Manchester United þarf að fara Axarveg og spila í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar þrátt fyrir 0-1 sigur á Real Sociedad á Spáni í lokaumferð E-riðils í kvöld. United þurfti að vinna með tveggja marka mun til að ná toppsætinu og fara beint í 16-liða úrslitin en tókst ekki að fylgja eftir ágætri byrjun.
Sociedad hafði tapað síðustu tveimur leikjum á Spáni og var í nokkrum meiðslavandræðum. Meðal annars vantaði David Silva sem átti góðan dag á miðjunni í fyrri leik liðanna. Í heildina talið var liðið aðeins með einum meiddum leikmanni meira í hóp en United sem er meðal annars án Antony, Anthony Martial, Jadon Sancho og Rafael Varane. Viktor Lindelöf kom inn í vörnina í stað Harry Maguire, Alejandro Garnacho byrjaði frammi með Cristiano Ronaldo og loks birtist Donny van de Beek á miðjunni.
Ronaldo og Garnacho þökkuðu traustið í framlínunni með markinu á 17. mínútu. De Gea sparkaði boltanum út til hægri þar sem Bruno Fernandes skallaði hann niður fyrir Ronaldo sem stakk boltanum inn fyrir vinstra megin á Garnacho sem hljóp af sér bakvörðinn og setti boltann yfir höfuð markvarðarins.
Fram að því hafði verið lítið um færi – og þau urðu reyndar ekki mörg í leiknum nema rétt í lok fyrri hálfleiks. Ronaldo komst inn fyrir á 42. mínútu eftir mistök miðvarðar Sociedad en lyfti boltanum yfir og var hvort sem er dæmdur rangstæður.
Mínútu síðar kom langbesta færi heimamanna. David de Gea gerði vel í að verja langskot en þó aðeins fyrir fætur sóknarmanns. De Gea náði hins vegar að lyfta sér aftur upp af jörðinni og slá skotið yfir þverslána.
Casemiro var stálið á miðjunni hjá United í fyrri hálfleik, vann 8/11 návígum. Félagar hans, van de Beek og Cristian Eriksen voru samanlagt með 2/6 návígum. Hollendingurinn kom varla við boltann og Daninn hefur átt betri daga. Helst var gagn í Bruno með Casemiro á miðjunni.
Sociedad byrjaði seinni hálfleik ágætlega, ógnaði frá vinstri og fékk skallafæri á fyrstu mínútum. Eftir rúmar tíu mínútur reyndi Erik ten Hag að bregðast við stöðunni, skipti Viktor Lindelöf og van de Beek út fyrir Marcus Rashford og Scott McTominay. Um leið breytti hann í þriggja manna vörn með Diego Dalot, Lisandro Martinez og Luke Shaw, væntanlega í von um að geta yfirmannað miðjuna og fundið þar leiðir í gegnum borgarmúra Sociedad.
Skemmst er frá því að segja að það gekk ekki upp. Sociedad hélt boltanum ágætlega í sínum sóknum en gerði vel í að loka svæðum þegar United fékk boltann. Varnarmenn liðsins fengu að hafa boltann en virtust ráðvilltir um hvert þeir ættu að koma honum. Rashford fékk ekki svæði til að taka á rás en tók líka rangar ákvarðanir í þau fáu skipti sem hann náði því með að hanga of lengi á boltanum. Hinn ungi Garnacho gat ekki falið pirring sinn.
Í gegnum leikinn gerðu líka leikmenn Sociedad líka sitt til að drepa niður hraða úr leiknum. Þeir féllu í öllum návígum og báðu um aukaspyrnu. Öflugur búlgarskur dómari hafði góð tök á leiknum og spjaldaði meðal annars leikmann Sociedad fyrir að hægagang í skiptingu. Hann hafði líka rétt fyrir sér þegar hann gaf Martinez gult spjald fyrir tæklingu sem þýðir að Argentínumaðurinn missir af næsta leik.
Síðasta tilraun ten Hag var að henda Harry Maguire inn í framlínuna síðustu tíu mínúturnar. Það virkaði heldur ekki.
Skildu eftir svar