Næsti deildarleikur Manchester United fer fram á morgun en þá heldur liðið suður með sjó og mætir á Saint Mary’s völlinn í Southampton. Eftir griðarlega skemmtilegan og sterkan 5-1 heimasigur gegn Leeds undir stjórn Marcelo Bielsa situr United á toppi deildarinnar (þó einungis eftir einn leik) og má gera ráð fyrir því að þau úrslit hafi ekki gert neitt nema aukið sjálfstraust liðsins. Raphael Varane var kynntur fyrir leikinn og reif upp stemminguna fyrir leik og Jadon Sancho fékk örfáar mínútur og var nálægt því að fagna þeim mínútum með stoðsendingu en nánari úttekt á leiknum var tekin fyrir í síðasta Djöflavarpi vikunnar.
En á svipuðum tíma og United keyrði yfir erkifjendurna í Leeds fóru mótherjar okkar í ekki eins farsæla ferð til Liverpoolborgar þar sem Rafa Benitez stýrði Everton til sigurs gegn Dýrlingunum. Sá leikur fór reyndar vel af stað fyrir liðið að sunnan en þeir komust yfir á 22. mínútu með marki frá Adam Armstrong en Adam var ekki lengi í paradís því Everton svaraði með þremur mörkum í seinni hálfleik.
Á undirbúningstímabilinu spilaði fínan bolta gegn Championship liðunum Cardiff og Swansea (sem lentu í 8. og 4. sæti í deildinni í fyrra) og eftir það unnu þeir Levante með einu marki en Athletic Bilbao reyndist of stór biti og fór sá leiku 3-1 fyrir spænska liðið. Heilt yfir þó ekki slök frammistaða en það er eitt að spila æfingaleiki og annað að spila leik í Úrvalsdeildinni eins og Ralph Hasenhüttl þekkir vafalaust og liðið virtist engan veginn tilbúið í slaginn gegn Everton um helgina.
Southampton
Á síðustu leiktíð mættust liðin fyrst á heimavelli Dýrlinganna þar sem United fór með 2-3 sigur af hólmi eftir frábæra innkomu Cavani en síðari leikurinn sem því miður fór fram án áhorfenda á Old Trafford lauk með 9-0 stórsigri United þar sem gestirnir fengu 2 rauð spjöld og sjö mismunandi leikmenn skoruðu fyrir United. Það gætu því margir búist við því að United myndi valta yfir Southampton á sunnudaginn en þeir hafa þó reynst okkur sýnd veiði en ekki gefin. United hefur reyndar ekki tapað gegn þeim síðan 23. janúar 2016 en síðan þá hafa liðin mæst ellefu sinnum, sex sigrar, fimm jafntefli og markatalan 26-11. Þeim hefur oft tekist að hanga á jafntefli þrátt fyrir látlausar sóknir okkar manna og jafnvel þrátt fyrir að vera manni færri en það er seigt í þessu Southampton liði.
En þrátt fyrir það lenti liðið í 15. sæti á síðustu leiktíð þrátt fyrir að hafa á tímabili verið á toppi deildarinnar en eftir að liðið sigraði Liverpool og Ralph Hasenhüttl kraup niður á hné grátandi virtist ekkert ganga upp hjá dýrlingunum sem töpuðu hverjum leiknum á fætur öðrum. Liðið vann 12 leiki, gerði 7 jafntefli og tapaði 19 leikjum (50%) og eru margir á því að Hasenhüttl þurfi að draga fram fleiri töfrabrögð en það að vinna ríkjandi meistara ef hann ætlar að halda Dýrlingunum í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.
Hann á hins vegar ekki létt verk fyrir höndum enda hefur liðið orðið fyrir blóðtöku, Danny Ings (29) er farinn til Aston Villa, Jannik Vestergaard (29) er farinn til Leicester City og þá er Ryan Bertrand (31) farinn frítt og Takumo Minamino (26) snúinn aftur heim til Liverpool eftir lánið. Á sama tíma hafa þeir fengið til liðs við sig Adam Armstrong (24) úr Championship deildinni, Romain Perraud (23) úr frönsku deildinni og Valentino Livramento að láni frá Chelsea U-23. Brekkan virðist því ansi brött fyrir Austurríkismanninn í brúnni.
