Í kvöld fór fram viðureign Manchester United gegn Wolverhampton Wanderers en fyrir leikinn voru liðin í 7. og 9. sæti deildarinnar. Rauðu djöflarnir hefðu með sigri komist upp fyrir Tottenham í 6. sæti en Úlfarnir hefðu prílað upp fyrir Brighton í 8. sæti. Bæði lið komu inn í leikinn eftir að hafa tekið 4 stig úr síðustu tveimur leikjum en stigin sem United tapaði gegn Newcastle í þarsíðustu umferð voru þau einu sem liðið hefur tapað síðan liðið gerði 1-1 jafntefli við Chelsea í nóvember.
Í fjarveru Harry Maguire færðist fyrirliðabandið á Cristiano Ronaldo og í stað fyrirliðans var mættur eitt stykki Phil Jones sem ekki hafði spilað deildarleik fyrir United í 712 daga. Ralf Rangnick stillti upp í 4-2-2-2 með McMatic á miðjunni og Sancho og Greenwood í „tíu“ stöðunum fyrir aftan „gömlu“ kallana.
Á bekknum voru: Dean Henderson, Diogo Dalot, Alex Telles, Fred, Jesse Lingard, Donny Van de Beek, Bruno Fernandes(’59), Anthony Elanga(‘?) og Marcus Rashford(’76).
Wolves: Bruno Lage stillir upp í 3-4-3 þar sem Jimenez er fremstur með þá Podence og Trincao sitthvoru megin við sig.
Fyrri hálfleikur
Það voru gestirnir sem voru líklegri og meira ógnandi framan af í fyrri hálfleik. Raúl Jimenez og Daniel Podence voru einna hættulegastir en sá portúgalski átti fjölmargar fyrirgjafir af vinstri kantinum. Aaron Wan-Bissaka og Phil Jones voru hins vegar mjög líflegir í vörninni og hreinsuðu hvern boltann á fætur öðrum.
Hins vegar áttu heimamenn fyrstu almennilegu sóknina sína á 7. mínútu þegar Mason Greenwood átti vel huggulega 30 metra sendingu af eigin vallarhelming í fæturna á Jadon Sancho sem rak boltann að vítateigsboganum með Ronaldo sér við hlið. Í stað þess að renna boltanum á fyrirliðann þá tók Sancho skotið sjálfur en Coady tókst að kasta sér fyrir það. Þarna fór ágætis færi forgörðum.
Podence var aftur á ferðinni eftir um 12 mínútna leik þegar honum tókst að þræða boltann á markið úr þröngu færi en David de Gea átti ekki í miklum vandræðum með skotið. Í kjölfarið kom hornspyrna fyrir gestina en fyrirgjöfin var hreinsuð burt en þó ekki lengra en rétt út fyrir vítateig. Þar kom einn portúgalskur miðjumaður að nafni Ruben Neves á ferðinni og smellhitti boltann á lofti en de Gea henti í sjónvarpsvörslu af dýrari gerðinni og bjargaði í horn.
Gestirnir áttu svo fleiri skot á næstu mínútum en flest þeirra voru hættulítil og auðveld fyrir okkar mann í markinu. Á 27. mínútu áttu Úlfarnir 10 skotið sitt sem eru fleiri skot en þeir taka að meðaltali í 90 mínútna leik og ekki liðinn hálftími.
Hinu megin á vellinum virtust okkar fremstu menn ekki vera að dansa í takt. Wolves virtust hins vegar vera að taka völdin í leiknum og voru talsvert meira með boltann þegar leið á hálfleikinn. Sem betur fer virtist Jimenez ekki vera í eins góðum gír og liðsfélagar hans Trincao og Podence, en hann reyndist ansi mistækur þarna frammi og tapaði boltanum oft.
0-0 í hálfleik og okkar menn voru undir mikilli pressu undir lok fyrri hálfleiks. Það var hins vegar einn United-maður sem stóð svolítið upp úr í fyrri hálfleik miðað við aðstæður. Phil nokkur Jones. Heilt yfir var liðið svolítið passíft og hugmyndasnautt og því þörf á breytingum. Mikið af lélegum sendingum, rétt eins og í Newcastle leiknum og menn alls ekki á tánum eða í takt við liðsfélaga sína.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1478069435533598721
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur byrjaði rólega en eftir um sex mínútur átti Greenwood skot af löngu færi sem fór langt yfir og framhjá markinu. United var töluvert meira með boltann þessar upphafsmínútur hálfleiksins en án þess þó að skapa nein færi af ráði. Luke Shaw nældi sér engu að síður í gult spjald, rétt eins og McTominay hafði gert í þeim fyrri og verða þeir því báðir í banni í næsta deildarleik, sem ætti að vera gegn Aston Villa.
