Málshátturinn segir að „litlu verði Vöggur feginn.“ Manchester United verðskuldaði vart stig í kvöld en eftir tvö hrikalega ósigra í röð er stigið velkomið í baráttunni um að slefa inn í Evrópukeppni. Jöfnunarmarkið á líka heima í samantekt yfir það besta frá liðinu í vetur – þótt samkeppnin þar sé ekki hörð.
Chelsea hafði nóg pláss í aðgerðir sínar, einkum framan af leik. Marcus Rashford, sem byrjaði á hægri kanti, skilaði takmörkuðu varnarframlagi og Alex Telles hafði ekki mikla glóru um það, frekar en fyrr daginn, hvað væri að gerast annars staðar en beint fyrir framan hann. Þetta nýttu Chelsea-menn sér óspart og leituðu ítrekað að Reece James sem heita átti hægri bakvörður en var mun framar á vellinum. Að lokum var það hann sem oftast snerti boltann í leiknum.
United var mestallan leikinn í vörn. Það segir sitt að liðið átti tæplega helmingi færri sendingar en Chelsea. Í sókninni voru leikmenn staðir, biðu eftir að fá boltann í fæturna. Helst voru það Anthony Elanga og Cristiano Ronaldo sem sýndu vilja til að hlaupa inn í svæði. United náði stöku sinnum þokkalega hápressuköflum, gjarnan voru það Scott McTominay eða Elanga sem gáfu þar tóninn.
Bruno Ferndandes virtist uppteknari af því að segja öðrum til verka heldur en loka á sendingaleiðir Chelsea, tölti á milli manna. Hann virtist dauðuppgefinn, ekki hafa kraft í verk og rúinn sjálfstrausti þá sjaldan að hann komst í þokkalega stöðu.
Chelsea fékk nokkur ágætis færi. Kannski ekki beint dauðafæri en þeim mun fleiri. Skottilraunirnar voru 21 gegn 6 og vænt mörk 2,1 gegn 0,4. David de Gea bjargaði trúlega stiginu eftir um hálftíma leik þegar hann varði frá Kai Havertz sem kominn var einn í gegn eftir stungusendingu.
Ronaldo og Matic
Fyrsta markið kom á 60. mínútu. James sendi frá hægri inn á teiginn, þar skallaði Havertz boltann áfram til Cesar Azpilicueta sem hamraði hann viðstöðulaust niður í fjærhornið.
Forskot Chelsea entist ekki nema í þrjár mínútur. Ralf Rangnick og öðrum stuðningsmönnum til mikillar gleði tókst að setja góða pressu á Chelsea ofarlega á vellinum. Dalot vann boltann, kom honum á Matic, hans fyrsta sending náði ekki í gegn en hann fékk boltann og vippaði honum inn á Ronaldo sem kláraði færið með góðu skoti upp í nærhornið.
Staða Ronaldo er einkennileg. Staðreyndin er sú að hann er ásamt Son næstmarkahæstur í deildinni með 17 mörk. Af síðustu 10 mörkum United hefur Ronaldo skorað níu, aðeins jöfnunarmark Fred gegn Leicester kemst þar á milli. Samt er spurningin með hann, eins og reyndar de Gea, hvort það sem þeir gera einstaklega vel – annar að skora mörk, hinn að verja skot, sé nóg.
De Gea hefur sem kunnugt er, verið gagnrýndur fyrir að vera gamaldags og styðja ekki nógu vel með leik liðsins með að koma út úr markinu eða geta spilað boltanum. Um leik Ronaldo í kvöld er hægt að segja að hann lagði sig fram, var í skallaeinvígum og kom niður á miðju til að hjálpa til í vörn og sókn, jafnvel of oft. Á móti er augljóst á honum líkt og Sylvester Stallone í Expendables á sínum tíma að mesta snerpan og hraðinn eru farin, í kvöld sem stundum fyrr í vetur hefði fimm árum yngri Ronaldo klárað sig framhjá varnarmanni og í skotfæri í stað þess að vera stöðvaður.
Um Matic má segja að hann lét ekki mikið yfir sér, var nær allan tímann skammt fyrir framan vörnina og yfirferðin var ekki mikil. Hann var hins vegar sterkur í návígum og skilaði boltanum ágætlega frá sér. Þegar yfir lauk hafði United betur í návígum bæði á jörðu og í lofti, tæklingum og yfirburði; 30-13 í hreinsunum. Þar fóru fremstir auk Matic, Ronaldo, Telles og Raphael Varane. Í hálfleik var United vel undir í þessum tölfræðiþáttum, sem öðrum. Það var hins vegar eins gott að þessi atriði unnust, annars hefði getað farið verulega illa þriðja leikinn í röð.
Þolanlegur lokakafli
Chelsea skipti inn á sóknarmönnum þegar leið á og á 80. mínútu átti James skot í utanverða stöngina. Besti kafli United kom hins vegar í kjölfarið eftir að Juan Mata og Phil Jones komu inn fyrir Matic og Rashford, um leið og United skipti í 3-5-2 leikkerfi. Mata var baráttuglaður, sýndi ástríðu, fór í og vann návígi auk þess að finna opin svæði með sendingum og hlaupum. United fékk ekki teljandi færi en hélst betur á boltanum.
Alejandro Garnacho spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu, kom inn á í uppbótartíma en náði ekki að koma við boltann.
Arni says
Hvað kom fyrir rashford ég myndi ekki einu sinni látta hann spila með varaliðinu