Eftir fyrstu fimm deildarleiki þessa veturs situr United í 3. sæti með 13 stig, rétt eins og Chelsea og Liverpool sem þó hafa +2 í markatölu á okkur. Ekkert lið hefur skorað fleiri mörk en United þrátt fyrir að liðið hafi ekki fengið eitt einasta víti það sem af er leiktíðar. Þetta kann að hljóma eins og draumastaða en dapurt tap varaliðsins í deildarbikarnum í vikunni og súr byrjun á Meistaradeildinni í Sviss varpa skugga á annars fínt gengi í deild. Þá hefur spilamennska liðsins einnig verið gagnrýnd en liðið hefur engu að síður einungis tapað tveimur stigum í fimm leikjum þrátt fyrir að liðið hafi ekki spila eftir getu í þeim öllum.
Liðið hefur spilað við Leeds, Southampton, Newcastle, Wolves og West Ham en nú er röðin komin að Aston Villa en baráttuglaðir lærisveinar Dean Smith áttu heldur betur góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð eftir að hafa rétt bjargað sér frá falli árið áður. Aston Villa endaði reyndar í 11. sæti í fyrra en var lengi vel í baráttu um Evrópusæti en á endanum helltust þeir úr lestinni en enduðu samt sem áður 10 stigum ofar en næsta lið.
l
Aston Villa
Liðið fór mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar. Þeir byrjuðu sumarið með látum og keyptu Emiliano Buendía, 24 ára gamlan argentínskan sóknarmiðjumann á 35 millj. punda. Buendía var kosinn besti leikmaður Championship deildarinnar í fyrra með 15 mörk og 17 stoðsendingar fyrir Norwich sem jafnframt unnu deildina þægilega en ef tekið er mið af sóknarleik liðsins í Úrvalsdeildinni sést að þetta hefur verið driffjöðurin í sóknarleik liðsins.
Aston Villa lét hann ekki duga heldur sópaði til sín leikmönnum, Ashley Young kom frítt frá Inter, Leon Bailey kom frá Bayer Leverkusen á 30 millj. punda, Danny Ings kom að sunnan á 27 millj. og síðan kom Alex Tuanzebe á láni frá United. Þetta var hins vegar einungis hægt vegna þess að þeir seldu uppalinn landsliðsmann sem státar glæsilegustu kálfum deildarinnar.
Hér á ég auðvitað við Jack Grealish sem seldur var á metupphæð til Manchester City. Lykilmaðurinn í þessu Aston Villa liði undanfarin ár og ætlaði stjórnin svo sannarlega að bæta upp allt sem þeir misstu með því að fá fyrrnefnda leikmenn til liðs við sig. Dean Smith sagði að þeir hefðu misst mikið þegar Grealish fór en þeir hefðu sannarlega keypt leikmenn sem ættu að geta það sem hann getur gert, það gleymdist hins vegar að segja stjóranum að hann getur ekki leikið þeim öllum inn á í einu í stað Englendingsins.
En að öllu gamni slepptu þá er Dean Smith frábær stjóri sem tók við Aston Villa 10. október 2018 en áður stýrði hann Brentford og Walsall þar áður. Aston Villa hefur undir hans stjórn unnið rúmlega 40% leikja sinna og spilar oft á tíðum mjög skemmtilegan sóknarfótbolta. Honum tókst meðal annars að koma liðinu í úrslitaleikinn gegn Manchester City í deildarbikarnum fyrir 2 árum, kom þeim í gegnum umspilið í Championship árið áður og þá var hann einnig valinn „Manager of the Month“ Úrvalsdeildinni í desember á síðasta ári.
Hann er duglegur að breyta liðsuppstillingu og leikkerfum eftir því sem hann telur henta hverju sinni en núna eftir að Ollie Watkins er orðinn leikfær aftur hefur hann stillt upp í 5-3-2 til að koma honum og Danny Ings báðum inn í byrjunarliðið, með misjöfnum árangri (0-3 tap gegn Chelsea og 3-0 sigur gegn Everton).
Liðið átti leik í miðri viku gegn Chelsea þar sem Smith ákvað að stilla upp frekar breyttu liði og gaf t.a.m. framherjunum sínum frí. Það ættu því allir að vera ferskir á morgun fyrir leikinn að undanskildum Leon Bailey sem verður frá vegna meiðsla fram yfir landsleikjahlé. Þá er Alex Tuanzebe á láni frá United og má ekki spila gegn klúbbnum. Því spái ég liðinu á morgun;
Manchester United
Það eru einhverjar jákvæðar fréttir úr herbúðum United fyrir komandi umferð. Má þar nefna að Edinson Cavani er orðinn leikfær og þrátt fyrir að trúleysi hafi farið aukandi á heimsvísu þá halda kraftaverkin áfram að gerast. Eric Bailly er heill og leikfær og spilaði við hlið Lindelöf í deildarbikarnum og Phil nokkur Jones, sem eldri stuðningsmenn hafa kannski séð spila fyrir United, var á bekknum í þeim leik. Það verður þó að teljast ólíklegt að nokkur þeirra komi við sögu í leiknum á morgun, einna helst þá Cavani, en því spái ég liðinu á þann veginn;
Marcus Rashford og Amad Diallo eru enn frá vegna meiðsla en eru báðir á batavegi. Jadon Sancho spilaði í miðri viku og verður líklegast á bekknum og þar sem Aaron Wan-Bissaka er í leikbanni fyrir næsta Meistaradeildarleik fæ Diogo Dalot líklegast að spreyta sig þar. Wan-Bissaka verður því líklegast áfram í hægri bakverðinum. Dean Henderson spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í vikunni og stóð sig vel gegn West Ham en David de Gea hefur verið nánast óaðfinnanlegur í markinu það sem af er, sem sést líka á því að 3 af 4 mörkum sem liðið hefur fengið á sig í deildinni hafa komið fyrir utan teig, þar af tvö sem breyttu um stefnu (Ayling og Benrahama mörkin).
Liðið ætti því að velja sig nokkurn veginn sjálft, Ronaldo er ógnvænlegur upp á toppnum og Mason Greenwood hefur verið að raða inn mörkum, kominn með 9 eða 10 mörk í síðustu 12 leikjum sínum fyrir liðið og Pogba er langstoðsendingahæstur í deildinni og virðist finna sig vel á vinstri kantinum.
Stigin sem eru í boði úr þessum leik og þeim næsta (gegn Everton) eru án vafa mjög mikilvæg fyrir liðið enda er liðið að sigla inn í eina erfiðustu leikjahrinu sem sögur fara af:
Leicester City (Ú)
Atalanta (H)
Liverpool (H)
Tottenham (Ú)
Atalanta (Ú)
Manchester City (H)
Watford (Ú)
Villareal (Ú)
Chelsea (Ú)
Arsenal (H)
Eftir þetta gengur í garð talsvert hentugri dagskrá ef svo má að orði komast en þessi hrina mun reyna verulega á lykilleikmenn og breidd hópsins. Ferðalög til Ítalíu og Spánar ásamt því að spila við öll hin stóru liðin í deildinni mun bæði reyna á liðið og stjórann og verður áhugavert að fylgjast með á komandi vikum hvernig þetta fer allt saman.
Leikurinn við Aston Villa hefst 11:30 á morgun á Old Trafford
Dór says
En startar fred er solskjær blindur fred er búinn að vera lang lélegastur á tímabilinu