Í hádeginu í dag tók Manchester United á móti Aston Villa en á undanförnum árum hefur gengi Villa manna á Old Trafford ekki verið upp á marga fiska. Leikir þessara liða hafa þó oft boðið upp á ágætisskemmtun og því ekki ólíklegt að sú yrði raunin í dag. Hins vegar var fyrsta korterið afskaplega takmörkuð skemmtun þar sem bæði lið virtust vera að þreifa fyrir sér og reyna að ná smá fótfestu.Ole Gunnar Solskjær gerði aftur 11 breytingar á liðinu frá því í miðri viku og stillti upp í 4-2-3-1:
Á bekknum voru þeir Heaton, Dalot, Lindelöf, Lingard, Matic, van de Beek, Cavani, Martial og Sancho
Fyrsta raunverulega færið kom á 16. mín þegar John McGinn átti góða stungusendingu upp á hægri kantinn þar sem bakvörðurinn Matty Cash, sem skoraði nú í síðustu umferð, bar boltann upp að endamörkum og kom með fyrirgjöf. Á fjærstönginni kom hinn bakvörður gestanna, Matt Targett, á fleygiferð en skot hans flaug himinhátt yfir úr ansi vænlegri stöðu.
Strax í næstu sókn kom álitlegt færi fyrir heimamenn þegar Mason Greenwood og Bruno Fernandes voru komnir inn í teig gegn einungis tveimur varnarmönnum gestanna. Greenwood gerði vel með boltann en í stað þess að renna boltanum út í teig á Bruno sem var einn og óvaldaður, valdi táningurinn að reyna sjálfur skotið en Martinez í markinu sá frekar auðveldlega við skoti hans. Tilvalið færi ef hann hefði sent á þann portúgalska en oft er bara einn valmöguleiki í huga stráksins og það er að skjóta.
Það var ákveðið deja-vu atvik skömmu síðar þegar Harry Maguire var settur undir pressu á vinstri kantinum okkar og snéri að markinu. Fyrirliðinn ákvað þá að renna boltanum á David de Gea í markinu en sending hans ónákvæm og sá spænski mátti hafa sig allan við að teygja tánna í boltann en sú snerting var ekki af hinu góða. Boltinn datt fyrir lappirnar á Ollie Watkins en markvörðurinn okkar var snöggur á lappir og kastaði sér fyrir og varði vel. Örlítil heppni lék okkur á þessum tímapunkti því frákastið var það fast að það fór beint í Danny Ings og þaðan aftur til de Gea sem greip knöttinn. Sannarlega hefði þetta verið gjöf á silfurfati ef þetta hefði breytt stöðunni í leiknum.
Aaron Wan-Bissaka og Greenwood áttu síðan afar gott samspil á hægri kantinum sem endaði með því að Bruno fékk stungusendingu við hlið vítateigslínunnar. Þar lék hann á einn varnarmann, bar boltann upp að stönginn og renndi honum síðan út í teiginn þar sem Pogba kom á ferðinni en skot hans endaði í varnarmanni og aftur fyrir endamörk.
Um miðjan fyrri hálfleik var ekki mikill hraði í leiknum og bæði lið virtust þreytuleg en það fór þó aðeins að breytast en ekki áður en Luke Shaw bað um skiiptingu. Englendingurinn hafði sest í grasið snemma leik, krækt sér síðan í gult spjald og nú þurfti hann að koma af velli en í hans stað kom Diogo Dalot.
Þá fengu gestirnir ágætis færi þegar þeir fengu aukaspyrnu nokkuð frá vítateigsboganum en skotið fór í varnarvegginn og í horn. Úr horninu kom svo stórhættulegt fær en skalli Hause fór yfir markið. Síðasta færi hálfleiksins kom einnig út hornspyrnu þegar fyrirgjöfin endaði á pönnunni á Varane sem fleytti honum áfram inn í markmannsteiginn þar sem Pogba reis manna hæst og skallaði boltann en framhjá fór hann. 0-0 í hálfleik og ekki mikið flæði búið að vera í leiknum.
Seinni hálfleikur
Síðari hálfleikurinn fór vel af stað fyrir gestina sem vildu fá vítaspyrnu á fyrstu mínútunum þegar Danny Ings féll í teignum en dómarinn var ekki á sama máli. Eflaust hafa margir verið að vonast eftir einhverri lukku í síðari hálfleik en sú lukka virðist hafa gleymst á æfingasvæðinu. Fljótlega eftir að hálfleikurinn var kominn á fullt þurfti United að gera aðra skiptingu í vörninni. Að þessu sinni var það Maguire sem þurfti að hætta leik, en í hans stað kom Victor Lindelöf til að klára síðasta hálftímann eða svo. Það þýddi að einungis átti Solskjær eftir eina skiptingu til að breyta leiknum. Flæðið í leiknum var hins vegar ekkert, liðin skiptust á að glata boltanum og komast í hálffæri.
