Jólin koma snemma í ár. Fyrsta jólabókin er komin á ritstjórnarskrifstofu Rauðu djöflanna. Hún er Rauði baróninn, sjálfævisaga Garðars Arnar Hinrikssonar, knattspyrnudómara og stuðningsmanns Manchester United.
Mér vitanlega hefur ekki áður komið út ævisaga íslensks knattspyrnudómara. Fyrir knattspyrnuáhugamenn er fagnaðarefni að fá nýja sýn á leikinn.
Nokkrir erlendir dómarar, svo sem Pierluigi Collina, Howard Webb og nú síðast Mark Clattenburg hafa gefið út sínar ævisögur. Líkt og hjá að þeim skín í gegn hjá Garðari virðing fyrir knattspyrnulögunum og einlægur áhugi á dómarastarfinu. Þótt Garðar sé nú hættur að dæma leggur hann það á sig að reyna að útskýra túlkanir og reglur fyrir íslenskum stuðningsmönnum Manchester United á Facebook, sem er góðra gjalda vert.
Á bekknum með Stepleton
Bókin fjallar fyrst og fremst um feril Garðars sem dómari. Hún skiptist upp í þrjá megin kafla. Fyrst fer Garðar yfir ferilinn sinn í tímaröð, síðan tekur hann ákveðin viðfangsefni, svo sem milliríkjadómgæsluna, skemmtilegustu leikina og slíkt og loks færir Garðar sig í sögur sem frekar gerast utanvallar.
Garðar hefur reynt margt á dómaraferlinum og því er bókin full af fínum sögum. Nefna má frábæra frásögn af ferð í viðkvæmt ástand til Makedóníu. Sú saga er trúlega með þeim dýpri í bókinni. Önnur góð saga er af því þegar Garðar Örn dæmir mót sem fyrrum leikmenn Manchester United spiluðu í hérlendis. Barnsleg gleði skín úr því þegar hann sest á bekkinn við hliðina á Frank Stapleton.
Stundum var tilfinningin sú að sögurnar hefðu mátt vera aðeins lengri og dýpri. Mér fannst skorta sögur af því hvernig Garðar tókst á við mistök eða um lífið sem dómari utan vallar. Þær eru þó þarna og sumar afar góðar, til dæmis af fáránlegri hegðun félaga Garðar sem hætti að tala við hann vegna dóms sem Garðar dæmdi liði hans í óhag. Gaman hefði verið að heyra hvernig var að eiga sumarsmell og dæma um leið.
Stíll og frágangur
Ekki er annað að sjá en Garðar hafi skrifað bókina alfarið sjálfur, enda ágætlega pennafær. Oftast er það svo að þótt bækur séu skráðar sjálfsævisögur þá eru fengnir ritstjórar eða skrifarar til að aðstoða við þær. Er þá um að ræða útgáfur hjá forlögum sem aðstoða við að finna rétta aðstoðarmanninn.
Það er ekki endilega í boði þegar menn gefa út sjálfir, eins og Garðar, enda trúlega fyrir honum vakað ástríðan fyrir að skrá sögu sína. Að fá ritstjóra að verkinu hefði styrkt bókina. Orðafærið í bókinni er eins og bloggi, eilítið gauralegt og verður því á köflum pirrandi. Stíllinn er þó hvorki háfleygur né tyrfinn þannig textinn er auðveldur aflestrar og bókin því hraðlesin.
Frágangur og uppsetning eru góð. Engar stafsetningarvillur sáust en tvisvar vantaði bil eftir punkt. Sérstakt letur og annar stíll í síðasta hlutanum, minningarbrotum annarra um Garðar, er stílbrot sem ekki gengur upp. Það má reyndar segja um þann kafla í heild, verður eiginlega hálf vandræðalegt hól í garð skrásetjara.
Sögur af fólki
Sjálfsævisögur eru gott tækifæri til að gera út um erjur við fjendur. Slík tækifæri notaði Sir Alex Ferguson óspart. Garðar sleppir því heldur ekki en tekur sérstakan kafla undir það. Þeir sem hafa ekki gaman af slíkum jarðarförum geta þá sleppt honum. Eitt leiðinlegasta skotið í bókinni var til þeirra dómara sem dæma í dag, enginn hefur gaman af þeim sem trúir því að allt hafi verið svo frábært hjá honum áður fyrr.
Vert er að taka fram að Garðar þakkar líka þeim sem hann ber virðingu fyrir á einn eða annan hátt – meira að segja Ólafi Þórðarsyni. Sú saga er mikilvægur lærdómur um að kunna að biðjast afsökunar þegar menn hafa rangt fyrir sér.
Niðurstaða
Ævisaga Garðar Arnar Hinrikssonar er ekki tímamótaverk sem búast má við að rokseljist í þeirri samkeppni jólabókanna sem nú hefst. Hún er hins vegar ágætasta afþreying fyrir fyrir áhugafólk um íslenska knattspyrnu og fyrir það ágæt innsýn í starf dómarans. Hún er aðgengileg aflestrar og út frá því nær Garðar Örn trúlega því takmarki sem hann setti sér með ritun bókarinnar.
Garðar Örn hefur lifað viðburðaríku lífi. Jafnvel á hann efni í aðra sögu síðar, þar sem fara mætti meira í lífið utan vallar, lífið í vinsælli hljómsveit og þá baráttu sem hann háir við Parkinson-sjúkdóminn.
Skildu eftir svar