Það er þungt yfir rauða hluta Manchesterborgar þessa dagana og það sama á við um þann hluta Lundúna sem Rauðu djöflarnir koma til með að heimsækja á morgun. Því að í síðdegisleiknum á morgun fer fram „El Sackico“ eins og enska pressan er farinn að kalla þennan leik, enda róa stjórar liðanna sannkallaðan lífróður til að halda sæti sínu að minnsta kosti að sinni.
Gengi liðanna hefur verið ansi dapurt en með mismunandi hætti en stuðningsmenn liðanna eiga það eflaust sameiginlegt að vera ekki beinlínis spenntir fyrir komandi viðureign.
Tottenham Hotspurs
Í sumar tók Nuno Espirito Santos við hvítliðum frá Lundúnum og strax á undirbúningstímabilinu sáust merki sem lofuðu góðu fyrir stuðningsmenn liðsins. Liðið hóf tímabilið á að leggja ríkjandi meistara úr Manchester City með einu marki gegn engu og héldu í framhaldinu áfram að kreista út nauma 1-0 sigra, gegn Wolves og nýliðunum í Watford.
En þrátt fyrir að liði hafi verið á toppnum eftir fyrstu þrjár umferðirnar voru ýmis merki á lofti sem hrópuðu á stuðningsmenn. Raunar var ekkert leyndarmál að þeir voru í raun stálheppnir að hafa kreist út 9 stig af 9 mögulegum úr þessum leikjum. En lukkan endist ekki að eilífu og það kom í ljós í 4. umferðinni þegar liðið steinlá fyrir Crystal Palace eftir að hafa misst mann útaf eftir klukkustundar leik.
Það var ekki gott veganesti inn í næsta leik sem var viðureign gegn ríkjandi meisturum í Evrópu. Chelsea lið Tuchel gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir bragðdauft Tottenham liðið 3-0. Áfram héldu vandræðin og næst steinlágu þeir fyrir öðru Lundúnarliði, í þetta sinn var það Arsenal sem skoraði þrjú mörk gegn einu sárabótarmarki í lok leiks. Skyndilega voru lærlingar Nuno í frjálsu falli eftir að hafa hlegið sig máttlausa þegar þeir voru á toppnum og Arsenal í fallsæti eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
Í næstu leikjum hefur liðið svo unnið Aston Villa 2-1, rétt mörðu Newcastle 2-3 þrátt fyrir að Newcastle hafi einungis hitt rammann einu sinni og spilað manni færri síðustu mínúturnar og síðan tapað fyrir West Ham á útivelli 1-0. Liðið situr núna í 6. sæti með 15 stig en þrátt fyrir að vera í Evrópudeildarsæti er spilamennskan langt undir væntingum og margir telja Nuno Espirito Santos sé orðinn valtur í sessi.
Nuno hefur notast við 4-3-3 og 4-2-3-1 að mestu í deildinni enhefur komið fyrir að hann hafi breytt í 4-1-2-1-2 eða 4-3-2-1 og það hefur hann að nokkru leyti gert vegna meiðsla og annarra uppákoma en eins og frægt er orðið var mikill glundroði sem skapaðist í kringum Harry Kane í upphafi leiktíðar. Liðið lék án hans fyrstu leikina á leiktíðinni en þrátt fyrir að ensku markamaskínuna vantaði þá höluðu þeir inn stigum/sigrum. Hins vegar hefur Kane ekki fundið markaskóna frá því að hann byrjaði að spila aftur og er einungis með eitt mark í deildinni.
Það hefur hins vegar komið í hlut hins geðþekka Son Heung-Min að skora fyrir liðið en Suður-kóreumaðurinn er með 4 mörk í öllum keppnum. Það er hins vegar athyglisvert að þegar liðið er á heimavelli þá koma 43% af sóknum liðsins út frá hægri vængnum en ekki vinstra meginn þar sem Son er yfirleitt að spila. Það vantar verulega upp á markaskorun hjá liðinu enda Harry Kane vanur að draga þann vagn í samstarfi við Son en samvinna þeirra, sem var hreint út sagt mögnuð á síðasta tímabili, virðist eitthvað hafa brugðist að undanförnu.