Þrátt fyrir að United hafi verið óheppið með meiðsli vorum við heppnir með óheppni gestanna. Þeir virtust vera sjálfum sér verstir þegar kom að því að klára færin sín og ná góðum marktækifærum. Maguire var til að mynda stálheppinn að sleppa með spjald áður en hann fór útaf, eftir að hann virtist toga niður McGinn sem var að sleppa framhjá honum en ekkert dæmt. Téður McGinn nældi sér síðan í gult spjald eftir hefnibrot á Bruno í næstu sókn.
Á 66. mínútu átti Greenwood gott hlaup fyrir aftan vörn gestanna og Bruno stakk boltanum inn fyrir en því miður var sendingin ekki fullkomin og Greenwood neyddist til að rekja boltann í átt að vítateigshorninu. Þaðan reyndi hann skot en það var ekki mikil fyrirhöfn hjá Martinez að verja frá honum. Þá kom eitt besta færi gestanna í síðari hálfleik, en eins og við sjáum svo oft þegar United reynir að pressa þegar langt er liðið á leikinn, þá býður það hættunni heim. Að þessu sinni komst Ollie Watkins enn og aftur í gráupplagt færi en de Gea, sem er líklegast búinn að vera okkar besti leikmaður í deildinni á þessu tímabili, varði vel frá honum.
Greenwood fékk ansi mörg færi en það var eins og það sæti í honum að Ronaldo hefði ekki sent boltann á hann í leiknum gegn West Ham, því táningurinn reyndi að gera allt sjálfur við hvert tækifæri. Þegar um tíu mínútur voru eftir á klukkunni gerði Solskjær sína síðustu breytingu, Cavani kom inn á í stað McTominay og átti að fjölga inn í boxi andstæðingsins.
Næsta færi kom eftir fyrirgjöf frá Greenwood sem endaði með skalla frá Bruno en skallinn var laus og auðveldur fyrir Martinez. Gestirnir fóru í kjölfarið að gefa í og uppskáru bæði hornspyrnu og innkast stuttu eftir þetta. Úr löngu innkasti frá Cash ákvað Lindelöf að skalla boltann í horn þrátt fyrir að vera undir lítill sem engri pressu. Úr horninu kom svo sigurmarkið. Cavani og Hause áttust við í teignum og eftir tiltal frá dómaranum hófst dansleikur þessara leikmanna í kringum de Gea. Þegar boltinn kom í átt að markinu stakk Hause sér fram í átt að nærstönginni og skallaði boltann framhjá de Ge og breytti stöðunni í 0-1 með örfáar mínútur til leiksloka.
Þegar komið var í uppbótartíma virtist lukka United loksins vera að snúast. Bruno Fernandes átti fyrirgjöf úr aukaspyrnu á kantinum sem Cavani skallaði í átt að markinu. Boltinn fór af höfðinu á honum og í höndina á títtnefndum Hause. Vítaspyrna dæmd og loks fengjum við úr því skorið hvort Bruno eða samlandi hans, Ronaldo, færi á punktinn. Það varð hálfgerður skrípaleikur í kringum punktinn og Martinez og fleiri leikmenn Aston Villa virtust vera að reyna hafa áhrif á dóminn þrátt fyrir að VAR herbergið hefði staðfest dóminn.
Það kom eflaust mörgum á óvart að Bruno stillti upp boltanum og hugðist taka vítið. En lukkan var ekki með honum í þetta skiptið og skot hans fór himinhátt yfir markið. Mjög ólíkt honum en það þýddi að United fór stigalaust úr þessum leik.
Pælingar að leik loknum.
Núna hefur United haldið einu sinni hreinu í síðustu 16 leikjum. Fyrir lið sem hefur varið jafn háum fjárhæðum í varnarmenn er það hreinlega ekki boðlegt. David de Gea hefur verið frábær að undanförnu svo ekki liggur sökin hjá honum. Liðið hefur verið að fá á sig mörk úr föstum leikatriðum og á þessu tímabili hefur liðið líka fengið á sig mörg skot fyrir utan teig.
Eric Ramsey var ráðinn í sumar til að taka við þjálfun varðandi föst leikatriði en enn eigum við eftir að sjá afraksturinn af því, þó vert sé að sýna þolinmæði enda lítið búið af tímabilinu. En þessi leikur þýðir það að United mun að öllum líkindum missa Liverpool fram úr sér, Chelsea stendur í stað eftir 0-1 tap gegn City, sem eru líka komnir fram úr okkur.
