Enski auðjöfurinn Jim Ratcliffe, sem undanfarin ár hefur keypt upp land í kringum laxveiðiár í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi, hefur nú lýst yfir áhuga á að eignast enska knattspyrnufélagið Manchester United.
Í nóvember varð ljóst að núverandi eigendur félagsins hefðu áhuga á að selja það. Nafn Ratcliffe var strax orðað við það og hefur svo sem verið það áður en Ratcliffe er uppalinn í Manchesterborg og yfirlýstur United-maður. Hann sýndi þó einnig áhuga á Chelsea þegar það var selt í fyrra en varð þá of seinn til.
Í gær staðfesti talsmaður Ineos, fyrirtækis Ratcliffe, að það hefði áhuga á að eignast knattspyrnufélagið með að hafa formlega samband við fjárfestingabankann sem annast söluferlið. „Við höfum formlega blandað okkur í ferlið,“ er haft eftir talsmanninum í The Times.
Með þessu öðlast Ratcliffe og fulltrúar hans aðgang að bókhaldi United. Þess er vænst að formlegt tilboðsferli hefjist í næsta mánuði þannig að félagið verði selt áður en keppnistímabilinu lýkur í maí. Talið er að núverandi eigendur, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, vilji um fimm milljarða punda eða yfir 880 milljarða íslenska fyrir félagið. Til samanburðar má nefna að áætlaðar skatttekjur íslenska ríkisins fyrir fjárlög ársins 2023 eru 896 milljarðar.
Ineos hefur látið til sín taka á íþróttasviðinu síðustu ár með stórum styrktarsamningum í hjólreiðum, rugbý og siglingum. Mest hefur farið fyrir aðkomu að Mercedes-liðinu í Formúlu 1 og eign á franska knattspyrnufélaginu Nice. Ratcliffe þyrfti ekki að selja Nice til að eignast United en liðin mættu ekki taka þátt í sömu Evrópukeppninni.
Athugun á góðgerðarfélagi
Þá var Ratcliffe einnig til umfjöllunar í gær þar sem bresk yfirvöld hafa hafið athugun á góðgerðafélagi sem hann stofnaði til að reisa lúxusskíðaskála í frönsku ölpunum, á svæði þar sem dóttir hans æfir skíði. Samkvæmt stofnskrá góðgerðafélagsins er því ætlað að gefa börnum úr fátækari fjölskyldum tækifæri til skíðaæfingar við góðar aðstæður. Með því fæst skattaafsláttur. Rannsókn blaðsins The Guardian benti hins vegar til þess að skíðaskálinn væri ekki opinn öðrum en meðlimum í sérstöku félagi sem borga þurfi formúu til að fá aðgengi að.
Blaðið hefur eftir talsmanni Ratcliffe að ásakanirnar séu alrangar og vegi að heiðri hans. Félagið geri 250 börnum úr nágrenninu kleift að æfa skíði við framúrskarandi aðstæður fyrir mun lægri greiðslu en ella. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi talsmaðurinn ekki viljað skilgreina nákvæmlega hvað væri rangt í umfjölluninni.
Jim Ratcliffe hefur á undanförnum árum oftar en einu sinni verið í efsta sætinu yfir auðugustu menn Bretlands. Hann flutti lögheimili sitt til Sviss árið 2020 til að greiða lægri skatta. Hann hefur frá árinu 2016 keypt upp jarðir við laxveiðiár á Norðausturlandi, einkum í Vopnafirði. Þar hefur hann komið á fót verkefninu Six Rivers með það að markmiði að vernda villta Norðuratlantshafslaxinn.
Skildu eftir svar