Í kvöld tók Chelsea á móti okkar mönnum í síðustu viðureign dagsins í ensku Úrvalsdeildinni. Einungis eitt stig skildi liðin að fyrir leikinn og því ljóst að mikið væri í húfi fyrir bæði lið. Erik ten Hag gerði eina breytingu, Eriksen kom inn í liðið í stað Fred. Annars var liðið óbreytt:
Varamenn voru þeir Heaton, Lindelöf, Malacia, Fred, McTominay, Iqbal, Pellistri, Elanga og Garnacho.
Lið heimamanna var skipað þeim:
United byrjuðu leikinn mun betur og voru mikið með boltann á meðan Chelsea sátu djúpt. United sótti upp einkum hægra megin á völlinn þar sem Antony og Dalot voru að leika listir sínar en mun hljóðlátara var yfir vinstri helming vallarins. Fyrsta færið féll fyrir Luke Shaw, sem lét skotið vaða eftir að vörn heimamanna hafði bakkað full aftarlega. Á 12. mínútu fékk Antony færi þegar Bruno renndi boltanum á hann í D-boganum og hann lét skotið ríða af en Kepa gerði vel í markinu og varði í horn.
Miðjan var í eigu United þennan fyrsta fjórðung leiksins. Liðið vann hvern boltann á fætur öðrum og var með bolta 64% þessar fyrstu 17 mínútur. Hápressan var að vinna boltann ofarlega á vellinum en hún virkaði mun samhæfðari en nokkru sinni áður en þó vantar örlítið upp enn. Eftir um 20 mínútna leik var Chelsea komið með bakið upp við vegg og farnir að hreinsa í hvert sinn sem þeir gátu.
Rashford komst í gott færi þegar skyndisókn United endaði með því að hann fékk boltann á fleygiferð og hamraði boltann á markið en Kepa varði vel. Næst átti Sancho skot frá vítateigshorninu hinu meginn en þrátt fyrir að boltinn skoppaði og Kepa væri nálægt því að missa boltann undir sig tókst honum að handsama knöttinn að lokum. Þegar hér var komið við sögu fannst Graham Potter vera nóg komið og gerði skiptingu. Hann kallaði Marc Cucurella útaf vellinum og setti í hans stað Mateo Kovacic og fór þá í 4 manna vörn og þétti miðsvæðið enda miðja United búin að vera að yfirspila Chelsea frá fyrstu mínútu.
Strax eftir breytinguna kom í ljós áhrifin en Chelsea hélt boltanum mun meira og skapaði sér fleiri tækifæri en til marks um hve lítið var að gera hjá David de Gea fyrri hluta leiksins þá tók hann fyrsta útsparkið eftir um 40. mínútna leik. Það kom þegar Kovacic bar boltann upp völlinn og átti þátt í að skapa fyrsta færi Chelsea þegar boltinn barst að D-boganum og Luke Shaw potaði tánni í boltann og Aubameyang fékk tækifæri en laust skot hans rúllaði hættulega nálægt stönginni en sem betur fer réttu megin við stöngina.
Aubameyang var svo aftur á ferðinni þegar hann fékk sendingu inn fyrir en náði ekki stjórn á boltanum. Heilt yfir sóttu Chelsea menn í sig veðrið eftir því sem á leið en að lokum fóru bæði lið inn til búningsklefa markalaus.
Síðari hálfleikur
Fór afskaplega rólega af stað en Erik ten Hag var greinilega ekki nógu ánægður með Jadon Sancho sem var búinn að vera frekar mistækur í dag og var ekki góður gegn Tottenham. Honum var því kippt af velli eftir einungis 5 mínútur af síðari hálfleik. Chelsea menn byrjuðu hálfleikinn mun betur og komust í álitlega sókn sem byrjaði með því að Varane meiddist, ekkert varð úr færinu en frakkinn neyddist til að fara útaf og í hans stað kom Victor Lindelöf. Miðað við viðbrögð Varane virtist HM vera í hættu og það eru alls ekki góðar fréttir fyrir hvorki okkur né Frakka.
