Það er mánudagur. Andskotans, ömurlegur mánudagur. Enn er svart úti þegar vekjaraklukkan hringir. Laufið er dottið af birkinu, skógurinn er dökkur en ekki gulur. Einn þessara daga þar sem maður vildi geta dregið sængina upp fyrir haus og haldið áfram að sofa.
En við þurfum flest að mæta í skólann eða vinnuna, afplána frá níu til fimm. Og það er sammerkt með okkur stuðningsmönnum Manchester United eða þeim sem vinna fyrir félagið hvort sem um ræðir fólkið á skrifstofunni, leikmenn, þjálfara eða stjórnendur.
Þannig vildi Ole Gunnar Solskjær örugglega helst bara geta grafið sig ofan í rúmið, en það getur hann ekki. Sængin veitir litla vörn – en þó mögulega meiri en Wan-Bissaka, Lindelöf, Maguire og Shaw gerðu í gær!
Slysin gerast
Til er sagan um Móða sem spáði alltaf vondu veðri og gladdist svo þegar hann hafði rangt fyrir sér. Til eru þeir sem lengi hafa efast um Ole Gunnar og telja sig nú hafa rétt fyrir sér. Á vissan hátt hefur hann aldrei fengið fullt tækifæri hjá ákveðnum hópi, að vera fyrrum þjálfari Molde þykir ekki nógu fínt. En eins og nánar verður vikið að þá skapar fleira en ferilskráin þjálfarann.
Nánast á hverju hausti hafa komið upp efasemdir um Solskjær. Töpin gegn Tottenham og Arsenal í fyrra voru ekki glæsileg, né heldur að byrja tvö tímabil í röð á tapi gegn Crystal Palace. Leikurinn í Leipzig var heldur enginn hápunktur. Að sama skapi var það enginn heimsendir að tapa fyrir West Ham eða Aston Villa í sitt hvorri keppninni.
En á meðan liðið náði að vinna sig til baka fyrri ár þá vantar svörin nú. United verðskuldaði annað sætið í vor, en Chelsea, Tottenham, Liverpool til dæmis lentu í smá krísum. Leicester hefur staðið sig vel. Baráttan um Meistaradeildarsætin er hörð og ekkert lið á neitt gefið. Lukkan ræður líka, ekki bara hæfnin. En þrír heimaleikir í röð án sigurs eru dýrkeyptir og eftir 0-5 tap gegn Liverpool eru fáir felustaðir í Manchester.
Blóraböggullinn
Óhætt er að mæla með lestri Raunvitundar (Factfulness) eftir Hans Rosling eða Ted-fyrirlestrum hans. Bókin er góð brýning í gagnrýninni hugsun og ögrun um hversu oft okkar tilfinningar leiða okkur að röngum ályktunum. Eitt af því sem Rosling brýnir fyrir lesendum er að sama hvort allt er í lukkunnar velstandi eða hönk er ástæðan sjaldnast eitt atriði eða einstaklingur. Þess vegna þurfi að leita að samspili kerfa og einstaklinga en forðast að útnefna blóraböggul.
Með öðrum orðum þegar fótboltaliði gengur illa er það sjaldnast bara þjálfarinn sem er ástæðan. Enda sýnir það sig að umskipti á honum virðast ekki alltaf breyta öllu, berið bara saman ferla Watford og Norwich undanfarin ár. Annað liðið stendur með sínum, hitt breytir stöðugt. Samt eru þau upp og niður.
Líklegt er að umskipti þjálfara hafi góð áhrif til skamms tíma en svo falli allt í sama farið aftur, ef ekki er gert meira. Og hvernig sem allt fer næstu klukkustundirnar ættu allir stuðningsmenn Manchester United að geta verið sammála um að andinn í kringum liðið, leikmannahópurinn og umgjörðin sé komin á betri stað en þegar José Mourinho var sendur snemma í jólafrí 2018.
Þjálfarinn og leikmennirnir
En á sama tíma og flestir eru sammála, hversu oft sem þeir eins og Móði hafa spáð Solskjær vondu veðri undanfarin þrjú ár, um að félagið sé komið á betri stað gera efasemdir vart við sig um að hann komist lengra. Tapaðir undanúrslitaleikir og loks úrslitaleikurinn í Evrópudeildinni í vor eru vatn á þeirra myllu.