Á 60. mínútu kom fyrsta skiptingin þegar Bruno Fernandes kom inn á í stað Mason Greenwood. Raunar hafði Rangnick ákveðið að taka Cavani útaf en breytti á síðustu stundu. Áfram héldu United að dæla inn boltum í vítateiginn sem ekkert varð út annað en að José Sá fékk smá hreyfingu.
Úlfarnir áttu þó sín færi, til að mynda komst Podence upp kantinn og smellti fyrirgjöf í átt að Jimenez en Shaw bjargaði í horn. Áttunda hornspyrna gestanna gegn engri hjá United.
Skömmu síðar kom hættulegasta færi United, þegar Sancho tók innkast og fann Matic sem komst upp að endalínu inn í teig gestanna og renndi boltanum út að vítapunktinum þar sem Bruno kom á ferðinni og smellti tuðrunni, innanfótar upp í neðanverða þverslánna og út í teiginn aftur. Þarna var sá portúgalskí hársbreidd frá því gefa United forystuna sjö mínútum eftir að hann kom inn á.
Nokkrum sekúndum síðar fengu United aukaspyrnu við vítateigshornið sem enginn annar en Phil Jones krækti í. Fernandes smellti boltanum fyrir og á pönnuna á Ronaldo sem var vel fyrir innan varnarlínu gestanna og markið því réttilega dæmt af.
Á þessum tímapunkti virtist United vera að vakna til lífsins og pressan farin að aukast. Betra flæði komst í leik liðsins eftir skiptinguna og á 76. mínútu kom næsta, þegar Sancho fór útaf og í hans stað kom Marcus Rashford.
Luke Shaw átti annasama vakt í vörninni, sérstaklega eftir að Trincao var skipt útaf fyrir Adama Traoré. Hann gerði hins vegar vel þegar hann stoppaði sóknir gestanna, fyrst með því að stinga sér fram fyrir Jimenez og koma í veg fyrir að hann næði skoti af um 7 metra færi og síðan þegar hann komst fyrir fyrirgjöf frá þeim spænska.
En síðan kom vendipunkturinn í leiknum, þegar Phil Jones skallaði enn eina fyrirgjöfina frá markinu en þó ekki lengra en að vítateigsboganum, en Joao Moutinho kom á ferðinni og smellti boltanum milli fóta McTominay og alveg út við vinstri stöngina. De Gea kom engum vörnum við og sá eflaust boltann seint en 0-1 og Úlfarnir komnir yfir þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.Getty Images…
Bruno Lage henti þá í varnarsinnaða skiptingu, tók Podence útaf og setti Dendoncker inn á. En í stað þess að United gæfi í og setti verulega pressu á gestina og reyndi að jafna leikinn voru það Úlfarnir sem voru meira með boltann þessar næstu mínútur. Hver skyndisóknin á fætur annarri rann út í sandinn hjá United þar sem sendingar voru með versta móti.
Fimm mínútum var bætt við en á 95. mínútu var Phil nokkur Jones mættur fyrir framan vítateig Úlfanna og vann aukaspyrnu um tveimur metrum frá vítateignum sjálfum. Bruno og Ronaldo stilltu sér fyrir framan boltann en skotið frá Bruno var auðveldlega varið frá José Sá. Síðan var flautað af.
Pælingar eftir leik
Í fyrsta sinn í 41 ár hafa Úlfarnir unnið á Old Trafford. Úlfarnir mættu einfaldlega miklu grimmari til leiks og áttu fyllilega skilið eitthvað úr leiknum. United var enn og ný að spila langt undir getu og virðist ekki með nokkru móti geta unnið sem lið. Sendingar og hlaup voru svo úr takt að það mætti halda að þarna hefðu verið saman komnir 11 einstaklingar sem spiluðu allir sitthvora íþróttina. Ef við lítum á tölfræði leiksins sést vel hvað United voru í raun daprir gegn einu lélegast sóknarliði deildarinnar. Wolves skutu 19 sinnum sem er nær tvöfaldur fjöldi skota í leik hjá þeim að meðaltali (9,9) á meðan United, á eigin heimavelli nota bene, átti 9 skot og einungis 2 rötuðu á rammann.
Vissulega komu mörg skot þeirra fyrir utan teiginn en þaðan kom líka markið þeirra. Það virðist sem svo að þegar United er að verjast þá reynist okkur oft erfitt að koma í veg fyrir skot frá svæðinu í kringum vítateigsbogann. Þegar Moutinho fékk boltann voru United menn hvergi sjáanlegir nálægt honum sem er óskiljanlegt því við höfum sko sannarlega brennt okkur á því í gegnum tíðina, einmitt gegn Úlfunum.