Þrátt fyrir að það sé ekki með góðu móti hægt að bera saman keppnisleiki við æfingaleiki á undirbúningstímabili ætla ég að gera það til gamans. Því tilviljun ein réði því að United spilaði síðasta leik sinn á undirbúningstímabilinu við Everton sem voru einmitt mótherjar Southampton um síðustu helgi eins og áður sagði.
Everton (4-2-3-1) gegn Man Utd:
Pickford, Digne, Keane, Godfrey, Coleman, Doucouré, Allan, Iwobi, Rodriguez, Townsend, Gray.
Everton (4-2-3-1) gegn Southampton:
Pickford, Digne, Keane, Holgate, Coleman, Doucouré, Allan, Richarlison, Gray, Townsend, Calvert–Lewin.
Eins og sést er ekki mikill munur á byrjunarliðunum í þessum leikjum að undanskilinni sókn Everton manna. Dominic Calvert-Lewin og Richarlison koma inn fyrir James Rodriguez og Alex Iwobi og Mason Holgate stekkur inn í vörnina í stað Ben Godfrey. Everton steinlá fyrir United í þessum leik 3-0 í fyrri hálfleik og áttu bláliðar aldrei færi á að koma einhverju höggi á United. Síðan mæta þeir löskuðu Southampton liðið (án lykilmanna og með 3 nýja leikmenn í byrjunarliðinu) og keyra yfir þá 3-1.
Þetta Southampton lið átti í stökustu vandræðum með að komast framhjá vörn heimamanna og einungis varnarmistök sem urðu til þess að Armstrong skoraði sitt fyrsta Úrvalsdeildarmark. Stjórinn stillir upp í 4-4-2 sem flæðir stundum yfir í 4-2-2-2, kerfi sem hann notaði með ágætis árangri fyrir 2 árum síðan. Töluvert hefur nú dregið úr sóknarstyrk liðsins en föstu leikatriðin, sem yfirleitt voru í höndum James Ward-Prowse, virðast ekki eins hættuleg þegar Vestergaard og Ings eru ekki lengur til staðar.
Che Adams og Djenepo eru báðir skeinuhættir en þeir virðast þó of mistækir til að það sé þorandi að taka áhættuna á að reiða sig einungis á þá tvo yfir heilt tímabil. Adam Armstrong er síðan óskráð númer en hann gerði virkilega flotta hluti í b-deildinni í fyrra. Þá eru báðir bakverðir liðsins óreyndir í ensku deildinni og Jack Stephens í vörninni átti afleitan dag gegn Everton þannig að ef United mætir með sama hugarfar og þeir gerðu í fyrstu umferðinni þá ætti þessi leikur að vera fyrir þá eins og að veiða fisk í tunnu. Þrátt fyrir að liðið tapaði 3-1 í fyrstu umferðinni tel ég að stjórinn komi til með að halda sig við 4-4-2 og sama byrjunarlið:
Manchester United
Það ætti að vera ágætis andi í búningsklefanum hjá United eftir þessa byrjun, með 75 þús. áhorfendur, stórsigur á erkifjendum, efstir á töflunni, Varane kynntur til leiks fyrir leikinn og mikil jákvæðni í loftinu. Þrátt fyrir hörkugóð kaup í sumar er liðinu ekki spáð nema 3.-4. sætinu, liðið ætti þó að sigla þægilega inn í Meistaradeildarsæti en ætti ekki að gera sér vonir um efstu tvö sætin ef marka má sparkspekingana. Vonandi er liðið ekki mikið að lesa þessa spá né heldur að velta fyrir sér spám og getgátum heldur með alla einbeitingu á leiknum gegn Southampton. Eftir Leeds leikinn er erfitt að réttlæta það að gera mikið af breytingum, enda til hvers þegar hlutirnir virðast virka?