United héldu áfram að vera mjög hættulegir í skyndisóknum og næsta hættulega færi gestanna kom eftir hornspyrnu heimamanna. United brunaði í sókn, Bruno kom boltanum á Antony sem skipti á vinstri þar sem Fred kom á fljúgandi siglingu en hann tók skot sem fór langt framhjá.
Eftir 20 mínútur af síðari hálfleik voru heimamenn mun líklegri en leikurinn var þó ansi jafn og lítið sem skildi liðin að rétt eins og á töflunni. Engin dauðafæri litu dagsins ljós á þessum kafla en leikurinn einkenndist af baráttu, hörku og sigurvilja en varnir beggja liða voru mjög flottar í dag. Til marks um það var ekki komið skot á rammann eftir þessar 20 mínútur af síðari hálfleik.
Erik ten Hag hélt áfram að gera breytingar á liðinu. Scott McTominay og Anthony Elanga komu inn á fyrir Eriksen og Rashford. Bruno færðist þá upp á topp og Svíinn fór á vinstri kantinn. Liðið var ekki að skapa sér mikið og menn augljóslega orðnir þreyttir eftir mikla baráttu og stutta hvíld frá síðasta leik. En fyrsta skotið á rammann kom eftir að Bruno vann boltann sem fremsti maður og eftir stutt spil fékk hann boltann aftur og lét vaða á vinstra hornið en Kepa sá við honum og varði í horn.
Graham Potter vildi ekki vera eftirbátur ten Hag og gerði 3 skiptingar um þetta leyti, Pulisic, Chukwuameka og Broja komu inn fyrir Aubameyang, Sterling og Loftus-Cheek. Þessar breytingar ásamt breytingum Erik ten Hag hleyptu nýju lífi í leikinn og baráttan síðustu mínúturnar var einkar skemmtileg. Fljótlega fengu heimamenn hornspyrnu en McTominay lét greinilega Armando Broja fífla sig því Albaninn ýtti í McTominay margoft sem skilaði sér í því að McTominay tók hann í skoska bóndabeygju í horninu og uppskáru heimamenn vítaspyrnu.
Jorginho steig á punktinn og þrátt fyrir nokkur vel valin orð í eyra David de Gea frá Bruno Fernandes kom hann engum vörnum við þegar Ítalinn setti boltann í hitt hornið og breytti stöðunni í 1-0 fyrir Chelsea þegar 5 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Margir hafa eflaust haldið að þetta yrði það sem myndi skera úr um lokaniðurstöðuna enda United ekki búnir að gera sig beint líklega til að skora í síðari hálfleik.
United svaraði markinu með því að bæta verulega í sóknarþunga sinn en þrátt fyrir orrahríð að marki heimamanna virtust allar leiðir lokaðar og vörnin stóð þétt. United virtust þó frekar gefa í en slaka á þegar þeir sáu stjórann sinn á hliðarlínunni benda þeim á að það væru sex mínútur í uppbótartíma og því nægur tími til að breyta stöðunni og krafsa í a.m.k stig á erfiðum útivelli.
Jorginho straujaði niður Elanga þegar sá stutti virtist ætla að stinga af á vinstri kantinum og uppskar aukaspyrnu. Tveimur mínútum síðar var United nánast búið að vera í samfelldri sókn þegar Luke Shaw tók við boltanum á vinstri helming vallarins og þrumaði boltanum inn í teig heimamanna þar sem tveir turnar United, Casimiro og McTominay risu manna hæst og tókst þeim brasilíska að skalla tuðruna í átt að markinu.
Kepa Arrizabalaga, sem hefur verið einn besti leikmaður Chelsea frá því Potter tók við keflinu af Tuchel, tók á flug og kastaði sér í átt að hægri stönginni, slengdi út höndinni eins langt og búkurinn leyfði og tókst að setja þrjá fingur á boltann. Nógu mikið til að breyta stefnu boltans en ekki nema svo að hann skall í stönginni, skoppaði á marklínuna og áður en boltinn lenti aftur greip Kepa boltann en glöggir áhorfendur hafa séð að litlu mátti muna hvort boltinn teldist vera inni eða ekki. Öll augu á Stamford Bridge beindust þá að einum manni, manninum með flautuna sem leit á úr sitt og flautaði. MARK! Staðan orðin 1-1 og einungis nokkrar sekúndur eftir af uppbótartímanum. Þær runnu fljótt út í sandinn og jafntefli í miklum baráttuleik sennilega sanngjarnasta niðurstaðan.
