik Evrópukeppninnar.
Maggi
Ég held að ég sé jákvæðari en margir en ég er heilt yfir mjög sáttur. Væntingarnar voru nánast engar eftir erfiða byrjun á tímabilinu en frábært gengi á útivöllum tryggði á endanum sanngjarna stöðu liðsins í deildinni. United var og ennþá aðeins á eftir City en það er ekki jafnlangt á milli liðanna og hefur verið undanfarin ár.
Daníel
Úff. Svo ótrúlega blendnar tilfinningar. Fyrir tímabilið hefði maður sennilega gefið hægri handlegginn fyrir 2. sæti í deild og þar með flogið inn í Meistaradeildina. En svo miðað við hvernig tímabilið spilaðist, þ.e. hversu illa Liverpool, Tottenham og Chelsea gekk og að hafa tímabundið setið á toppi deildarinnar, þá svíður það örlítið að hafa ekki í það minnsta hrætt City smá í restina.
Luke Shaw tók gríðarlega stór framfaraskref í vetur og Edinson Cavani reyndist ákaflega drjúgur á mikilvægum augnablikum. Það er mikið lán að Úrúgvæinn hafi ákveðið að taka eitt ár til viðbótar hjá okkur. Fyrir utan að vera frábær markaskorari, þá er Cavani mikill liðsmaður og reiðubúinn að miðla ómetanlegri reynslu til yngri leikmanna liðsins.
Um vonbrigði tímabilsins þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja. Það er tapið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Villarreal. Þar var svipað uppá teningnum og gegn mörgum liðum sem spiluðu með lága varnarblokk gegn United – lítið um svör hjá okkar mönnum. Það er nauðsynlegt fyrir Solskjær að næla í bikar á næsta tímabili.
Þorsteinn
Frammistaða leikmanna (bestu leikmenn tímabilsins 1.-3. sæti og vonbrigði)
Frikki
Þetta finnst mér ekki vera keppni.
- Luke Shaw er langbesti vinstri bakvörðurinn í þessari deild og hefði með réttu átt að fá a.m.k. 2 stoðsendingar undir lok tímabilsins en samvinna hans og Rashford heldur áfram að dafna og þroskast.
- Bruno Fernandes er tannhjólið í kökunni sem lætur allt malla á venjulegum degi en má láta meira til sín taka í leikjum gegn hinu stóru liðunum. Síðast en ekki síst verð ég að tala um
- Harry Maguire en á síðari hluta tímabilsins virtist hann ná betri kjölfestu og átti lykilþátt í því að United tapaði bara einum deildarleik af 28 leikjum frá 7. nóv til 11. maí.
Vonbrigðin fólust í því að sjá Anthony Martial mistakast að halda uppi leikformi síðustu leiktíðar og einnig að sjá Donny van de Beek sitja jafn mikið á bekknum og raun bar vitni, sérstaklega eftir að hann skoraði í fyrsta leiknum sínum.
Gunnar
Bruno Fernandes. Það keppir enginn við hann.
Luke Shaw. Brást við samkeppninni og gerði sig ómissandi.
Paul Pogba eftir áramót. Sýndi loks stöðugleika með United og fór að vera liðsmaður.
Vonbrigðin: Anthony Martial. Maður ársins í fyrra, var þá algjör lykilmaður, en náði engan veginn að fylgja því eftir.
Maggi
Luke Shaw – Steig heldur betur í vetur og samkeppnin frá Alex Telles er klárlega að skila sínu.
Harry Maguire – Það sást í lok tímabilsins hversu mikilvægur og góður leikmaður hann er þegar liðið var án hans. Miklu betri en hann fær credit fyrir.
Bruno Fernandes/Paul Pogba – Átti erfitt meða að velja á milli en þeir voru báðir frábærir á sitthvorum tímanum og vonandi munum við sjá þá samstillta á næsta tímabili. En ef ég verð að velja bara annan þeirra þá er það Bruno Fernandes
Vonbrigði tímabilsins:
- Anthony Martial – Hann virtist algjörlega laus við allt sjálfstraust og spurning hvort að önnur deild myndi henta honum betur.
