Ofsalega slöpp frammistaða enn einu sinni þegar Manchester United tapaði verðskuldað fyrir Watford. Það gengur ekkert upp þessa dagana. United hefði getað verið meira undir í hálfleik og glundraði svo tækifærum til að jafna leikinn í 2-2 áður en Maguire lét reka sig af velli og Watford kláraði leikinn á endanum 4-1. Þetta hlýtur nú að fara að verða gott hjá Norðmanninum.
Solskjær ákvað að geyma Donny van de Beek áfram á bekknum og stillti upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Heaton, Alex Telles, Bailly, Dalot (85′ fyrir Shaw), Fred, Lingard (91′ fyrir Sancho), Mata, van de Beek (45′ fyrir McTominay), Martial (45′ fyrir Rashford).
Heimamenn stilltu upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Bachmann, Ngakia, Rose, Troost-Ekong (64′), Pedro (77′), Gosling, Fletcher, Tufan, Hernández (68′).
Fyrri hálfleikur
Leikurinn var ekki orðinn 10 mínútna gamall þegar við fengum fyrstu alvöru dramatíkina. United átti þá innkast á eigin vallarhelmingi, boltanum var kastað á Bruno sem ákvað að reyna að taka hann á lofti undir engri sérstakri pressu. Sú tilraun heppnaðist ekki betur en svo að boltinn skúfaðist aftur að teig United þar sem McTominay var of linur í baráttunni við Joshua King og endaði á að brjóta á honum. Watford fékk reyndar mjög gott tækifæri til að skora en nýtti það ekki svo Moss dæmdi réttilega víti. Fyrsta víti Watford á tímabilinu.
Watford er þó, því miður fyrir þá, ekki lengur með vítamaskínuna Troy Deeney innan sinna raða til að taka vítin. Þess í stað mætti Sarr á punktinn og tók slappt víti í hægra horn frá sér séð. Reyndar niðri og alveg út við stöng en laust og David de Gea varði vel. Boltinn hrökk út í teig þar sem Kiko Femenía kom á ferðinni og lúðraði boltanum upp í samskeytin nær, óverjandi fyrir de Gea. Frábært slútt en því miður fyrir hann hafði hann tekið þjófstart inn í teiginn þegar Sarr tók vítið. Þar sem Wan-Bissaka hafði líka tekið þjófstart fékk Watford að njóta vafans og taka vítið aftur. Aftur var það Sarr og hann ákvað að taka enn slakara víti en áður, í sama horn nema lausar, ekki eins langt út að stöng og í fullkominni markmannshæð. David de Gea las það líka og varði. Þriðja vítið sem David de Gea ver í röð, helvíti gott þótt þessi tvö hafi ekki verið þau bestu.
Staðan því áfram 0-0 eftir alla þessa dramatík og United sannarlega sloppið með skrekkinn.
Annars var þessi leikur ógurlegt basl til að byrja með. Leit eiginlega út eins og neðrideildarleikur af gamla skólanum frá báðum liðum. Watford voru þó áræðnari og trekk í trekk lentu United í stöðu þar sem þeir þurftu nauðvörn til að koma í veg fyrir dauðafæri hjá Watford. Tvisvar bjargaði fyrirliðinn Maguire, sem var hávær í þessum leik, því sem hefði að öllum líkindum orðið að marki hjá Watford.
Það segir líklega sitt að stuðningsmenn Watford skemmtu sér í fyrri hálfleik við að syngja „Ole’s at the wheel!“.
Það var líka gjörsamlega fylgjandi gangi leiksins þegar Watford komst yfir. Heimamenn höfðu verið í langri sókn og náð að setja meiri og meiri pressu á United. Femenía með fyrirgjöf langt utan af kanti sem Wan-Bissaka náði ekki að skalla frá, þótt hann væri pressulaus, heldur fór boltinn á Dennis sem fann Joshua King og Norðmaðurinn slúttaði af stuttu færi. Hrikalegt en verulega sanngjarnt. Áfram héldu Watford-stuðningsmennirnir að syngja: „Ole’s at the wheel!“
Loksins náði United þó að skapa eitthvað. Hár bolti frá Bruno yfir vörn Watford fann Rashford sem átti fyrsta skot United á rammann eftir rúman hálftíma leik. Fínt skot en vel varið frá Foster. Eitthvað smá líf, loksins.
