Manchester United lauk um helgina undirbúningstímabili sínu með tveimur leikjum á tveimur dögum gegn spænskum liðum en hafði þar áður leikið fjóra leiki í Tælandi og Ástralíu. Æfingaleikirnir voru frumsýning nýs þjálfara, Erik ten Hag. Hér er það helsta sem stendur upp úr eftir leikina.
Það byrjaði vel en…
4-0 á móti Liverpool er alltaf 4-0 á móti Liverpool. En það má ekki ofmetnast. United hafði æft viku lengur og þrjú markanna komu hjá aðalliði United gegn hálfgerðu unglingaliði Liverpool. United vann næstu tvo en engan síðustu þriggja.
Nýtt tímabil, nýr þjálfari en samt McFred
Í nokkur ár hefur virst ljóst að United veitti ekki af hæfileikaríkum varnartengilliði. Sumarið hefur allt farið í að eltast við Frenkie de Jong sem enn virðist ekki ljóst hvort vilji koma. Kjaradeila upp á þriðja milljarð króna er enn óleyst. Það er því útlit fyrir nokkrar vikur af framhaldssögu sumarsins.
CR7
Umboðsmaður Cristiano Ronaldo virðist haf vafa verið á Eurorail í sumar, eins og hver annar nýstúdent, í von um að finna skjólstæðingi sínum nýtt félag en án annars árangurs en verða Ronaldo til minnkunar. Hvert stórliðið á fætur öðru: Chelsea, Bayern München, Atletico Madríd hefur lýst því yfir að einn mesti markaskorari heims henti ekki leikstíl þess eða sé of dýr. Eftir stendur nánast bara United.
Á meðan hefur Ronaldo misst af æfingatímabili United og þarf að aðlagast nýjum leikstíl. Þrátt fyrir að hafa skorað 24 mörk í fyrra er ljóst að Ronaldo er ekki sami leikmaður og áður, hann er hægari, lengur að koma sér í skot en áður. Það sást t.d. gegn Vallecano á sunnudag, þótt hann virtist falla ágætlega inn í spilið.
Niðurlægingin fyrir heimatilbúinn vandræðagang hans virðist því ætla að verða sú að hann byrji nýtt tímabil sem varamaður Anthony Martial.
Nær óbreytt byrjunarlið?
Hæpið verður að teljast að nokkur nýju leikmannanna byrji gegn Brighton. Helst yrði það Tyrrell Malacia ef Luke Shaw er ekki heill heilsu. Lisandro Martinez og Christian Eriksen hafa trúlega æft oft stutt. Það þýðir að breytingarnar verða sú að Martialmætir upp á topp og Viktor Lindelöf og Harry Maguire hafa skipt um miðvarðarstöður. Ekki er þó útilokað að Eriksen geti keppt við Bruno Fernandes um sæti.
Nýr leikstíll?
Frá fyrsta leik hafa verið vísbendingar um að æfingar ten Hag séu að skila sér. Vera má að Ralf Rangnick sé faðir þýsku gagnpressunnar en liðið einfaldlega meðtók ekki stílinn í fyrra. Í sumar hefur liðið verið tilbúnara að mæta andstæðingum sínum framar.
Í sóknarleiknum má oft sjá laglegt þríhyrningaspil. Boltinn helst á jörðinni og gengur vel. Nokkur færi hafa fengist upp úr horn- og aukaspyrnum.
Engir nýir sóknarmenn hafa bæst við, enda forgangsatriði að koma Rashford, Bruno, Martial og Sancho í gang. Þeir hafa átt kafla en ekki verið stöðugir frekar en of oft áður. Helgin sýndi líka að það vantar breidd í framlínuna.
Bailly frekar en Lindelöf?
Sjö miðverðir eru nú á launaskrá hjá Manchester United, æskilegt væri að fækka þeim. Phil Jones var skilinn eftir heima til að æfa og var aldrei í hóp í æfingaleikjunum. Axel Tuanzebefór meiddur heim. Raphael Varane hélt áfram að glíma við meiðsli og miðað við liðsvalið í sumar virðist hann ekki með byrjunarliðssæti, þrátt fyrir að hafa verið talinn skásti miðvörður liðsins síðasta vetur.
