Ætli það sé ekki flest allt stuðningsfólk United sem hefði viljað vera komið með eins og einn sigur áður en að erkifjendurnir í Liverpool kæmu í heimsókn, já eða svo sem eins og eitt stig. Þetta á þó líka sennilega við um stuðningsfólk Liverpool en bæði lið eru án sigurs eftir tvær umferðir en Liverpool búið að gera tvö jafntefli. Leikurinn á morgun snýst þess vegna ekki bara um montréttinn á kaffistofunni daginn eftir leik heldur er ótrúlega mikilvægt fyrir bæði lið að reyna ná þessum fyrsta sigri tímabilsins. Það verður alvöru brekka sem United þarf að klífa ef liðið vinnur ekki leikinn gegn Liverpool, liðið þarf að sýna einhverjar aðrar og betri liðar á sér en liðið hefur sýnt í fyrstu tveimur leikjunum ef ekki á illa að fara. Samanlagt fóru leikir þessara liða 9-0 Liverpool í vil á seinasta tímabili og eitthvað sem þarf ekkert að rifja upp frekar, það er ekki í boði að endurtaka svipaða spilamennsku gegn erkifjendunum.
Stuðningsmenn Manchester United eru að skipuleggja enn ein mótmælin gegn Glazer fjölskyldunni og í fyrra fyrir United – Liverpool leikinn sem haldinn var á Old Trafford í maí mánuði í fyrra þá var leiknum frestað vegna þess að stuðningsmenn Man Utd slógust við lögregluna, stöðvuðu liðsrútuna og brutust inn á völlinn. Nú eru einhverjir sem telja að eitthvað svipað muni gerast aftur og að leiknum verði þá jafnvel aflýst.
Í öðrum fréttum af United, sem gefur stuðningsfólki kannski von um aðeins bjartari tíma framundan, í vikunni festi United loksins kaup á varnarsinnuðum miðjumanni eitthvað sem langflest stuðningsfólk hefur kallað eftir sumarglugga eftir sumarglugga eftir sumarglugga. Hann mun þó ekki vera í hópi United á morgun en hann hefði þurft að vera skráður leikmaður félagsins fyrr.
Leikir í Úrvalsdeildinni – 60
Manchester United sigrar– 28
Liverpool sigrar – 18
Jafntefli – 14
United
Það er erfitt að segja til nákvæmlega hvernig lið United verður og hvort ten Hag reyni að gera eitthvað alveg nýtt t.a.m. fari í þriggja manna vörn eða prófar aftur falska níu. Ég tel að Varane byrji sinn fyrst á leik á tímabilinu og að Malacia fái einnig sinn fyrsta byrjunarliðs leik. Það eru einhverjir orðrómar um að ten Hag muni setja Maguire á bekkinn það verður þó að koma í ljós hvort að það verði Martinez eða Maguire sem víkur verði Varane í byrjunarliðinu.
Liverpool
Lið Liverpool verður að öllum líkindum frekar hefðbundið en Liverpool mun ekki njóta krafta síns dýrasta leikmanns Darwin Nunez en hann fékk rautt spjald eftir að hann skallaði Joachim Andersen miðvörð Crystal Palace í seinasta leik. Það verður því að öllum líkindum Firmino sem byrjar á mánudaginn ef hann er orðinn heill ef að hann er enn tæpur þá gæti Klopp brugðið á það ráð að setja Harvey Elliot í framlínuna með Salah og Diaz.
Það er eftirvænting í bland við mikinn taugatitring sem undirritaður finnur fyrir degi fyrir leik, tilfinningin er svo lítið sú að ef þessi leikur tapast og sérstaklega ef hann tapast illa að þá sé tímabilið farið í vaskinn. Þó að t.a.m. Arsenal hafi sýnt í fyrra að þrjú töp eftir þrjá leiki þ.m.t. eitt 4-0 tap þarf ekki að vera endalok tímabils.
Dómari á morgun er Michael Oliver.
Skildu eftir svar