Leikmannakaup sumarsins virðast líka ekki vera að smellpassa inn í liðið en liðið fjárfesti í hægri bakverðinum Emerson Royal, miðverðinum Cristian Romero, varnarmiðjumanninum Papa Sarr og kantmanninum Bryan Gil. Semsagt rík áhersla lögð á varnarsinna leikmenn en liðið hefur engu að síður átt í tómu basli með að halda boltanum úr netinu því þeir hafa ekki haldið markinu hreinu síðan í ágúst.
Tottenham stuðningsmenn geta þó kannski fundið einhverja huggun í því að enginn leikmaður þeirra á við langvarandi meiðsli að stríða en Bryan Gil er sem stendur ólíklegur fyrir leikinn á morgun. Það kann að vera Nuno sjái fyrir sér leik á borði gegn niðurbrotnu United liði og stilli upp 4-3-3 eins og hann gerði framan af leiktíð með góðum árangri og því spái ég liðinu svona:
Í öðrum keppnum virðast þeir ekki heldur vera að gera mikið betur en í deildinni. Í Evrópukeppninni (Europa Conference League) eru þeir í næstneðsta sæti riðilsins og í deildarbikarnum rétt mörðu þeir Burnley í 16-liða úrslitum. Þeir eru þó enn í báðum keppnum, en United datt einmitt út gegn West Ham í 32-liða úrslitum.
Manchester United
Hvar á að byrja? Ef menn ætla að vera ennþá að sleikja sárin eftir útreið síðustu helgar þá geta þeir sleppt því að mæta í þennan leik. Ef menn geta ekki kúplað sig út frá þessari niðurlægingu og fara inn í þennan leik með hungruðu hugarfari þá væri bara betra að senda út varalið United. Það verður áhugavert að sjá hvort Ole Gunnar Solskjær hafi kjarkinn í að gera breytingar á liðinu því af þessum 11 leikmönnum sem byrjuðu gegn Liverpool eru ekki nema örfáir sem eiga skilið að vera í hópnum á morgun. En ef marka má aðgerðaleysi hans úr 4-0 tapinu gegn Everton þegar Ole lét hafa eftir sér að einhverjir úr því byrjunarliði yrðu ekki með okkur á næsta tímabili. Sá eini sem fór eftir það var Chris Smalling sem fór á lán til Ítalíu.
Ég tel líklegt að Ole Gunnar Solskjær haldi í hefðirnar sínar og sökkvi með flaggskipinu sínu, McFred, enda fer hann varla að taka sénsinn í leik þar sem allt er undir. En það er ekkert gaman að spá fyrir um liðsuppstillingu liðsins eins og Solskjær er að hugsa hana. Því ætla ég frekar að koma með eigin tillögur og rökstyðja þær – og senda síðan tölvupóst á Solskjær fyrst faxtækið er enn bilað.
Í markinu á David de Gea að vera því að ekkert í hans leik hefur réttlætt það að hann sé settur út úr liðinu og þrátt fyrir að við hefðum haft Neuer og ter-Stegen sitthvoru megin við hann í Liverpool leiknum hefði sá leikur samt tapast.
Miðvarðarparið okkar þarf róteringu því við erum með óyggjandi sönnunargögn fyrir því að svíinn með fyrirliðanum er ávísun á vandræði. Raphael Varane er tilbúinn eftir að hann missti af 3 leikjum liðsins en hann er okkar besti miðvörður og augljósasti kosturinn í vörninni. Með honum væri hægt að setja Victor Lindelöf en þó myndi ég telja að fílabeinstrendingurinn Eric Bailly væri fýsilegri kostur með frakkanum. Bailly er snöggur, kraftmikill og óútreiknanlegur sem gæti verið ágætisblanda með franska séntilmenninu í hjarta varnarinnar.
Bakverðirnir þurfa báðir að setjast á bekkinn rétt eins og miðverðirnir og í þeirra stað koma Alex Telles og Diogo Dalot. Báðir þessir leikmenn eru einkar sókndjarfir og það kann að skilja eftir svæði fyrir aftan þá sem myndi bjóða hættunni heim. En þeir eru báðir með flottar fyrirgjafir og sama hvort Ronaldo eða Cavani væri í boxinu þá væru fyrirgjafirnar af köntunum stórhættulegar. Einnig væri gaman að sjá hvernig Dalot myndi tengjast hægri kantmanninum en sá portúgalski gerði það gott með AC Milan en hefur lítið fengið af tækifærum hjá okkur.