Watford var hins vegar nær því að bæta við eftir þetta, aftur þurfti Maguire að bjarga með glæsilegri tæklingu þegar Joshua King fékk stungusendingu inn fyrir vörnina. Maguire hafði þó sjálfur misreiknað rangstöðuvörnina þegar stungusendingin kom en sem betur fer náði hann að bjarga því.
Yfirburðir Watford voru skammarlega miklir í fyrri hálfleiknum. Þegar fimm mínútur voru eftir fékk Joshua King frían skalla við markteig United en setti boltann beint á de Gea. Skömmu áður höfðu stuðningsmenn United komið sinni skoðun á framfæri með því að syngja: „attack, attack, attack!“ þegar varnarmenn United voru að lulla með boltann sín á milli. Engin ákefð fram á við og gekk illa að bæði halda boltanum og koma honum fram á við.
Það sást kannski helst á því að Ronaldo þurfti trekk í trekk að falla niður á völlinn til að komast í boltann því það einfaldlega gekk ekki fyrir miðjumenn United að halda boltanum og gera eitthvað við hann.
Enda fór það svo að Watford bætti við marki á 44. mínútu. Heimamenn voru þá að leika sér á hægri kantinum og spiluðu sig framhjá leikmönnum United eins og þeir væru að taka létta æfingu við einhverja úr yngri flokkum. Femenía komst upp kantinn og lagði boltann út í teiginn á Sarr sem hafði pláss og tíma til að stilla boltanum upp og láta vaða í fjærhornið. Lítið sem de Gea gat gert en vörn United hefði öll átt að gera betur. Hvað er eiginlega í gangi með þetta lið?
Þegar uppbótartíminn fjaraði út, og United gerði nánast enga tilraun til að laga stöðuna fyrir hálfleik, ómaði lagið um leikvanginn sem nær líklega tilfinningu flestra stuðningsmanna Mancheser United þessa dagana: „Sacked in the morning! You’re getting sacked in the morning!“
Seinni hálfleikur
Solskjær nýtti hálfleikinn í að gera tvær skiptingar, Anthony Martial og Donny van de Beek komu inn á í stað Marcus Rashford og Scott McTominay.
Fyrstu fimm mínúturnar voru samt áfram svipaðar, Watford virtist hafa öll tök á leiknum. En þá kom fín sókn frá Manchester United þar sem liðið náði loksins að láta boltann ganga. Boltinn endaði út á hægri vængnum þar sem Sancho kom með frábæra fyrirgjöf á fjær þar sem Ronaldo hékk í loftinu. Ronaldo sá að Donny van de Beek hafði tekið eitt af sínum laumulegu hlaupum af miðjunni inn í teiginn og skallaði boltann á Hollendinginn sem skallaði boltann í autt markið. Frábært mark og virkilega flott að sjá Donny eiga svona öfluga innkomu eftir áköll margra um að spila honum meira upp á síðkastið.
Watford átti annað gott færi en svo kom lífleg skyndisókn hjá United þar sem Donny átti frábæra sendingu upp kantinn á Sancho sem átti flotta fyrirgjöf á Bruno sem tók boltann í fyrsta en skaut framhjá. Það var þó allavega ekki lengur bara eitt lið í þessum leik.
Van de Beek hélt áfram að minna á sig. Hann átti flotta stungu inn á Ronaldo sem komst inn fyrir og átti fast skot en missti jafnvægið fyrir skot og náði ekki að stýra því nema beint á Foster í marki Watford. Allt annað að sjá liðið þó eftir að Donny kom inn á.
Eftir það var leikurinn í járnum á báða bóga. Watford missti markaskorarann Sarr af velli eftir hressilega tæklingu frá Donny van de Beek. United átti ívið meira í leiknum og var að leita að leið til að keyra pressuna upp þegar Harry Maguire fékk sitt seinna gula spjald. Hann missti boltann of langt frá sér þannig að Cleverley hirti hann af honum og Maguire náði ekki að tækla boltann en tók Cleverley niður sem var að sleppa einn í gegn. Hárréttur dómur. Virkilega lélegt hjá Maguire, sem hafði annars verið ágætur í þessum leik.
