Þann 10. nóvember síðastliðinn voru tólf ár liðin frá því að þýski markvörðurinn Robert Enke, þá leikmaður Hannover, framdi sjálfsmorð. Enke tilheyrði fámennum hópi sem hafnaði því að spila með Manchester United á blómaskeiði liðsins undir Sir Alex Ferguson, en leiðir Enke og United lágu víðar saman.
Það var sumarið 2001 sem United reyndi að fá Enke. Hann hafði þá verið hjá Benfica í Portúgal í eitt ár og staðið sig vel. Saga Enke er rakin í bókinni „A Life Too Short.“ Þar segir frá því að þetta sumar hafi Ferguson hringt beint í Enke.
Þjóðverjinn mun hafa verið í örlitlum vandræðum með að skilja skoskan hreiminn en náð því þó að skilja að Ferguson vildi fá hann til United. Sir Alex mun hafa ætlað Enke að vera varamaður Fabien Barthez fyrsta árið og spila 10-15 leiki en taka síðan við af Frakkanum. Benfica var tilbúið til að semja, gat nýtt 3,5 milljónir punda, en á endanum var það ákvörðun Enke að fara ekki. „Já, sumir leikmenn hafna virkilega tilboði frá Manchester United,“ sagði Ferguson síðar.
Vildi ekki Porto
Þess í stað kláraði Enke seinna árið af samningi sínum við Benfica. Þegar styttast fór í honum reyni Porto að fá hann yfir til sín. Liðið var þá á mikilli siglingu undir stjórn efnilegs þjálfara, José Mourinho. Enke var tregur til en hitti forsvarsmenn Porto. Hann sá þó fljótt að hann yrði krossfestur fyrir að fara til erkifjendanna og sleit viðræðunum. Fundurinn spurðist út, stuðningsmennirnir krossfestu hann samt og hann endaði á bekknum.
„Kannski gerði ég mistök síðasta sumar. Þegar ég sé vandræðagang Barthez … “ sagði Enke síðar við ævisögu ritara sinn, Ronald Reng. United keypti í staðinn Roy Carroll sem fékk sinn skerf af leikjum fyrir United áður en yfir lauk.
Hver ert þú?
Þegar leið á vorið 2002 þrengdist staða Enke, nokkur lið litu á hann en fylgdu ekki eftir. Að lokum kom þó kallið, frá Barcelona. Enke var ekki eini nýliðinn á Nou Camp, Louis van Gaal var þá að hefja störf öðru sinni. Með honum var markmannsþjálfarinn Franz Hoek, sem fylgdi van Gaal einnig rúmum tíu árum síðar til Manchester United.
„Hann hafði ótrúlegt viðbragð og skar sig úr því hann var ekki útbólginn af vöðvum eins og þýskir markverðir á borð við Kahn, Köpke eða Schumacher og vilja bara bregðast við á marklínunni. Þá hefði hann aldrei komið til greina hjá Barcelona,“ sagði Hoek sem hringdi í Mourinho til að gulltryggja meðmæli með Enke.
Í bókinni segir að vistaskiptin hafi hangið á bláþræði í nokkra daga þar til Enke hringdi í van Gaal sem beint út sagði honum að það væri yfirmaður knattspyrnumála sem vildi Enke, sjálfur þekkti van Gaal ekkert til Enke. Hann fullvissaði hann þó um að markverðirnir þrír hjá Barcelona fengju allir sín tækifæri á undirbúningstímabilinu.
Hinir tveir markverðirnir voru Argentínumaðurinn Roberto Bonano og 22ja ára gamall heimamaður sem ætlað var að verða þriðji markvörður – Victor Valdes. Valdes talar afar vel um Enke í bókinni, hvað hann hafi lært mikið af honum og hve mikla virðingu hann hafi borið fyrir þýskum markvörðum. „Þýskir markverðir lenda miklu betur en þeir spænsku eftir að hafa varið.“
Hörð samkeppni hjá Barcelona
Bonano snéri aftur eftir HM 2002 helst til of þungur og var snarlega settur á bekkinn. Enke var næstur í röðinni en hollensku þjálfurunum fannst hann ekki vera nógu viljugur til að koma jafn langt frá markinu og þeir vildu né vera nógu fær með boltann í fótunum. Þá hafi Hollendingarnir verið duglegir að segja markvörðunum frá því hvernig Edwin van der Sar gerði hlutina.
