Í dag fór fram deildarleikur Manchester United og Norwich City á Old Trafford en Ralf Rangnick neyddist til að gera örfáar breytingar á liðinu vegna meiðsla og því stillti hann upp liðinu svona:
Á bekknum voru svo þeir Dean Henderson, Juan Mata, Aaron wan-Bissaka, Eric Bailly, Phil Jones, Marcus Rashford, Hannibal Mejbri, Nemanja Matic og Alejandro Garnacho.
Norwich, sem fyrir leikinn voru komnir með bakið ansi þétt upp við vegginn, stilltu upp í 4-2-3-1 rétt eins og United. Dean Smith valdi eftirtalda 11 leikmenn í von Kanarífuglanna um að hafa stig af United á Old Trafford í dag:
bekkurinn: Gunn, Zimmermann, Aarons, Gilmour, Sorensen, Rupp, Tzolis, Rowe og Placheta.
Strax á þriðju mínútu leiksins leit fyrsta dauðafærið dagsins ljós þegar Pukki komst inn fyrir vörn United í gráupplagt tækifæri til að ná forystunni en David de Gea varði mjög vel frá honum. Næsta færi féll svo okkar mönnum í skaut þegar Anthony Elanga fékk fyrirgjöf frá Alex Telles inn í teiginn hjá Norwich og hélt boltanum á lofti og reyndi bakfallsspyrnu en beint í lúkurnar á Tim Krul í markinu.
Næst átti Jadon Sancho skot en Grant Hanley kastaði sér fyrir skotið, það fyrsta af fjölmörgum í dag. Næstur til að skjóta var Cristiano Ronaldo þegar hann fék boltann við hægra vítateigshornið, en skot hans var auðveldlega varið af hollendingnum. En á 7. mínútu dróg til tíðinda þegar hápressan hjá Elanga skilaði sér. Hann pressaði þá Gibson sem reyndi að leika á svíann með ekki betri árangri en svo að sá sænski stal boltanum af honum inn í vítateig gestanna og renndi boltanum fyrir markið, beint á Ronaldo sem hamraði boltann inn af um 9 metra færi, 1-0.
Jesse Lingard, sem var óvænt í byrjunarliði dagsins, átti næsta færi eftir að Sancho tók varnarmenn Norwich á vinstra meginn fyrir utan teiginn og renndi boltanum á Pogba sem þurfti reyndar að teygja sig í boltann en tókst að leggja upp skotfæri fyrir Lingard. Sá enski átti gott skot sem fór af varnarmanni Norwich en ekki dæmdi dómari leiksins horn við litla hrifningu okkar manna. Lingard átti mjög góðan leik í fyrri hálfleik og vann hvern boltann á fætur öðrum og var virkilega tilbúinn í slaginn.
Norwich komst síðan í ágætisfæri eftir hornspyrnu hjá United. Gestirnir hreinsuðu í átt að eigin hornfána þar sem Pukki kom fyrstur á boltann og klobbaði Telles snyrtilega og kom af stað skyndisókn. Lingard skilaði sér manna fyrstur heim og lokaði á sóknina en gaf klaufalega frá sér aukaspyrnu en Harry Maguire kom hættunni frá.
Heimamenn áttu næstu skyndisókn, þegar Ronaldo þrumaði boltanum upp hægri kantinn þar sem Elanga bar boltann upp að teignum og fann þar Sancho í góðu færi en Hanley aftur réttur maður á réttum stað og kastaði sér fyrir skot sem var af stuttu færi og bjargaði í horn. Aftur áttu heimamenn góða sókn þegar Elanda sendi á Ronaldo sem átti stungusendingu á samlanda sinn Diogo Dalot en hann potaði boltanum frá endalínunni fyrir markið þar sem Sancho var aftur mættur og átti skot af stuttu færi en í þetta sinn varði Krul frá honum í horn.
Úr horninu kom hins vegar annað mark heimamanna. Grant Hanley átti ekki roð í Ronaldo sem stökk a.m.k. meter hærra og skallaði boltann framhjá Krul í markinu og tvöfaldaði forystuna. 2-0 og hlutirnir farnir að líta ágætlega út fyrir Rauðu djöflana. Ronaldo var hins vegar aftur í sviðsljósinu hinu megin á vellinum þegar hann gaf aukaspyrnu af um 30 metra færi en skot Rasicha fór sem betur fer framhjá.