Þótt erfitt sé að alhæfa út frá úrslitaleik sem endar í 22 vítaspyrnum þá sáust þar veikleikar Solskjær, sem nú eru að ná honum af alvöru. Í fyrsta lagi að notast nær alltaf við sömu leikmennina, sem voru orðnir þreyttir eftir langa leiktíð. Í öðru lagi, en þó skylt, skort á plani B, að þora að skipta þegar sýnt var að aðalplanið gengi ekki upp.
Solskjær hefur undanfarin tvö ár treyst mjög á Harry Maguire og síðan Luke Shaw. Sama hefur enska landsliðið gert. Augljóst virðist að Maguire var kallaður of skjótt inn í liðið eftir meiðsli gegn Leicester og hans vika hefur verið skelfileg. Solskjær talaði eftir Leicester um að breytinga væri þörf. Þær voru kunnuglegar gegn Atalanta og engar gegn Liverpool. Upp vakna því spurningar um hvort andstæðingarnir hafi lært á United.
Þar til í dag hafa ekki borist aðrar fréttir en leikmenn United stæðu með Solskjær. Eftir leiðindin hjá Mourinho hafa þeir verið sáttir. Meira að segja þótt á bjáti þá virðist Ole Gunnar vel liðinn af leikmönnum, þótt þeir hafi efasemdir um færni hans. Ekki hefur alltaf gefist vel til langs tíma þegar „fínni“ þjálfarar hafa átt að byggja ofan og tæka næsta skref á eftir „ófínni“ þjálfurum.
Kunnuglegt er að þegar stjóri tapar klefanum er öll nótt úti, traustið er ekki auðunnið aftur. Þá hafa leikmenn orð á sér fyrir að vilja hafa hlutina þægilega, gleðin getur verið góð en henni getur fylgt of mikil þægindi. Carlos Queiroz var ekki alltaf vinsæll, einkum ekki síendurteknar æfingar, en hann skilaði árangri.
Munið – þegar illa gengur vísa leikmenn yfirleitt ábyrgðinni frá sér.
Rotna eplið Ronaldo?
Flestir stuðningsmenn United kættust mjög þegar Cristiano Ronaldo snéri aftur í lok sumars. Framherjar liðsins höfðu ekki verið sérlega markheppni síðasta vetur. Hann hefur vissulega skorað en mögulega eru mörkin skjól fyrir að hann pressar lítið sem riðlað hefur varnarleik liðsins. Er United farið að snúast um hann? Fylgja honum jákvæðu áhrifin sem hann átti að hafa? Hvað með fýlusvipinn gegn Everton – og munum að United var yfir þegar hann kom inn á!
En Solskjær verður að taka sína ábyrgð. Það voru ekki stór skörð í leikmannahópi United í síðustu leikjum. Þegar United tapaði 3-0 fyrir Fulham í desember 2010 voru tveir miðjumenn í vörninni. Þannig var ekki í gær. Vissulega eru gloppur í leikmannahópnum en enginn þjálfari fær allt sem hann vill og Solskjær hefur fengið stuðning til að styrkja, bæði í kaupverði og launum. Fáar augljósar afsakanir eða ástæður eru fyrir hvernig fór og stöðunni sem upp er komin.
Hvað næst?
Ef ákveðið verður að skipta um þjálfara er spurningin um hver taki við. Stjórnendum United hefur ekki gengið sérstaklega vel að finna þjálfara undanfarinn áratug. Óskandi er að einhver lærdómur hafi verið dreginn af því.
Galli United var lengi vel að ábyrgð á fótboltamálunum lá annars vegar á aðalþjálfaranum, hins vegar forstjóranum. Þess vegna var slæmt þegar þeir hættu samtímis 2013. Á þessu ári hefur verið komið upp þessu millilagi, sem flest önnur félög höfðu löngu gert.
Þannig var hverjum manninum á fætur öðrum réttir lyklarnir að Old Trafford. Louis van Gaal og Mourinho ætluðu að gera hlutina eftir sínu höfði en beygðu með félagið út í skurð.
Hvernig frekar en hver?
