Manchester United tekur í hádeginu á morgun á móti Southampton. Stjórar liðanna eru gamlir samherjar.
Eftir að hafa komið RB Leipzig upp í efstu deild í Þýskalandi vildi Ralf Rangnick stíga til hliða og einbeita sér að framkvæmdastjórastöðunni. Við af honum tók Ralph Hasenhüttel. Hasenhüttel hélt í hefðir RB-veldisins með kraftmiklum hápressu. Það skilaði árangri, liðið varð í öðru sæti og komst í Meistaradeildina.
Á öðru tímabili fjaraði heldur undan árangrinum. Þýsk lið eru ekki vön að spila þrjá leiki á viku, þar er talað um „enska viku“ þegar það gerist og Meistaradeildin tók á. Svo fór að liðið endaði í sjötta sæti og frá þessu ári eru til sögur um ágreining nafnanna að tjaldabaki.
Alltént vildi Leipzig ekki framlengja samning Hasenhüttel, sem átti þá eitt ár eftir. Hvort sem það var út af slökum árangri eða vegna þess að búið var að semja við Julian Nagelsmann eftir ár, fór það svo að Hasenhüttel hætti og Rangnick settist á ný tímabundið í stjórastólinn. Hasenhüttel var nokkrum mánuðum síðar ráðinn til Southampton. Þar er hann enn.
Flestir heilir hjá Southampton
Þessir gömlu samherjar leiða saman lið sín á Old Trafford klukkan 12:30 á morgun. Þrátt fyrir listrænan ágreining fyrri tíðar mun samband þeirra vera ágætt í dag. Hasenhüttel hefur áunnið sér virðingu fyrir árangur sinn með Southampton, þrátt fyrir stöku slys eins og 9-0 tap á Old Trafford fyrir nánast sléttu ári. Þann dag voru margir leikmenn liðsins fjarverandi. Í dag hefði sennilega verið sagt að þeir væru með Covid og leiknum verið frestað.
Staðan er öllu skárri í dag, aðeins fjórir leikmenn eru skráðir meiddir. Þar af gæti Nathan Redmond mætt til leiks en varnarmaðurinn Lyanco er frá fram til vors vegna tognunar aftan í læri í síðasta leik liðsins í janúar.
Grunnurinn sem Hasenhüttel tók við var ágætur, en hann hefur haldið fast í þýskar hefðir og liðið spilar fínustu hápressu. Hún lagði grunninn að óvæntum 2-3 sigri á Tottenham (Takk!) á útivelli á miðvikudag. Því ættu gestirnir að mæta fullir sjálfstrausts. Vonandi er þó að þeir hafi aðeins þreyst.
Þjálfarinn spilar ekki leikinn
Gleðin er ekki jafn mikil hjá Rangnick, enn á ný berast fréttir um að leikmenn séu ósáttir við þjálfunaraðferðir og að aðstoðarþjálfarar þyki ekki nógu góðir. Merkilegt er að sömu vandamálin skjóti aftur og aftur upp kollinum, sama hver stjórinn er!
Það er ekki nýtt að þegar illa gengur er ábyrgðinni varpað á aðra. Middlesbrough átti að vera skyldusigur og Burnley sýnd veiði. Ljósi punkturinn er að liðið spilaði sannarlega nógu vel til að vinna báða leikina, frammistaðan hefur batnað síðustu vikur. Hvað sem leikmönnum finnst um þjálfunaraðferðirnar þá virðast þær skila einhverjum árangri. Haldi liðið haus og áfram á þeirri braut er vonandi að lukkan falli með liðinu gegn snúnari andstæðingi á morgun, en sem kunnugt er hafa Ralf og aðstoðarmenn hans farið illa með fjölda dauðafæra í síðustu leikjum!
Hvað á að gera við?
Þeirra bíða nokkrar snúnar ákvarðanir í liðsvalinu. Cristiano Ronaldo hefur ekki skorað í síðustu fimm leikjum og ekki leikið átakanlega vel. Edinson Cavani er allur af vilja gerður en gengur engu betur. Hvað gerir þjálfarinn þegar framherjarnir skora ekki? Er til dæmis reynandi að stilla Marcus Rashford upp fremstum?
Er kominn tími á að ferskja upp einhverja af þeim fótum sem þegar spilað hafa 210 mínútur í vikunni? Hverjir henta gegn fljótu og pressuglöðu liði Southampton? Er rétt að skipa inn Anthony Elanga, sem hefur orð á sér fyrir að vera duglegur að finna svæði þegar hann hefur ekki boltann? Hvað með fyrirliðann Harry Maguire, sem átti ekki gott kvöld gegn Burnley. Er Viktor Lindelöf, sem almennt er betri í stuttu spili, betri kostur?
Útlit er fyrir að miðjan verði óbreytt. Fred er frá vegna Covid og Nemanja Matic hefur ekki getað æft seinni hluta vikunnar. Engar fréttir eru af Eric Bailly en Alex Telles hefur náð sér af veirunni.
Skildu eftir svar