Gestirnir virtust hins vegar staðráðnir í að skora og fengu kjörið tækifæri til að gera það stuttu eftir að United skoraði. Þá komust 3 leikmenn gestanna inn fyrir gegn Lindelöf 0g M;aguire en þeim tókst að loka á skot gestanna og hreint með ólíkindum hvað þeim tókst ekki að nýta sér hripleka vörn United. En þeim tókst hins vegar að nýta sér það stuttu síðar, þegar Teemu Pukki fékk boltann inn fyrir vörnina og sendi boltann fyrir markið þar sem Dowell var Palli einn í heiminum á fjærstönginn og stangaði hann boltann inn og skoraði sitt fyrsta deildarmark á leiktíðinni. Gestirnir fengu annað tækifæri rétt undir lok fyrri hálfleiks en skalli Pukki rataði ekki á rammann.
Síðari hálfleikur
Það leið ekki á löngu þar til gestirnir fengu færi í síðari hálfleik. Eftir um sjö mínútna leik fékk finnska þruman stungusendingu inn fyrir vörn heimamanna og þrátt fyrir að Lindelöf reyndi sitt besta til að þrengja skotvinkilinn þá lagði Pukki boltann framhjá de Gea og í hægri stöngina og inn. Staðan orðin jöfn 2-2 á heimavelli gegn liðinu sem er á botninum, alls ekki nógu gott og enn á ný leit vörnin okkar mjög illa út.
Einhverjir stuðningsmenn og leikmenn United kölluðu eftir rangstöðu en VAR sýndi að Pukki var réttstæður og markið gott og gilt. Norwich pakkaði ekkert í vörn í kjölfarið heldur hélt áfram að þrýsta og pressa á United. Næst fékk liðið frábært skottækifæri þegar há og djúp sending frá vallarhelmingi gestanna og Pukki reyndi að taka við boltanum en rann en tókst um leið að „senda“ bolta á Rasicha. Honum tókst að munda skotfótinn og hleypa af þrususkoti en de Gea varði meistaralega frá honum í horn.
Næsta tækifæri United kom úr horni en Pogba, Ronaldo og Maguire reyndu allir að fara í boltann sem endaði með því að portúgalinn skallaði boltann beint á markið, englendingurinn datt um varnarmann og skellti takkaskónum í hnakkann á frakkanum sem fyrir vikið blóðgaðist.
Það leið ekki á löngu áður en Rangnick gerði breytingar og þá tók hann Lingard, sem hafði átt ágætisleik, útaf fyrir Nemanja Matic. Heldur sérstök skipting eftir klukkustundar leik þegar þig bráðnauðsynlega vantar mark í leikinn.
Stuttu eftir skiptinguna vann United boltann af heimamönnum í vítateignum þeirra en menn virtust þvælast hve fyrir öðrum og ekkert varð út úr því. Þetta virðist einkennandi fyrir leik United að undanförnu, menn að taka sama plássið á vellinum og flækjast fyrir samherjum sínum.
Beint í kjölfarið fengu gestirnir sókn þar sem Rasicha fék boltann á vinstri vængnum og labbaði framhjá Dalot og kom með fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Pukki en honum tókst einungis að fleyta boltanum í átt að markinu.
Þegar hér var komið við sögu voru fá færi en mikið um að liðin væru að tapa boltanum og voru leikmenn beggja liða staðráðnir í því að vera ekki að skapa sér almennileg tækifæri að því er virtist.
Þá gerði Rangnick tvöfalda skiptingu, tók út þá Telles og Pogba og inn á í staðinn komu þeir Matic og Rashford. Elanga virtist þá detta niður í bakvörð og Dalot færðist yfir í vinstri bakvörðinn. Strax í kjölfarið krækti Elanga í aukaspyrnu af um 25-27 metra færi og hver annar en Cristiano Ronaldo plantaði sér fyrir aftan boltann og ætlaði að þruma í vegginn eins og honum einum er lagi. Portúgalinn tók sinn hefðbundna stríðsdans, þrjú skref afturábak, eitt til hliðar og kjammsaðu á þessum táfýlusokk, kæri Friðrik.