Eins og Mark Bosnich sagði svo réttilega þá þarf knapinn ekki að vera svo frábær ef hesturinn er góður. Í tilfelli Bosnich var hann þó ekkert sérstaklega góður hestur en knapinn, Sir Alex Ferguson, frábær.
Til eru þjálfarar sem byggt hafa feril sinn á að ná toppsætum eða titlum, samanber gælunafn Mourinho sem hins bikaróða. En bikarar geta falið sprungur.
Sumir þjálfarar virðast aðallega hugsa um eigin feril. Þeir heimta leikmenn sem farnir eru að nálgast þrítugt, eru á hátindum, jafnvel að detta af honum. Þeir ýmist heimta aðra álíka aldna til að halda áfram árangri og nýta síðan fjölmiðla til að koma því á framfæri þeir hafi ekki fengið þar sem þeir vildu.
Aðrir þjálfarar ná kannski ekki sama árangri en ná að bæta leikmenn eða lið sín. Þeir vinna sína vinnu í kyrrþey og skila yfirleitt fínum árangri. Kannski þekkja ekki margir Christian Streich hjá Freiburg en rannsóknarefni er hvernig það lið helst alltaf í þýsku Bundesligunni með brotabrot af fjármunum annarra.
En eitt er að búa til gott varnarlið, annað að mynda gott sóknarlið. Enn annað er að hvetja meðalmennina áfram, annað að hafa stjórn á egóum stjarnanna. Það þarf líka að velja þjálfara sem hentar liðinu. Wolfsburg rak í gær Mark van Bommel. Hann reyndi að láta yfirburða varnarlið fara að halda boltanum.
Það eru margir mælikvarðar á hvernig hægt er að meta góðan þjálfara. Væntanlega vill Manchester United þjálfara sem er tilbúinn að þróa og nota leikmenn úr unglingastarfinu en getur líka haft hemil á stjörnum og barist um titla.
Nokkur nöfn
Í dag er mest talað um Antonio Conte. Hann flokkast trúlega í hóp þeirra bikaróðu. Efasemdir eru um langtímavinnu hans og samstarfshæfni. Zinedine Zidane er einnig nefndur. Hæfileikar hans sem þjálfara eru ókunnir en titlarnir tala sínu máli.
Þjálfaramarkaðurinn er ekki jafn grösugur og fyrir mögulega nokkrum mánuðum þegar Maurichio Pochettino og Max Allegri voru á lausu, ásamt fleirum.
Það má bæta fleirum við. Erik ten Hag hefur náð áhugaverðum árangri hjá Ajax. Stefano Pioli hefur vakið AC Milan aftur til lífsins. Ralf Rangnick bjó til RedBull-knattspyrnuveldið. Manchester United ætti að geta keypt menn út af samningi.
Sumum félögum hefur heppnast vel að hækka unglingaþjálfara í tign. Eftir allt hóf van Gaal þannig sinn feril. Nicky Butt stóð sig vel með unglingaliðið en lenti upp á kant við yfirstjórnanda, að því er sagt er.
Enginn nefndi Solskjær þegar Mourinho var nefndur. Samt kom hann og færði okkur á ný leikmenn úr unglingastarfinu og sigurmörk á lokamínútum. Eiga stjórnendur United einhvern slíkan ás uppi í erminni?
Margir kokkar í súpunni
Verkaskiptingin á Old Trafford virðist vera orðin nokkuð óljós. Eigendurnir hafa mikið að segja, forstjórarnir eru tveir eða enginn, Ed Woodward á útleið og Richard Arnold að taka við. Forstöðumenn knattspyrnumála eru tveir. Samtöl þessara ráða framtíð Solskjær.
Einn leikur, eða fjórir ráða varla öllu. Þeir taka púlsinn á stemmingunni í búningsklefanum. Þeir hafa aðgang að alls konar undirliggjandi tölfræði. Þeir skoða hina flóknu mynd Rosling áður en ákvörðun er tekin.
Ákvörðun er líka fjárhagsleg. Það þarf að borga upp samninga þeirra sem reknir eru. Solskjær var að endurnýja sinn í sumar, aðstoðarþjálfarnir í síðasta landsleikjahléi. Solskjær tók fáa aðstoðarmenn með sér en aðalþjálfara í dag fylgir orðið hátt í tugur aðstoðarþjálfara, þrekþjálfara og leikgreinenda.
