Annað laugardags hádegið í röð spilar Manchester United á heimavelli, nú gegn Everton. Vonandi verður niðurstaðan betri en síðasta laugardag þar sem allt fór í vaskinn United megin á lokakafla leiksins, 0-1 tap niðurstaðan. Leikurinn á morgun verður strembinn þar sem Everton hefur farið mjög vel af stað á tímabilinu, tapað aðeins einum leik og situr við hlið United í töflunni með sama stigafjölda. Leikurinn hefst kl. 11:30 að íslenskum tíma.
Everton
Það var alls ekki bjart yfir Everton í sumar. Stjóraskipti sem fólust í því að Carlo Ancelotti fór til Real Madrid og inn kom Rafa Benítez sem vægt til orða tekið var ekki vinsæl ráðning. Þar að baki liggur sú staðreynd að Benítez þjálfaði erkifjendurna í Liverpool í um sex ár og var því ekki á neinum jólakortalista Everton stuðningsmanna. Ofan á það hvarf James Rodriguez á braut frá félaginu og inn komu tveir enskir kantmenn, Andros Townsend og Demarai Gray, sem margir voru búnir að afskrá sem leikmenn í ensku úrvalsdeildinni. Auk þess fær Gylfi Þór einn dýrasti leikmaður liðsins ekki að leika með liðinu af ástæðum sem ekki verður farið út í hér nánar.
Þrátt fyrir þetta allt saman hefur liðið verið á blússandi skriði það sem af er tímabili. Eina tap þeirra á tímabilinu í deild var 3-0 skellur gegn Aston Villa. Var það einnig eini leikur liðsins þar sem þeim tókst ekki að skora. Townsend og Gray hafa komið öllum á óvart og eru samanlagt búnir að skora fimm mörk og leggja upp þrjú. Ásamt þeim tveim er Calvert-Lewin búinn að vera á skriði í markaskorun og er kominn með þrjú mörk. Ole Gunnar mun þó ekki þurfa velta sér upp úr því hvernig eigi að verjast gegn honum þar sem hann er á meiðslalista Everton ásamt Séamus Coleman, Richarlison og Fabian Delph. Líklegast þykir að stóri og stæðilegi Venesúela maðurinn Salomon Rondon kom í framlínuna, en Rafa náði í sinn fyrrum lærisvein á síðastliðnum gluggadegi. Pickford er tæpur fyrir morgundaginn þannig að ekki ætti að koma á óvart ef Asmir Begovic muni standa á milli stangana. Leikurinn á morgun er ákveðinn prófsteinn fyrir Rafa og Everton þar sem þetta er fyrsti leikur liðsins gegn einu af svokölluðu stóru sex.
Líklegt Byrjunarlið:
Manchester United
Eftir ósannfærandi spilamennsku og dramatískar lokamínútur vannst fyrsti sigur United í Meistaradeildinni í miðri viku gegn Villarreal. Hvorki var þetta fyrsti leikurinn þar sem spilamennskann var ósannfærandi né dramatískar lokamínútur settu mark sitt á leik liðsins á tímabilinu hingað til. Þetta verður að laga! Ole Gunnar Solskjær verður að koma riðma og festu í liðið sem allra fyrst ef liðið ætlar í alvöru að vinna einhverja titla á tímabilinu. Nóg er búið að leggja í liðið og engar afsakanir geta skýlt honum fyrir því að liðið er búið að tapa einum þriðja leikja á tímabilinu hingað til, allt gegn minni spámönnum.
Það verður þó krefjandi á morgun með fyrirliðann Maguire og Shaw, tvo stærstu máttarstólpa liðsins á meiðslalistanum. Fróðlegt verður því að sjá Lindelöf í baráttunni við Rondon sem er með töluverða líkamlega yfirburði gegn svíanum og mun sennilega líma sig á hann í stað þess að kljást við Varane. Það er spurningarmerki hvernig miðjan verður, mun Fred koma inn í liðið, hver dettur út? Ég held að Ole Gunnar muni verðlauna Lingard á morgun með byrjunarliðssæti og að Pogba muni vera á miðjunni líkt og gegn Villarreal í vikunni. Einnig er spurning hvort eigi að byrja troða Cavani inn í liðið á einhvern hátt? Ég held að svo verði ekki, þar sem Ronaldo hefur framherjastöðuna í ákveðnu kverkataki með sinni framleiðni að mörkum. Er þetta leikur sem á að koma Sancho en einu sinni í gang? Eins og ég er búinn að koma inn á held ég að Lingard fái að byrja og svo er Greenwood með hægri kannts stöðuna á lás sem stendur.
Þetta kemur allt í ljós á morgun en ég spái liðinu svona:
Með sigri fer United upp í 16 stig og heldur í við hin þrjú liðin sem spáð er í topp fjóra á tímabilinu. Með tapi erum við komnir í eltingarleik sem við viljum alls ekki snemma á tímabilinu með lið eins og City, Liverpool og Chelsea fyrir framan okkur. Flautuleikari í fyrsta leik 7. umferðar verður Michael Oliver og blæs hann allt af stað eins og fyrr segir kl. 11:30.
Hallgrímur says
City og Liverpool , það vinnur bara annað liðið þar i dag.
Við merjum Everton i dag og chelsea tekur 1 stig