Fyrir leikinn í dag mátti gera ráð fyrir því að Solskjær og hans menn vildu ólmir svara fyrir hörmungina um síðustu helgi en ólíklegt að liðið yrði óbreytt. Það hefur hins vegar eflaust komið mörgum á óvart að Solskjær gerði bara 2 mannabreytingar en Varane og Cavani komu inn í stað Rashford og Greenwood sem báðir voru á bekknum.
Hins vegar ákvað sá norski að breyta í 3-5-2 eða 3-4-1-2 með Bruno í holunni fyrir aftan Cavani og Ronaldo.
Á bekknum voru þeir : Henderson, Bailly, Dalot, Lingard(’82), Matic(’76), van de Beek, Greenwood, Sancho og Rashford(’71).
Nuno Espirito Santos var ekki í ósvipaðri stöðu og Solskjær. Tap var ekki möguleiki í kvöld enda orðinn ansi valtur í sessi að mati margra. Sérstaklega á heimavelli en hann ákvað að stilla upp í 4-2-3-1 en lið heimamanna var á þann veg:
Fyrri hálfleikur
Fyrstu mínútur leiksins virkuðu bæði lið mjög varkár og ekki mikið um annað en miðjumoð. Bæði liðin voru mjög þétt fyrir og sóttu á fáum leikmönnum. Fyrsta skotið kom á 6. mín þegar Son var kominn upp að vítateig oglét skot vaða en boltinn fór af fætinum af Fred og í horn. Úr horninu skapaðist engin hætta.
Aaron Wan-Bissaka var sprækur framan af hálfleiknum og mjög sókndjarfur. Honum tókst að skapa færi fyrir liðsfélaga sinn þegar hann skaust upp kantinn og lagði boltann til baka á Bruno Fernandes sem átti fína fyrirgjöf. Hún rataði á kollinn á Cavani en honum tókst ekki að stýra boltanum á markið. Aftur átti Wan-Bissaka gott hlaup með boltann, umkringdur þremur varnarmönnum Lundúnarliðsins en að þessu sinni lagði hann boltann út í teiginn þar sem Cavani tók skot sem fór af Dier og aftur fyrir.
Bæði lið töldu sig eiga skilið að fá vítaspyrnu í hálfleiknum, annars vegar þegar McFred flæktist í sjálfum sér og hins vegar þegar skot Lo Celso fór í síðuna á Wan-Bissaka. Hvorugt dæmt og það réttilega. Maguire hélt áfram að valda manni hjartsláttartruflunum í þessum leik með því að leika sér með boltann í öftustu línu og með því að gefa ódýra aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Skotið úr henni fór í vegginn en Lucas Moura náði fyrstur til boltans og gaf inn fyrir á Son sem átti skot rétt yfir markvinkilinn.
United brunaði í skyndisókn stuttu síðar þegar Luke Shaw átti fína sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Bruno sem var einn á auðum sjó en náði ekki nógu góðri fyrstu snertingu á boltann og þurfti að snúa til baka. Honum tókst þó að finna Cavani í teignum eftir smástund en skalli hans rataði aftur framhjá.
Heimamenn virtust eiga einkaleyfið á hornspyrnum í leiknum en úr þeirri þriðju tókst þeim að skila boltanum í netið. Kane eða Dier tókst þá að fleyta boltanum inn fyrir á Romero sem stóð einn og óvaldaður á fjærstönginni og tókst að koma boltanum inn með lærinu. Sem betur fer fyrir gestina var hann hins vegar réttilega dæmdur rangstæður.
Næsta hætta skapaðist þegar United bar boltann á milli vængjanna og Wan-Bissaka tók enn eitt hlaupið upp kantinn en skildi boltann eftir fyrir Ronaldo. Portúgalinn renndi boltanum út úr teignum þar sem Fred kom á ferðinni og hamraði boltann á markið. Því miður var Hugo Lloris á tánum og varði í horn. Þetta var fyrsta marktilraunin á markið í leiknum og eins fyrsta horn gestanna.
Heung-Min Son átti næsta færi þegar hann komst inn fyrir vörnina og virtist stefna í að sá suðurkóreski fengi gráupplagt tækifæri til að skora fyrsta markið. En Wan-Bissaka var ekki á þeim buxunum heldur vel girtur í hvítar stullur og elti Son uppi og kastaði sér að lokum fyrir skotið og bjargaði í horn. Sem síðan varð ekkert af þar sem Son var rangstæður en tökum samt ekkert af Wan-Bissaka því þetta var frábærlega gert.