Boltinn söng í netinu en hafði fyrst örlitla viðkomu í stönginni eftir að Tim Krul reyndi að koma hönd á boltann. Þrenna fyrir Ronaldo, sú 50. á ferlinum fyrir félagslið og mark númer 800 og eitthvað… allir löngu hættir að reyna að telja. Gjörsamlega truflað mark og erfið pilla að kyngja fyrir Kanarífuglana sem höfðu sýnt hetjulega baráttu allan leikinn og áttu eflaust meira skilið en þetta.
Þeir reyndu eins og þeir gátu að koma tuðrunni inn fyrir línuna og voru nálægt því á 89. mínútu þegar varamaðurinn Placheta var kominn hættulega nálægt markinu en Dalot tók vafasama tæklingu meðfram hlaupinu hans sem var nóg til að trufla hann og koma hættunni frá. Ekki áttu Norwich fleiri færi og þessi fjörugi leikur endaði 2-2.
Pælingar að leik loknum.
3-2 sigur skilar þremur stigum en þetta var tæpt. Á heimavelli, gegn döprustu sókn deildarinnar, þurfti United að reiða sig á 37 ára gamlan, fimmfaldan ballon d’Or sigurvegara, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum. Vörnin er orðin svo slök og getulítil að það liggur við að undirritaður leggi til að njósnarar United fylgist með Bestu deildinni í sumar til að betrumbæta og stoppa í götin. Lindelöf gerði oft á tíðum vel en varnarleikurinn heilt yfir var skelfilegur. Telles og Dalot voru í all-out-attack og oft hvergi sjáanlegir, enginn miðjumaðurinn tók ábyrgð á miðsvæðinu fyrir framan vörnina og kantmennirnir voru misvel skipulagðir í varnaraðgerðum sínum.
Þetta rétt slapp fyrir horn gegn Norwich sem á blaði ætti að virka auðveldasta viðureign tímabilsins, en var það samt alls ekki. Reyndar hafa þeir gulu og grænu engu að tapa og gátu leyft sér að fara gung-ho inn í þennan leik sem þeir og gerðu en samt virtist miklu meira skipulag yfir varnarleik þeirra en United liðsins.
Miðjan okkar var alls ekki eins dóminerandi eins og maður hefði viljað sjá og þessi leikur lætur undirritaðan óttast það sem koma skal á þriðjudaginn þegar við mætum Liverpool sem voru að klára Man City í bikarnum núna í þessum töluðu orðum. Leikurinn í dag var án efa skýrasta dæmi þess að við getum ekki farið inn í næsta tímabil án þess að fá varnarsinnaðan miðjumann og þau hafa nú verið mörg í gegnum síðastliðin misseri.
En það verður að líta á björtu hliðarnar, Tottenham og Arsenal töpuðu bæði í dag sem opnar örlítið meira á þann fjarlæga draum/möguleika á að United nái í 4. sætið. Til að það gerist þurfa þó enn fleiri kraftaverk að gerast, Tottenham er með +3 stig og +10 mörk á okkur og Arsenal er jafnmörg stig og sömu markatölu og við en hefur leikið einum leik færra. Það stefnir því í ansi harða baráttu um þetta Meistaradeildarsæti þar sem United og þessi Lundúnarlið virðast keppast í því að misstíga sig hægri vinstri.
Næsti leikur er sem fyrr segir á þriðjudaginn þegar United mætir Liverpool á Anfield kl. 20:00.
Robbi Mich says
Siiiiiiuuuuu!
Steve Bruce says
Það nálgast æ meir heilan áratug síðan Sir Alex hætti. Á þessum tíma hefur ýmislegt gengið á. Ég held samt að ótrúlegt en satt þá hafi aldrei á nokkrum tímapunkti vantað meira upp á að „brúa bilið“ upp í efstu lið en akkúrat núna. Það er einhvern veginn alveg sama hver bætist á launalistann í klúbbnum, menn ná bara ekki að spila sig saman ef þeir eru í United treyju. Eru ekki slatti af íþróttasálfræðingum sem vantar doktorsverkefni? Bring them on !!