Manchester United gerði ekki góða ferð til Birmingham og tapaði verðskuldað 3-1 gegn spræku Aston Villa liði, sem að lék í fyrsta sinn undir Unai Emery. Stemningin og baráttan var öll heimamegin og því fór sem fór. Það var viðbúið að við myndum fá skelli og upplifa alvöru vaxtaverki undir Erik ten Hag á hans fyrsta tímabili og sú var raunin í dag.
Svona stillti Erik ten Hag liðinu upp:
Leikurinn
Það var hægt að sjá frá fyrstu mínútu í hvað stefndi á Villa Park. Okkar menn mættu hægir, værukærir og alls ekki tilbúnir í bardaga og heimamenn gengu á lagið. Fyrsta markið leit dagsins ljós á 7. mínútu, en þá voru leikmenn United alltof langt frá hverjum einasta boltamanni og Leon Bailey óð í gegnum miðja vörn United án þess að arfaslakur Lisandro Martinez næði að stöðva hann. Jamaíkumaðurinn setti boltann svo í fjærhornið og gaf aðdáendum Aston Villa ástæðu til þess að ærast. Stuttu síðar gerðu hvítklæddir United menn auma tilraun til þess að byggja upp sókn, en hún var brotin á bak aftur ofarlega á vallarhelmingi United. Luke Shaw straujaði þá Jacob Ramsay og fékk gult spjald að launum. Úr aukaspyrnunni skoraði Lucas Digne og staðan orðin 2-0 eftir 11 mínútur. Alveg magnað.
Tilraunir United til að komast aftur inn í leikinn voru að mestu máttlitlar, en Cristiano Ronaldo hefði átt að minnka muninn þegar hann fékk frábært skallafæri, en Emiliano Martinez varði vel í markinu. Spurning hvort að sjálfskipaðir sérfræðingar og sér í lagi þeir sem að mest láta í sér heyra til varnar Ronaldo á kostnað annarra sóknarmanna liðsins fari að lækka í trantinum á sér. Staðreynd málsins er sú að Portúgalinn hefur skorað tvívegis – gegn Everton og stórliði Sheriff. Hann hefur fengið þónokkurn fjölda færa til að bæta við þá tölu, en ekki nýtt þau. Okkar mönnum tókst að skora rétt fyrir hálfleiksflautið þegar að slappt skot Luke Shaw, sem að átti vægast sagt vondan dag, breytti verulega um stefnu eftir að hafa haft viðkomu í Ramsay og endaði í netinu. 2-1 og liðið gat farið með einhvern meðbyr út í seinni hálfleikinn. Aldeilis ekki.
Seinni hálfleikurinn var ekki 5 mínútna gamall þegar að Villa hafði endurheimt tveggja marka forystu sína. Þá hélt Martinez uppteknum hætti og í stað þess að skalla á samherja, algjörlega pressulaus og með Casemiro, Eriksen og gagnslausan Donny van de Beek rétt hjá sér, þá setti Martinez boltann beint fyrir fætur landa síns, Emiliano Buendía. Buendía setti boltann út á vinstri vænginn á Ollie Watkins sem að gat valið sér samherja inn í teig United, þar sem að gestirnir skiluðu sér gjörsamlega fáránlega til baka og pikkuðu ekki upp einn mann. Watkins valdi rétt og smellti boltanum út í teiginn á Jacob Ramsay sem að smellti boltanum frábærlega upp í skeytin fjær. 3-1 og leik lokið.
Byrleg varnarstaða.
Eftir þetta leit United liðið aldrei út fyrir að finna leið aftur inn í leikinn. Erik ten Hag gerði þrefalda skiptingu og setti þá Anthony Elanga, Anthony Martial og Tyrell Malacia inná fyrir Alejandro Garnacho, Luke Shaw og Donny van de Beek. Tveir síðastnefndu voru hryllilegir fram að skiptingu, en voru svosem ekki einir um það. Hægt og bítandi missti liðið alla trú á verkefninu og heimamenn héldu bara þægilega í boltann síðustu 7-8 mínútur leiksins og sigldu heim fullkomlega verðskulduðum 3-1 sigri og stjóratíð Unai Emery fer frábærlega af stað. Hann fær einmitt að mæta Manchester United aftur í miðri viku þegar að liðin mætast í Deildarbikarnum, þá á Old Trafford.