Tottenham virtist á þessum tímapunkti vera að fara færa sig upp á skaftið en þá ákváðu lærisveinar Solskjær að stíga á bensíngjöfina og sóknarþungi gestanna færðist í aukana. Þung sókn þeirra rauðlituðu endaði með því að á 39. mín komst gott flæði í sóknarleikinn sem ýtti heimamönnum aftarlega á völlinn. Bruno Fernandes átti þá íðilfagra, bogadregna sendingu sem skar varnarlínuna eins ekkert væri og rataði beint á Ronaldo sem kláraði í fyrsta með alvöru framherja yfirbragði. 1-0 forysta og að þessu sinni fyllilega verðskulduð.
Eftir markið lenti Romero og Ronaldo eitthvað saman eftir smá samstuð og lét sá argentíski sig falla með tilburðum en Stuart Atwell, sem lék listir sínar á flautunni mæta vel í dag, gerði mjög vel í að láta það nægja að skamma drengina.
Skömmu síðar áttu heimamenn ágætis skot og síðar hornspyrnu sem sýndi enn og aftur veikleika okkar í föstum leikatriðum. Tveir leikmenn Tottenham voru óvaldaðir en í sameiningu klúðruðu þeir góðu færi með því að þvælast fyrir hvor öðrum og skallinn endaði yfir markinu.
Síðari hálfleikur
Hálfleikurinn fór vel af stað fyrir hlutlausa áhorfendur. United komst í hættulega sókn en í stað þess að reyna sjálfur að skora ákvað Cavani að láta boltann renna milli lappa sér og vona að Ronaldo væri næsti maður en svo var ekki.
Fyrsta færi heimamanna féll í skaut Son þegar David de Gea átti hörmulega sendingu beint á Lucas Moura sem lagði boltann út í vítateigsbogann en skot Son fór réttu megin við stöngina.
Öllum að óvörum átti svo McTominay frábæran einleik á miðjunni þegar hann lék á nokkra heimamenn og stakk boltanum inn fyrir vörnina á Ronaldo sem bar boltann inn í teig og kláraði með þrumufleyg. En því miður fékk markið ekki að standa því flaggið var komið á loft.
Að öðru leyti var lítið að frétta fyrstu 20 mínúturnar og ekkert marktækt nema stöku hálffæri þar til Oliver Skipp tapaði boltanum á miðjunni þegar liðsfélagar hans voru hátt upp á vellinum og Bruno komst yfir boltann. Portúgalski galdramaðurinn kom honum á landa sinn sem staldraði við, leit upp og sá Cavani taka sveig á hlaup sitt sem um leið gerði hann réttstæðan. Ronaldo renndi boltanum á réttstæðan úrúgvæann sem fékk Lloris á seinna hundraðinu út á móti sér en með stáltaugar frá Suður-Ameríku ákvað hann að vippa tuðrunni snyrtilega yfir frakkan n og tvöfaldaði forystuna fyrir gestina. 2-0 en nóg eftir eins og United stuðningsmenn þekkja.
Þetta var síðasta innlegg Skipp í þennan leik því honum var skipt útaf í kjölfarið. Á 69. mínútu varð svo nánast deja-vu atvik þegar þeir töpuðu boltanum á miðjunni og United var við það að sleppa í gegn en síðasta sendingin endaði örlítið fyrir aftan sóknarmanni og þar af leiðandi rann færið út í sandinn.
Fyrsta skipting Solskjær kom á 71. mín þegar Marcus Rashford kom inn á í stað Ronaldo. Fred tók þá þrefalt gult spjald þegar hann braut á 2 leikmönnum Tottenham og sparkaði svo boltanum í burtu. Þá hugsaði maður að Solskjær hlyti að vera að hugsa um að taka hann af velli og var Nemanja Matic farinn að hita upp.
Áður en skiptingin kom ákvað Cavani að spretta til baka úr skyndisókn og reyna að senda boltann heim sem gékk ekki betur en svo að Harry Kane komst inn í sendinguna og brunaði upp kantinn með boltann. Sending hans inn í teiginn rataði hins vegar beint á skoska bringu og engin hætta skapaðist við lítinn fögnuð meirihluta áhorfenda.
Eitthvað hefur enski fyrirliðinn tekið Hrekkjarvökuna alvarlega því hann var eins og draugur allan leikinn og sást varla nema einstöku sinnum.