Eftir leikinn
Það er augljóst að United hefði geta sett sig í góða stöðu með því að klára færin í fyrri hálfleik, sérstaklega á þeim kafla þar sem liðið virtist eina liðið á vellinum. Það má alveg færa rök fyrir því að þessi leikur hafi verið ákveðið taktískst skákeinvígi milli Erik ten Hag og Graham Potter en þrátt fyrir að jafntelfi hafi verið niðurstaðan tel ég að Erik ten Hag hafi unnið þá baráttu. Hann stillti upp liði sem byrjaði leikinn miklu betur og gerði breytingar sem mótvægisaðgerðir við fyrri hálfleiksskiptingu hjá Potter.
Af leikmönnum verður að segjast að flestir áttu flottan dag en áfram er Sancho í vandræðum og Rashford ekki að klára færin sín. Hann var þó mun nær því núna en oft áður en auðvitað mun erfiðara að spila gegn 5 manna varnarlínu en hann þarf samt að fara finna netið oftar. Antony var upp á sitt besta og skilaði frábæru vinnuframlagi og rétt eins og Luke Shaw og Casimiro sem kórónaði flottan leik með markinu en maður leiksins að mínu mat var Diogo Dalot, sem var út um allt á vellinum og granítharður varnarlega en ekki síður hættulegur og skapandi fram á við.
Niðurstöður leiksins gera það að verkum að United er áfram í 5. sætinu og einu stigi á eftir Chelsea í 4. sæti. Tottenham leikur á morgun við Newcastle en með sigri í þeim leik færi Newcastle upp fyrir United. En á sama tíma munu leikmenn Antonio Conte reyna að svara fyrir niðurlæginguna á Old Trafford. Það má því fastlega búast við baráttuleik þar en næsta viðureign United er gegn Sheriff á fimmtudaginn kemur kl 19:00.
Helgi P says
Ef við ætlum í meistaradeildina á næsta ári þá verðum við að setja allt púður í Evrópudeildina við erum bara ekki með hópinn í berjast um 4 sætið
Þorsteinn says
Frábær leikur hjá okkar mönnum, ein klaufaleg mistök kostuðu okkur sigurinn. Virkilega ánægður að sjá aukinn vilja og ákefð hjá liðinu, spái okkur öðru sæti á þessu tímabili, svo væri geggjað að vinna Evrópudeildina líka.
Laddi says
Heilt yfir flottur leikur og úrslitin sanngjörn. McTominay með heimskuleg mistök sem hefðu getað kostað öll stigin þrjú en hversu gleðilegt að sjá United skora í „Fergie time“ eftir þunga pressu, eitthvað sem hefur sárlega vantað undanfarin ár. Tvö mjög áþekk lið að styrk og fyrirfram hefði maður alltaf þegið stig á erfiðum útivelli. Aðeins betri snerting hjá Rashford þegar Bruno sendi hann í gegn í fyrri hálfleik og United hefði mögulega getað komist yfir.
Líka skemmtilegt hvað stjórarnir höfðu mikil áhrif á gang leiksins, Potter þurfti að bregðast við hápressu United fyrsta hálftímann og gerði skiptingu sem svínvirkaði. Ten Hag brást við á móti með að styrkja miðjuna, var eiginlega eins og þessir tveir heiðursmenn væru að tefla skák og sömdu svo bara um stórmeistarajafntefli.
En mikið svakalega er gaman að hafa alvöru djúpan miðjumann í Casemiro, hann er búinn að vera frábær í undanförnum leikjum og ekki spillti fyrir að hann skuli hafa skorað þetta mikilvæga jöfnunarmark og jafnframt sitt fyrsta fyrir United, alvöru stríðsmaður þar á ferð.
Heilt yfir ágætis spilamennska hjá flestum, Sancho var hvað sístur, þó, vörnin var fín og ég vona að Varane verði ekki lengi frá en miðað við látbragðið þá virkaði þetta sem slæm meiðsli og mögulega er hann að missa af HM, því miður.