Ekki þýðir að dvelja lengi við hrakfarirnar gegn Middlesbrough í bikarnum um helgina. Komið er að næsta leik sem er gegn Burnley á Turf Moor.
United getur tekið það með sér út úr leiknum gegn Boro að hafa skapað sér nóg af færum, að sögn Ralf Rangnick til að skora sex mörk í venjulegum leiktíma. Boro tókst hins vegar að slefa inn í vítakeppni og hafa þar betur. Slík úrslit eru einkennandi fyrir „eitt skref áfram – tvö afturábak“ stöðuna sem United hefur verið fast í nú í tæpan áratug.
Fred og Alex Telles greindust með Covid eftir landsleikjahléið. Hvorugur þeirra verður með á morgun. Það gulltryggir Luke Shaw byrjunarliðssæti og líklega byrjar Pogba inni á miðjunni með McTominay, líkt og á föstudag.
Jadon Sancho kenndi sér meins í lok leiks. Ekki hefur annað heyrst en hann sé heill. Sama er að segja um Bruno Fernandes.
United var með tvo markverði á bekknum en vantaði samt eitt nafn upp á að fylla skýrsluna á föstudag. Edinson Cavani og Jesse Lingard æfðu báðir á mánudag eftir að hafa fengið helgarfrí, sem talsvert hefur verið gagnrýnt. Viktor Lindelöf var fjarri til að sinna fjölskyldunni sem fékk áfall eftir innbrot. Hann er trúlega klár. Ekkert hefur spurst til Eric Bailly sem kom meiddur úr Afríkukeppninni.
Líklegt verður að teljast að Rangnick stilli upp svipuðu byrjunarliði og gegn Boro. Þó gætu alltaf orðið einhverjar breytingar eins og gengur og gerist. David de Gea kemur væntanlega aftur í markið og svo er spurning hvort Elanga byrji, þá trúlega á kostnað Sancho eða Rashford.
Hjá Burnley er Jóhann Berg Guðmundsson fjarri eftir að hafa þurft að láta fjarlægja botnlangann. Matej Vydra er líka frá vegna meiðsla og Josh Brownhill í banni en Charlie Taylor og Ashley Barnes tæpir.
Nýi framherjinn Wout Weghorst leikur sinn annan leik fyrir félagið. Segja má að Burnley hafi Burnley-að yfir sig með að kaupa framherja upp á 1,96 metra. Það verður ærin áskorun fyrir Varane og Maguire. Weghorst er ekki sá fljótasti að hlaupa, en snöggur að hugsa og framkvæma sem sést meðal annars á 20 mörkum hans í 34 leikjum fyrir Wolfsburg í fyrra.
United er sem stendur í fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu, sem bæði Arsenal og Tottenham geta hrifsað á ný með að vinna þá leiki sem liðin eiga inni. Þess vegna verður að gjöra svo vel og klára hvern einasta leik, sérstaklega gegn liðum á botninum eins og Burnley. Að sama skapi þarf heimaliðið að fara að hirða stig til að forðast fallið. Keppninautarnir í Norwich, Watford jafnvel Newcastle hafa skrapað inn stigum síðustu vikur á meðan Burnley hefur sokkið dýpra. Jafntefli á heimavelli gegn Watford á laugardag voru úrslit sem liðið hafði engan veginn efni á. Liðið hefur aðeins unnið einn sigur í vetur og vonandi er að það þurfi að bíða fram yfir morgundaginn eftir þeim næsta.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 að íslenskum tíma.
Skildu eftir svar