Næsta skipting Solskjær var þó ekki Matic inn fyrir Fred því í stað brassann fór Bruno útaf en eflaust hugsunin að hvíla hann fyrir Meistaradeildina í vikunni. Stuttu síðar var Cavani farinn að kveinka sér og í hans stað kom Jesse Lingard. Ansi varnarsinnaðar skiptingar á blaði og tautaði höfundur undan þeim í nokkrar mínútur eða alveg þangað til að ullarsokknum var troðið lengst ofan í vélindað.
Því Matic og McTominay léku sín á milli þar til Matic kom auga á hlaup hjá Rashford og stakk boltanum inn fyrir vörnina og yfirvegaður Rashford lagði boltann í fjærhornið og innsiglaði sigurinn. 3-0 og greinilegt að Rashford er að spila eins og engill eða a.m.k. búinn að finna sitt fyrra form.
Pælingar eftir leikinn
Það væri barnalegt að halda að allt væri orðið gott og nú væri liðið búið að snúa við blaðinu. Hversu oft höfum við séð Ole Gunnar Solskjær með bakið upp við vegg en samt sem áður nær hann að krafsa sig út úr því þegar að honum standa öll spjót að því er virðist. Það þarf hins vegar að setja hlutina í rétt samhengi og gott að hugsa hlutina eins og stjórar tala oft um í viðtölum, einn leik í einu. Því það er akkurat það sem Solskjær þarf og er að gera. Staðan á klúbbnum leyfir honum ekki að vera að hugsa marga leiki fram í tímann og mögulega kann það að bitna á liðsvalinu á einhverjum tímapunkti.
Það sem skelfir mig er sú staðreynd að 9 leikmenn sem spiluðu gegn Liverpool byrjuðu núna í dag gegn Tottenham. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því að þeir hafi allir átt skilið að spila í dag frekar en þeir sem á bekknum sátu. Það kann að vera einmitt þetta með liðsvalið. Sama hvað gengur á þá virðist McTominay og Fred vera kjarninn okkar með Bruno fyrir framan sig. Það er heldur engin lausn að spila með 5 varnarmenn, því þótt það hafi gefist stöku sinnum vel og liðið hafi skorað 3 mörk í leiknum í dag þá þarf að líta á heildarmyndina. Tottenham voru skelfilegir í dag og veittu okkur enga mótspyrnu.
Tottenham var með boltann 58% af leiknum en áttu ekki skot á markið og fengu 10 hornspyrnur en engin hætta skapaðist úr þeim nema markið sem var tekið af. Þeirra helsti markaskorari var týndur og tröllum gefinn í +90 mín og miðja liðsins var í áskrift af mistökum og var sundurspiluð af McFred sem ekkert þurftu að spá í varnarleiknum með 5 varnarmenn bakvið sig.
0-2 úr þessum leik var lágmarkið fyrir Solskjær til þess að eygja von um að vera áfram í bílstjórasæti United-rútunnar um næstu helgi þegar nágrannarnir úr bláa hluta Manchester mæta í heimsókn. Það verður alvöru prófraun því þeir mæta með sárt ennið eftir að hafa steinlegið á heimavelli fyrir Crystal Palace í dag. Það kæmi mér ekkert á óvart þó Solskjær sportaði aftur 3-4-1-2 þar enda mjög fyrirsjáanlegur í alla staði sem knattspyrnustjóri. Liðið spilaði þó loks sem lið, a.m.k. einhverja parta úr leiknum, en ekki eins og 11 einstaklingar að spila fyrir njósnara, en það lofar góðu.
Af leikmönnum að segja þá stóðu nokkrir upp úr í dag. Varane sýndi það að hann er langbesti miðvörður liðsins og hefði de Gea eflaust geta lesið heila bók á meðan leiknum stóð í dag þökk sé honum. Aaron Wan-Bissaka var ekkert sambærilegur og í síðustu leikjum, hann var út um allt á vellinum, stundum meira að segja á svæðinu hans Luke Shaw þegar hann var týndur auk þess að mesti sóknarþungi United í fyrri hálfleik hafði eitthvað með Wan-Bissaka að gera.
Cavani var einnig gríðarlega flottur í dag og þrátt fyrir að Ronaldo hafi skorað og lagt upp þá stendur valið um mann leiksins á milli Wan-Bissaka og Cavani að mínu mati. Næsti deildarleikur er svo eins og áður segir gegn Man City á laugardaginn en í millitíðinni förum við í heimsókn á Ítalíu og sækjum heim Atalanta í Meistaradeildinni.