Barcelona tók þátt í æfingamóti í Amsterdam í sumarið. Bonano fékk fyrsta leikinn, Enke þann næsta. Hvorugur stóð sig svo röðin var komin að Valdes. Sá greip færið. Reng rekur síðan hvernig sjálfstraust Enke hafi smám saman fjarað út. 3-2 ósigur í bikarleik gegn liði úr B-liði, þar sem Enke náði illa saman við Frank de Boer og Michael Reiziger, bætti gráu ofan á svart.
Brotlending í Tyrklandi
Tímabilið batnaði ekki úr þessu og ljóst er að Enke átti litla leið til baka. Sama hvað hann reyndi fékk hann litla náð fyrir augum þjálfarann og líðan hans fór versnandi. Sumarið 2003 var hann skilin eftir þegar Barcelona fór í æfingaferð til Bandaríkjanna. Loks síðsumars barst tilboð frá Fenerbache í Tyrklandi sem Enke tók, enda ekki margir aðrir kostir í stöðunni. Þjálfarinn var Christoph Daum, sem hraktist frá Þýskalandi eftir að hafa orðið uppvís að kókaínneyslu.
Ljóst er að Enke var ekki í nokkru standi til að spila í Tyrklandi. Líðan hans var orðin þannig að helst vildi hann ekki fara út úr húsi, helst rifta samningnum um leið og hann var gerður. Enke spilaði einn leik þar sem hann fraus í einföldum aðgerðum sem kostaði mörk. Hann kom sér beint til Barcelona aftur.
Upprisa hjá Hannover
Í byrjun árs 2004 fékk Enke möguleikann á að fara til Tenerife í spænsku B-deildinni. Þar náði hann vopnum sínum á ný sem varð til þess að Hannover bauð honum samning. Þar átti Enke almennt frábær ár. Áhugaverð er innsýnin i klefann hjá Hannover, liðið komst langt á góðum liðsanda sem byggðist upp í úreltu gufubaði. Síðan átti að ná lengra og keyptir inn „góðir“ leikmenn sem ekki komust í takt við móralinn og þar með versnaði árangurinn aftur.
Tímabilið 2008-9 var Enke öðru sinni valinn besti markvörður þýsku Bundesligunni. Hann var þá líka orðinn aðalmarkvörður þýska landsliðsins, eftir að Jens Lehmann hætti eftir EM 2008. Um haustið tók aftur að bjáta á andlegu hliðina hjá Enke, hann forðaðist samneyti við annað fólk, hafði ekki trú á sér og var almennt orkulaus. Hann leitaði aðstoðar sálfræðing, sem honum fannst hálf skammarlegt.
Að morgni þriðjudagsins 10. nóvember sagði Enke konu sinni að hann ætti að mæta á æfingu. Þegar leið á daginn fóru hans nánustu að hafa áhyggjur af honum. Þeir hringdu í markmannsþjálfarann sem svaraði gætilega að engin æfing hefði verið. Eftir að hafa keyrt um í nokkra tíma í reiðuleysi ákvað Enke að kasta sér fyrir lest klukkan sex síðdegis.
Að vekja skilning á þunglyndi
Bæði sjálfsmorðið og bókin, sem kom upphaflega út 2010, vöktu eðlilega mikla umræðu um andlega líðan afreksíþróttafólks. Það hefur verið afsakanlegt að vera tognaður en ekki að líða illa. Miðað við umræðuna í kringum Ólympíuleikana í sumar virðist hafa orðið framför þótt lítið hafi slaknað á kröfunum til íþróttafólksins.
Og eins og bent er á í eftirmála bókarinnar þá glímdi Enke aðeins tvisvar á sinni of stuttu ævi við þunglyndi: „Það var mikið talað um að hörmuleg örlög Roberts skyldu verða til þess að rjúfa þögnina um sjúkdóminn. Margir þunglyndissjúklingar vita vart að þeir eru þunglyndir. Einkenni eins og framtaksleysi eða svefnleysi eru stundum túlkuð sem líkamleg veikindi. Það er til of mikils að ætla að allt í einu ríki fullkominn skilningur á sjúkdóminum, en kannski mun þessi bók leggja sitt af mörkum þannig að þeir sem við hann glíma njóti meiri skilnings og samhygðar.“
Skildu eftir svar