- Donny van de Beek – Hverju eða hverjum sem er að kenna þá var Hollendingurinn ungi ekki alveg að virka en það væri óskynsamlegt að afskrifa hann strax.
- Fred – Það sást oft í vetur hversu takmarkaður leikmaður hann er. Hann er einn af þessum sem er ágætur að hafa í hóp en ekki nógu góður til að vera byrjunarliðsmaður.
Daníel
- Bruno Fernandes
- Luke Shaw
- Harry Maguire
Vonbrigðin – Anthony Martial gekk bölvanlega að finna form á tímabilinu eftir að hafa staðið sig afar vel á því síðasta og lauk leik í mars þegar hann meiddist.
Þorsteinn
Leikur ársins og mark ársins.
Frikki
Mörg sem koma til greina, Rashford gegn Brighton, Edinson Cavani gegn Fulham, fyrsta United markið hjá Amad Diallo gegn AC Milan og vippan hjá Bruno gegn Everton. En markið sem Bruno skoraði gegn Newcastle eftir glæsilega skyndisókn var í sérstöku uppáhaldi.
Leikur ársins var 6-2 gegn Leeds, en 6-2 gegn Roma, 5-0 RB Leipzig og 9-0 gegn Southampton voru flottir leikir líka.
Gunnar
Bruno gegn Everton.
Maggi
Erfitt að nefna ekki 9:0 slátrunina á annars þokkalegu Southampton liði. Bruno Fernandes markið gegn Everton var einstaklega fallegt. Virkaði svo áreynslulaust en var algjörlega óverjandi.
Daníel
Leikur ársins er 6-2 sigurinn á Leeds. Það var sérlega dásamlegt í ljósi þess að það var búið að dásama drengina hans Bielsa í bak og fyrir en draumurinn um sigur á heimavelli erkifjendanna var úti eftir 20 mínútur. Yndislegt.
Edinson Cavani gegn Fulham (H) er að mínu mati mark ársins. Önnur mörk sem komu til greina voru Paul Pogba gegn West Ham (Ú), Bruno Fernandes gegn Everton (H) og Pogba gegn Fulham (Ú).
Þorsteinn
Frammistaða OGS og þjálfarateymisins. Hafa orðið framfarir hjá liðinu og hvað þarf enn að bæta?
Frikki
Það hefur alltaf verið talað um framfarir (progress) í kringum liðið og ef miðað er við frammistöðuna í deildinni síðustu 3 ár þá er sú raunin. Vissulega hafa orðið framfarir, liðið endar ofar á töflunni, með fleiri stig og fleiri skoruð mörk. Liðið hristi af sér undanúrslitagrýluna hans Ole Gunnar Solskjær og komst í úrslit Evrópudeildarinnar. Þá verður að nefna þrautseigjuna sem skein í gegn á tímabilinu. +30 stig úr leikjum þar sem liðið lendir undir er hreint út sagt magnaður árangur.
Maggi
Gunnar
Daníel
Mér finnst framfarir hafa orðið á liðinu að mörgu leyti. Sóknarleikur liðsins er mun meira flæðandi, en það örlar oft á hugmyndaleysi ef að lið bakka niður og bjóða ekki uppá svæði fyrir aftan sig til að hlaupa í. Á ýmsu mætti skerpa í vörninni sömuleiðis, sér í lagi því sem að kallast á ensku “ball watching” – þ.e. að gleyma gjörsamlega hvar maðurinn sem þú átt að dekka er staðsettur af því að þú ert of upptekinn af flugi boltans.
Þorsteinn
Leikmannamál. Er hópurinn nógu góður til að keppa um titla? Hvaða leikmenn þarf liðið að losa og hvaða leikmenn ættum við að fá í glugganum?
Frikki
Núna er Jadon Sancho á leiðinni og þá er framlínan orðin ansi spennandi með Rashford, Cavani, Greenwood og Sancho ásamt Martial, Mata og ungu leikmennina Amad, Elanga, Shoratire, Mejbri o.fl. Hins vegar er alltof mikið um leikmenn í hópnum sem eru ekki að hjálpa liðinu að nálgast enska titilinn en taka pláss sem hægt væri að nýta betur. Nemanja Matic, Phil Jones, Andreas Pereira, Diogo Dalot, Lee Grant, Daniel James, Fred og Jesse Lingard eru allt leikmenn sem mættu fara. En ef eitthvað er að marka síðustu ár þá kannski seljum við 1-2 af þessum leikmönnum og framlengjum við hina.