Dór says
Að sumir leikmenn séu með áskrift af byrjunarsætinu er fáránlegt og það er að fara kosta hann starfið
Runar P says
2-2
Gummi says
Hræðilegur sigur við verðum að losna við solskjær og það strax
Tómas says
@Gummi. Viltu tap í leiknum?
Ef Solskjaer nær að snúa þessu við þá hljótum við að fagna því sem stuðningsmenn.
Er persónulega búinn að missa trú á Ole en vill aldrei sjá tap eða slæma frammistöðu.
Gummi says
Við vitum öll að hann er ekki nógu góður stjóri til að snúa þessu við því fyrr sem hann fer því betra
Robbi Mich says
Það er nú dálítið sérstakt að óska þess að liðið tapi til þess eins að losna við stjórann. Get ekki sagt að það sé stuðningsmanninum til sóma og hefði haldið að sem alvöru stuðningsmaður að þá styddi maður liðið í gegnum súrt og sætt.
Scaltastic says
Harry Kane er heiðursmaður mikill. Hann hefur horft upp á nafna sinn og varafyrirliða með Englandi vera með buxurnar á hælunum allt tímabilið. Hann ákvað að bjóða upp á sams konar frammistöðu í dag og um leið hjálpa Maguire að finna gamla formið. Harry Kane… takk kærlega fyrir þitt framlag :)
Þægileg tilfinning að vera búinn að halda loksins hreinu. Kallaði eftir þriggja hafsenta kerfi eftir komu Varane, loksins staulaðist stjórinn að kýla á það þó það hefði mátt gerast 10. vikum fyrr.
Þetta var skref í rétta átt, hins vegar loga viðvörunarbjöllunar ennþá með Fred út á þekju 24/7 og Shaw er einfaldlega ekki í standi. Tottenham voru hræðilegir, verður fróðlegt að sjá hvort vörnin byrji aftur að mígleka á þriðjudaginn. Áfram gakk…
Tómas says
Með því að nota 3 hafsenta kerfið getur liðið einnig hent í 343 í bland við 352 kerfið sem var notað í gær ekki ósvipað og t.d Tuchel gerir með Chelsea. Ef 343 þá með Rashford/Pogba og Sancho/Greenwood aðeins fyrir aftan Ronaldo/Cavani.
Held að þessi taktíska breyting hjá Ole gæti reynst gæfuspor en maður setur stórt spurningamerki við að hann hafi ekki horft þangað fyrr.
Aðeins of reaktívur frekar en proaktívur kannski.
Audunn says
Það verður að segjast eins og er að þetta var mjög sterkur sigur hjá United. Það er ekki auðvelt að rífa sig upp eftir stórtap á heimavelli gegn erki óvinum.
Ég held líka að þessi sigur hafi sagt okkur það að leikmenn United eru tilbúnir að berjast fyrir Ola Gunnar, það er mjög auðvelt að gefast upp og hafa ekki áhuga þegar stjórinn er kominn upp við vegg, þá meina ég ef leikmenn vilja losna við hann eins og gerðist t.d með Móra. Það sást á öllum leikmönnum United að þeir höfðu engan áhuga á að spila fyrir hann í restina og það var engin stemmning fyrir því að leggja neitt á sig svo hann héldi starfinu sínu áfram. Það virðist vera annað upp á teningnum með Ola Gunnar.
Ekki það að ég sé búinn að skipta um skoðun varðandi Ola, ég vill hann burt og búinn að vilja það lengi.
Ole hefur verið mjög ragur við að prufa eitthvað nýtt fram að þessu en nú varð breyting á því, ég held að þetta kerfi henti United jafnvel betur, amk ef marka má þennan leik. Liðið var miklu þéttara og leikmenn nær hvor öðrum.
Enn sjáum til hvað gerist, þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ole tekst að „bjarga“ andlitinu tímabundið þegar pressan á honum er mikil en svo fer þetta alltaf í sama farið aftur undir hans stjórn.
Það verður spennandi að sjá hvernig næstu 2 leikir verða, hvort liðið ætli sér virkilega að koma tilbaka eða hvort þetta var bara góð framistaða í einum leik og liðið fari svo aftur í sama farið.
Mér finnst meðferðin á Van De Beek gjörsamlega glórulaus og fyrir neðan allar hellur.
Að koma svona fram við leikmann sem þú kaupir sjálfur er nánast einsdæmi, gjörsamlega óskiljanlegt.
Afhverju fær hann ekki séns í stöðunni 0-3? hvað er Oli Gunnar að reyna að sanna með þessari meðferð?
Furðulegt, algjör dónaskapur, ósanngjarnt og ekki mannleg framkoma.