Hver er tímalínan?
Eðlilega eru krísufundir eftir það sem gerðist í gær. Þeir taka fram eftir degi, eftir í hvaða tímabelti eigendurnir eru, vanalega fimm tímum á eftir Englandi.
Bæði David Moyes og Jose Mourinho voru reknir formlega snemma á þriðjudagsmorgni í kjölfar úrslita gegn liðum úr Liverpool-borg á sunnudegi. Það eru vísbendingar um líklega tímalínu. Ensku blaðamennirnir liggja í símanum í dag og skila af sér fréttum í kvöld. Ef þeir komast að einhverju er líklegt að það birtist undir miðnætti að íslenskum tíma.
Ef Solskjær tórir fram að hádegi á morgun þá er líklegt að hann verði öruggur fram í næsta landsleikjahlé. Félög skipta yfirleitt sjaldnast um stjóra þegar þau eiga leik í miðri viku, slíkt riðlar undirbúningnum of mikið.
En lætin eru orðin það mikil að trúlega erum við að upplifa síðustu tíma Ole Gunnar Solskjær sem stjóra Manchester United.
Scaltastic says
https://mobile.twitter.com/utdreport/status/1452663401726025732
Þetta er allt undir control. Hvolpasveitin er komin í startholurnar.
Gaman að sjá Woodward halda áfram að blómstra í starfi.
Elis says
Aðeins um Ole
Síðan að Ferguson:
Þá valdi hann eiginlega sjálfur sér eftir mann í Moyes. Það var vitað að þetta yrði mikið fall en Moyes fékk 51 leik með liðið. Hann fékk eiginlega engan stuðning í kaupum og endaði með Fellaini og Mata(jan kaup).
Hann fékk ekki langan tíma til að byggja upp lið en tilfinningin var líka sú að hann ætti ekki að fá lengri tíma.
LVG mætti á svæðið og fékk 103 leiki en aftur var eins og að þetta var farið að vera ágæt hjá honum og ekki margir sárir að hann fór.
Móri kom og fékk 144 leiki og þrátt fyrir að þetta var ekki alltaf fallegt þá var samt eins og liðið væri komið ákveðin á ákveðinn stall en hann fór og þá var talað um að það væri kominn smá þreytta í að ná í stjóra sem áttu að redda málunum 1,2 og 3.
Ole tók við á miðju tímabili og þá vaknaði liðið aftur til lífins en ég held að bara að fá einhvern inn í staðinn fyrir Móra sem væri jákvæður og hress myndu blása strax aftur líf í klefan.
Síðan hafa komnir 165 leikir og viti menn staðan er auðvita aðeins skárri en hún var áður en ég held að það sé ekki bara Ole að þakka heldur einfaldlega að hægt og rólega líður alltaf lengri og lengri tíma frá brotthvarfi sir Alex og hægt og rólega þá bætast við dýrir leikmenn á hverju ári.
Ole fékk til sín
Alex Sanches
Fred
Harry Maguire
Bruno
Wan Bisaka
D.James – farinn aftur
E.Cavani
Donny Van de Beek
J.Sancho
Ronaldo
Varane
– P.Pogba var líka eiginlega nýkominn til Móra þegar hann var rekinn svo að Ole fékk heimsklassa miðjumann bein í fangið.
Það fylgir Ole nostalgía og með nostalgíu fylgjar ákveðið umburðarlindi en heilt yfir þá er Man utd á betri stað en það var þegar Ole tók við en ég er á því að það er ekki mikið Ole að þakka.
Heilt yfir hafa leikmenn annað hvort spilað á pari eða undir pari undir hans stjórn.
Hann nær ekki að búa til sterka liðsheild.
Það var allt í lagi í byrjun að sætta sig við að liggja til baka og beita skyndisóknum eða láta stjörnur liðsins bjarga liðinu með einstaklingsgæðum en hann er svo langt í frá tilbúinn að búa til heimsklassa lið úr heimsklassaleikmönum.
Gefum okkur það að Ole verður rekinn í dag eða kvöld( annað væri rugl) Hvað haldið þið að mörg lið séu tilbúinn að ráða Ole sem stjóra í úrvaldsdeildinni? Ég ætla að giska á EKKERT. Hann hefur ekkert sýnt sem segir liðum að taka sénsin á honum og það segir eiginlega allt sem segja þarf um gæði Ole sem stjóra.
