Leikmenn United eru komnir til Bern í Sviss og mæta á morgun liði Young Boys
*brandari að eigin vali um unga drengi*
Andstæðingurinn
Young Boys urðu meistarar í Sviss í fimmtánda skipti í vor og fjórða skiptið í röð og eru búnir að fara í gegnum þrjár undanrásir áður en liðið tryggði sér sæti í riðlakeppninni. Slovan Bratislava, CFR Cluj og Ferencváros lutu í gras.
Stjóri Young Boys er gamalkunnur úr enska boltanum, Þjóðverjinn David Wagner stýrði Huddersfield frá 2015-2019, fékk síðan tækifæri hjá Schalke og entist rúmlega árið en tók við Young Boys í sumar, meistarastjórinn Gerhard Soane fór til Bayer Leverkusen. Young Boys hafa ekki byrjað of vel í deildinni, tveir sigrar, tvö jafntefli og eitt tap og þeir sitja í fimmta sæti. Þeir unnu þó leik sinn um helgina, sannfærandi fjögur – núll sigur gegn efsta liðinu FC Zürich, þar sem miðjumaðurinn Michel Aebischer átti stórleik og skoraði tvö mörk. Það er ekki hægt að segja að í hópi liðsins séu leikmenn sem við utan Sviss eigum að þekkja og ég stilli hér upp sama liði og vann þennan góða sigur um helgina.
Liðin hafa mæst einu sinni áður í Meistaradeildinni, haustið 2018, United vann báða leikina, 1-0 á Old Trafford og 3-0 á Stade de Suisse. Leikurinn á morgun fer fram á sama leikvangi sem hefur nú fengið sitt gamla nafn aftur, Wankdorf (aftur, brandari að eigin vali). Í liðinu sem stillt er upp að ofan voru bara tveir leikmenn í byrjunarliði gegn United í Sviss fyrir þremur árum, markvörðurinn David von Ballmoos og kantmaðurinn Christian Fassnacht. Mohamed Camara var svo varamaður á laugardaginn var. Það hefur því verið mikil breyting á liði Young Boys á þessum þremur árum
Manchester United
Ef umfjöllun um andstæðinginn er þunn þá er það af tvennu: liðið státar ekki af miklum bógum og hitt að ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta sterkasta United lið í mörg ár á að vinna leikinn á morgun. Ekki að svoleiðis bjartsýni hafi ekki komið í bakið á okkur áður en það er nauðsynlegt að byrja þessa keppni vel, eins og fyrir þremur árum þegar 3-0 sigurinn kom liðinu vel af stað og hjálpaði til að tryggja annað sætið á eftir Juventus. Sigurinn í Torínó gerði reyndar gæðamuninn þar.
Þess vegna verður Ole Gunnar að stilla upp sterku liði á morgun, en reyndar er svo komið að hópurinn eru orðinn það sterkur að lítils háttar rótering er ekki mikil veiking. Spái þessu samt svona
Talandi um breytingar, af þessum voru það bara De Gea, Shaw, Dalot, Fred og Martial sem byrjuðu í leiknum fyrir þremur árum. Það verur að teljast rétt að styrking United á þessum tíma sé meiri en Young Boys.
Kallið það heimtufrekju en leikurinn er skyldusigur. Þessi riðill er ekki sá erfiðasti fyrir United, úrslitaleikirnir verða gegn Villareal og síðan eiga Young Boys og Atalanta að vera skyldusigrar ef United á að stimpla sig inn í þessa keppni.
Leikurinn á morgun er snemma í eftirmiðdaginn, og hefst kl 16:45 að íslenskum tíma
Skildu eftir svar