Það er þó augljóst að Raphael Varane og Jadon Sancho voru ekki keyptir til þess að verma bekkinn enda heimsklassa leikmenn. Þrátt fyrir að Daniel James og sérstaklega Victor Lindelöf hafi átt fínan leik er erfitt að sjá að þeir haldi sæti sínu í liðinu mikið lengur. Ég tel að James verði að víkja fyrir Sancho en hugsanlega bíður Solskjær lengur með að setja Varane inn í liðið, jafnvel ekki fyrr en eftir landsleikjahlé þegar hann hefur náð að æfa vel með liðinu. Engu að síður þá stilli ég upp liðinu eins og ég tel að Solskjær vilji hafa það fyrir leikinn gegn Southampton:
Nýja breytingin hjá enska knattspyrnusambandinu heimilar liðum að hafa níu leikmenn á bekknum og þar vil ég sjá þá: Tom Heaton, Anthony Martial, Amad Diallo, Anthony Elanga, Alex Telles, Raphael Varane, Donny van de Beek, Eric Bailly og Diogo Dalot.
Ef ég fengi ráðið færu Sancho og Varane beint inn í liðið og McFred væri ekki á miðjunni heldur Nemanja Matic og Donny van de Beek sem spiluðu frábærlega saman á móti Everton en serbinn gerði liðinu kleift að spila 4-3-3 og henda fleiri mönnum fram sem gerði það að verkum að liðið átti mun auðveldara með að brjóta á bak aftur varnarmúrinn. Þrátt fyrir að Southampton verði með fullan völl af stuðningsmönnum er enginn að fara telja mér trú um annað en að þeir verði varkárir og liggi djúpt í leiknum gegn okkur og því gæti þessi miðjukokteill svínvirkað í leiknum.
Það verður þó hins vegar að nefna það að McTominay og Fred spiluðu mun framar en þeir eru vanir í síðasta leik og hugsanlega mun Solskjær hleypa þeim aftur svo framarlega, sérstaklega ef Varane kemur inn í liðið með meiri hraða í varnarlínuna okkar. Annars eru Shaw, Pogba, Bruno, Greenwood og Maguire allir læstir í byrjunarliðið um þessar mundir og hafa varla stígi feilspor.
Mest er ég spenntur fyrir því að sjá Sancho spila 90 mínútur enda held ég að það gæti reynst afar vænlegt að spila honum gegn leikmanni sem er einnig nýr í ensku deildinni. Helstu styrkleikar Sancho felast einmitt í því að ná að einangra menn í 1-á-1 og taka þá síðan á, ásamt því að draga í sig tvo, þrjá og stundum fjóra varnarmenn sem býr til gríðarlega mikið pláss fyrir aðra leikmenn á vellinum. Það gæti þá opnað stór svæði fyrir Bruno til að hlaupa inn í en eins og sást í Leeds leiknum og á síðustu leiktíð eru fáir sem virka betur sem eins konar ‘second striker’ og þegar eins fjölhæfur og skapandi leikmaður eins og Sancho er kominn á svæði sem mótherjar okkar voru nánast hættir að dekka (þ.e. hægri kantinn) verður spennandi að sjá hvernig lið bregðast við því, þar sem tæpur helmingur allra sókna United liðsins fór upp í gegnum vinstri kantinn á síðustu leiktíð.
Um er að ræða sunnudagsleik fyrir United en flautað verður til leiks kl 13:00. Flautuleikarinn verður Craig Pawson sem dæmdi síðast leik rauðu djöflanna gegn Leicester City í leik þar sem United neyddist til að spila varaliðinu sökum þéttrar leikjaröðunar. Andre Marriner verður í VAR herberginu og honum til aðstoðar verður Lee Betts.
Skildu eftir svar