Manchester United og Leicester City gerðu jafntefli á Old Trafford í dag. Leikurinn var hvorki nógu góður né skemmtilegur hjá Manchester United og baráttan fyrir Meistaradeildarsæti heldur áfram að verða erfiðari.
Helstu upplýsingar
Í upphitun fyrir þennan leik var leitt að því líkum að Leicester myndi stilla upp í 3-4-3 og United í 4-3-3 en þegar leikurinn hófst voru bæði lið í 4-2-3-1 uppstillingu. Ronaldo var ekki með vegna veikinda svo Manchester United stillti upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Henderson, Wan-Bissaka, Jones, Lindelöf, Telles (46′ fyrir Shaw), Matic (75′ fyrir Pogba), Mata, Lingard, Rashford (55′ fyrir McTominay).
Gestirnir frá Leicester stilltu upp þessu liði:
Bekkur: Jakupovic, Söyüncü, Amartey (64′ fyrir Evans), Pereira, Albrighton, Choudhury (91′ fyrir Mendy), Perez, Daka (91′ fyrir Iheanacho), Lookman.
Mörk:
0:1 – Iheanacho 63′. Leicester vinnur boltann af United sem er á leið í skyndisókn. Maddison kemur með frábæra fyrirgjöf með vinstri á Iheanacho sem skallar boltann í netið. Virkilega vel gert hjá Maddison og Iheanacho.
1:1 – Fred 66′. Fred fylgir eftir þegar Kasper ver frá Bruno og skorar. Fín sókn hjá United.
1:2 – Maddison 80′. Skoraði af stuttu færi en dómarinn dæmdi markið af eftir VAR-skoðun. Heppni, fannst lítið brot í þessu.
Spjöld:
5′ – Shaw (United), alltof seinn í tæklingu. Mótmælti en fyrir mér leit þetta út eins og tækling sem á skilið gult.
17′ – Fofana (Leicester), fyrir að tækla Elanga sem var á frábærum spretti upp vinstri kantinn, rétt áður en Svíinn ungi komst inn í teig Leicestermanna. Átti aldrei séns í að stoppa hann löglega, hárrétt gult spjald en líklega rétt hjá Fofana að taka spjaldið á sig miðað við hvernig sprettur þetta var.
30′ – Tielemans (Leicester), fyrir að tækla Bruno rétt eftir að sá portúgalski náði að senda boltann. Sein tækling og háskaleg.
49′ – McTominay (United), mjög háskaleg og sein tækling á Maddison eftir að hafa misst boltann frá sér með lélegri snertingu. Alltof seinn og flaug inn með fótinn hátt á lofti. Leicester-menn heimtuðu rautt og VAR skoðaði það en gult var endanleg niðurstaða. Má alveg segja að Skotinn hafi verið heppinn þarna, að mínu mati hefði alveg mátt réttlæta rautt á þetta.
Leikurinn sjálfur
Það var áhugavert að sjá að miðverðirnir voru ekki alveg þeim megin sem þeir eru vanir. Maguire var kominn hægra megin og Varane vinstra megin. Mögulega hentar það þeim betur, verður fróðlegt að sjá hvort þetta sé komið til að vera.
McTominay átti greinilega að vera dýpstur af miðjumönnunum, Fred var meira út um allan völl, Pogba í holunni en með leyfi til að fljóta fram á við og víxla stöðum við Bruno sem var duglegur að detta dýpra á völlinn. Sancho var mest vinstra megin en hann og Elanga áttu þó til að víxla köntum sem var skemmtilegt að sjá og olli Leicester miklum vandræðum einu sinni í fyrri hálfleik þegar Svíinn átti frábæran sprett upp völlinn.
Að þessu sögðu var fyrri hálfleikurinn þó alveg óheyrilega leiðinlegur. Það gekk erfiðlega að láta þessa uppstillingu og leikplan ganga almennilega upp. United var mikið með boltann í öftustu línu og leituðu fyrst leiða til að spila boltanum upp miðjan völlinn en þar var oftast bara McTominay og ýmist náði ekki að skapa sér nógu gott pláss eða samherjarnir treystu honum ekki að fá boltann á þeim stað sem hann var. Svo á endanum kom eiginlega alltaf löng skipting milli kanta eða upp völlinn sem var erfitt að stjórna og kostaði marga tapaða bolta. United gekk að mestu vel að koma í veg fyrir að Leicester skapaði sér eitthvað mikið en á móti var ákafinn í að vinna boltann ekki nógu mikill.