Stuttar pælingar eftir leik
Ætli það sem að svíði ekki sárast eftir leik eins og þennan er litleysið og það sem virtist vera skortur á baráttuanda. Það er eitt að tapa, en það er annað að tapa og vera ekki tilbúinn að deyja fyrir málstaðinn inná vellinum. Það fer að verða vel þreytt að sjá þennan hóp leikmanna komast á dálítið flug og ná í úrslit nokkra leiki í röð, en mæta svo allt í einu til leiks eins og sigurinn komi af sjálfu sér. Ekkert fæst gefins í þessari deild og það er alveg öruggt að þessi hópur þarf að leggja á sig grunnvinnuna og meira til ef að hann ætlar sér einhverja hluti í vetur. Það þýðir ekki að velja sér leiki og mæta ofboðslega peppaður gegn Arsenal eða Chelsea, en ætla svo bara að taka lið eins og Aston Villa með vinstri.
Liðið hefur líka ekki mikið í höndunum ef að varnarleikurinn er í ólagi, þar sem að það á í stökustu vandræðum með að skapa opin marktækifæri og á í enn meira basli með að nýta þau þegar þau skapast. Ten Hag hefur tekist að vinna nokkrar „ljóta“ varnarsigra og hafði liðið ekki fengið mark á sig úr opnum leik í heillangan tíma áður en kom að leiknum í dag. Lindelöf, Martinez og Shaw voru allir langt frá sínu besta og sama má segja um Christian Eriksen. Ég get ekki talað um að Donny van de Beek hafi verið langt frá sínu besta, þar sem að ég veit hreinlega ekkert hvernig hans besta lítur út. Hann virðist vera jafn gagnslaus og öskubakki á reiðhjóli og hefur nákvæmlega engin áhrif á leik liðsins. Get séð af hverju ten Hag vill ná sínum gamla lærisvein í gang, en undirritaður hefði byrjað með Fred inná.
Framhaldið
Eins og áður sagði er næsti leikur United gegn Aston Villa í Deildarbikarnum og fer sá leikur fram kl. 20:00, fimmtudaginn 10. nóvember. Það þarf engan snilling til að sjá að frammistaða á borð við þá sem við sáum í dag er ekki boðleg þá.
Egill says
Martinez og Lindelöf gáfu Villa þessi tvö mörk. VdB er svo gjörsamlega tilgangslaus leikmaður, hann hlýtur að fara í janúar. Það er eins og við séum tveim mönnum færri með hann og Ronaldo inná.
Helgi P says
Þessi hópur er ekki betri en þetta
Egill says
ETH á þetta tap skuldlaust. Lélegt byrjunarlið, engin plön sóknarlega og enn og aftur kemur hann með lélegar skiptingar.
Martinez átti síðan skelfilegan leik, hann missir boltann rosalega oft og kemur okkur oft í vandræði með lélegum sendingum. Ég veit ekki hversu oft hann tapaði boltanum á móti West Ham um daginn.
Það viru eiginlega bara tveir menn sem þurfa ekki að skammast sín eftir þennan leik og það voru Casemiro og Shaw (sem var tekinn af velli af einhverri ástæðu).
Rashford, VdB, Ronaldo, Elanga, Maguire og Linedlöf þurfa að fara frá félaginu sem fyrst. VdB hefur aldrei getað neitt og enginn veit hvað hann á að gera á vellinum, Ronaldo virðist bara vera annaðhvort búinn, eða pirraður og nennir þessu ekki. Rashford hefur ekki nennt að spila fótbolta í 3 ár og má fara, Elanga hefur aldrei getað neitt og gamla miðvarðarparið á aldrei að sjást aftur í Man Utd treyju.
Þaðmer margt jákvætt við ETH en in game management er ekkert hjá honum. Hann þarf að rífa sig og sína menn í gang strax ef hann vill lifa tímabilið af.
Daníel Smári says
Shaw var hörmulegur eins og restin af varnarlínunni. Veit ekki af hverju hann ætti að fá að ganga eitthvað sérstaklega hnarreistur af velli eftir þennan performans. Bara hryllileg frammistaða hjá liðinu og Erik ten Hag verður að taka það á kassann.