Leikurinn í dag minnti óneitanlega á leik gegn Fulham þar sem liðið, undir stjórn Moyes, reyndi 81 stefnulausar fyrirgjafir og var gjörsamlega hugmyndasnautt í sókninni. Agaður varnarleikur Úlfanna var fyrirfram vitað að yrði ekki auðveldlega farið framhjá og því vissulega spurning hvort ekki hefði þurft miðjumann með meiri sköpunarmátt í dag. Það sama má segja um kraftinn, leikmenn áttu góða spretti inn á milli en leikmaður eins og Nemanja Matic er ekki lengur með hraða né snerpu til að vera í Premier League. Oft á tíðum stóð hann kyrr á meðan liðið í kringum hann reyndi að búa til pláss svo hann þyrfti ekki að hreyfa sig.
McTominay getur verið mjög flottur á miðjunni en honum reynist alltof erfitt að spila léttleikandi, einnrarsnertingarbolta, hann þarf að taka eina til tvær snertingar, líta upp og skoða í kringum sig áður en hann tekur ákvörðun og framkvæmir sem varð honum að falli í dag. Fjölmargir boltar töpuðust þegar miðjumennirnir okkar fengu boltann og það gerði það að verkum að flæðið í sóknarleik liðsins var sama og ekkert og gestunum reyndist mun auðveldara að setja pressu á okkur fyrir vikið.
Ljósu punktarnir voru þó tveir, annars vegar de Gea sem varði nokkrum sinnum frábærlega og virðist vera kominn í sitt gamla form og hins vegar Phil Jones sem virtist svo sannarlega ætla að troða sokkum ofan í alla 76 þúsund áhorfendurnar á vellinum og alla sem sátu heima í stofu. Hann var mjög öruggur í öllu sem hann gerði og vann til að mynda tvær mikilvægar aukaspyrnur hátt á vellinum og mikilli kraftur í honum.
Ef það sama hefði verið í gangi hjá hinum 9 útileikmönnum liðsins þá hefði leikurinn ekki endað eins og hann endaði. Maður leiksins var án efa Podence að mínu mati en besti maður United var sá sem spilaði síðast 2020. Nú tekur við smá hlé frá deildinni hjá okkar mönnum en næst er bikarleikur gegn Aston Villa eftir viku.
Glory, glory!
Rúnar P says
Jones maður leiksins?
Zorro says
Latir og lélegir eina orðið um þetta united lið😞
Joi says
Meira ruslið hann mac t9many.og meiri mistökin þessi helvítis þjálfararæfill.
Egill says
Jones hafði ekki stigið feilspor í leiknum þangað til hann tók Maguire hreinsun og lagði þar með upp mark Wolves.
Það er ekki langt síðan menn voru að metast um hvor kaupin væru betri, Grealish eða Sancho. Svo kom bara í ljós að bæði kaupin voru skelfileg.
Rashford þarf nokkra leiki með varaliðinu, enda hefur hann ekkert getað í 2 ár, McTominay má fara til Newcastle með Lingard og það er nokkuð ljóst að Ralf er bara tímabundinn stjóri, hann fær enga framlengingu á sínum samningi.
Skítt með úrslitin, það er frammistaða leikmanna sem ég hef meiri áhyggjur af.
Egill says
Já og Shaw og AWB mega fara líka, þvílíka draslið.
Mr.T says
Shaw,Awb, Matic og McT mega fara ókeypis til Newcastle mín vegna. 2 skot á mark er grín. Engin þjónusta fyrir framherjanna. DeGe með fyri hálfleik. Djók
Rúnar says
Ekki illa meint, en ætti „guðfaðir gegenpressen“ ekki að vera farinn að láta liðið pressa, þótt það væri ekki nema pínlítið?
Scaltastic says
Manchester United 2021/2022 er jafn farsælt, óraunsætt, veruleikafirrt og uppörvandi og hjónaband Dennis Rodman og Carmen Electra í denn.
Standandi lófatak á Phil Jones. Skrokkurinn á honum var búinn á því fyrir fjórum árum síðan. Hann kreisti allt út úr honum í kvöld og varð sér til sóma.
Eflaust er Rangnick ekki rétti stjórinn inn í framtíðina. Honum til varnar, hvar er ljós punktur í leikmannahópnum okkar? DeGea og Greenwood… talningu lokið???!
Að horfa uppá liðið vera yfirspilað í 75% leikjanna á tímabilinu, brutal.
Ps. Falleg hefð hjá okkar mönnum að fyrirliðarnir séu án undantekninga slökustu menn vallarins í öllum leikjum.
Elis says
Látum okkur sjá hvað nýji stóri hefur gert.
C.Palace heima 1-0 sigur með marki á 77 í ekki merkilegurm leik.