Viktor Lindelöf hefur fengið mínúturnar en Eric Bailly hefur vakið eftirtekt, einkum í fyrsta leiknum þar sem hann sinnti miðvarðahlutverkinu fyrir tvo þar sem Alex Telles var við hliðina á honum. Bæði Maguire og Lindelöf litu illa út í markinu sem United fékk á sig gegn Melbourne, voru alltof hægir á móti skyndisókn. Bailly er fljótur og sterkur, mögulega býður hann United fleiri kosti heldur en Lindelöf, ef ten Hag tekur til við að skera niður.
Magn frekar en gæði á miðjunni?
Fjórir miðjumenn yfirgáfu Manchester United í sumar. Fred, Scott McTominay, Bruno og Eriksen virðast leiðtogarnir miðað við núverandi ástand.
Donny van de Beek gleðst eflaust yfir að spila á ný undir tenHag en hann hefur þó lítið sýnt í sumarleikjunum sem bendir til að hann muni berjast um byrjunarliðsæti. Trúlega væri hans besta staða sem eins konar super-sub, hann virðist lunkinn við að koma sér í færi eftir að hafa komið inn á. Hann fellur ágætlega inn í þríhyrningaspilið. Miðað við að hann spilaði næst flesta leiki – og næst flestar mínútur í ferðinni – virðist þetta líklegt hlutverk hans.
Hannibal Mejbri verður vart treyst fyrir aðalliðinu en er orðinn of góður fyrir U-23 ára liðið svo trúlega færi best á að hann yrði lánaður. James Garner meiddist í æfingaferðinni og náði meðal annars þess vegna ekki að sanna að hann ætti heima í United í vetur.
Það gæti líka þrengt að Garner að Charlie Savage og ZidaneIqbal gripu tækifærin í æfingaferðinni báðum höndum. Savagespilar sem djúpur á miðjunni og loks er kominn fram einstaklingur úr þeirri fjölskyldu sem sent getur boltann, því Savage getur vel hitt á samherja af tug metra færi. Iqbal hefur á móti næmt auga fyrir stuttum sendingum og þröngum svæðum sem eflaust er ten Hag að skapi. Trúlega verða þeir báðir lánaðir frekar en spila með varaliðinu.
Bakverðir til sölu
Alex Telles virðist ekki hafa glóru um hvar hann á að standa varnarlega og með kaupunum á Malacia virðast dagar hans á Old Trafford taldir. Vel má vera að Aaron Wan-Bissaka sé tilbúinn að berjast fyrir stöðu sinni en miðað við að hann var ekkert með um helgina, í hans stað Ethan Laird sem stefnir á lán, bendir til þess að sú barátta sé glötuð. Brandon Williams var skilinn eftir heima.
En talandi um Laird – hann leit nokkuð vel út um helgina. Vonandi farnast honum vel í láni.
Ten Hag veitir vængi
Facundo Pellistri, Amad og Tahith Chong hafa allir fengið sinn skerf af mínútum á æfingatímabilinu, Amad þó flestar. Þeir nýttu þær allir ágætlega þótt þeir hafi ekki endilega sannað að á þá sé treystandi fyrir aðallið United í vetur. Þeir verða því líklega lánaðir áfram.
Alejandro Garnacho spilaði ekkert fyrr en hann byrjaði inn á gegn Vallecano á sunnudag. Hann virðist tilbúinn að taka næsta skref, spænska liðið þurfti alltaf 2-3 varnarmenn til að stöðva hann þegar hann var kominn á ferðina.
Væntingastjórnun
Nýr stjóri vekur bjartsýni, einkum eftir brotlendinguna í fyrra, en hafa verður í huga í fyrsta lagi að alltaf tekur tíma að koma að nýjum hugmyndum og aðferðum, í öðru lagi að ekki hafa orðið stórkostlegar breytingar á leikmannahópnum, samanber að varla verður neinn nýr leikmaður í byrjunarliðinu gegn Brighton. United er því ekki á leið í neina titilbaráttu, eins og yfirleitt undanfarinn áratug verður markmiðið að komast í Meistaradeildina. Góður árangur í bikarkeppni væri bónus.
Allir elska Eriksen
„Danmörk tapaði – lífið vann“ er ein besta blaðafyrirsögn allra tíma. Áhorfendur í bæði Osló og Manchester klöppuðu þegar Christian Eriksen mætti til að taka hornspyrnur. Það halda allir með Christian Eriksen. Hann ætti að verða góður fyrir klefann hjá United – fyrir utan að hann er drullugóður leikmaður enn.
Skildu eftir svar