Besta móment fyrri hálfleiks var þegar Fred gerði mjög vel í að lesa sendingu Fofana út úr vörn Leicester og vann boltann ofarlega á vellinum, var fljótur að hugsa og sendi boltann beint á Bruno sem hafði komið sér í plássið sem Fofana skildi eftir sig. Bruno átti þokkalega fast skot en nokkuð beint á Kasper í markinu sem þurfti ekki að hafa nógu mikið fyrir því að verja. Frábærlega vel gert hjá Fred en ekki alveg nógu vel gert hjá Bruno.
Annar ljós punktur í fyrri hálfleik var áðurnefndur sprettur frá Elanga sem setti hausinn undir sig og keyrði á vörn Leicester. Hann getur þetta, strákurinn, og þarna gerði hann andstæðinginn vel stressaðan og setti United-stuðningsfólk fremst á sætisbrúnina. Fofana þurfti að brjóta á honum og úr varð aukaspyrna á hættulegum stað. Bruno var þar með góða hugmynd, sendi boltann á fjærstöngina þar sem Harry Maguire var mættur nokkuð frír en sendingin var aðeins of há fyrir minn mann. Synd því færið var stórhættulegt.
0-0 í hálfleik og á spjalli Rauðu djöflanna var rætt um það hvort þetta væri nokkuð tribute til Louis van Gaal og spilamennsku liðsins undir hans stjórn, svona fyrst sá gamli var að tjá sig um Manchester United í vikunni.
Luke Shaw varð fyrir hnjaski í lok fyrri hálfleiks svo Ralf nýtti hálfleikinn í að gera eina skiptingu, Alex Telles kom inn í staðinn fyrir Shaw.
Það var smá líf í byrjun seinni hálfleiks en entist ekki mjög lengi áður en þetta fór í sama horfið. Þetta leit rosalega mikið út eins og leikur tveggja liða sem skortir sjálfstraust og hefur ekki gengið nógu vel upp á síðkastið. Bæði lið vildu frekar passa að gera ekki mistök en að reyna að taka áhættur fram á við.
Scott McTominay var stálheppinn að fá að halda leik áfram eftir hættulega tæklingu á Maddison í kjölfarið á eigin mistökum. Ralf brást við því með skiptingu, tók McTominay af velli og setti Rashfrod inn á. Rashford fór þá í fremstu stöðu, Bruno datt niður í holuna og Pogba neðar á miðjuna.
Eftir rúman klukkutíma fór loksins eitthvað að gerast. Leicester fékk horn, United vann boltann og ætlaði að bruna í skyndisókn en eftir slappa sendingu vann Leicester boltann aftur og brunaði í counter-skyndisókn. Maddison átti frábæra fyrirgjöf með vinstri af vinstri kantinum sem sigldi yfir Varane fjærstönginni og fann Iheanacho sem vann pláss frá Telles og átti góðan skalla út við stöng sem de Gea réð ekki við. Ofsalega slappt að klúðra skyndisókninni á svona aulalegan hátt en allt sem Leicester gerði eftir það var mjög vel gert hjá þeim.
Þá þýddi ekki lengur að fela sig og United hélt í sókn. Nokkrum mínútum síðar náðu þeir að jafna. Þá náði liðið bara í alvöru að setja pressu á öftustu línu Leicester sem skilaði lélegu útsparki frá Kasper. Varane vann boltann og sendi fram á Fred sem gerði vel í að finna Bruno við D-bogann. Portúgalinn átti gott skot sem Kasper varði út í teig og þar var Fred mættur sem hafði haldið sínu hlaupi áfram eftir að gefa boltann á Bruno. Fred átti ekki í vandræðum með að skora heldur lúðraði boltanum upp í þaknetið, 1-1. Fyrstu alvöru almennilegu sóknartilburðir United í leiknum.
Á 72. mínútu fékk Leicester aukaspyrnu. Maddison hinn sparkvissi tók aðra frábæra fyrirgjöf sem fann Fofana. Miðvörðurinn átti virkilega flottan skalla sem skrúfaðist allan tímann frá markverði og stefndi í bláhornið en Davíð okkar de Gea sýndi hvað í hann er spunnið og fór í efstu hilluna til að draga fram heimsklassamarkvörslu og neita Leicester um það að komast aftur yfir í leiknum.
