Það lak, það var tilkynnt, og svo staðfest og núna loksins er það raungert.
Ralf Rangnick verður í fyrsta skiptið á hliðarlínunni á Old Trafford sem framkvæmdastjóri Manchester United á morgun þegar Patrick Viera mætir með Crystal Palace lið sitt.
Við höfum velt fyrir okkur hvort Rangnick hafði hönd i bagga með liðsvalinu gegn Chelsea og Arsenal, og sýnist sitt hverjum. Hvað fór á milli þeim Carrick í klukkutíma símtali á miðvikudaginn? En á morgun verður enginn vafi. Þetta verður lið Rangnick.
Hann kom gríðar vel fyrir á blaðamannafundinum í gær og sýndi að hann veit hvað hann er að taka við. Við munum ekki sjá blússandi gegenpressen á morgun, og ekki á næstu vikum. Það mun taka tíma að breyta og hann mun vinna með það sem hann hefur í höndunum sem honum líst bara vel á. Þegar hann sagði að hópurinn sem Klopp hefði tekið við hjá Liverpool hefði alls ekki verið betra en það sem hann tekur við nú var hann fyrir það fyrsta að segja hið augljósa en einnig að benda á að hann hefði ekki þann tíma sem Klopp fékk til að byggja upp hópinn.
En nú hefur Ralf Rangnick sex og hálfan mánuð til að setja mark sitt á liðið, og það var alveg ljóst i gær að hugur hans stendur til að gera nógu vel til að þegar komi að ákvörðun um næsta framkvæmdastjóra verði nafn hans efst á blaði.
Og eftir erfiði síðustu vikna líta næstu þrír mánuðir svona út. Auð auki verða auðvitað bikarleikir, þann 10 janúar og vonandi 5. febrúar. Að öðru leyti eru þetta leikir sem á pappírnum fræga eru gegn veikari liðum. Rangnick hlýtur því að horfa til þess að eftir þessa þrjá mánuði verði liðið í einu af efstu fjórum sætum og búið að slípast til eftir hans höfði. Mars og apríl verða svo erfiðir eftir því, öll liðin sem United sleppur við að mæta bíða enda þá, Manchester City fyrst.
Rangnick drú verulega úr þegar kom að möguleikum á leikmannakaupum í janúar en engu að síður eru slúðurvélarnar á fullu og það kæmi engum á óvart ef einhver leikmaður sem væru honum að skapi væri sóttur.
En á morgun kemur lið inn á völlinn sem hefur hlustað í tvo daga á nýjan þjálfara. Það verða einhverjar breytingar en það verður engin bylting strax.
Liðið stóð sig vel gegn Arsenal, og spurningin er líklega fyrst og fremst hvort þurfi að rótera til að hvíla menn. Setjum upp sama lið og sjáum bara til.
Crystal Palace
Patrick Viera tók við Palace í sumar og hefur staðið sig þokkalega hingað til. Liðið er í ellefta sæti, hefur samt aðeins unnið þrjá leiki, tapað fjórum en gert heil sjö jafntefli. Helsta afrekið var tvö-núll sigur á Etihad gegn City í lok október en liðið hefur tapað síðustu tveimur leikjum, gegn Aston Villa og Leeds.
Þetta er góður árangur, þó vélin hafi hökt og Palace hefur haft tvo daga umfram United að ná sér eftir síðasta leik. Það er lítið um meiðsli og spáin er þessi, að mestu kunnugleg andlit utan að bakvörðurinn Joachim Anderson kom frá Lyon.
Að lokum
Manchester United hefur með ráðningu Rangnick tekið veðmál sem á vissan hátt er alveg jafn fjarstætt og ráðning Ole Gunnar á sínum tíma. Þá var það óreyndur þjálfari sem átti að móta liðið að hætti United sögunnar. Það tókst ekki. Nu er ráðinn þjálfari sem kemur með fullmótaðri stefnu en nokkur annar. Að ráða Rangnick án þess að gefa honum fullveldi til allra starfa er eins og að kaupa svissneskan vasahníf og nota hann aðeins sem naglaþjöl. Nú dugar ekki að kaupa menn sem trekkja læk á samfélagsmiðlum, ef þeir falla ekki að leikstílnum. Murtough, Woodward, Arnold og Joel Glazer verða að hafa kjark til að gera það sem þarf til að ráðningin skili árangri.
Robbi Mich says
Koma svo, horfa fram á veginn og styðja liðið af ástríðu!
Steve Bruce says
Góð upphitun og sérstaklega áhugavert að lesa síðustu efnisgreinina. Nú reynir á hvort stjórnendur séu tilbúnir að falla algjörlega undir hugmyndafræði Ragnick eður ei. Vonandi er svarið já því ég held að sá þýski sé ekki týpan sem gefur mikinn afslátt af því sem hann hefur sannfæringu til að gagnist best. Persónulega er ég bjartsýnn enda þótt ég hafi örlitlar áhyggjur af reynsluleysi Ralph með stórlið. Þeir eru ófáir stjórnarnir sem hafa farið ótal sinnum á kostum með góð og frambærileg lið en hafa svo ekki náð árangri þegar þeir hafa fengið tækifæri með risaklúbb. Vonum að þetta séu óþarfa vangaveltur og að Ragnick muni reynast okkur happafengur frá fyrsta degi.