Val á miðjumönnum setur okkur í ákveðna pattstöðu. McTominay og Fred geta stöku sinnum átt magnaðar frammistöður en þess á milli ríkir meðalmennska og efast undirritaður að þessi miðjutvenna kæmist inn í einhver Úrvalsdeildarlið. Paul Pogba létti Solskjær aðeins valið með því að láta reka sig útaf í síðasta leik og því þarf ekki að hugsa um hann. Bruno Fernandes heldur sæti sínu en með honum verða þeir Nemanja Matic og Donny van de Beek. Já, serbinn og hollendingurinn sem áttu frábæran leik gegn Everton á undirbúningstímabilinu en hafa svo varla fengið að sjá völlinn nema frá hliðarlínunni og örfáar mínútur inn á milli.
Með Matic kemur kjölfesta á miðjuna sem veitir hinum miðjumanninum frelsi til að leita fram á við. Vissulega er Matic ekki með þá yfirferð sem hann hafði fyrir 4 árum síðan en með Varane og Bailly sitthvoru megin við sig í sókninni ætti skortur á harða og snerpu varnarmiðjumannsins ekki að koma að sök. Án Maguire er líka þörf á stórum karakter sem hefur bæði reynslu og leiðtogahæfileika fyrir aðra leikmenn. Donny van de Beek, sem var á 30 manna lista yfir leikmenn sem tilnefndir voru til ballon d’Or í desember 2019, á líka fullt erindi í liðið og myndi gefa því nýja vídd, sérstaklega í ljósi þess hverjir byrja fyrir framan hann í þessari uppstillingu.
Á köntunum verða svo ensku landsliðspiltarnir þeir Jadon Sancho og Marcus Rashford. Rashford er nýkominn til baka eftir hafa farið í aðgerð í haust og virkar í frábæru formi á meðan samlandi hans þarf virkilega á því að halda að komast á blað fyrir United. Flæði í sóknarleiknum verður allt annað þegar leikmenn eins og Rashford, Bruno og Sancho geta skipt um stöður og boðið upp á mismunandi hluti úr öðrum stöðum.
Fremstur er einungis einn sem kemur til greina og það er Cavani. Ronaldo sást ekki í Liverpool leiknum og þó það hafi ekki verið hans sök hvernig leikar fóru þá er úrúgvæinn allt önnur tegund af leikmanni og með sköpunarmáttinn, hraðann og hápressuna sem kantmennirnir geta boðið okkur upp á, fyrirgjafirnar frá bakvörðunum og kraftinn úr Edinson Cavani þá er allt annar bragur á liðinu.
Þó ég geri mér fyllilega grein fyrir að við erum ekki að fara sjá þetta byrjunarlið þá má alltaf láta sig dreyma. Þrátt fyrir að Ole kunni að stilla upp sínu hefðbundna og óspennandi byrjunarliði þá er eitt víst að það er fullt færi fyrir bæði lið að fá eitthvað úr þessum leik. Vonandi verður hausinn rétt skrúfaður á okkar menn og þróttleysið, máttleysið og getuleysið hafi allt verið jarðsungið á mánudeginum var. Ef leikmenn eru ekki tilbúnir til að taka sig saman í grímunni og hysja upp um sig frá því síðast þá er eins gott að losa Solskjær fyrir viðtalið eftir leik því þá er engin leið fyrir hann til að fá þessa leikmenn til að spila fyrir sig aftur.
Leikurinn gæti orðið mjög opinn og ágætisskemmtun því bæði lið þurfa að sækja til sigurs og eru að fá á sig fullt af mörkum og í alls konar rugli en á sama tíma er hætt við því að liðin leggi upp með að tapa ekki. Það verður þó að teljast ólíklegt en allt annað en sigur er tap fyrir okkar menn og Solskjær sérstaklega. Svo er bara um að gera að hætta þessari meðalmennsku og taka upp mottóið „if you ain’t first, you’re last!“. Glory, glory, Man United!
Flautuleikari morgundagsins verður Stuart Attwell sem hefur tónleikana stundvíslega kl 16:30.
zorro says
Góð grein sem fyrverandi leikmaður Man.Utd sagði Paul Ince….maður sem fellur með Cardiff..tekur síðan við Molde,,,fær til sín aðstoðarmann sem þjalfar undir 21 liðið..og M.Carrick með enga reynslu…er ekki góð blanda og ekki til vænlegs árangurs……mikið til i þessu…..það eru skrítnar pælingar i þessum fótboltaheimi……en áfram Man.Utd