Hann er einfaldlega í þessu Man utd starfi bara út af nostalgíu og engu öðru.
Tómas says
Flottur pistill.
Ole létti á þunglyndi Móra um stund en nú er þetta komið á endastöð er mín skoðun.
@ Elis: Er nú ekki alveg rétt hjá þér. Pogba var keyptur í fyrsta sumarglugga Mourinho árið 2016. Alexis einnig af Móra í einhverjum jan glugga.
Sjonni says
Podcast ?
zorro says
Leiðinlegt alltaf að vera tala um þegar ílla gengur…en liðið hefur bara virkað svo andlaust og engin plön við neinu…..ég byrjaði að fylgjast með Man.Utd 1978…þeir voru þá ekkert að vinna mikið af bikurum…en þeir voru alltaf með skemmtilegt lið sem gaman var að horfa á…þangað til AFergusson hættir……man.utd er 442 lið…….skorar fleiri mörk en þeir fá á sig…..það er skemmtilegt fyrir alla…ekki þennan skák bolta endalaust
Björn says
Þetta er virkilega slök grein um stöðuna hjá félaginu okkar, Ég gafst upp á lestri rúmlega hàlfnaður inn.
Böddi says
Góð grein um stöðuna og nauðsynlegar vangaveltur. Þú hefur augljóslega ekki lesið alla greinina Björn. Hvernig upplifir þú annars stöðuna hjá félaginu?
Björn Friðgeir says
Þú sem kallar þig ‘Björn’, af hverju gefurðu upp falskt netfang?
Steve Bruce says
@Elis – Fred var keyptur af Mourinho sumarið 2018. Ole Gunnar kom ekki inn fyrr en rétt fyrir jól sama ár.
Frábær grein annars.
Audunn says
Finnst staða Ole hjá United vera einhver vina greiði og wannabe dæmi þar sem er verið að launa honum fyrir mörkin sem hann skoraði fyrir liðið á síðustu öld og fyrir að vera næs strákur.
Alex Ferguson ofl virðast vilja gefa honum meiri tíma samkvæmt fréttum að utan, ég held að það sé ekki gott fyrir klúbbinn að hanga á einhverjum þjálfara bara vegna þess að hann er næs strákur og hefur gert svo margt fyrir klúbbinn sem leikmaður fyrir 20 árum plús. Nú þarf að huxa fyrst og fremst um Manchester United en ekki fyrrum stjörnur liðsins.
Það elska allir stuðningsmenn Man.United Ole Gunnar og það mun ekkert breytast þótt hann þurfi að hverfa sem sjóri liðsins vegna lélegs gengis og fyrir þá staðreynd að hann höndlar ekki þetta starf.
Ég meina það mátti alveg reyna þetta eins og hvað annað, allir stuðningsmenn liðsins óskuðu sér að þetta myndi ganga upp hjá honum og ég er viss um að ef honum hefði tekist að vinna einhvern titil þá væri staða liðsins önnur. Enn svo virðist sem leikmenn og stuðningsmenn séu búnir að missa trú á honum og skal engan undra.
Stuðningsmenn United munu halda áfram að syngja um hann á Old Trafford á hverjum leik um ókomin ár.
Það versta sem stjórn United getur gert núna er að ætla að þrjóskast við að segja honum upp störfum, þeir gera hvorki liðinu, stuðningsmönnum né Ola sjálfum neinn greiða með því að halda þessu wannabe dæmi áfram. Því verra sem liðinu gengur og því fleiri leikjum sem liðið tapar undir stjórn Ola því fleiri stuðningsmenn fær hann upp á móti sér.
Ég er reyndar svolítið hissa á Ola sjálfum að taka ekki af skarið og segja upp störfum og viðurkenna að hann sé ekki maður í þetta verkefni. Enn auðvita er jú erfitt að viðurkenna svoleiðis fyrir sjálfum sér, maður skilur það vel.
Gummi says
Við erum á veri stað núna heldur en þegar móri var hérna hvað er fólk að búlla að solskjær sé búinn gera svo góða hluti
Óskar G Óskarsson says
Afhverju var Sir Alex að hætta fyrir 8 árum? Hann er alltaf þarna!
