Eftir stórkostlega og æðislega skemmtun um síðustu helgi gegn Leicester City er komið að næsta verkefni. Við kíkjum til Liverpool og etjum kappi við lærisveina Frank Lampard í Everton. Leikurinn hefst kl. 11:30 á morgun, laugardag. Þeir bláklæddu úr Bítlaborginni hafa verið hreint út sagt afleitir að undanförnu og veita United ansi harða samkeppni hvað varðar ömurlegan rekstur og framtíðarsýn. Liðið er í harðri baráttu við falldrauginn og tapaði fallbaráttuslag við Burnley í síðustu umferð, þar sem að liðið leiddi 2-1 en hélt ekki út og fékk á sig sigurmark á 85. mínútu. Væri ekki alveg dæmigert fyrir okkar menn að blása lífi í leik Everton með því að mæta með hangandi haus á Goodison? Vonum að svo verði ekki!
Liðin mættust á Old Trafford 2. október síðastliðinn og skildu jöfn 1-1. Þá stýrði Ole Gunnar Solskjær liði United, en Rafael Benitez var stjóri Everton. Hvorugur lifði leiktíðina af, en gengi liðanna hefur ekki verið stórkostlegt síðan að hausar fengu að fjúka. Frank Lampard fékk að bæta leikmannahópinn í janúarglugganum, en lítið hefur gengið. Dele Alli, Anwar El-Ghazi (lán), Vitalii Mykolenko og síðastur en ekki sístur, Donny van de Beek (lán) hafa lítið sýnt og klúbburinn er í alvöru vandræðum.
Liðsfréttir og vangaveltur
Ralf Rangnick svaraði spurningum blaðamanna í dag. Cristiano Ronaldo er búinn að ná sér af veikindum sem að koma í veg fyrir þáttöku hans gegn Leicester, en Ralf Rangnick greindi jafnframt frá því að Luke Shaw væri meiddur, en bakvörðurinn er að glíma við meiðsli sem tengjast ökklabrotinu hryllilega gegn PSV árið 2015. Þá eru Scott McTominay og Raphael Varane einnig frá vegna meiðsla. Sérlega svekkjandi hvað Varane varðar, en varnarmaðurinn sterki hefur glímt við hver smámeiðslin á fætur öðrum í vetur. Edinson Cavani er einnig frá, en ég held að langflest stuðningsfólk United sé hætt að búast við því að Úrúgvæinn taki þátt þar sem að það virðist alltaf eitthvað vera að á þeim bænum.
Ralf var meðal annars spurður út í Eric ten Hag, stjóra Ajax, en Hollendingurinn er sterklega orðaður við knattspyrnustjórastarfið hjá United um þessar mundir:
Ralf Rangnick on Erik ten Hag for Man United: “What I know is the managers they have spoken to are top coaches, if this includes Erik ten Hag, this is also true with him. But that's all I can say”. 🚨🇳🇱 #MUFC
“I don't intend to speak about any possible new managers”. @utdreport pic.twitter.com/NpcULrw1vr
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) April 8, 2022
Hvað liðsval varðar að þá virðist nokkurnveginn vera alveg sama hvað Ralf gerir. Þessi hópur spilar ekki góðan fótbolta saman, allavega ekki stöðugt í 90 mínútur og menn virðast bara bíða eftir því að tímabilið verði flautað af og nýr stjóri tekur við til frambúðar. Það er erfitt að segja til um hverjir geta gengið hnarreistir og stoltir frá tímabilinu, vonandi enginn – enda hefur þetta ekki verið boðlegt. Jæja, best að passa sig á því að vera ekki of neikvæður.
Í markinu verður David de Gea. Dean Henderson á ekki möguleika nema að Spánverjinn meiðist og það eru engar líkur á því að Hendo standi í rammanum á morgun. Fyrir framan de Gea verða Diogo Dalot, Harry Maguire, Victor Lindelöf og Alex Telles. Dalot hefur tekið hænuskref fram á við sem knattspyrnumaður og er nothæfari en Aaron Wan-Bissaka. Það þarf alvarlega að skoða hægri bakvarðarstöðuna í sumar. Maguire missir ekki af leik ef að hann er heill, sama hvað okkur kann að finnast um það og honum við hlið verður Lindelöf, sem að mér hefur fundist heilt yfir allt í lagi í vetur. Alex Telles kom skelfilega inn í Leicester leikinn, en hann er allt sem að við eigum í fjarveru Shaw.
Í fjarveru Scott McTominay ætla ég að skjóta á að Ralf Rangnick gefi Nemanja Matic tækifæri við hlið Fred og fyrir framan þá verður Bruno Fernandes, sem að nýverið skrifaði undir nýjan samning við félagið. Portúgalinn hefur komið að 23 mörkum á tímabilinu, en hefur heilt yfir ekki spilað vel. Það segir kannski margt um standardinn sem að Fernandes hefur sett að þetta teljist algert vonbrigðatímabil hjá honum, en hver sá sem verður næsti stjóri Manchester United mun hafa not fyrir Bruno.
Annar Portúgali mun leiða framlínuna. Cristiano Ronaldo missti af leiknum gegn Leicester, en kemur vonandi úthvíldur og ferskur inn í þennan leik. Sitthvoru megin við hann verða svo Jadon Sancho og Anthony Elanga. Elanga átti ótrúlega björgunartæklingu í síðasta leik. Verst að hún var gegn samherja og kom í veg fyrir að Marcus Rashford gæti mögulega tryggt okkur stigin þrjú á móti Leicester …
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Andstæðingurinn
Eins og fram hefur komið að þá hefur ekki gengið vel hjá Everton á þessu tímabili. Liðið situr í 17. sæti eftir 29 spilaða leiki, með 25 stig sem að er stigi meira en Burnley er með, en þeir verma 18. sætið og hafa sömuleiðis örlítið hagstæðara markahlutfall. Vandamál liðsins eru á báðum endum vallarins. Liðið skorar lítið og verður seint kallað frábært varnarlið. Það hefur verið illa keypt inn, ekki ólíkt okkar mönnum og klúbburinn er að súpa seyðið af vanstarfseminni sem að hefur viðgengist bakvið tjöldin í langan tíma.
Í liðinu eru þó ágætir knattspyrnumenn sem að geta skapað vandræði fyrir okkar lið. Þarf reyndar ekki mikið til! Brasilíumaðurinn Richarlison skoraði bæði mörk þeirra gegn Burnley í síðustu umferð – bæði af punktinum. Það segir margt um vandamál Everton að hann sé jafn markahæsti leikmaður liðsins með 7 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.
Félagi hans uppi á topp, Dominic Calvert-Lewin, átti við erfið meiðsli að stríða fram að jólum en hann hefur skorað 3 mörk í 11 leikjum hingað til. Öll komu þau fyrir meiðslin í ágúst. Englendingurinn spilaði frábærlega á síðasta tímabili en hefur engu flugi náð í ár. Í stuði á Goodison Park getur þetta lið strítt öllum liðum deildarinnar, en það hefur ekki verið mikið stuð á þeim á þessu tímabili. Ég bið til æðri máttarvalda að okkar menn United-i ekki yfir sig og spili eins og meiri ræflar en Everton hafa gert hingað til.
Spá
Við vinnum 2-0. Ronaldo og Sancho. Mér er sama þó að leikurinn verði hundleiðinlegur. Hef algjörlega gefið upp alla von um að við fáum frábæra skemmtun frá þessum snillingum. Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar