Næsti leikur United er bikarleikur gegn Everton á Old Trafford á morgun kl 20:00. Um er að ræða fyrstu viðureign United í bikarnum en liðið er líka komið í 8-liða úrslit deildarbikarsins en sú viðureign fer fram 10. janúar næstkomandi. Liðin mættust á Goodison Park fyrr á leiktíðinni en þeim leik lauk með 1-2 sigri United í leik þar sem Iwobi kom Everton yfir en eftir það yfirspilaði United heimamenn og vann að loka eins marks sigur með mörkum frá Antony og Ronaldo eftir að sá síðarnefndi kom inn á 29. mínútu vegna meiðsla hjá Martial.
Það var mjög mismunandi upplifun fyrir stuðningsmenn þessara liða að fylgjast með sínu liði í deildarleikjum helgarinnar en á meðan United rúllaði yfir Bournemouth í öðrum gír og skoruðu 3 mörk gegn engu þrátt fyrir að Erik ten Hag hvíldi nokkra af byrjunarliðsleikmönnum sínum, voru lærisveinar Lampard gjörsamlega kjöldregnir á Goodison Park þar sem Brighton mætti með blýfót á bensíngjöfinni og valtaði yfir heimamenn 4-1. Eftir frábært baráttujafntefli á Etihad vellinum í umferðinni á undan hafa eflaust einhverjir stuðningsmenn Everton átt daufa von um að það horfði til betri vegar fyrir þá, var þeim skellt rækilega niður í gröfina á eigin heimavelli.
Everton
Það er því orðið ansi heitt undir Frank Lampard enda hafa veðbanka sett stuðulinn 1/3 á að hann verði rekinn næstur af stjórunum í deildinni en fyrir leikinn voru líkurnar 9/4. Það er því mögulegt að þessi bikarleikur reynist fallexin fyrir Lampard ef það fer svo að þeir ná ekki úrslitum en yfirleitt leggja stjórnir liða meira upp úr gengi deildarinnar og því oftar sem stjórar fá sparkið fræga eftir deildarleiki.
Lampard tók við stýrinu á seglskútunni hjá Everton á lokadegi leikmannagluggans í janúar 2022 á eftir Rafa Benitez og er því búinn að vera tæpt ár við stjórnvölinn. Í sumar fékk hann til liðs við sig þá Amadou Onana, James Garner, Dwight McNeil, Neal Maupay, Idrissa Gueye, James Tarkowski, Connor Coady og Ruben Vinagre. En þrátt fyrir þennan liðsstyrk hefur honum ekki tekist að mynda liðsheild sem er samkeppnishæf í ensku Úrvalsdeildinni.
Liðið seldi sinn helsta markaskorarar, Richarlison, til Tottenham í sumar og ætlaði greinilega að reiða sig um of á Dominic Calvert-Lewin og Anthony Gordon en báðir hafa þeir verið mikið frá vegna meiðsla og hefur markaskorun verið helsta vandamál liðsins á leiktíðinni en liðið hefur einungis skorað 14 mörk í deildinni og einungis Wolves og Nottingham Forest hafa skorað færri mörk.
Varnarlega hefur liðið þó verið sterkara og fyrir síðustu umferð hafði liðið fengið á sig jafnmörg mörk og United eða 20 talsins. En varnarleikur liðsins gegn Brighton um síðustu helgi var engan veginn boðlegur enda fékk liðið á sig þrjú mörk á einungis sex mínútum. Sú viðureign skilaði þeim niður í fallsæti og því er verulegur falldraugur sem hangir yfir höfðum gestanna fyrir morgundaginn.
Lampard hefur verið að 4-3-3 oftast á þessari leiktíð og má gera ráð fyrir að hann haldi sig við það. Því spái ég liðinu:
Á meiðslalistanum hjá gestunum eru þeir James Garner, Nathan Patterson, Anthony Gordon, Michael Keane og Andros Townsend.
Manchester United
Sigurinn á Bournemouth um síðustu helgi þýðir það að United er komið í 4. sæti og er einungis stigi á eftir Manchester City (sem eru að spila þegar þetta er skrifað). Liðið hefur sigrað síðustu sex leiki og haldið hreinu í síðustu fjórum þrátt fyrir að Erik ten Hag hafi gert talsverðar breytingar á byrjunarliðinu. Þétt leikadagskrá krefst þess og ánæægjulegt að sjá liðið halda dampi þrátt fyrir að marga byrjunarliðsmenn vanti. En þrátt fyrir þetta gengi virðast margir tuðrusérfræðingar ytra telja að United muni teljast heppnir ef þeir ná í Meistaradeildarsæti í vor.
En hvað er Erik ten Hag búinn að gera á þessum fyrstu mánuðum sínum? Jú hann tók við brunarústum síðustu leiktíðar og á stuttum tíma hefur honum tekist að gera það sem mörgum forverum hans mistókst, losa sig við illgresið og hreinsa til í beðinu og fá liðið til að skapa sér ákveðinn leikstíl og á sama tíma skila árangri og það á ekki lengri tíma.
Spilamennska liðsins á síðari hluta síðustu leiktíðar var allt annað en tilhlökkunarefni fyrir stuðningsmenn liðsins en eftir nokkur hraustleg bakslög í upphafi leiktíðar núna í haust hefur Erik ten Hag lestin hrokkið í gang og breytist óðfluga í hollensku hraðlestina. Nú hefur hann stýrt liðinu í 25 leikjum og sigrað 18 af þeim sem þýðir að hann er með sigurhlutfall upp á 72% sem er umtalsvert betri árangur en hjá Klopp, Arteta og Guardiola í fyrstu 25 leikjum með sín lið.
Þegar kemur að liðsvalinu fyrir leikinn á morgun þá má nánast veðja aleigunni á að David de Gea, Luke Shaw, Marcus Rashford og Casimiro verða í byrjunarliðinu en fjórmenningarnir hafa verið stórkostlegir að undanförnu. Þá er lágvaxni heimsmeistarinn okkar kominn aftur frá Suður-Ameríku og tilbúinn í að para sig saman við hávaxna, fyrrum heimsmeistarann til að mynda eitt sterkasta og áhugaverðasta miðvarðarpar deildarinnar. Miðjan mun að öllum líkindum verða Casimiro, Eriksen og Bruno í holunni en það sem verður líklegast áhugaverðast er að sjá hverjir byrja með Rashford í fremstu víglínu.
Garnacho hefur verið að spila vel, Elanga er ekki að nýta þau tækifæri sem hann er að fá, Martial er ekki að finna formið sem hann virtist vera að ná á undirbúningstímabilinu og er sífellt að meiðast og Jadon Sancho virðist þurfa tíma til að vinna úr einhverjum málum sem eru að hrjá hann öðrum en meiðslum.
Á meiðslalistanum eru Axel Tuanzebe, Anthony Martial og Antony sem reyndar er farinn að æfa aftur. Donny van de Beek verður líklega frá í einhvern tíma líka eftir að hann varð fyrir skelfilegri tæklingu og neyddist til að fara útaf.
Það skal þó tekið fram að Frank Lampard kann að henda Manchester United út úr bikarkeppnum (bæði sem stjóri og leikmaður) en það er líka ágætt að hugsa til þess að Everton hafa ekki unnið útileik í síðustu 6 tilraunum sínum á meðan United hefur unnið síðustu 9 heimaleiki sína og hefur ekki fengið á sig mark í síðustu fjórum. Það hlýtur að teljast líklegra að United fari áfram ef tekið er mið af leikformi liðanna, gæðum leikmanna, kostinum við að vera á heimavelli og líka stjórunum sjálfum en þetta er bikarleikur og það getur allt gerst. Everton er sýnd veiði en ekki gefin og það er stórhættulegt í bikarleikjum að telja leiki auðvelda fyrirfram, sérstaklega þar sem Everton er sært dýr á veginum sem getur og þarf að bíta frá sér.
En það verður að teljast líklegt að United hafi sigur í þessum leik og því spái ég 2-0 fyrir United og Rashford með eitt og Fred með síðara markið. Heyrðuð það fyrst hér!
Leikurinn hefst 20:00 að íslenskum tíma og á flautunni verður enginn annar en Darren England.
Skildu eftir svar