Ronaldo virtist samt staðráðinn í að láta liðsmuninn ekki koma í veg fyrir jöfnunarmarkið. Hann hélt áfram að vera í boltanum, átti skalla rétt yfir og skoraði svo mark eftir snyrtilega stungusendingu frá Donny en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Stuttu síðar fékk Ronaldo boltann í vítateigshorninu, lék sér aðeins með hann og fann svo Bruno í D-boganum. Bruno fékk fínan tíma til að leggja boltann fyrir sig en skotið var arfaslakt og fór hátt yfir. United hefði svo sannarlega getað verið búið að jafna í 2-2 þegar þarna var komið.
Þegar rauða spjaldið fór á loft hafði Jesse Lingard verið að hita upp og á leiðinni að koma inn en eftir spjaldið breyttist það. Dalot fór að hita upp og átti að koma inn fyrir Wan-Bissaka. En þá fékk Luke Shaw fasta fyrirgjöf í andlitið og fór af velli í staðinn. Shaw hafði misst af landsleikjum í síðasta hléi vegna þess að hann var í meðferð við mögulegum heilahristingi eftir höfuðhögg gegn Manchester City svo það var skiljanlegt að taka enga sénsa þarna.
Fyrst þetta var ástæðan fyrir skiptingunni hjá Shaw þá gat Solskjær gert aðra skiptingu sem hann nýtti til að setja Lingard inn á fyrir Sancho.
Fimm mínútum var bætt við leiktímann en United náði ekki að gera neitt sérstakt við þann tíma. Þess í stað voru það heimamenn sem létu vaða. Pedro fékk dauðafæri en de Gea varði. Í stað þess að United nýtti það til að blása til skyndisóknar þá unnu Watford boltann auðveldlega aftur, Emmanuel Dennis fann Pedro aftur og þrátt fyrir að Pedro væri þarna í þrengra og erfiðara skotfæri þá náði hann í þetta skiptið að skora með föstu skoti á nærstöngina. De Gea hafði varið vel augnablikum áður en leit illa út þarna. 3-1 fyrir Watford.
„Ole’s at the wheel, at the wheel. Ole’s at the wheel! Lalalalalalalala!“ héldu stuðningsmenn Watford áfram að syngja á meðan leiktíminn fjaraði út og væntanlega þar með stjóratíð Solskjær hjá Manchester United.
Nema jú, það var enn tími til að bæta einu marki við í viðbót. Dennis með mark. Allt United-liðið búið að slökkva á sér.
Pælingar eftir leik
Nei, nú er komið miklu meira en nóg!
Þetta er orðið svo hræðilega lélegt. Það eru engin svör. Leikmennirnir virðast ekki eiga nein svör. Solskjær virðist ekki eiga nein svör. Watford var betra liðið á öllum sviðum í dag og átti þennan sigur fyllilega skilið.
Manchester United er í 7. sæti eftir leikinn og getur sokkið neðar áður en þessi umferð klárast. Markatalan er komin í mínus. Mórallinn er kominn í mínus. Það þarf að breyta einhverju, það er alveg ljóst.
Næsti leikur er útileikur gegn Villareal í Meistaradeildinni og svo útileikur í deildinni gegn ógnarsterku Chelsea-liði næstu helgi. Verður Solskjær enn stjóri þá?
Zorro says
Hvað er eiginlega að hjá þessum klùbbi….áhugaleysið og andleysið er hrikalegt….hef aldrei séð svona i mìna tìð hjá Man.Utd……:(
Turninn Pallister says
Jæja nú hlýtur þetta að vera búið hjá Ole. Algjört gjaldþrot, vorum yfirspilaðir á öllum sviðum fótboltans í dag og niðurlægingin algjör.
Herbert says
Game over. Það er ekki séns að Ole verði við stýrið eftir þetta. Er heldur ekki að sjá Maguire bera fyrirliðabandið aftur. Þvílíkt þrot sem hann hefur verið á þessu tímabili. Að hafa ekki prufað Van De Beek meira í öllu þessu brasi er algjörlega galið. Hann var eini ljósi punktur liðsins í dag. Allt starfsliðið með Solskjaer má hverfa líka. Alveg lost dæmi. Vil ekki sjá Rodgers. Zidane, Eric eða Enrique takk.
Tony D says
Úfff…… ég ætlaði að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir leik, en þetta var þvílíkt þrot. Það eina góða við leikinn er að honum er lokið.
Elís says
Ole skelfilegur nema fyrir þá sem halda ekki með Man Utd og það hefði átt að reka hann strax eftir Liverpool leikinn og ná í Conte.