Auðvitað þarf að taka inn í reikninginn að Solskjær neyddist til að breyta vörninni tvisvar en þetta lið á alltaf að geta skorað á hvaða lið sem er. En fyrstu fréttir herma að Maguire og Shaw verði að öllum líkindum ekki með í miðri viku gegn Villareal. Við eigum harma að hefna eftir Evrópudeildina og þurfum líka að rífa okkur upp eftir tvö 0-1 töp í röð. En áfram gakk, næsti leikur takk!
Gummi says
Fred fred og aftur fred hvað er í gangi í hausnum á Solskjær
Helgi P says
Við höldum áfram að vera ömurlegir
Egill says
McTominay er gjörsamlega ófær um að senda boltann, skelfilegar sendingar trekk í trekk.
Dór says
Af hverju gerir maðurinn ekki skiptingar þetta er ekki hægt að horfa á þetta lið lengur
Helgi P says
Jæja kominn tími að reka þennan trúð úr stolnum og það strax ömurlegur stjóri
Egill says
Bruno, Cavani, Ronaldo, Pogba og Greenwood allir inná en við getum ekki skorað á heimavelli gegn Aston Villa.
Ole þarf að fara, ég get ekki leyft þessu fífli að eyðileggja fleiri daga fyrir mér.
Skítt með vítaklúðrið, þetta lið er gjörsamlega óþjálfað og ekkert leikplan sjáanlegt.
Ole out strax!!!
Gummi says
Villa voru bara miklu betri en vil Solskjær verður að fara þetta er bara vandræðilegt að horfa uppá þetta Ronaldo er ekki að fara taka annað ár með Solskjær sem stjóra
Olli says
Ha ha ha
Dór says
Jæja hvað segja Solskjær stuðningsfólk núna þið eruð örugglega mjög ánægðir með þessa spila mensku sem af er tímabili
Elis says
Förum yfir þetta tímabil
Leeds H 5-1 flottur sigur í liði sem eru reyndar þekktir fyrir að vera galopnir gegn góðum liðum.
Southampton Ú 1-1 liðið átti ekkert meira skilið.
Wolves Ú 1-0 3 stig sem liðið átti alls ekki skilið. Heimamenn miklu betri og klúðru fullt af dauðafærum.
Newcastle H 4-1 öruggur sigur þegar upp var staðið en leikurinn var samt lengi vel í járnum gegn þessu lélega Newcastle liði.
Young Boys Ú 1-2 Skelfilegur leikur, skelfileg tap gegn lélegu liði.
West Ham Ú 2-1 þetta var ekki merkilegt og klúðruðu gestirnir víti í lokinn.
West Ham Ú 0-1 Langar Ole ekki í bikar? Þetta var besta tækifærið.
A.Villa H 0-1 Ekki góður leikur en liðið átti að jafna úr víti en Bruno fór á taugum.
Þetta er heilt yfir hörmung hjá liði sem bæti við sig Ronaldo, Varane og Sancho.
Liðið fær frekar þægilegt prógram til að byrja tímabilið og til þess að komast í gang en nei liðið spilar ekki góðan fótbolta(sjá Chelsea, Man City og Liverpool sem eru öll miklu betri) og lítur ekki vel út.
Stuðningsmenn annara liða vilja að Ole verður sem lengst og það segir allt sem segja þarf.
Scaltastic says
Við yfirspiluðum þá í fyrri hálfleik, hins vegar þá gerðu bæði Shaw og Maguire hugsunarfail-a sem hefðu átt að kosta mörk. Þetta er bölvaða þema tímabilsins að allt liðið er á nálum yfir næstu mistökum.
Það var því fyrirsjáanlegt hvernig liðið mætti í fyrstu 20 mín í seinni hálfleik… passívt og skelkað. Vissulega fengum nógu mörg færi til að hafa tekið yfir leikinn en því miður var Greenwood í bullinu í dag.
Málið er fremur einfalt. Þetta er lið er með bölvaða minnimáttarkennd og stjórinn er algjörlega ráðþrota. Ef hann vinnur ekki á miðvikudag þá verður hann að fara… sem er mjög sorglegt vegna þess að hann er með 100% united hjarta.
Gummi says
Er að horfa á brendford og Liverpool og þetta lið brendford er betur þjálfað en við
Arni says
Ef Solskjær hættir ekki þessu Fred og McTominay rugli þá er þetta bara eftir að enda á því að hann missir starfið
Arni says
Hvenar á von á nýju djöflavarpi frá ykkur væri til í að heyra hvað þið hafið að segja um þessa skitu í síðustu leikjum