Ralf fannst þó greinilega eitthvað vanta á miðjuna svo þegar korter var eftir af leiknum var Matic kallaður til og settur inn á í stað Pogba.
Þegar tíu mínútur voru eftir skoraði Leicester aftur. Eftir barning í teig United barst boltinn rétt utan við teig þar sem Varane var að reyna að ná stjórn á honum. Iheanacho náði að vinna boltann en Varane lá meiddur eftir. Iheanacho gaf á Maddison sem var einn í teignum og skoraði af stuttu færi. VAR-ákvað að Marriner þyrfti að skoða þetta betur og hann ákvað á endanum að dæma markið af vegna brots frá Iheanacho á Varane.
Ákveðin heppni í þessu, mér fannst þetta ekki vera brot en ég þigg þessa aðstoð alveg.
Eftir það var leikurinn áframhaldandi bras. Manchester United virtist þó vera ívið meira að reyna að finna sigurmarkið. Leiceister henti í tvöfalda skiptingu og passaði að halda skipulagi.
Í uppbótartíma átti Sancho fínt færi þegar fyrirgjöf rataði til hans vinstra megin í teig en hann var aðeins of fljótur á sér að skjóta og náði ekki góðu skoti, skaut vel framhjá. Illa farið með fínt færi.
Eftir það reyndi United að halda áfram að byggja pressu og skapa eitthvað. Í blálokin var Rashford nálægt því að komast inn fyrir vörn Leicester en Elanga, sem yfirleitt hefur nú verið nokkuð góður hvað ákvarðanatöku varðar, skemmdi færið með því að reyna við boltann komandi úr rangstöðu og skemma skotfærið fyrir Rashford. Leiktíminn fjaraði svo út og jafntefli niðurstaðan. Sanngjörn niðurstaða í ekki nógu góðum leik.
Aðrir leikir í dag
Chelsea skíttapaði fyrir Brentford og er 8 stigum á undan United en á leik inni. Wolves vann sinn leik gegn Aston Villa og eru núna 2 stigum á eftir United.
Pælingar eftir leik og framhaldið
Þetta var lélegt og leiðinlegt. Eitt stig, gæti alveg munað um það í lokin en eins og staðan er núna er fátt sem bendir til þess að Arsenal muni tapa nógu mörgum stigum til að hleypa United inn í baráttu um Meistaradeildarsæti.
Næsti leikur er hádegisleikur eftir slétta viku, gegn Everton á útivelli. Vægast sagt skyldusigur.
Scaltastic says
Manchester United 2021/22… Þar sem Fred, smá Bruno og glórulaus Dalot voru þeir einu sem þorðu að láta vaða á djö… markið á heimavelli þegar að tímabilið hékk á bláþræði bæði í dag og á móti Athletico, þetta kjarkleysi á heimavelli hefur verið vægast sagt sorglegt í allan vetur. Sancho og Elanga voru í lengjudeildarklassa í dag.
Sem betur fer eru bara sjö vikur eftir af þessu tómarúmi inn á vellinum. Síðan er stund sannleikanns, hvort nýji stjórinn sé tilbúinn í alvöru langtíma verkefni þar sem hann mun fá 3 ár í að hreinsa út drauga fortíðarinnar, senda Fletcher
aftur upp á skrifstofu, skera niður launakostnað og losa cirka 15-20 leikmenn án þess að það verði svo mikið sem hvísluð orðin Champions League á þeim tíma. Hvort Erik Ten Hag sé sá maður hef ég efasemdir um, en ég vona það innilega. Það þarf alvöru hreðjar til að breyta hugsunarhætti félagsins og stuðningsmanna.
Eða við getum farið á hnén, borgað út samninginn hjá Poch. Gert neyðarlegar tilraunir til að fá Rice og Kane, sem er vægast sagt óraunhæft og haldið áfram að troða marvaða afneitunar.
Lifi United :)
bf10 says
Sammála Bruno að við áttum að fá víti þegar Elanga tæklaði Rashford
Helgi P says
Það er ótrúlegt hvað þessi hópur er þunnur eftir alla þessa eyðslu