Við reyndum að komast frá Sir Alex tímanum með komu van gaal og síðan mourinho.
Síðan reynum við að komast aftur á Sir Alex tímann með komu Ole.
Vandamálið er að Sir Alex hefur of stóra rödd þarna.
Svo mætir hann reglulega á æfingasvæðið og ég hugsa að það búi bara til auka pressu á Ole.
zorro says
Góðar greinar frá djöflanefndinni…þeir halda síðunni uppi…..vel gert hja ykkur strákar…..liðið okkar mun stíga uppúr þessari krísu
Helgi P says
Ef þetta væri einhver annar stjóri en solskjær þá væri löngu búið að reka hann
Scaltastic says
Þetta er góður punktur hjá þér Óskar. Spurningin er hins vegar hvers vegna er sá gamli ennþá að vasast í krísustjórnun? Jú, það er vegna þess að félaginu er stjórnað af vanhæfum einstaklingum, sem eru með enga framtíðarsýn, jafn lítið fótboltavit og ofan á það þá eru þeir umkringdir já fólki.
Það er í besta falli sorglegt hvað er að gerast með okkar blessaða félag og ég sé ekki farsæla þróun á því næstu árin.
Halldór Marteins says
Ferguson steig reyndar mjög meðvitað til hliðar þegar hann hætti og það var Mourinho sem fékk hann til að mæta aftur á æfingasvæðið og fleira slíkt.
Mig grunar að hann væri ekki eins mikið þarna ef það væri ekki vilji Solskjær. Solskjær hefur sjálfur verið að tengja sig mjög mikið við Fergie-tímann og góðærið á tíunda áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar. Það virtist alveg hleypa gírun í mannskapinn til að byrja með en dugir bara svo langt, eins og taktísk kunnátta Solskjær sjálfs. Hann hefur gert ýmislegt vel og er að ákveðnu leyti flottur man management stjóri (þótt hann hafi sannarlega misstigið sig þar líka) en hefur greinilega náð eins langt og hann kemst með liðið núna.
Ég hef samt ekki áhyggjur af því að Ferguson fari að þvælast mikið fyrir næsta stjóra, hver sem það nú verður.
Tómas says
Sammála Halldór.
Held að afskipti Ferguson séu ekki neitt vandamál. Honum hefur hins vegar oft verið líst þannig (til að mynda af þjálfurum í deildinni) að hann er tilbúinn að hjálpa ef hann er beðinn um hjálp.
Það að hann sé viðriðin klúbbinn. Eða sjáist upp í stúku ætti bara virka hvetjandi. Legend hjá öðrum klúbbum eru að mæta á leiki og hafa jafnvel skoðanir á hvað er að gerast… ekkert vandamál.
TonyD says
Sama hvað okkur finnst um Ole þá verður hann ennþá stjóri liðsins næstu leiki. Væntanlæga er ekkert plan B klárt ef hann verður rekinn og best væri ef þessi ákvörðun verður tekinn rétt svo við förum ekki í eitthvern þjálfarakapal næstu árin. Það væri vissulega hægt að fá inn Conte en ég er ekki sannfærður um að hann sé rétti stjórinn fyrir þennan hóp. Best væri að finna rétta stjórann fyrir næstu 2 – 3 ár strax nema úrslit næstu leikja verði ekki eintómir sigrar. Mér hefur alltaf líkað vel við Ole hingað til en hann er ekki að sannfæra mig um að hann geti tekið klúbbinn þangað sem hann á að fara, næsta skref framávið. Tapið síðustu helgi var alveg skelfilegt og spilamennskan á vellinum er léleg heilt yfir allt tímabilið.
Það er úrslitastund fyrir hann og hver leikur er úrslitaleikur. Hann verður varla rekinn strax úr þessu nema úrslit næstu 4-5 leikja séu áframhaldandi hörmungar. Það kæmi mér ekkert á óvart ef hann verður í brúnni í lok tímabils ef hann snýr genginu við í næstu leikjum þó ég sé ekkert spenntur fyrir því. Það er svo margt að í klúbbnum og úrslitin undanfarið endurspegla það finnst mér. Vandamálin eru mun stærri en stjórinn, en það er auðveldast að reyna að laga þann vanda með nýjum manni í brúnni.