Young Boys heima 1-1 skelfileg hörmung.
Norwitch úti 0-1 sigur með marki úr víti á 75 mín þar sem liðið var skelfilegt og átti ekkert skilið.
Newcastle úti 1-1 – liðið stálheppið að ná í stig.
Burnley heima 3-1 solid sigur
Wolves Heima 0-1 tap í skelfilegum leik.
Að spila á móti þremur lélegustu liðum deildarinar og svo miðjumoðinu hjá Palace og Wolves og liðið virkar ekki sterkara en neitt af þessum liðum þrátt fyrir að vera með c.a 10 sinnum dýrari liði og með miklu betra lið á þessum helvítis pappír.
Maður hélt að nýji stjóri myndinn sparka þeim aðeins í gang, jájá taktíkin gæti tekið smá tíma en smá áræðni, kraft, vilja og stolt fyrir að spila fyrir Man utd en liðið er á nákvæmlega sama stað og þegar Ole, Móri, herra Galinn og Moyes voru að stjórna liðinu – sálarlaust og viljalaust.
Helgi P says
Við þurfum að losa okkur við allan hópinn eins og hann leggur sig þvílíkt drasl sem þetta lið er orðið
Gummi says
Jæja nú getur maður farið að hætta að horfa á þetta united lið spila fótbolta þetta er bara það leiðinlegasta sem maður getur horft á
Robbi Mich says
Þið sem hæst hrópuðu Ole out og kölluðu eftir breytingum, eruði ekki sáttir núna?
Herbert says
Ég er eiginlega alveg orðlaus. Að fá inn RISA nöfn í sumar og hafa átt kanski tvo sannfærandi leiki á öllu tímabilinu. 95% leikja er hundleiðinlegur. Ef ekki meira. Meistaradeildin er held ég ekki séns. Hef miklar áhyggjur að uppbyggingin undanfarin ár sé öll að fara í súginn. Fyriliðinn verður held ég ekki byrjunarliðsmaður eftir 18 mánuði. Miðjan er hræðileg. Vörnin er í molum. Rashford er alveg týndur. Lélegt hjá þjálfurunum á þessu tímabili að leyfa honum að komast upp með að sinna engri varnarvinnu með Ronaldo inná. Ekki hægt að hafa svona marga menn gagnslausa án bolta með Fred, Matic og McTominey á miðjunni. Svo er algjörlega galið að hafa framlengt við mata. Hvað er hann að gera annað en að þiggja laun. Alltof margar ákvarðanatökur undanfarin ár í ruglinu. Bara væri svo til í að horfa á united yfirspila einn andstæðing eða vinna sannfærandi.
Dór says
Þetta var ekki mikið skára hjá solskjær ef þú ert að reyna halda því fram robbi mich
SHS says
Já í guðanna bænum Gummi hættu að horfa á United spila, þá vonandi hættir þú að commenta.
Get alveg séð fyrir mér að þú hafir verið á #Fergieout vagninum á sínum tíma. En já, ekki gott í kvöld.
Skil ekki hvernig menn búast við því að maðurinn bara breyti öllu á núlleinni, hann er jú með sama hóp og meistari Solskjær. OLE.
Sindri says
Vorum solid í fyrra. Hrunið í haust er næst að því óskiljanlegt.
Hef alla trú á því að leikmenn rífi sig í gang og bjargi tímabilinu fyrir horn með 4. sætinu.
GGMU.
Zorro says
Það verður að hækka launin hja dùkkulìsunum….sést á leiknum að þeir eru að lebja dauðann ùr skelinni😀
S says
Djöfull var það samt nice að hafa miðvörð sem kemur ekki með einhvað brainfart moment og setur liðið undir sjúka pressu alltíeinu.
Við hljótum að fara í að styrkja miðvarðarstöðuna við hliðiná Varane núna.
Jones er aldrei að fara að halda sér heilum
Hjöri says
Það er hlægilegt að lesa commentana hérna, menn hafa allt á hornum sér og sumir tala um að fá einhver risanöfn, þeir eru bara svo húðlatir þessir með risanöfnin. Það á bara að kaupa breska leikmenn, og ódýra erlenda leikmenn, þeir nenna að vinna fyrir laununum sínum. Hættið svo þessari andsk…. neikvæðni, halda menn virkilega að Utd vinni alla leiki sem þeir fara í, ekki tekst púllurum það eða City, Arsenal eða Celsea. Eigið góðar stundir og verið aðeins jákvæðari.
Arni says
Ef við förum ekki að losna við glazer pakkið þá held ég að það sé stutt í að þetta lið falli úr úrvalsdeildinni það skiptir eingu máli við hverja við spilum við við erum alltaf yfir spilaðir