Það má samt ekki fría alla leikmenn liðsins sem eru að spila skelfilega. Fyrirliðinn ömurlegur, lykilmenn ekki að nenna þessu og ekki einn leikmaður þarna sem getur rifið upp liðið og minna þá fyrir hvaða lið þeir eru að spila.
Einar says
Hræðilegt 😡 Ég fer í byrjun des á Old trafford get ekki sagt að mér hlakki til.😡
Hjöri says
Hef verið svolítill Ola maður, en nú held ég að Oli geti ekki meir, og verði þar af leiðandi að hverfa sem er alltaf leiðinlegt að þurfa að reka stjórana. En það er ekki eingöngu Ola að kenna hvernig komið er, það eru þó nokkrir leikmenn sem eiga bara allsekki heima í þessu liði, og ætla ég t.d. að nefna 80 mils varnarmanninn sem hefur bara alls ekki staðið sig að mínu mati, og þarna eru svo fl.o.fl. sem mættu missa sín. En hver ætti að taka við er stóra spurningin, hver getur komið þessu liði á rétt ról, sá maður er eflaust vandfundinn. Góðar stundir.
Tómas says
Enn ein ömurlega frammistaðan. Ljósi punkturinn Donny. Hann verður kannski starter hjá nýjum manager.
Ole fer núna. Það er nauðsynlegt. Stjórnin verður enn meira aðhlátursefni fari hann ekki.
Hræddur við að næsti manager verði vonbrigði líka.
Robbi Mich says
Nú verður Roy Keane að taka við og segja þessum ríku mömmu strákum til syndanna. Ekki mun Ole gera það, hann er of næs gaur. Nú þarf einhvern bolabít sem er gerður úr stáli.
Scaltastic says
Eins vondir og rasskellirnir eru viku eftir viku, þá stingur þetta helmingi verr andlega. Með réttu ætti allt þjálfarateymið að tæma dótið sitt af Carrington á morgun. Einnig ætti hauslausa fyrirliðatvennan Harry og Bruno að verða bekkjaðir út 2021, fyrir mér hafa þeir gjörsamlega brugðist sínum hlutverkum og ég er ofboðslega sár út þá tvo sérstaklega.
Hins vegar má ekki gleyma því að félaginu er stjórnað af liði sem hefur aldrei borið ábyrgð á neinu í þeirra tíð og er í þokkabót… best að bíta í vörina núna :(
Ole… býst við að sjá hann ofurferskann á þriðjudaginn með sinn súper vel dril-aða varnarleik.
Ps. Er ekki hægt að kaupa upp samninginn hjá Gauja Þórðar hjá Víking Ó? Eða fá Óla Þórðar í comeback? Í fullri alvöru þá höndla ég ekki þennan horbjóð mikið lengur.
Davíð says
Ekki lausn að reka framkvæmdarstjòran, verðum núna að snùa bókum saman. Hef fulla trú á því að bráðum syngjum við saman Ole ís at the wheel saman í baráttunni.
Egill says
Þetta er allt í góðu, við erum með svo frábæran fyrirliða að þetta verður allt í lagi. Svo kann hann líka að reka bolta ólíkt öllum öðrum atvinnumönnum í fótbolta. Hann er bara svo óheppinn að vera búinn að vera í lægð síðan hann fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning, en þetta er topp leikmaður… við þurfum bara að sýna þolinmæði, rétt eins og með hinn unga og efnilega Lingard.
blaa says
Það gekk svosem ágætlega á meðan liðið lág aftarlega og beitti skyndisóknum. Eftir að Ole færði liðið framar koma veikleikar í ljós.
Maguire er of hægur til að verjast ofarlega.
Wan Bissaka getur ekki sótt.
Lið sem spila ofarlega eru með sweeper keeper. De Gea er línukeeper og getur ekki sweepað.
Þegar spilað er ofarlega þarf vörnin að hefjast á fremstu mönnum. Ronaldo og Bruno nenna ekki að verjast.
Sindri says
Kominn tími á Ole, það er alveg á hreinu. Með hreinum ólíkindum hvað góðir leikmenn hafa gjörsamlega hrunið síðustu mánuði (Maguire og Shaw).
Donny ætlaði klárlega að sýna sig í dag. Orkan í honum og góðar sendingar fram á við.
Eftir alla fjárfestinguna lítur maður samt þannig á að það sé skynsamlegast að byrja miðjumanni í miðverði á móti Chelsea.