Manchester United verður fyrsti mótherji Aston Villa undir stjórn Unai Emery, sem tók við í vikunni eftir brottrekstur Steven Gerrard. Liðin mætast nú tvisvar í síðustu vikunni áður en hlé verður gert vegna heimsmeistarakeppninnar.
Fyrri leikurinn verður á Villa Park í deildinni á morgun, sá seinni í deildarbikarnum á fimmtudag á Old Trafford.
United spilaði á fimmtudag gegn Real Sociedad á Spáni og vann þar 0-1. Ekki er annað að heyra en allir þeir leikmenn sem tóku þátt í þeim leik séu heilir en þeir æfðu á Spáni morguninn eftir leik áður en flogið var heim.
Antony, Jadon Sancho og Anthony Martial urðu eftir heima í Manchester vegna meiðsla og æfðu þar einir. Ekki er ljóst hvort einhver þeirra verði með á morgun. Alejandro Garnacho stóð sig vel og gæti vel notið trausts áfram verði þremenningarnir meiddir. Þá byrjaði Marcus Rashford á bekknum.
Ljóst er hins vegar að Bruno Fernandes verður ekki með vegna leikbanns. Áhugavert verður hvernig Erik ten Hag leysir úr þeirri stöðu. Donny van de Beek glansaði ekki þann klukkutíma sem hann fékk gegn Sociedad, frekar en oftast áður með United. Eins er spurning hvaða miðvarðapar ten Hag kýs, Viktor Lindelöf og Lisandro Martinez héldu hreinu á Spáni en Harry Maguire og Martinez gerðu það sama gegn West Ham fyrir viku.
United hefur verið á ágætu skriði í deildinni sem vonandi heldur áfram. Liðið er taplaust í síðustu fimm leikjum, hefur unnið þrjá og get tvö jafntefli. Mest um vert er kannski að liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í þeim.
Villa hefur verið í meira brasi, aðeins unnið einn af síðustu fimm en tapað þremur og gert eitt jafntefli. Það endaði sem fyrr segir í brottrekstri Gerrard. Vonandi er að tilkoma nýs stjóra kveiki ekki um of í liðinu fyrir fyrsta leik.
Hvað einstaka leikmenn snertir er mesti efinn um markvörðinn Emiliano Martinez sem fór út af með heilahristing um síðustu helgi. Þá er Douglas Luiz tiltækur eftir að leikbann hans var stytt úr þremur leikjum í einn.
Skildu eftir svar