Vissulega er ekki allt undir í leiknum gegnum Everton á sunnudaginn kemur en leiktíðin hjá United hefur verið „allt eða ekkert“ í þeim skilning að liðið hefur annað hvort tekið öll stigin eða engin stig úr leikjum sínum, leikgleðin og baráttan hefur verið til staðar eða ekki og menn hafa mætt tilbúnir til leiks eða þá bara alls ekki.
Eftir hroðalega byrjun rétti liðið úr kútnum með fjórum sigrum sem voru snögglega kældir niður þegar liðið tapaði fyrsta Evrópuleik tímabilsins. Næsti leikur liðsins var einnig í Evrópudeildinni þegar liðið tók sannfærandi sigur gegn Sheriff en ákvað svo að sleppa því að mæta í grannaslaginn gegn Manchester City. Líklega hafa leikmenn verið svo vanir að leikir þeirra væru að frestast eftir síðustu vikur og misseri að þeir hafi gert ráð fyrir að ekkert yrði af City leiknum miðað við hversu andlega fjarverandi þeir virtust þá. En besta svar við niðurlægingu er að vinna næsta leik ekki satt?
Sú varð reyndar raunin þegar liðið ferðast til Kýpur og lék við Omonia á fimmtudagskvöldið en leikmenn voru langt frá sínu besta og lentu undir í fyrri hálfleik. Marcus Rashford og Anthony Martial komu reyndar og kláruðu leikinn í síðari hálfleik en alls ekki sannfærandi leikur hjá United og leikmenn langt frá sínu besta.
Sem er ekki beint hughreystandi fyrir næsta deildarleik okkar þar sem liðið mætir á Goodison Park, heimavöll Everton í Liverpool. Sá leikur verður öllu erfiðari en leikurinn gegn Omonia, með fullri virðingu fyrir liðinu frá Kýpur sem spiluð fantavel á fimmtudaginn. Everton, sem barðist fyrir lífi sínu í deildinni á síðustu leiktíð og bjargaðist á síðustu metrunum m.a. með 3 stiga gjöf frá United, situr í 11. sæti deildarinnar eftir átta leiki. Því þrátt fyrir að vera einungis með 25% sigurhlutfall í deildinni þá hefur liðið bara tapað tveimur leikjum og það sem öllu meira máli skiptir er að einungis einu liði hefur tekist að skora tvö mörk fram hjá Pickford og félögum á þessu tímabili.
Í samtals 270 mínútur gegn Liverpool, Chelsea og West Ham fékk liði einungis eitt mark á sig og má segja að þeir hafi sjaldan verið jafn þéttir til baka og á þessu tímabili. Að sama skapi hafa þeir ekki verið beint að spila blússandi sóknarbolta enda seldu þeir Richarlison í sumar og þá hefur Dominic Calvert-Lewin haldið uppteknum hætti og verið frá vegna meiðsla einsog svo oft áður. Það hefur því komið í hlut Anthony Gordon að spila sem fremsti maður til móts við Neal Maupey en hann er einn af nýjustu kaupum Everton.
Reyndar er merkilegt hvernig Everton getur hafa verið í þessu brasi undanfarið þar sem liðið hefur eytt gríðarlegum fjármunum í leikmannakaup og stjóra á síðustu tímabilum. Í sumar missti liði leikmenn eins og Richarlison, Dele Alli, Allan, Cenk Tosun, El Ghazi og André Gomes en fékk í staðinn Dwight McNeil, Neal Maupay, Tarkowski, Garner, Onana, Vinagre, Coady og Gueye.
Þeir eru vanir að stilla upp í 4-3-3 og tel ég að á morgun verði engin undantekning. Holgate, Mina, Patterson, Godfrey og Townsend eru allir fjarri góðu gamni og spái ég því liðinu svona:
Manchester United
Það er ljóst að mikil vinna er framundan hjá Erik Ten Hag að sauma saman lið úr þessum leikmönnum sem skipa liðið í dag. Einsog ég nefndi að ofan þá virðist liðið vera í Allt eða ekkert gírnum. Við fáum að sjá fallegan bolta og örugga frammistöðu og svo í næsta leik einhverja bölvaða hörmung sem fær stuðningsmenn til að efast um hvern einasta leikmann liðsins. Hreint út sagt veit enginn hvaða lið við fáum að sjá á morgun en miðað við innkomu Martial á tímabilinu og frammistöðu Ronaldo þá má fastlega búast við því að frakkinn byrji upp á topp gegn Everton. Rashford og Anthony eru svo líklegastir í framlínuna með honum. Með innkomu Martial getur Rashford farið á vinstri vænginn og er þá kominn í þá stöðu sem hann er hvað hættulegastur en þeirra samvinna í gegnum árin og núna á undirbúningstímabilinu er klárlega meira í áttina að því hvernig Erik ten Hag vill spila fótbolta.
Á meiðslalistanum eru þeir Varane, Maguire, Williams og van de Beek og því má búast við því að United stilli upp Martinez og Lindelöf í hjarta varnarinnar. Diogo Dalot er líklegast sá leikmaður sem er hvað öruggastur með stöðuna sína enda er hann búinn að spila glimmrandi vel á tímabilinu og wan Bissaka og Williams tæpir eða meiddir. Það sama verður ekki sagt um Malacia sem hefur farið vel af stað en hefur sýnt að það búa einnig í honum mistök og mögulegt að Luke Shaw taki við sætinu hans í þessum leik.
Eftir frammistöðuna í síðustu leikjum má líka færa rök fyrir því að enginn leikmaður eigi öruggt sæti í byrjunarliðinu en búast má við því að við munum sjá Erikson, Casimiro og Fernandes á miðjunni fyrir aftan Anthony, Anthony og Rashford. Liðið verður því eitthvað á þessa leið
Með sigri í þessum leik færi United mögulega aftur í 5. sætið en til þess þarf liðið að endurtaka leikinn frá því nóvember 2020 þegar liðið skoraði 3 á þessum velli. Það verður hins vegar að teljast brött brekka ef United fer stigalaust úr þessum leik þar sem liðið verður þá með einungis 12 stig eftir 8 leiki og tímabilið fær allt öðruvísi brag. Leikurinn byrjar kl 18:00 og á flautunni verður David Coote.
Skildu eftir svar