Til að ná að veita Manchester City, Liverpool og Chelsea samkeppni á næsta ári þurfum við háklassa miðvörð til að spila með Maguire, Varane væri draumur. Jadon Sancho verður leikmaður United núna eftir Evrópumótið sem veitir okkur loksins hægri vængmanninn sem við höfum grátbeðið um í fjölmörg ár. Það sem eftir stendur er þá varnarsinnaður miðjumaður og virðist helsta slúðrið snúast um Eduardo Camavinga en ég tæki glaður á móti hverjum sem er sem er uppfærsla á McT/Fred og gæti þá mögulega fært okkur í 4-3-3. Trippier hefur mikið verið orðaður við okkur en ég myndi heldur vilja sjá Ethan Laird fá tækifæri sem varaskeifa Wan-Bissaka.
Miðvörður, varnarsinnaður miðjumaður og hægri kantur eru þær stöður sem við þurfum að fá byrjunarliðsleikmenn í til þess að eiga möguleika á titilbaráttu í vetur og eins og staðan er í dag er búið að versla Sancho og Varane er ekki óraunhæfur möguleiki. Annars mætti líta til Umtiti hjá Barca eða Koundé hjá Sevilla. Sem varnarmiðjumann mætti líta til Camavinga sem er gríðarlega spennandi og efnilegur leikmaður frá Angóla. Annars hafa margir verið nefndir eins og Rice, Phillips, Zakaria, Bissouma og Soumaré (sem er farinn til Leicester) en Camavinga væri mitt val. Sá virkilega á eftir Moises Caicedo síðasta sumar en Camavinga er hins vegar skör ofar..
Á næsta ári mætti svo skoða framherjamálin en þá dettur líka inn klásúla hjá einum tilteknum norðmanni sem þekkir ágætlega til Ole Gunnar Solskjær og átti ansi afkastamikið og gott samband við nýjasta leikmann liðsins, Jadon Sancho á meðan þeir voru báðir hjá Dortmund.
Maggi
Gunnar
Daníel
Núverandi hópur er ekki nægilega góður til að keppa á öllum vígstöðvum. Breiddin er ekki mikil og það eru ekki sægur af leikmönnum sem geta komið inn af bekknum og haft raunveruleg áhrif á leiki þar sem liðinu gengur illa.
Miðjan er vandamál. Við sjáum það best á EM hversu vel Paul Pogba spilar þegar hann er með alvöru sópara (Kanté) með sér. Ég vil sjá Scott McTominay í Manchester United um ókomna tíð en miðja sem samanstendur af honum og Fred er aldrei að fara að vinna til margra titla á tímabili.
Að því sögðu að þá hefur liðið verið þrálátlega orðað við Raphael Varane frá Real Madrid. Það væri alvöru félagi við hlið Harry Maguire og myndi bæta hraða við varnarlínuna. Það vantar gæði í vörnina, þar sem að það er ekki séns að hægt sé að treysta á að heilsa Eric Bailly sé 100% heilt tímabil og Victor Lindelöf getur spilað frábærlega, en svo gefið tvö klaufamörk í næsta leik.
Framar á vellinum erum við í betri málum. Marcus Rashford og Bruno Fernandes stóðu sig vel á tímabilinu og Cavani átti glimrandi spretti sömuleiðis.
Mason Greenwood var lengi í gang en hann átti í vandræðum í einkalífinu framan af tímabili en sótti í sig veðrið þegar líða tók á það. Nú þegar Jadon Sancho er á leiðinni að þá má búast við enn meiri sköpunarkrafti – hötum það ekki!
Þorsteinn
Ákveðið var að taka ekki frekar umræðuna um næsta tímabil, leikmannakaup og væntingar til liðsins. Þess í stað vonast ritstjórnin til þess að geta tekið Djöflavarp fyrir tímabilið og farið betur yfir þau mál. Ath. Kaupin á Sancho voru ekki gengin í gegn þegar flest þessi svör voru rituð.
Góðar stundir!
Skildu eftir svar